sunnudagur, apríl 27, 2008

Ísak Máni í boltanum

Ísak Máni var að keppa í gær niðri á ÍR velli á léttu æfingamóti. Valur, HK og Fjölnir mættu á svæðið og allt keyrt í gegn á rúmum tveimur tímum. Árangurinn hjá liðinu hjá Ísaki var nú ekkert rosalega merkilegur en strákurinn stóð sig vel. Var einn leik í vörninni í 4:1 tapi á móti HK en fór svo í markið í tvo leiki. Töpuðu 1:0 fyrir frekar slöppu liði Vals þar sem framherjum ÍR voru mislagðar fætur fyrir framan markið en mark Vals kom upp úr misheppnari sendingu í vörninni og sóknarmaður þeirra slapp einn inn fyrir og skoraði fram hjá Ísaki. Maður var nú með hjartað svolítið í buxunum fyrir síðasta leikinn á móti Fjölni en þeir höfðu sýnt öflug tilþrif í leikjunum á undan. Kom það líka á daginn að þeir voru sterkir en Ísak og félagar náðu að halda markinu hreinu og voru svo óheppnir að stela ekki sigrinum í blálokin.

Dómarinn í lokaleiknum, ungur strákur sem spilar með einhverjum af yngri flokknum hjá ÍR, kom til Ísaks eftir leikinn og hrósaði honum með þeim orðum að hann hefði klárlega verið maður leiksins. Frábært hvað svona einfalt hrós sem kostaði ekki krónu né túkall getur verið mikils virði því minn maður ljómaði allur á eftir og talaði mikið um þetta. Skítt með úrslitin og allt svoleiðis, þetta var hápunturinn á mótinu. Rosamontinn enda mátti hann það alveg, átti fínar „vörslur“ í leiknum.



Styttist í Eyjamótið í júní og maður finnur umræðuna í kringum það allt magnast meðal foreldra og strákanna í hópnum. Við verðum vitaskuld á Costa del Sol og ég er rosaánægður með það. Ég get bara ekki sagt að mig langi mikið til að fara til Eyja og hanga þar í einhverja daga. Ísak var strax sáttur þegar við ræddum um þetta og enn eru engir bakþankar farnir að koma fram í dagsljósið hjá honum. Þeim bræðrum er reyndar farið að hlakka rosamikið að fara til Spánar og ber ferðin oft á góma hérna heima. Veit reyndar ekki alveg hversu mikið Logi Snær er að fatta þetta en hann veit a.m.k. að við þurfum að fara í flugvél og fljúga lengi, lengi, lengi til að komast til Spánar.

föstudagur, apríl 25, 2008

7,65 af 10,0

Held að það þýði 7,5. Það þýðir allavega að karlinn var að massa þetta.

Nú er bara spuring hvað maður gerir næst?

Byrjum á að fara í sumarfrí.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Af drottningum í myndalausum pistli

Ég vældi einhverntíma hér um það að Sigga væri að slá mér við þegar mynd af henni kom á valur.is. Enn á ný sló hún mér við með að komast á hinn geysiöfluga vef fotbolti.net eins og sjá má hér. Hverju hef ég áorkað? Umfjöllun á grundarfjordur.is, og ekki einu sinni mynd...

Drottingamót ÍR var haldið í gær, í annað skipti og sumir búnir að bíða spenntir alveg síðan í fyrra. Verst að Sigga var búin að vera lasin og hafði meira að segja ekki haft það í vinnuna á fimmtudaginn og föstudaginn. Það var því lítið annað að gera en hellast yfir öll hestu húsráðin í bókinni og mér var falið að fjárfesta í engiferrót, sítrónu og sitthvað fleira. Ásamt því var góðum skammti af hinum helstu verkjalyfjum innbyrt, í rúmlega leyfilegu magni.

Veðrið var frábært og 14 lið mætt til þátttöku. Ljóst er að ÍR drottningarnar höfðu vonast eftir fleiri stigum í hús en raun varð á. Oft var samt við ramman reip að draga og t.d. voru 2 töp fyrir KR og Breiðablik með minnsta mögulega mun þar sem lið andstæðinganna innihéldu m.a. fyrrverandi landsliðskempur. Gleðin var samt í fyrirrúmi og allir skemmtu sér hið besta ásamt því að framkvæmd mótsins tókst með ágætum en það hefur ansi mikið að segja í svona dæmi.

Mér tókst nú samt að gera upp á bak á þessum degi. Það var í raun tvennt sem ég átti að sjá um á meðan mótið var, annars vegar að hafa yfirumsjón með börnunum og hins vegar að sjá um myndavélina. Börnin komu nú ósködduð eftir 3 tíma veru niðri á ÍR vellinum en það sama er hins vegar ekki hægt að segja af myndavélahlutanum. Samviskusamlega hafði ég smellt rafhlöðunum úr myndavélinni í hleðslu kvöldið fyrir mót, minn með allt á tæru. Þegar ég hins vegar var kominn niður á völl, fyrsti leikur hafinn og ég gerði mig líklegan til að taka mynd af Siggu þegar hún geystist upp kantinn þá gerðist hins vegar ekkert. Mér til mikillar hrellingar þá uppgötvaði ég að rafhlöðurnar væru enn í hleðslu í eldhúsinu heima. Ég tók þá ákvörðun að skokka út á bensínstöðina við völlinn og kaupa bara rafhlöður til að leysa málið. Keypti rafhlöður frá þekktum framleiðanda sem gáfu sig að auki út fyrir að innihalda "special power" svo ég átti nú að vera í góðum málum. Ekki var ég nú upplitsdjarfur þegar þetta myndavélin virkaði ekki með þessum nýju sérstöku kröftum. Gat reyndar skoðað þær myndir sem voru á minniskortinu en þegar ég ætlaði að taka mynd þá fór skjárinn í hass og græjan harðneitaði að gera nokkuð fyrir mig. Taka skal fram að þessi myndavél er sú sem ég fékk í staðinn fyrir þá gömlu sem bilaði á Stamford Bridge hérna um árið, af öllum stöðum, þannig að ég var alveg með það á hreinu að þessi væri að bila líka. Ekki náði ég sem sagt að smella svo mikið sem einni mynd af drottningunni á heimilinu. Þegar ég kom heim smellti ég gömlu rafhlöðunum í og græjan virkaði alveg eins og hugur manns. Mér leið eins og asna og rifjaði upp samtal mitt við konuna eftir fyrsta leikinn hjá henni:

Ég: "Mér tókst að gleyma rafhlöðunum heima í hleðslu."
Sigga: "Skutlastu þá ekki bara heim og nær í þær?"
Ég: "Nei, nei, ég stekk bara hérna út í bensínstöð og kaupi nýjar, það hlýtur að verða í lagi."

Note to self: Alltaf að hlusta á konuna og gera mér grein fyrir að hennar hugmyndir eru yfirleitt líklegri til árangurs en mínar.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Leiðinlegur pistill, aðallega hugsaður fyrir mig að blása út

Þá er maður búinn að tækla prófið. Veit ekki hvað skal segja, á planinu út á bílastæði eftir prófið grét nánast ungur maður út í bíl eftir að hafa uppgötvað að í annarri ritgerðaspurningunni var það sem hann skrifaði um „veiku kenninguna“ átti við um „sterku kenninguna“ og öfugt. Auðvitað vissi ég alveg hvort var hvað en í einhverju stundarbrjálaði þá virðist ég hafa blokkast út og víxlað þessu. Eftir að hafa barið höfðinu það fast í stýrið að ótrúlegt var að loftpúðinn blés ekki út þá reyndi ég að komast heim. Bullet with butterfly wings kom á X-inu og ég blastaði græjurnar (eins mikið og hægt er að tala um að blasta orginal græjur í VW Golf). Náði seinni hálfleiknum á Man Utd - Roma en gat lítið skemmt mér vegna sjálfsvorkunnar. Eftir að hyggja er ómögulegt að segja hvernig þetta helvíti fór. Vonlaust að segja nokkuð um krossana en mér fannst þó að ég væri eitthvað að tengja þar og stuttu skilgreiningar gengu nokkuð vel. Ritgerðirnar voru s.s. annars vegar víxl dauðans og svo tómt blaður um allt og ekkert. Arrrgggg...

Í Menntaskólanum að Laugarvatni var takmarið 4 til að ná prófinu, í raun 3,5. Það var takmarkið þá og gekk ekki alltaf upp, spáið í því að geta ekki tæklað 35% af prófinu! En reyndar var maður staddur í einhverri steypu sem maður hafði hvorki áhuga né getu til árangri. Ég meina eðlisfræði og stærðfræði, hvern var maður að blekkja? Í fjölbraut upp á Skaga var takmarkið 5. Gekk samt betur og allt saman á endanum. Sömu kvaðir á HÍ og sama sagan, gekk allt upp á endanum. Í raun eru enn sömu kröfur í HR en málið var að nú var ég búinn að hækka kröfurnar persónulega á mig. Takmarkið var sett á 7-una og ekkert rugl. Auðvitað spilaði það líka inn í að þótt það væri nóg að fá 5 til að standast áfangann þá er nauðsynlegt að fá 7 ef ég ætla að fá þennan áfanga metin úr „opnum háskóla“ yfir í dagskóla eða HMV (Háskólanám með vinnu). Ekki það að ég ætli eitthvað endilega að nota mér það en það er bara gott að eiga möguleikann inni. 7 er líka bara flott einkunn og ekkert múður með það.

Hvað gæti gerst?
  • Ég næði ekki prófinu og þá er það bara greinilegt, ég hef ekkert í þetta að gera. Því það var ekki eins og ég hafi ekki lesið bókina yfir kennslutímabilið og las svo námsefnið í strimla þarna vikuna fyrir próf.
  • Ég næði prófinu en fengi ekki 7 í áfanganum og gæti þá í alvöru fengið froðufellandi tremmakast yfir víxlverkandi ritgerðaspurningunni minni.
  • Ég næði að klóra mig í prófinu í 6 og með góðri einkunn í síðara hópverkefninu (sem ég er ekki búinn að fá einkunn fyrir) gæti það, mögulega, dregið mig upp í 7.
Ef þetta fer á besta veg þá er ég farinn að hljóma eins og fólkið sem ég tók út fyrir fyrr á námsárunum. Það voru þeir (yfirleitt stelpur) sem komu nánast grátandi út úr prófum vegna þess hve það gekk illa en fengu svo aldrei undir 8.

Búinn að losa út, nú krossa ég bara fingur og vonast eftir því besta.

föstudagur, apríl 04, 2008

Skólaævintýrinu að ljúka... í bili a.m.k.

Þessi vika er búin að vera algjört rugl. Var að skila seinna verkefni í skólanum núna síðasta miðvikudag og svo er prófið núna næsta miðvikudag. Það var svolítið stress með þetta verkefni, maður var að skríða heim í versta falli kl 02:00, og vinnudagurinn daginn eftir var ekki nógu spennandi. Einhvern tíma var ég þó kominn heim um miðnætti þannig að það var í lagi... En ég held að það hafi allt gengið upp með þetta verkefni. Mögnuð þessi hópavinna.

Þessi helgi fer s.s. í lestur og almennan (andlegan) undirbúning fyrir þetta blessaða próf. Lenti í ansi athyglisverðum pakka núna í síðasta tímanum fyrir prófið. Kennarinn var að fara yfir uppbyggingu prófsins og vildi meina að blöðin sem hann hélt á væru sjálft prófið sem hann ætlar að leggja fyrir okkur. Þetta skapaði sérstaka stemmingu í stofunni, ég segi ekki múgæsing en svona sérstaka stemmingu. Þetta er kannski þekktur húmor meðal kennara í HR, veit ekki. Ég sá samt húmorinn í þessu.

Veit ekkert hvað ég geri í haust, hvort maður ætlar eitthvað að stunda þetta áfram eða láta gott heita. Ég sé nú samt að það er ekki sjéns að ég ráði við meira en einn kúrs með fullri vinnu, ekki nema að afneita fjölskyldunni og þjást af síþreytu alla daga. Það væri kannski hægt að minnka við sig vinnu? Er það eitthvað sem Íslendingar gera?

Jæja, prófið á miðvikudaginn og ef ég ætla að nota fá þennan áfanga metinn inn í almenna pakkann í HR þá er takmarkið bara eitt:

A.m.k. 7 í einkunn. Shit.

Þangað til...