sunnudagur, desember 30, 2007

Ísak Máni á snjóbretti

Snjóbrettið var í gær, þ.e. þeir sem treystu bakinu sínu í það.

miðvikudagur, desember 26, 2007

Alþjóðlega Breiðholt


Tókum góðan göngurúnt í Breiðholtinu í dag. Gott fyrir bakið. Þegar ofar dró þá hittum við meira að segja fólk frá Namibíu sem var að dást að hvíta stöffinu sem lá yfir öllu. Minnsti afríkubúinn var meira að segja alveg til í að prófa þetta undratæki sem við höfðum meðferðis.

þriðjudagur, desember 25, 2007

Jólin

Jólin gengin í garð og tærnar uppi í lofti. Reyndar hefur sú athöfn, þ.e. að hafa tærnar uppi í lofti ekki verið eins þægileg og oft áður. Ástæða þess er sú að undirritaður og fjölskylda skelltu sér í sund núna um helgina en vegna þess hve langt er liðið frá síðustu sundferð og almennt hreyfingarleysi hefur háð kappann þá fóru einhverjar hopp- og skopphreyfingarnar í sundinu illa í karlinn og bakið búið að vera helv... slæmt síðan.

Hvað um það, aðfangadagur gekk bara vel fyrir sig, drengirnir voru heilt yfir alveg að lifa biðina af þótt spenna hafi verið í loftinu. Hamborgahryggurinn var alveg að gera sig sem fyrr og sú framkvæmd heppnaðist sem önnur á þessum degi en vitaskuld var mesta stemmingin í kringum pakkana. Út úr því komu allir sáttir, talsvert um fatapakka en dótið leyndist líka inn á milli. Aðfangadagskvöld fór t.a.m. í að setja saman hið ýmsa playmódót.

Drengirnir á aðfangadag


Logi Snær í beinagrindapeysunni


Ísak Máni með Tinna


Á leiðinni í Mosó í talsvert af nýjum fötum


Smelltum okkur upp í Mosó í hádeginu í dag, í hangikjöt og tilheyrandi. Það fór að kyngja niður þessum líka alvöru jólasnjó og á tímabili fór maður að hafa smá áhyggjur að verða veðurtepptur en öll komust við nú heim. Fínt að komast heim í íþróttabuxur og bol. Við Ísak Máni tókum okkur til og kíktum á einn af þeim hlutum sem hafði leynst í einum pakkanum í gær, Play Sport leikinn fyrir Playstation tölvuna. Þetta er hreyfileikur með tilheyrandi hoppi og skoppi. Sem fór ekkert alltof vel í alla bakveika. Það var allavega hægt að nota það sem afsökun fyrir tapinu.

sunnudagur, desember 23, 2007

Casualties of Christmas

Jólatréð komst upp í gær. Afföllin voru þrjár jólakúlur og ein nammiskál.

laugardagur, desember 22, 2007

Undirbúningur jólanna

Svei mér ef það hefur bara ekki verið allt vitlaust að gera þessa rúmlega síðustu viku.

Síðasta helgi fór eitthvað í matarboð, á föstudeginum hjá vinahjónum okkar hérna í hverfinu og svo var farið í skötu upp í Mosó á laugardeginum. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá hélt ég mér við fiskréttinn, þ.e. það sem var boðið upp á fyrir þá sem þykjast ekki geta borðað skötu.

Ísak Máni keppti svo í fótbolta á jólamóti í Egilshöllinni á sunnudeginum. Þeim gekk svona lala, 2 jafntefli og 2 töp. Minns var í markinu í tveimur leikjum en færði sig svo í vörnina og stóð sig vel. Sem fyrr, hlutlaust mat.

Síðan hefur þetta verið svona að gera og græja fyrir jólin. Maður reynir nú að halda ró sinni en það þarf vitaskuld að kaupa einn eða tvo pakka. Svo voru það jólakortin og vitaskuld þurfti maður að redda einhverju í jólamatinn. Sem sagt, allt svona hefðbundið.

Villi og co mætt á svæðið og farið var í útskriftarveislu til þeirra í gær, Dagmar var að setja upp hvíta kollinn. Fjöldi manns samankomin í Æsufellinum, fínasta partý þótt yngstu drengirnir voru eitthvað ekki alveg með skilgreininguna á partýi á hreinu. Eða bara það að þeim fannst þetta ekkert partý. Ekki gott að segja.

Annars held ég að þetta sé allt að skríða saman og mín vegna mega jólin alveg koma.

fimmtudagur, desember 13, 2007

þriðjudagur, desember 11, 2007

Taka 2

Ísak Máni var mjög sáttur með súpuna. Við hin vorum ekkert að missa okkur. Líklega erum við bara ekkert rosalegt humarsúpufólk.

laugardagur, desember 08, 2007

Tilraunaeldhúsið

Eftir að Ísak Máni fékk humarsúpu hjá vini sínum og varð svona rosalega hrifinn hefur reglulega komið upp sú umræða um að foreldarar hans þyrftu að elda svona súpu við tækifæri. Tala nú ekki um eftir að hann fékk uppskriftina á upprunastaðnum.

Tækifærið kom í dag. Sigga og drengurinn fóru í búð og versluðu það sem til þurfti fyrir tilefnið, m.a. nokkur grömm af humri á 15.9oo kr eða eitthvað álíka. Eitthvað fór eldamennskan ekki eins og til stóð og þrátt fyrir ítrekaðar lífgunartilraunir, m.a. með áfengum drykkjum, var innihald pottsins úrskurðar vanhæft til inntöku og endaði í vaskinum. Sem betur fór var ljóst hvert stefndi áður en hið dýrmæta fiskmeti var notað.

Til að það fari nú ekki til spillis er áætlað að gera tilraun nr. 2 á næstu dögum. Annars var kvöldmat kvöldsins reddað með einhverju léttmeti en til að koma aðeins á móts við svekkelsi humarsúpuleysisins þá var Ben & Jerry ís í eftirmat. Hann klikkar aldrei ef létta á lund heimilisfólksins hérna.

föstudagur, nóvember 30, 2007

Rúmið góða

Við hjónaleysin erum vitaskuld nettklikkuð, staðreynd sem erfitt er að mótmæla og engin áætlun um að gera slíkt hér.

Mjög snemma keyptum við rúm fyrir Ísak Mána, þ.e. eftir að hann hætti að vera í rimlarúminu. Af einhverjum ástæðum keyptum við rúm í fullri stærð að því að það átti að vera svo hagkvæmt, skella sér beint í eitthvað sem endist. Mín niðurstaða af fenginni reynslu í kjölfar þeirrar ákvörðunar: Tóm tjara.

Við erum að tala um 90x200 skrímsli fyrir smágrísling. Ef menn eru kunnugir hefðbundinni herbergjaútfærslu í Bakkahverfinu í Breiðholti þá vita menn að herbergin eru ekkert voðalega stór. Að auki fannst okkur sniðugt að kaupa svona rúm sem er á einhverri upphækkun, t.a.m. gat Ísak Máni (þegar við keyptum rúmið) staðið undir því og þar töldum við okkur vera að fá auka pláss sem annars væri ekki til staðar með hefðbundnu rúmi. Önnur tóm tjara. Við fullorðna fólkið þurftum alltaf að vera bogra undir þessu gímaldi til að tína saman dót, ryksuga o.s.frv. Heildarniðurstaðan að helv... gripurinn tók allt herbergið og við vorum aldrei almennilega sátt.

Síðan þá hefur þessi gripur þvælst á milli herbergja með allskonar heimagerðum breytingum. Þetta er orðið svo mikið að ég man ekki þetta ekki allt 100% en hérna er þetta helsta, svona til að gefa innsýn inn í okkar brenglaða hugarheim:

1. Kaupum gripinn og hann fer inn í herbergi B.

2. Færum gripinn inn í herbergi A, sem er breiðara og látum taka lóðrétt úr undirstöðunum (ég veit, hljómar illa) til að rúmið passi upp við gluggavegginn.

3. Sigga fær pabba sinn til að smíða upphækkun á undirstöðurnar (ég veit, hljómar ekki betur) svo hægt sé að hafa skrifborð undir rúminu.

4. Logi Snær kominn til sögunnar og rúmið fært á sinn upprunarlega stað í herbergi B. Undirstöðuhækkunirnar rifnar undan aftur en þær notaðar sem endargaflar í nýtt heimasmíðað rúm handa Ísaki Mána en Logi Snær fær gripinn sem er hér í aðalhlutverki. Báðir sofa í herbergi B. Fótagaflinn á nýja rúminu, sem var haft 70 cm breitt, fer undir meðalháa gamla gripinn og ekkert meira pláss í herberginu. Foreldrarnir pirraðir á ástandinu.

5. Báðar græjurnar tættar í sundur og styttar þannig að þær passi við gluggavegginn á þessu herbergi B og jafnframt er gamla gímaldið mjókkað í 70 cm. Heimatilbúnu undirstöðuhækkanirnar, sem núna eru rúmið hans Ísaks Mána eru einfaldlega skellt undir gripinn og útkoman: Koja sem passar í endann á herberginu og allt í einu er herbergið sem maður þurfti nánast að bakka út úr orðið risastórt. Foreldrarnir sáttir.

Þetta hefur verið í gegnum tíðina rugl mikil vinna sem hefur aðallega lent á smiðnum á heimilinu. Ægilegt púsluspil til að láta allt passa saman. Núna höfum við heitið því að það verður ekki losuð ein skrúfa á þessum sambræðingi nema þegar hann fer á haugana. Mér finnst það skiljanlegt, sérstaklega eftir lestur á þessum punktum hérna að ofan, að menn muni taka þeirri fullyrðingu með semingi.

Nú þurfum við bara að vona að það slitni ekki upp úr bræðrakærleiknum í nánustu framtíð og þeir fáist áfram til að sofa í sama herberginu.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Gestir.is

Það hefur verið mikið um gesti hérna síðustu daga og í dag varð engin breyting á. Það var nú samt frekar óvenjulegur gestur ef svo má segja. Logi Snær á góðan félaga í leikskólanum, hann Óðinn, og um daginn fékk Logi Snær að fara heim með honum eftir leikskólann. Forsaga var nefnilega sú að Óðinn á eldri systur sem er reyndar í bekk með Ísaki Mána og hún var alltaf að fá einhverja vini heim. Óðni fannst þetta hrópandi óréttlæti og fór að nefna það að hann þyrfti nú að fara að fá einhverja vini sína í heimsókn. Logi Snær fór s.s. til hans um daginn og nú var kominn tími á að Óðinn fengi að koma til Loga.


Þetta gekk nú svona stórslysalaust fyrir sig, voru svolítið eins og villuráfandi sauðir á milli þess sem að þeir gleymdu sér í einhverjum leikjum. En ekki hægt að ætlast til að menni kunni þetta alveg upp á 10, vinaheimsóknir hljóta að krefjast svolitlar reynslu eins og annað.

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Fleiri gestir

Jóhanna og Aron Kári eru stödd í Reykjavík, það fer ekki fram hjá neinum. Hún bauð sér í kvöldmat hérna í Eyjabakkanum og hafði kjötsúpu og kók úr krafsinu. Aron Kári var hinsvegar svona la-la sáttur, fór svolítið eftir því hversu langt var í mömmu.

Hérna erum við í lagiHérna er fulllangt í múttu

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Gestkvæmt

Við hverju býst maður þegar gesti ber að garði? Mögulega skemmtilegum samtölum og slúðursögum af sameiginlegum vinum og kunningjum. Ekki kannski alveg að gesturinn taki upp tölvu úr töskunni sinni, breiði makindalega úr sér í sófanum þínum og fari að spila Football Manager af miklum móð. Og að það eina sem heyrist frá þessum gesti er að sófinn þinn sé ekki nógu þægilegur og spurningar um hvar sé best að tengja tölvuna í rafmagn án þess að þurfa mikið að hreyfa sig.

Kannski er þetta bara ég.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Litlu atriðin sem lífga upp á lífið

Stundum eru lítil atriði svo kostuleg að þau bjarga alveg deginum hjá manni. Minnir endilega að ég hafi einhvern tímann séð auglýsingu á einhverri erlendri rás þar sem þessar aðstæður voru leiknar. Örugglega bjórauglýsing.

Vegna vinnu minnar var ég staddur í matvörubúð hér í bæ á dögunum og var að tala við unga konu sem vinnur í búðinni, sem ég hef oft talað við og ekkert fréttnæmt við það í sjálfu sér. Þegar samtali okkar er lokið er ég að rölta einn hring í búðinni og er að virða eitthvað fyrir mér þegar ég heyri að einhver er að labba fyrir aftan mig og ég heyri rödd konunnar sem ég var að tala við áðan segja: "Fyrirgefðu, en ertu eitthvað upptekinn í kvöld?"

Ég sný mér við, hálffurðulegur, en sé þá mér til mikillar kímni að konan er í símanum. Hún sér greinilega að mér hafði orðið hálfhverft við og verður hálfvandræðaleg. Hún heldur samt ótrauð áfram framhjá mér og heldur áfram að tala.

Ég gat ekki annað en brosað. Þessi litlu atriði...

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Næstum því

Ég horfði á dráttinn fyrir undankeppni HM 2010 í sjónvarpinu í dag. Ísak Máni og tveir félagar hans voru hérna heima líka og það var talsverð stemming í stofunni. Það var rosaleg spenna þegar ljóst var að í riðli Íslands yrðu annan hvort Ítalir eða Hollendingar. 50% líkur að fá heimsmeistarana en því miður varð það ekki raunin og því fáum við drengina í appelsínugulu búningunum. Alls ekki slæmur kostur og í heild rosa flottur riðill: Holland, Skotland, Noregur, Makedónía og Ísland. Mér sýnist á öllu að maður styrki KSÍ eitthvað fjárhagslega í þessari undankeppni.

Annars væri nú flott að fara á lokakeppnina sem verður haldin í Suður-Afríku, djö... upplifun væri það. Reyndar talsvert ferðalag og kostnaður eftir því en maður lifir nú bara einu sinni. Spurning hvort sé eitthvað hægt að nota sín diplómatísku sambönd þarna niður frá á næsta bæ, þ.e. reyndar ef sú sambönd verða ekki búin að fá sig flutt í einhvern annan heimshornakrika þegar keppnin verður.

2 miða á úrslitaleikinn takk...

laugardagur, nóvember 24, 2007

Með Georgi á jólahlaðborði

Við hjónaleysin skelltum okkur á Broadway í gær, jólahlaðborð á vegum vinnunnar. Einhver George Michael sýning í gangi. Ég var alltaf meira í Duran Duran pakkanum hérna í den en auðvitað var maður með George á hreinu.

Æi, samt var þetta ekkert yfirgengilega æðislegt. Af tvímenningunum fannst mér Friðrik Ómar koma mikið betur út en hinn færeyski Jógvan. Maturinn var svona allt í lagi, hálfgerður mötuneytisfílingur í þessu en maður kvartar ekkert alvarlega.

Eftir showið fórum niður í bæ og enduðum á Vitabarnum þangað til við fórum heim um klukkan 6 um morguninn. Eða ekki.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Jólaundirbúningurinn

Hérna er jólaundirbúningurinn hafinn með öllu sínu piparkökuáti. Reyndar eru við löngu byrjuð að éta piparkökur en eftir þrýsting frá börnunum var farið í að skreyta þær aðeins. Aðkeyptar piparkökur, menn eru ekki farnir að baka hérna.
Reyndar er undirbúningurinn ekki kominn það langt að við séum farin að skreyta nokkuð, menn eru ekki alveg búnir að missa það þótt við séum búin að sletta smá drullukremi á nokkrar piparkökur. Við erum ekki einu sinni búin að fara í nýju dótabúðirnar...

McVæl

Af hverju hugsa menn ekki áður en þeir opna munninn? Vill bara benda Hr. McLeish á að hinn línuvörðurinn flaggaði fyrst á rangstöðu þegar Ítalir áttu að með réttu að komast í 0:2 og hélt svo flagginu niðri þegar Skotarnir jöfnuðu metin með rangstöðumarki.

En það er vitaskuld ekki talað um það í Skotlandi, starfskraftar hans eru velnothæfir á skoskri grund í framtíðinni.

laugardagur, nóvember 10, 2007

Löngu kominn frá Köben

Þá er maður mættur heim á klakann eftir skreppitúr til Köben. Fórum út á fimmtudeginum fyrir rúmri viku og komum heim núna á þriðjudaginn. Fínasta ferð alveg, gott að komast aðeins af skerinu og sjá eitthvað annað, stíga varla inn í bíl og chilla bara. Eitthvað var verslað, svona aðeins enda það víst nauðsynlegt ef þú ert íslendingur í Köben. Höfuðstöðvarnar voru heima hjá Ingu og Gunna en svo var líka skroppið til Erlu og co og tekinn smá rúntur í Óðinsvé.

Lítið meira um þetta að segja, tók að mér að flytja snjóbrettið hennar Ingu sem var hérna niðri í geymslunni hjá okkur út til Köben. Var þokkalega furðulegur með snjóbretti á flugvellinum í Danmörku, ekki mikið af svoleiðis græjum sjáanlegar.

sunnudagur, október 28, 2007

Hoppað, skoppað og hverfið verður ekki hið sama

Enn ein pabbahelgin að baki. Konan fór í sveitasæluna en við strákarnir héngum bara heima í menguninni. Aldrei þessu vant þá var ekkert íþróttamót þessa helgina hjá Ísaki Mána en þó var talsverð dagskrá samt.

Laugardagurinn fór að stórum hluta í að hjálpa Tomma að drösla búslóðinni hans úr Blöndubakkanum út í flutningabíl sem hefur rúntinn Reykjavík-Grundarfjörður. Kappinn að halda vestur á bóginn og það er hálffúlt að horfa á eftir karlinum úr hverfinu en maður skilur hann nú svo sem á vissan hátt. Sveitin heillar og sömuleiðis einbýlishús með bílskúr og garði...

Í dag fórum við með bekknum hans Ísaks í „óvissuferð“. Stefnan var sett á íþróttahús í Hafnarfirði, hjá íþróttafélaginu Björk nánar tiltekið. Þar hoppuðu krakkarnir og skoppuðu í einhverju fimleikaæfingasal í 90 mínútur. Eitthvað var þarna af systkinum bekkjarfélaganna sem fengu að fljóta með og vitaskuld var Logi Snær á svæðinu. Hann fór nú frekar rólega af stað en þegar sviðsskrekkurinn var farinn var hann alveg að fíla þetta. Ísaki Mána fannst þetta líka alveg frábært og ég verð að samþykkja það, þetta var bara nokkuð sniðugt en ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að leigja svona sal. Eftir hoppið og skoppið var haldið á Pizza Hut og nokkrum sneiðum sporðrennt. Allir sáttir.föstudagur, október 26, 2007

Gullkorn dagsins

Logi Snær: „Af hverju getur Tommi frændi ekki spilað í marki?“ (af einhverjum ástæðum hefur drengurinn enga trú á frænda sínum sem knattspyrnumarkverði)

Pabbi hans: „Ég veit það ekki, kannski er hann ekki búinn að æfa sig nóg.“

Logi Snær: „Er hann ekki búinn að æfa sig að fara í kollhnís og svoleiðis eins og ég?“

Pabbi hans: „Nei, ætli það.“

3ja ára, bráðum 4ra... frábær aldur.

sunnudagur, október 21, 2007

Upp um flokk á pizzalausu Akranesi

Alltaf líður tíminn. Ísak Máni tók þátt í sínu fyrsta 6. flokksmóti í fótbolta í dag. Strákarnir sem taka þátt í svona mótum verða alltaf stærri, sterkari, hlaupa hraðar og sparka fastar með hverju árinu, staðreynd sem verður augljósari þegar minns fer upp upp um flokk og í staðinn fyrir að vera 7 ára spilandi við 7 ára stráka er hann 8 ára spilandi við 8 og 9 ára stráka.

Fórum upp á Skaga, spilað í knattspyrnuhöllinni þar en í dag var einmitt eitt ár síðan sú höll var vígð. Engin kynding í kofanum og Sigga ákvað því að vera heima með Loga Snær. Við Ísak Máni tókum því daginn snemma enda mæting í ÍR heimilið 8:50. Kappinn í C-liði og fjórir leikir í boði. Sami kappi stóð í marki í þrjá leiki og batt saman vörnina í einum. Úrslitin voru nú ekki alveg upp á marga fiska, eitt jafntefli og þrjú töp en Ísak Máni stóð sig vel og var heilt yfir sáttur með sig, meira bið ég ekki um. Það hefur kannski hjálpað að A- og B-liðin töpuðu öllum sínum leikjum og A-liðið skoraði ekki eitt einasta mark svo hann fór heim sem meðlimur úr „sigursælasta“ ÍR liði dagsins.

Verð aðeins að enda þetta með að drulla yfir skagamennina (ekki illa meint samt). Einn af tilgangi með svona móti er að safna peningum fyrir flokkinn sem heldur svona mót. Þarna voru þeir með fullan kofa af foreldrum sem voru með veski og svöngum og þyrstum strákum þeirra. Úrvalið í sjoppunni var ömurlegt: Kaffi, svali, grillaðar samlokur og prins póló. Úrvalið var samt ekki það sorglega heldur sú staðreynd að í þessari sjoppubúllu var hvorki til posi fyrir kort eða nein skiptimynt sem heitið gat. Sorglegt. Ekki nóg með það heldur gáfumst við Ísak Máni upp á að bíða eftir „verðlaununum“ sem við vorum búnir að borga fyrir með mótsgjaldinu, pizzunni, þegar við vorum búnir að bíða í góðar 20 mínútur. Svitaperlurnar á enninu á gæjanum sem átti að redda þessu voru farnar að fjölga sér óeðlilega mikið þannig að við létum okkur hverfa, eins og ansi margir þarna.

Subway á Akranesi grætur þó varla klúður Dominos.

laugardagur, október 20, 2007

Konur konum verstar?

Varla annað hægt en að kommenta aðeins á val á bestu knattspyrnukonu ársins á lokahófi KSÍ sem var í gærkvöldi. Það eru leikmenn sem spila í deildinni sem eru með atkvæðisrétt í þessari kosningu.

Með fullri virðingu fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur hjá KR sem var valin best og átti flott tímabil þá get ég bara ekki skilið hvernig hægt var að ganga fram hjá Margréti Láru í þessu kjöri. Hún sló markametið sitt aftur, skoraði 38 mörk í 16 leikjum og er hreinlega í öðrum gæðaflokki en aðrir leikmenn í þessari deild. Hólmfríður var t.a.m. ekki einu sinni valin best á lokahófi hjá KR!

Það sem vekur mestu spurningarnar með þetta allt er sú umræða sem kom m.a. fram í þættinum Mín skoðun á X-inu þar sem heyrst hafði að skilaboð gengu leikmanna á milli um að kjósa ekki Margréti Láru, umræða sem þjálfari Vals hafði heyrt af. Það var þó að heyra að menn trúðu hreinlega ekki að þetta væri eitthvað sem yrði að veruleika.

En þetta er varð að veruleika. Hvað er málið? Öfund? Spurning hvernig er að eiga svona verðlaun uppi í hillu þar sem þessi skuggi hvílir yfir.

Það er allavega þvílík skítalykt af þessu máli, skítalykt sem meirihluti leikmanna í þessari deild náðu að framkalla.

föstudagur, október 19, 2007

Eiginlega ekkert

Voðalegt andleysi hérna á bænum, engar stórar fréttir... a.m.k. ekki enn um sinn.

Ísak Máni er að fara að keppa á sínu fyrsta 6. flokksmóti í fótbolta núna á sunnudaginn, upp á Akranesi. Ætli það endi ekki að ég fari einn með honum uppeftir en Logi Snær er orðinn eitthvað þreyttur á þessu íþróttabrölti öllu og svo er knattspyrnuhöllin þarna uppfrá óupphituð og drengurinn með hálfgerða kvefdrullu á vægu stigi og lítið spennandi að hanga með hann þarna. Ekki fer maður í kaffi í Stillholtið lengur...

Annars er maður farinn að bíða eftir að komast í smá frí, stefnan sett á Kaupmannahöfn núna um mánaðrmótin með konunni og dvelja þar í nokkra daga. Strauja visakortið aðeins, redda drengjunum veglegum jólagjöfum og kannski eitthvað smotterí handa sjálfum mér.

Ekki meira í bili sökum andleysis...

laugardagur, október 13, 2007

Teppi

Eru teppi að koma aftur sterk inn? Man þegar maður var lítill og allir voru með teppi í stofunni og jafnvel inn í svefnherbergjunum. Kom síðan ekki upp einhver æsingur um að teppi væru nánast handverk djöfulsins, þau mögnuðu upp flest öll ofnæmi og í þeim leyndust heilu lífríkin af skaðlegum örverum sem menn væru að anda að sér. Út með helv... teppið og allir fengu sér parket eða flísar.

Hluti af mér saknar teppisins. Ég myndi sennilega seint fá mér teppi inn í svefnherbergið en það var viss stemming með þetta í stofunni. Mjúkt að labba á þessu og hefðbundin þrif voru einfaldlega bara að ryksuga, ekkert skúringarvesen. Man reyndar að maður fékk nett brunasár í æsku þegar hitinn í innanhúsboltanum varð svo mikill að iðkendurnir renndu sér í skriðtæklingarnar á teppinu.

Reyndar yrðu afleiðingar „slysa“ í stofunni meiri og verri ef um teppi væri að ræða. Bara núna fyrir helgi þurfi frumburðurinn að kasta upp og komst hvorki lönd né strönd og morgunmatur þann dagsins endaði á stofugólfinu, þ.e. parketinu. Skúringarmoppan dregin fram, svalahurðin opnuð í smátíma og málið dautt. Sami atburður með teppi í sögunni hefði líklega ekki fengið eins snöggan endi.

Nei, líklega væri ó-það-er-svo-mjúkt-að labba-á-þessu tilfinningin með tilheyrandi unaðshrolli líklega of dýru verði keyptur. Kannski verður teppi í betri stofunni hjá mér þegar ég kaupi mér stærra hús, ég er hvort sem er ekkert mikið að sulla í rauðvíni.

laugardagur, október 06, 2007

Laugardagur í Frostaskjóli

Ísak Máni tók þá ákvörðun núna með haustinu að leggja handboltaskónum á hilluna en prófa þess í stað körfuboltann. Byrjaði í september og er ákveðinn í að halda áfram í vetur. Besta mál í sjálfu sér, hann verður jú sjálfur að finna út sín áhugasvið í þessum efnum og ég er bara ánægður meðan hann hefur áhuga á að vera í einhverju sporti þótt mér persónulega finnist skemmtilegast að tuðrusparkinu. Drengurinn verður því í fót- og körfubolta í vetur. Mér finnst fínt að sjá hann í körfunni, mikið til vegna þess að ÍR er aðeins að spýta í lófana með unglingastarfið í körfunni og réðu til sín serbneskan þjálfara, Bojan Desnica, til að sjá um þau mál. Hann er búinn að þjálfa hér á landi í nokkur ár, m.a. hjá KR og Breiðablik og það sem ég hef séð af honum (sem er reyndar ekki mjög mikið) líst mér mjög vel á, alvöru þjálfari þar á ferð.Það var sem sagt körfuboltamót hjá Ísak í dag, hið fyrsta á ferlinum og er ekki alveg eins gott að hefja leik í KR-heimilinu. Svolítið skrítið því þessir strákar æfa ekki allir saman nema einu sinni í viku, annars er Bojan með séræfingar í hverjum skóla í hverfinu. Og þar sem Ísak Máni hafði ekki enn komist á sameiginlega æfingu þá þekkti hann ekki alla strákana sem voru með honum í liði. Gekk svona þokkalega hjá liðinu, greinilega samt að hin liðin voru komin betur á veg með grunnþætti í íþróttinni. Mínum gekk allt í lagi, pabbanum fannst hann fá boltann alltof lítið en það er kannski ekkert skrítið þegar margir í liðinu vissu ekki einu sinni hvað hann hét. Náði tveimur skotum sem hvorugt rataði ofan í en hljóp alltaf samviskusamlega í vörn og sókn og sendi boltann venjulega bara yfirvegað á næsta mann. Hann var alla vega heilt yfir mjög sáttur með þetta og það er nú fyrir öllu.Þar sem konan á heimilinu er í lambakjötsleiðangri vestur í sveitum fékk Logi Snær að vera hjá Guðrúnu frænku enda leist mér ekkert á að hafa hann þarna ráfandi frá klukkan 9:00 - 14:00, með allri bið á milli leikja og öðru hangsi.

Til upplýsingar var matseðill kvöldsins hjá okkur strákunum eftirfarandi:

Forréttur: Æði-bitar.
Aðalréttur: Upphituð Dominospizza frá því í gær.
Eftirréttur: Mjúkís með súkkulaðibragði, ásamt súkkulaðisósu og ískexi.

sunnudagur, september 30, 2007

Uppgjör knattspyrnusumarsins 2007

Vatnsberar - Utandeildin

Utandeildinni lauk í síðustu viku, þ.e. riðlakeppninni. Sumarið endaði ekki nógu vel fyrir okkur, tap í siðasta leik þýddi 7. sæti í riðlinum (af 11 liðum) á meðan jafntefli eða sigur hefði dugað okkur í 5. sæti. Meira moð en í fyrra þar sem við vorum einu marki frá því að komast í úrslitakeppnina en reyndar vorum við í sterkari riðli í ár. Þokkalega sáttur við mína frammistöðu en var reyndar nánast á annarri löppinni í síðustu leikjum sumarsins sökum ökklameiðsla sem sér ekki fyrir endanum á. Spurning hvernig næsta sumar verður, ljóst er að formaður klúbbsins er að flytjast búferlum í sveitina og því staða formannsins líklega á lausu. Stefnan er að sett á að bögglast í þessu a.m.k. eitt ár í viðbót, enda karlinn kominn á þann aldur að líklega er best að taka bara eitt ár í einu.


ÍR - 2.deild

ÍR-ingar höfðu sett stefnuna á að komast upp um deild enda gáfu 3 efstu sætin í 2. deildinni sæti í 1. deildinni að ári sökum fjölgunar í úrvalsdeildinni. Leit vel út lengi sumars en ljóst var að baráttan um þessi þrjú sæti stæði á milli Hauka, Selfoss, KS/Leifturs og ÍR. 5 jafntefli í síðustu 5 leikjunum var dýrkeypt þegar upp var staðið, í fjórum þessara leikja voru þeir með 1 og 2ja marka forystu þegar skammt var eftir af leikjunum en tókst trekk í trekk að glopra leikjunum niður í jafntefli. 4. sætið í deildinni staðreynd og klárt mál að það verður erfiðara að komast upp á næsta ári, þar sem bara tvo liði fara upp og nú verða 12 lið í deildinni en ekki 10. Það verður athyglisvert að sjá hvern þeir fá til að þjálfa liðið fyrir næsta sumar og hvort hópurinn verður eitthvað styrktur, stefnan hlýtur að vera sett á 1. deildina.

Liðin sem verða í 2. deildinni á næsta ári eru:

Reynir Sandgerði
ÍR Reykjavík
Afturelding Mosfellsbær
Höttur Egilsstaðir
Völsungur Húsavík
ÍH Hafnarfjörður
Magni Grenivík
Grótta Reykjavík
Víðir Garði
Hamar Hveragerði
Hvöt Blönduós
Tindastóll Sauðárkrókur


Valur - Úrvalsdeild

20 ára bið eftir meistaratitlinum lauk loksins í gær. Get ekki sagt að maður hafi verið fyrirmyndarstuðningsmaður þetta árið, fór bara á einn leik í sumar, lokaleikinn á móti HK þar sem þeir tryggðu sér titilinn. Hlutirnir þróast þannig að hverfisklúbburinn togar æ meira í, sem er kannski ósköp eðlilegt þegar maður er orðinn talsvert tengdari inn í innvið hans á meðan maður er svolítið eins og krækiber í helvíti á Valsleikjunum, þekkir ekki hræðu þar. Taugarnar samt sterkar á Hlíðarenda, það verður alltaf þannig. Það verður gaman að fara á nýja völlinn á Hlíðarenda næsta sumar, þetta tveggja ára dæmi á Laugardalsvellinum er ekki búið að vera nógu sniðugt og aldrei að vita nema maður fari á fleiri en einn leik næsta sumar.

laugardagur, september 29, 2007

Meira af mér

Ég opnaði augun í morgun og sagði við sjálfan mig:
„Davíð, nú verður þú að fara í ræktina.“

Eða opnaði ég augun í morgun og konan sagði við mig:
„Davíð, nú verður þú að fara í ræktina.“

Skiptir ekki öllu máli, það sem skiptir máli er að ég fór í ræktina í morgun. Eftir skriljón mánaða hlé.

Mikið af sömu andlitunum. Búttaða gellan sem er alltaf í Valsæfingatreyjunni virðist nú vera svipað búttuð og áður og sköllótti karlinn sem er alltaf í hlýrabol er í ósköp svipuðu formi og áður. Það voru ákveðin vonbrigði að sjá að þetta lið sem er örugglega búið að vera að mæta samviskusamlega á meðan ég var í öðrum verkefnum er ekki orðið helköttað og skorið. Til hvers þá að vera að þessu? Svarið kom á vigtinni eftir spriklið. Ca 3 kíló kominn á karlinn frá því fyrir skriljón mánuðum. Greinilega nauðsynlegt að mæta og gera eitthvað þó ekki væri nema til að halda magninu af sjálfum sér í réttum hlutföllum. Allt er gott í hófi, líka ég.

sunnudagur, september 23, 2007

Rollur? Mínar ær og kýr

Ég og drengirnir skutumst vestur á föstudeginum, til Grundó nánar tiltekið. Gistum þar í eina nótt áður en stefnan var sett á réttirnar í Breiðuvíkinni á laugardeginum en þar upp í fjalli hafði Sigga haldið sig síðan á miðvikudaginn. Eitthvað fannst mér réttirnar frekar litlar og rólegar í umfangi enda eflaust varla svipur hjá sjón ef farið væri einhver ár eða áratugir aftur í tímann til samanburðar. Hægt gekk að koma verðandi stórsteikunum niður af fjalli og því þurftum við Logi Snær að dunda okkur í bílnum á meðan, enda skítakuldi úti. Þá var lítið annað að gera en að gera gott partí úr þessu og drengurinn kom sterkur inn. Náði meira að segja að koma inn frásögn um Eygló ömmu í millikaflanum.

fimmtudagur, september 20, 2007

Á Slysó

Fékk símtal frá leikskólanum skömmu eftir hádegið í dag, „Logi Snær datt og lenti á hnakkanum, það þyrfti að láta líta á hann.“ Ég fer niður eftir og fæ drenginn afhentan, hálfvankaðan og með þessa líka rosakúlu á hnakkanum. Hefði mátt halda að einhver hefði dúndrað golfkúlu upp í krakkann og kúlan hefði nánast gengið út hinumegin. Nánast. Spurning hvort myndin nær að lýsa þessu:


Stemming upp á Slysó, bið eftir lækni, bið eftir myndatöku, bið eftir niðurstöðu úr myndatökunni. Logi Snær var nú samt nokkuð góður í gegnum þetta allt. Var settur í einhvern höfuðskanna þar sem hann þurfti að liggja grafkyrr í ca 2 mínútur sem hafðist þegar honum var tjáð að þessi kyrrseta væri nauðsynleg ef hann ætlaði að sjá kindurnar í sveitinni á laugardaginn. Allan tímann var ég búinn að vera með æludall í eftirdragi því drengurinn var vitaskuld eins og næpa í framan og kúlu dauðans á hnakkanum. Hélt öllu niðri...þangað til við vorum á leiðinni heim að kappinn skilaði máltíðum dagsins í fangið á sér. Sem betur fer vorum við nánst komnir heim og því lítið annað að gera en að opna rúðurnar og drífa sig.

Sem betur fer var niðurstaðan úr þessu að allir komust heilir heim og ættu væntanlega að komast heilir frá þessu öllu.

mánudagur, september 17, 2007

Í bíó

Fjölskyldan úr Eyjabakkanum fór í bíó í gær í fyrsta sinn öll saman. Þetta var fyrsta bíóferðin hans Loga og kappinn því nokkuð spenntur. Fyrir valinu varð vitaskuld að vera eitthvað við allra hæfi, þó aðallega drengjanna og fyrir valinu varð Ratatouille, um rottuna sem hafði ofurást á matseld. Maður var smá stressaður að Logi Snær myndi ekki að höndla þetta enda myndin í fullri lengd, smeykur við að hann gæti ekki haft hljóð allan tímann enda finnst honum ekki leiðinlegt að tala. Til samanburðar fór Ísak Máni á sína fyrstu bíósýningu á svipuðum aldri og Logi Snær er núna og sá þá Litla lirfan ljóta en hún var ekki nema 20-30 mínútur á lengd. Logi Snær var hinsvegar í fínum gír alla myndina með sitt popp og M&M, varð smá smeykur þegar Anton Ego, hinn grimmi veitingahúsagagnrýnandi, var að belgja sig en fékk þá bara að sitja hjá pabba.

Það komu sem sagt allir heilir úr þessu og spurning hvað verður fyrir valinu næst til að fara í bíó og horfa á „risastóra sjónvarpið.“

laugardagur, september 15, 2007

Skómál drengjanna

Það að hnýta skóþveng sinn hefur reynst Ísaki Mána talsvert þungur lærdómur. Reyndar ekki alveg sanngjarnt að varpa þessu svona fram því maður hefur nú líklega ekki verið alltof öflugur við að hjálpa honum í að ná tökum á tækninni. Rámar í það þegar maður sjálfur var að nema þetta, sitjandi við eldhúsborðið á Hagamelnum með skó fyrir framan mig og hnýtti og hnýtti. Sem betur fer varð Ísaki Mána talsvert ágengt í dag, hann náði a.m.k. að framkvæma þetta nokkrum sinnum svona sómasamlega, reyndar með vakandi auga yfir öxlinni á sér en samt með eigin höndum. Nú er bara að taka næstu daga og sjá hvort hann nær ekki að ná fullum tökum á þessu. Það væri ekki verra.

Það er engin undankoma fyrir Loga Snæ úr þessu, í fótbolta fer strákurinn. Í dag fékk hann sína fyrstu alvöru takkaskó, skó sem pabbi hans rakst á einhverri útsölu og gat ekki staðist að kaupa eftir að þeir feðgar urðu sammála um að það væri rosasniðugt og rosanauðsynlegt að versla þessa skó. Skórnir eru reyndar aðeins of stórir en verða fínir næsta sumar og mögulega sumarið eftir það, fyrirhyggjan hjá karlinum er alveg mögnuð. Líklega má þó deila um þörf drengsins fyrir takkaskó næsta sumar en samt...

Ég geri mér þó grein fyrir að hann hnýtir skóþvenginn ekki sjálfur.

miðvikudagur, september 12, 2007

Léttara hjal

Var að blaða í gömlu dagbókinni minni í gærkvöldi svona á meðan maður lét hugann reika aftur til grunnskólaáranna. Því miður skrifaði ég ekki mjög djúpstæðar færslur og tímabilið sem ég skrifaði var alltof stutt. Fann samt eina sniðuga sem ég ætla að láta flakka hérna, vildi óska að ég myndi eftir þessum tónleikum:

Laugardagur 10. maí 1986

Ég vaknaði um klukkan níu. Klukkan tvö fór ég á mína fyrstu tónleika. Stebbi P. bauð mér. Á tónleikunum léku: Herbert Guðmundsson, Fölu frumskógardrengirnir, The Vokes, Megas, Possabillis og Næturgalarnir frá Venus. Ég ætlaði að taka á vídeóleigu kvikmyndina Vitnið en hún var ekki inni svo ég tók í staðinn Villigæsirnar II (Wild Geese II). Roger Taylor er hættur í Duran Duran, að minnsta kosti í bili. Ég lauk við að raða frímerkjunum sem mamma gaf mér fyrir nokkrum dögum í frímerkjabók. Ég horfði á Wild Geese II til klukkan eitt í nótt.

þriðjudagur, september 11, 2007

Daprar fréttir

Hver önnur óhuggulega andlátsfréttin sem dynur á manni, ekkert kannski alveg beint tengt manni en samt þó. Ég er búinn að minnast á Ásgeir Elíasson, ÍR þjálfara, hér á síðunni. Sömu helgi varð sömuleiðis bráðkvaddur ungur maður í veiðiferð en sá hafði verið verslunarstjóri í Bónus, tveggja barna faðir. Ég þekkti hann ekkert en aðrir strákar í vinnunni, þeir sem eru tengdari Bónus, þekktu hann vitaskuld. Svo var þriðja dæmið unga konan, sem vann með Tomma frænda, sem varð bráðkvödd. Tveggja barna móðir.

Er von að maður spyrji sjálfan sig?

Sá svo í Fréttablaðinu í morgun tilkynningu um að gamli bekkjarbróðir minn og æskufélagi, Úlfur Chaka Karlsson, hafi lútið í lægra haldi fyrir hvítblæði. Hann bjó á Hagamelnum eins og ég og við brölluðum margt saman þegar við vorum guttar en þegar ég flutti vestur í Grundarfjörðinn þá slitnuðu tengslin og ég hafði ekki séð hann í mörg ár. Hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði verið að berjast við hvítblæði í einhver ár fyrr en ég rak augun í auglýsingu um styrktartónleika handa honum sem haldnir voru síðastliðinn fimmtudag. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri svona stutt í endalokin hjá kappanum.

Maður heldur í minningarnar um góðan dreng.

sunnudagur, september 09, 2007

Fótbolti...F-Ó-T-B-O-L-T-I

Helgin búin að vera einn fótbolti eða svo gott sem. Byrjaði strax á föstudagskvöldinu þegar við Logi Snær viðruðum okkur og hittum hinn helming fjölskyldunnar á leik ÍR - KR í meistaraflokki kvenna, við Logi létum síðari hálfleikinn duga en hinn helmingur gat ekki annað en tekið allan leikinn. 0:8 tap fyrir Breiðhyltinga og framundan nánast úrslitaleikur við Þór/KA um veru í deildinni að ári.

Ísak Máni var svo að keppa í Egilshöllinni með ÍR á laugardeginum, hans síðasta mót í 7. flokki. Þrír leikir, tvö töp og eitt jafntefli en strákurinn var alla leikina í marki og stóð sig eins og hetja, pabbinn var þvílíkt sáttur þarna á hliðarlínunni. Þetta er ekki minna stress en að spila sjálfur, meira ef eitthvað er en rosagaman. Vona bara að guttanum haldi áfram að finnast gaman af þessu sjálfur, það er víst frumskilyrðið fyrir þessu öllu. Við feðgarnir smelltum okkur svo á Laugardalsvöllinn til að sjá Ísland spila við Spánverja. Frábær skemmtun í rigningu og roki og okkar menn 4 mínútum frá 1:0 sigri en 1:1 varð niðurstaðan.

Stefnan hafði verið sett aftur á ÍR völlinn í dag til að sjá heimamenn etja kappi við Mosfellinga en stórveldið úr Breiðholti er í harðri baráttu við KS/Leifur um sæti í 1. deildinni að ári. Við komuna á völlinn blasti hinsvegar við okkur fáni í hálfri stöng og ekkert merki um að leikur væri þarna að fara í gang. Þegar við fórum að grenslast fyrir um þetta þá kom í ljós að þjálfari liðsins, Ásgeir Elíasson, hafi orðið bráðkvaddur þá um morguninn og skiljanlega leiknum frestað. Minnir mann sem fyrr á að það er ekkert öruggt í þessu lífi og því er best að njóta dagsins á meðan maður getur.

Kvöldið í kvöld fór svo í spilamennsku hjá undirrituðum þegar Vatnsberar spiluðu við FC Dragon í margfrægu utandeildinni en ekki fór það á besta veg, 2:0 tap staðreynd í döprum leik að okkar hálfu. Tveir leikir eftir í sumar og ljóst er að niðurstaðan verður líklega miðjumoð í riðlinum okkar, vonandi ekkert verra en það.

föstudagur, september 07, 2007

Árviss togstreita

Þokkalega liðið á september og ég er ekki enn svo mikið sem farinn að spá í ræktarprógrammið þennan veturinn. Man að á tímabili hafði ég sett mér það takmark að byrja áður en allir þeir sem höfðu ekkert mætt í ræktina í sumar (samanber mig) myndu fara að mæta. Áður en auglýsingarnar um aðhaldsnámsskeiðin færu af stað. Enn hef ég þó ekki lagt í hann þrátt fyrir að aðhaldsauglýsingarnar frá líkamsræktarstöðvunum séu komnar og farnar sömuleiðis ef út í það er farið.

Veit ekki alveg hvað veldur, stöðin sem ég hef samviskusamlega styrkt síðustu mánuði er að flytja í nýtt húsnæði í lok ársins þar sem allt á að verða miklu flottara en það er í dag. Ef maður ætlar að halda þessu eitthvað áfram þá er nauðsynlegt að kíkja eitthvað af stað áður en sú breyting verður, annað er bara glatað. Svo á að verða einhver líkamsræktaraðstaða þegar vinnan flytur sig í nýtt hús, nokkuð sem gerist um næstu áramót. Er samt varla að sjá mig fara mikið á hlaupabrettið í vinnunni. En kannski verður það málið.

Svo var alltaf spurning um að drífa sig bara út og skokka reglulega einn hring í hverfinu, svona áður en snjórinn kemur.

Ætli sé ekki best að sofa á þessu...

þriðjudagur, september 04, 2007

Dejavú... á ítölsku?!

Vegna vinnu minnar er ég talsvert í matvörubúðum og stundum kemur það fyrir að fólk heldur að ég sé starfsmaður í viðkomandi búð, allt í góðu með það. Ég lenti hinsvegar í því um daginn að upp að mér vatt sér ítölsk hjón og voru eitthvað að reyna að biðja mig um að aðstoða sig. Gekk frekar illa því að þau töluðu greinilega hvorugt ensku en ég nappaði næsta „alvöru“ starfsmanni og fól honum það verkefni að aðstoða þau.

Hvert er ég að fara með þessari sögu?

Væri svo sem ekkert merkilegt í sjálfu sér nema vegna þess að tveimur dögum áður, á nákvæmlega sama stað í nákvæmlega sömu búð komu til mín ítölsk hjón, ekki talandi á enska tungu, og báðu mig um aðstoð með eitthvað, ekki sama hlutinn reyndar en samt rosalega furðulegt. Mér varð svo mikið um þetta að ég áttaði mig ekki á því hvort þetta var sama fólkið.

Þetta hlýtur að segja mér að ég verði að fara skrá mig á þetta ítölskunámskeið sem ég er alltaf á leiðinni í.

mánudagur, september 03, 2007

Skottúr til Suðureyrar

Hvað er hægt að gera þegar manni er boðið í skírnarveislu á Suðureyri annað en að mæta? Veislan boðuð á sunnudegi þannig að það var hægt að taka helgina í þetta. Fjölskyldan lagði af stað um þrjúleytið á föstudeginum úr Reykjavík og hélt sem leið lá vestur á firði. Eftir að hafa stoppað á Búðardal, þeim geysiskemmtilega stað, til að næra sig þá var komið til Suðureyrar rúmlega níu um kvöldið. Fengum þetta fínasta hótelherbergi, reyndar var enginn bátur innifalinn, en prýðisgott. Laugardagurinn fór í dundur í rigningunni, rúntað yfir á Ísafjörð og þessháttar.


Skírnardagurinn rann svo upp en skírnin var heima hjá Ella og Jóhönnu og haldin í hádeginu svona fyrir okkur ferðalangana held ég. Súpa og brauð og kökur á eftir, einfalt og gott. Svo var lítið fyrir okkur að gera annað en að ferðbúast á ný og halda heim. Fengum aukaferðalang með okkur en mamma kom með í bæinn eftir að hafa verið þarna fyrir vestan síðan á mánudag. Keyrt í einum rykk í Borgarnes, rúmir fjórir tímar, fyrir utan eitt stutt ferskt-loft-stopp eftir að Logi Snær hvítnaði og ældi smá eftir einhvern malarófögnuðinn. Sjoppufæði í Borgarnesi og komin bæinn sex tímum eftir brottför, um klukkan níu.

Þá var farið beint upp í Æsufell til að kíkja á Gullu og athuga stöðuna á flutningunum. Þar var allt á réttri leið þrátt fyrir mikið af kössum sem víst var búið að útvega eftir alkunnri leið á Akranesi, í ríkinu. Hinsvegar setti það flutningana í talsverðan bobba að drykkja Skagamanna var ekki nóg og því þurfti Gulla að fara á biðlista eftir kössum. Brá hún á það ráð að halda gott kennarapartí og það var ekki að sökum að spyrja, nóg fékk hún af kössunum. Vodka, Becks, Bacardi ... nefndu það, hún á kassann.


Það var því frekar þreytt stemming í Eyjabakkanum í morgun eftir allt þetta helgarbrölt. Enn finnst mér alveg ótrúlegt hvað drengirnir eru duglegir í svona bílferðum, biði ekki í þetta ef þeir væru ekki að „höndla“ þetta svona vel. Ég held samt að ég sé ekki að fara keyrandi aftur í helgarferð á Vestfirði í bráð.

Og já... Aron Kári.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

2OLEGEND

Mikill snillingur lagði skóna á hilluna í dag en ekkert hægt að segja við því í sjálfu sér, erfið meiðslasaga og lítið annað fyrir hinn 34 gamla framherja en að láta gott heita. Er núna óendanlega þakklátur fyrir að hafa séð kappann setja tvö mörk í leik á móti Newcastle í október í fyrra. Man líka eftir því þegar ég fór á Man Utd - Portsmouth í febrúar 2005 þá kom kappinn, sem þá var meiddur, út á völlinn í hálfleik til að draga í einhverju happdrætti og ég vissi ekki hvert mannskapurinn ætlaði. Hefði verið þak á kofanum þá hefði það rifnað af. En vitaskuld verður hans alltaf minnst fyrir sigurmarkið í meistaradeildinni 1999, þetta framkallar gæsahúð í hvert einasta skipti.

„...and Solskjaer has won it!"


laugardagur, ágúst 25, 2007

Draumurinn sem brást...í bili

Þrátt fyrir meiðslavælið hérna um daginn þá fjárfesti ég nýverið í nýjum gervigrasskóm. Var alveg staðráðinn í að versla mér Adidas Mundial, draumaskórnir en kosta fúlgur fjár. Mér var alveg sama, ég var staðráðinn í að eignast svona skó einhvern tímann á ferlinum og ferillinn styttist með hverju árinu. Skellti mér í Jóa Útherja með opinn huga og opið veski. Mér til mikillar hrellingar þá fengust ekki svona skór hjá þeim, þ.e. gervigrasskóútfærslan. Ástæðan fyrir því var sú að Nike er kominn með svipaða útfærslu sem hefur tvennt framyfir Mundial, kostar talsvert minna og er með loftpúða í hælnum. Lítið í stöðunni fyrir mig annað en að máta Nikearana sem reyndust vera alveg ljómandi fínir og tók ég þá ákvörðun um að versla þá.

Fínir skór þessir Nike skór en af einhverjum ástæðum get ég ekki hætt að hugsa um Adidasarana sem ég var búinn að ákveða að kaupa mér. Ég er því búinn að taka þá ákvörðun að versla svona Adidas skó við fyrsta tækifæri (líklega þegar ég fer næst til útlanda) sama hvað tautar og raular. Ég verð að eignast svona skó a.m.k. einu sinni.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Það sem hefur verið að gerast

Úff, held að þessi bloggframmistaða í ágúst sé með þeim daprari eftir að skriftir hófust. Af einhverjum ástæðum hefur andleysið verið algjört enda nóg annað um að hugsa, úff.

Ísak Máni er búinn að taka þátt í tveimur fótboltamótum sl helgar, fyrst fórum við til Fjölnis og tókum þátt í einhverju verst skipulagða móti sem maður hefur lent á. Til að mynda lenti Ísak Máni og félagar í því að þurfa að spila á stór mörk, eitthvað sem þeir hafa aldrei gert áður og m.a. var Ísak Máni í marki í einum leik á þvílík mörk. Fékk vitaskuld eitthvað af mörkum á sig og var ekki sáttur en ekkert sem ekki var hægt að lækna, „það voru bara svona stór mörk þegar pabbi þinn var lítill“.

Ísak Máni í markinu stóra

Logi var vitaskuld á svæðinu en fannst mikið til lukkudýrs þeirra Fjölnismanna og elti hann á röndum og fékk svo langþráð knús.

Logi Snær, þessi vinstra megin

Svo var haldið á heimavöllinn næstu helgina á eftir, þ.e. síðustu helgi, þegar við héldum okkar vinamót með þátttöku HK, Vals, Aftureldingar og ÍR vitaskuld. Það mót var hins vegar alveg tilfyrirmyndar og skipulagning eins og best verður á kosið, hlutlaust mat. Nú styttist í að eldri drengurinn færist upp í 6. flokk, stundum líður þetta fullhratt allt saman.

Svo hefur maður verið á fullu í „hinni vinnunni“, á vegum húsfélagsins, þetta er ekkert svakalega skemmtilegt þegar stefnir í framkvæmdir og manni verður fljótlega ljóst að þú gerir aldrei alla íbúa 48 íbúða sátta. Svo þegar maður ætti að vera leggja nokkra þúsund kalla til hliðar til að eiga þegar framkvæmdarkostnaður kemur í hausinn á manni þá er maður bara í húsgagnakaupum eins og maður skíti seðlum. Horfi á í þessum pikkuðu orðum á gömul húsgögn sem búið er að tæta niður í öreindir hérna inni á stofugólfinu og bíða þess að enda sitt líf á Sorpu. Sem er eitt verkefni helgarinnar, gott að það er komin helgi.

Að lokum þurfti maður að eyða klukkutíma í dag að skrifa undir allskonar pappíra fyrir íbúðakaup hjá Villa og Gullu. Það er búin að vera ein allsherjar sápan, loksins að menn drulluðust til að ganga frá þessum pappírum enda bara vika í að þau eigi að fá íbúðina afhenta. Skrifaði nafnið mitt örugglega 17 sinnum og var orðinn alveg ónæmur fyrir millifærslu á 4 milljónum sem fór yfir á þennan reikning, 5 millur sem fóru eitthvað annað, 6 millur í næstu viku, stimpilgjald, þjónustu- og umsýslugjald...

Já, meðan ég man Villi, þú ert orðinn stoltur eigandi 15 ára gamallar uppþvottavélar með biluðu sápuloki sem virkar að öðru leyti nokkuð vel. Þetta hefur þú upp úr því að senda alvöru menn að samningaborði fyrir þig.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Samverustund feðganna

Rosalega er ég slakur í tölvuleikjum. Reyndar tel ég mig vera nokkuð öflugan í Tetris en það telst varla með. Þessi staðreynd um vanhæfi mína í þessum málum er eitthvað sem ég vissi svo sem en fékk enn eina staðfestinguna á þessu núna um daginn. Ísak Máni spilar helst fótboltaleikinn FIFA07 í Playstation2 og platar mig stundum til að fara í leik. Ég tapa nánast alltaf, skíttapa. Nú er svo komið að til að jafna leikinn þá þarf ég að velja topplið en hann velur eitthvað lélegt. T.a.m. þá vann ég hann um daginn með naumindum í æsispennandi leik 5:4, ég var Barcelona en hann hið geysiskemmtilega lið Accrington Stanley sem spilar í D-deildinni í Englandi, segir allt sem segja þarf.

Svo náði þetta algjörum botni þegar við tókum annan leik daginn eftir og eitthvað byrjaði ég illa, missti mann útaf, lenti undir og fór að verða pirraður. Þegar ég verð pirraður þá renna allir takkarnir í eitt, man ekki hvað x-ið gerir og man ekki hvar o-ið er og vill bara helst tækla mann og annan sem er ekki vænlegt til árangurs. Reyndi samt að halda haus, maður er jú uppalandi. Gekk illa að halda haus og sonurinn skynjaði að leikurinn var ekki að taka góða stefnu, eflaust enn í fersku minni þegar hann flengdi karlinn 4:0 og karlinn varð sár. Hann fór að verða grunsamlega kærulaus með öftustu vörnina, m.a. gaf markvörðurinn hans boltann „óvart“ beint á sóknarmenn mína og smátt og smátt náði karl faðir hans að jafna og tryggði sér að lokum sigur. Hann var grunsamlega sáttur við að tapa en sigurinn var beiskur fyrir karlinn. Enda stóðu menn upp frá tölvunni og ræddu þetta ekki frekar.

Spurning um að fara bara í SingStar eða eitthvað.

Nýjasti frændinnDrengur Elíasson f:07.08.2007
Foreldrar: Jóhanna Þorvarðardóttir og Elías Guðmundsson, Suðureyri
nr: 28
Þyngd: 3540 gr
Lengd: 48 cm
Ljósmóðir: Ásthildur Gestsdóttir

mánudagur, ágúst 06, 2007

Af því að sumir elska „before and after“ myndir

Sumir fara í útileigu þessa helgina, við keyptum nýjan sófa.

Before:


After:

föstudagur, ágúst 03, 2007

Formaðurinn í feluleik

Karlinn er búinn að vera á fullu þessa vikuna á nokkrum vígstöðum. Hef farið mikinn í hlutverki formanns húsfélagsins enda framkvæmdir á næsta leyti. Ljóst er að grafa þarf garðinn í spað og mun það hafa í för með sér óþægindi fyrir íbúa blokkarinnar á meðan því stendur, að ekki sé minnst á pallanna sem hafa risið upp við margar íbúðir jarðhæðarinnar og eru á mjög gráu svæði hvað öll leyfi og reglugerðir áhræri. Menn eru oft snöggir upp á afturlappirnar þegar farið verður að ræða um kostnað. Þetta kemur til með þýða talsvert af fundarhöldum hjá undirrituðum á næstu vikum og mánuðum.

Svo hefur maður verið í því að skoða íbúðir fyrir Namibíugengið. Hálffurðulegt að vera að skoða fjarfestingar upp á tæpar 30 millur fyrir annað fólk og skila svo skýrslum um hvern kofann á fætur öðrum. Eftir brölt um borgina þvera og endilanga þá fékk „betri“ helmingurinn hjá íbúðakaupendunum sínu framgengt og Breiðholtið er næsti viðkomustaður heimshornaflakkarana. Eins og það var furðulegt að skoða íbúðir fyrir annað fólk þá var það líka ákveðin forvitnissvölun og svo fer þetta allt í reynslubankann. Ein íbúðin sem ég kíkti á var vestur í bæ og sú reynsla styrkti grun minn í því sem ég talaði einhvern tímann um ekki alls fyrir löngu. Ég mun ALDREI geta búið í KR-hverfinu. Aldrei aftur þ.e.a.s. Hjólandi börn í KR-göllum og KR-peysur hangandi í forstofunni, þetta var of mikið fyrir mig. Í nánast yfirliði og ofandandi eins og kona með 10 í útvíkkun reyndi ég að staulast í gegnum þessa skoðun með opnum hug. Sem betur fer hentaði þessi íbúð ekki Hr. og frú Namibíu. Í alvöru.

Annars reyndi maður að vera ekkert að flagga öllum þessum söluyfirlitum sem maður hefur haft í rassvasanum síðstliðnu viku. Veit ekki hvernig það liti út að formaður húsfélagsins sem væri að boða bullandi framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði væri svo að spóka sig í hverfinu skoðandi íbúðir. Lítur ekki nógu vel út. Gat samt ekki setið á mér og tilkynnti öðrum meðlimi í stjórninni, ofan í umræður um lögfræðiálit varðandi pallaeignir, að ég væri að skoða íbúðir. Sá meðlimur hefði líklega hjólað í mig ef þetta samtal hefði ekki átt sér stað í gegnum síma, ég var nú reyndar fljótur að leiðrétta misskilninginn.

Ógeðslega fyndinn gaur!

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Safngripur

Ég vil nú meina að ég hafi ekki miklar áhyggjur af hækkandi aldri mínum en af einhverjum ástæðum finnst manni aldrei skemmtilegt að vera minntur á aldurshækkunina.

Ég og eldri drengurinn vorum staddir á safni í Stykkishólmi núna í sumarfríinu og vorum að virða fyrir okkur hin ýmsu tæki og tól frá liðnum árum. Allt í einu galar drengurinn upp: „Hey pabbi, var þetta ekki til þegar þú varst lítill?“ Stóð hann fyrir framan ritvél og virti hana fyrir sér með furðu. Ég gat nú ekki neitað þessu en vildi nú meina að þær ritvélar sem ég notaði á sínum tíma hafi nú verið flottari og tæknilegri en þessi græja. Ég fann nú samt að þessi röksemdafærsla var nú ekkert að fegra þetta neitt, við vorum í raun staddir á safni að skoða grip sem ég þekkti vel.

Núna áðan komu svo tvær stelpur og spurðu eftir Ísaki Mána.

Maður verður ekki yngri með degi hverjum, það er ljóst.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Rigning?!

Ekki búið að rigna á landinu í einhverjar vikur og ég búinn að vera í frí í sól og sumaryl. Hvað gerist svo að morgni fyrsta vinnudags míns?Stórfurðulegt en víst nauðsynlegt fyrir gróðurinn.

mánudagur, júlí 16, 2007

Styttist í annan endann

Þá fer sælunni að ljúka þetta sumarið, þ.e. sumarfríinu. Stefnan er sett að stimpla sig inn niðri í vinnu núna á fimmtudaginn og þá hefst harkið aftur. Fórum á fimmtudaginn í bústað til Ingu og Gunna austur í Úthlíð, þau lögðu af stað í tjaldferðalag vestur á firði á föstudeginum en við fengum að slappa af í bústaðnum og vorum fram á sunnudag. Brakandi blíða eins og venjulega og niðurstaðan eftir svona er að heitur pottur er jafnnauðsynlegur bústöðum og nettenging er fyrir tölvu. Það var ekki óvenjulegt að það væru teknar tvær skorpur á dag í pottinum. Sömuleiðis komst ég að því að ég er óheyrilega öflugur í Yatzy, held ég hafi bara tapað tveimur leikjum en það voru teknir nokkrir leikirnir. Við vorum alvöru túristar og fórum á Gullfoss og Geysir, ár og dagar síðan ég hef komið þangað og ég held að drengirnir hafi ekki farið þangað áður, a.m.k. ekki Logi Snær.Við erum búin að taka Elliðaárdalinn og Nauthólsvíkina eftir að við komum heim, ekki slæmt það. Þetta sumarfrí hlýtur að fara í einhverjar sögubækur hvað veðrið varðar, man eftir að hafa fengið einhverja dropa en það var varla meira en hluti úr einhverjum tveimur dögum eða svo. Ekki nóg með að rigningarleysið hafi verið algjört heldur hefur sólin verið algjör. Hef líka ekki verið svona svartur held ég síðan að maður stundaði ljósabekkinn í kjallaranum hjá Magga og Bíbí í Baugatanganum á fyrstu námsárum mínum í Háskólanum.

Framkvæmdir heima fyrir hafa því legið niðri, ekkert var málað o.s.frv. en mér finnst það bara alveg í lagi. Þetta eru hlutir sem gera má þegar fer að rigna.

Niðurstaða úr sumarfríinu: Sáttur?

Mjög sáttur.

mánudagur, júlí 09, 2007

Afturhvörf

Á sl. tveimur sólarhringum hef ég endurnýjað kynni við nokkra hluti, sumir reyndar héldustu í hendur hvor við annan.

Ég hitti gamlan skólafélaga frá Laugarvatni í gær, hafði reyndar rekist á hann 2-3 sinnum nýverið á samkomum tengdar ÍR en hann er starfandi formaður knattspyrnudeildar félagsins ásamt því reyndar að vera framkvæmdarstjóri flugfélags hér á landi. Hvað um það, í samtali okkar kom í ljós að hann hefur viðhaldið ákveðnum samskiptum við hluta af gömlu skólafélögunum. Það er alveg á hinn veginn farið hjá mér, get með réttu sagt að hafa misst allt samband við gömlu félagana frá Laugarvatni af einhverjum ástæðum. Hluti af samskiptum félaga míns við þessa fyrrum skólafélaga er að spila reglulega fótbolta með þeim og svo vildi til að þeir áttu akkúrat að hittast síðar þetta kvöld. Hann spurði mig hvort ég væri ekki tilbúinn að mæta með í þetta skipti og fyrir forvitnis sakir lét ég slag standa. Sparkvöllur í Garðabæ var viðkomustaðurinn og voru nokkur kunnugleg andlit á svæðinu en það hittist þannig á að Old Boys hópur frá Stjörnunni var á svæðinu og skoraði okkur á hólm. Ég var sem sagt kominn út í stærra dæmi en ég ætlaði mér, völlurinn stærri en ég hafði ætlað mér o.s.frv. Annað sem ég dustaði svo rykið af var það að spila sem útispilari. Fór mikinn á vinstri kantinum þótt ég segi sjálfur frá og eftir að hafa m.a. sett tuðruna sláinn-inn með hægri þá var ekki aftur snúið með egóið. Hugsaði með mér að þetta væri helv... fínt að spila svona út og kannski ætti ég að hugsa minn gang með ferilinn, hæfileikum mínum væri kannski hreinlega sóað í markinu. Fljótlega var mér þó kippt niður á jörðina þegar þolið var búið, þá var þetta hætt að verða gaman. Lítið gaman að láta "gamla" karla taka sig í bakaríið þegar þolið var búið.

Svo fór ég í Melabúðina í dag, gömlu hverfisbúðarinnar úr æskunni. Var þarna inni um kvöldmatarleytið og þetta var væntalega eins og að vera í síldartunnu. Varla hægt að komast fram né aftur, allt vitlaust að gera í kjötborðinu og opið á þremur afgreiðslukössum. Þetta var afturhvarf sem bragð var af.

sunnudagur, júlí 08, 2007

Sumarfríið samanstendur af stuttbuxum og snjó

Kominn heim í kotið eftir smá útlegð í Grundarfirði og nærsveitum. Maður hafði það rosalega gott enda frábært verður eins og var búið að vera. Eitthvað var maður að aðstoða múttu við að mála hluta af húsinu en annars var bara slappað af að mestu leyti. Við tókum m.a. rúnt fyrir jökull og tókum þessa túristastaði þarna eins og Djúpalón, Hellnar, Arnarstapi svo eitthvað sé nefnt. Enduðum svo upp á jöklinum sjálfum og til gefa mönnum lýsingu á veðrinu þá var undirritaður í stuttbuxum og leið bara nokkuð vel. Myndir komnar inn á myndasíðuna, loks komu inn myndir sem eru ekki af einhverju fótboltamóti hjá einhverjum í fjölskyldunni!


Talandi um stuttbuxurnar þá hlýt ég að hafa slegið persónulegt met með því að vera 7 daga samfleytt í stuttbuxum á Íslandi (ekki alltaf sömu buxunum þó) sem verður að teljast mjög svo ásættanlegt. Þetta heitir jú Ísland og ætti þ.a.l. ekki að vera mjög stuttbuxnavænt.

Ekkert mikið planað fyrir næstu daga, bara finna sér eitthvað sniðugt að gera.