laugardagur, apríl 28, 2007

Létt gleði

Sumt í lífinu gleður manns litla hjarta. Sumt meira en annað. Sumt er kannski meiri léttir en annað.



Þetta er nú samt ekki nema hluti af pakkanum. En gleður samt manns litla hjarta. Kannski meiri léttir en annað.

föstudagur, apríl 27, 2007

Karlinn horfir á fréttirnar

Mér er spurn hvort ég eigi eftir að verða vitni af því að íslenskur ráðherra segi af sér vegna vafasamra vinnubragða? Ég held bara í alvörunni ekki.
En þetta mál með Jónínu Bjartmarz ber svipaðan keim og leikfimisfötin hans Héðins bekkjarbróðir míns sem gleymdi fötunum í töskunni sinni eftir notkun yfir allt jólafríið hérna um árið. Þetta lyktar. Hvernig getur allt þetta lið sem kom nálægt þessu svarið af sér allt og haldið því blákalt fram að engin hafi vitað um nein tengsl. Erum við fífl? Maður nennir ekki að velta sér upp úr þessu og kannski er það mergur málsins. Hver man eftir þessu í næstu viku? Ætli ég verð ekki búinn að gleyma þessu.

Var varla búinn að ná mér eftir þessa frétt þegar á skjáinn kom sú stórfrétt að söngvarinn Jónsi úr Í svörtum fötum hefði komist í gegnum flugfreyju/þjónaskólann (eða hvað sem þetta heitir) og væri því að hefja störf í kaffiuppáhellingum í háloftinu. Sjónvarpið var á staðnum eins og þetta væri þvílíkt plögg í gangi og tók viðtal við kappann. Frábærast fannst mér þó þegar sýnt var þegar hann skrifaði undir starfmannasaminginn, þetta leit nánast út eins og þegar Beckham skrifaði undir hjá Real Madrid á sínum tíma nema að þetta var bara frat. Frétt minn rass.

Má bjóða þér að versla eitthvað úr Saga Boutique?

Skólahreysti 2007

Sigga og Ísak Máni fóru á Skólahreysti-keppnina í gær þar sem grunnskólarnir keppa sín á milli í líkamshreysti. Breiðholtsskóli komst í úrslitakeppnina sem haldin var í Laugardalshöllinni og mín og minn gátu ekki skorast undan að fara með sem hluti af klappliðinu. Við Logi Snær gátum horft á þetta í beinni útsendingu á Skjá einum, eins og úthald leyfði. Breiðholtsskóli gerði sér lítið fyrir og hirti 3. sætið sem verður að teljast frábær árangur. Hnuplaði hérna myndum af Breiðholtsskólavefnum og birti hér. Læt líka fylgja mynd að einum keppandanum, honum Kalla en hann býr í stigagangnum hjá mér.





laugardagur, apríl 21, 2007

Fyllsta jafnrétti

Sigga var að keppa í dag með ÍR á svokölluðu Drottningarmóti þeirra ÍR-inga. Bullandi stemming hjá öllum og gaman að þessu. Ég er samt ekki viss um hvernig hún verður í skrokknum á morgun, það kemur allt í ljós, en rosalega fannst henni gaman. Meira um það á síðunni hennar. Ég smellti inn eitthvað af myndum á myndasíðuna.



Mér fannst samt réttast að gæta fyllsta jafnréttis hérna og fyrst Ísak Máni fékk videóbrot birt af sér í stórræðum á milli stanganna á ÍR-marki þá þurfti mamma hans að fá sömu meðhöndlun:

föstudagur, apríl 20, 2007

Áhugaleysi með öllu

Fór allt í einu að spá í það hversu slappur ég er í framhaldsþáttainnlifun. Ég er alltaf að heyra af fólki sem var að kaupa sér seríu nr eitthvað af einhverjum æðislegum þætti, efni sem sá hinn sami gæti ekki hugsað sér að lifa án. Eða einhver sem var að hala niður af netinu heilu og hálfu seríunum af uppáhaldsþáttum sínum. Oftar en ekki þekki ég ekki innihaldið, rétt svo að nafnið hringi einhverjum bjöllum. Ég fór því að rifja upp hvaða þætti ég horfi á í sjónvarpinu, af þessum helstu framhaldsseríu þáttum og kom þá ýmislegt í ljós. Ég get varla nefnt nema tvær seríur sem ég get sagt í fullri alvöru að ég glápi á, við erum þá að tala um að ég þekki helstu aðalleikarna og viti um hvað málið snýst. Dett stundum inn í Without a Trace sem er á RÚV og svo er það C.S.I. sem mér finnst gaman að.

En hvað með alla hina, þetta sem allir eru að downloada og/eða versla sér á DVD? Ég setti upp smálista af þeim þáttum sem mig rámar í að teljist merkilegir í kassanum þessar vikurnar og ákvað að láta reyna á það hversu mikil vitneskja mín væri um þessa þætti.

Þetta er nú ekki tæmandi listi en er svona það sem ég man eftir:

Grey´s Anatomy

Aldrei séð svo mikið sem hálfa mínútu úr þessu þætti. Einhver læknadrama í ætt við ER, án þess að ég hafi hugmynd um það.

The Simpsons

Horfði talsvert á ævintýri Simpsons fjölskyldunnar frá Springfield þegar þetta var að byrja þarna um 1990 ef ég man rétt en missti fljótlega áhugann á þessu og get varla sagt að ég hafi séð meira en svona glefsur síðasta áratuginn eða svo.

24
Held að ég hafi séð samanlagt kannski svona hálftíma af ævintýrum Jack Bauers, ef ég hef nafnið hans rétt. Held að hann sé einhver FBI gæi eða eitthvað þvíumlíkt og lumbri á einhverju óþokkalýð. Mig minnir að þátturinn heiti 24 af því að hver þáttur gerist í rauntíma og er því í raun einn klukkutími en hver sería innihaldi 24 þætti, sem sagt einn sólarhringur í lífi Jack. Er samt ekki viss.

Lost
Vitneskja mín um þessa þætti kemur aðallega frá því þegar sjónvarpsstöðin sem sýnir þessa þætti er að sýna úr næsta þætti. Hópur fólks á einhverri eyðieyju. Hvernig það komst þarna og um hvað málið snýst? Ekki grænan grun.

Heroes
Sama má segja um vitneskju mína á þessa seríu og Lost hérna á undan. Allskonar fólk sem þekkist ekki neitt en hefur einhverja ofurkrafta. Hér virðist málið vera að bjarga einhverri klappstýru sem engin veit hver er. Eða eitthvað.

Desperate Housewives
Hef séð svona hálfan þátt hér og þar en get ekki sagt að þetta heilli mig neitt. Sápuópera um fallegt fólk sem býr í fallegum húsum í hverfi einu í henni Ameríku.

The O.C.

Sætir krakkar með sæta kroppa glíma við allskonar djúpstæð vandamál, einhver Beverly Hills 90210 og Melroses Place sambræðingur að ég tel. Hef ekki enst í að horfa á neitt af þessu.

Vona að ég hafi ekki móðgað neinn þarna úti með þessu áhugaleysi mínu.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Endalok snuddunnar?

Myndin sem fylgir þessum pistli sýnir Loga Snæ sofandi í rúminu sínu eftir að hann sofnaði núna í kvöld. Aðalatriðið við þessa mynd er að drengurinn er snuddulaus með öllu sem verður að teljast óvenjulegt. Eins og ég nefndi hér í pistli um daginn þá var ákveðið að athuga stemminguna núna sumardaginn fyrsta sem er jú í dag. Sigga ræddi þetta eitthvað við hann í morgun og sem fyrr var hann alveg til í að hætta með snudduna en með ákveðnum fyrirvörum: "Á morgun" sagði hann við mömmu sína. Síðar um daginn fékk hann sumargjöfina sína, forlátan Buff-klút sem svo skemmtilega vill til að hann er með á hausnum á myndinni. Þegar honum var afhentur klúturinn þá gekk móðir hans á hann og sagði að nú þyrfti hann að henda snuddunum sínum. Okkur til mikillar furðu þá fannst honum það alveg sanngjarnt og gekk í það mál, náði í þessi tvö eintök sem hann átti eftir og fór með þær í ruslið.

Móðir hans var ekki alveg að treysta þessu og kom því í kring að snuddurnar færu nú ekki alveg í ruslið heldur upp í skáp, án vitneskju Loga vitaskuld. Svo leið dagurinn án þess að þetta kæmi eitthvað sérstaklega til tals en foreldrarnir voru með smá hnút í maganum vitandi það að eitthvað yrði sagt þegar tími kæmi til að fara að sofa. Mamman var svo heppin að vera stödd á fótboltaæfingu þegar sá tími kom upp svo að pabbinn þurfti að tækla þetta mál.

Það var grátið smá en aðallega vorum við bara litlir í okkur og vissum ekki alveg hvernig við áttum að vera. Drengurinn vildi fá bækur til að hafa í rúminu en vildi svo ekki hafa þær. Hann vildi vatnsglas í rúmið en vildi svo ekki hafa það. Hann vildi svo fá aðra sokka og aðrar buxur en þær sem hann var í. Svo vildi hann fá Buffið sitt til að hafa á hausnum og sagði svo: "Pabbi, þú passar mig".

Nú verður athyglisvert að sjá hvort þetta gengur allt upp og sumardagurinn fyrsti verður alþjóðlegi snudduhættidagurinn í þessari fjölskyldu.

laugardagur, apríl 14, 2007

Prógramm þennan laugardaginn

Fótboltamót hjá Ísaki Mána í dag. Spilað var í Risanum í Hafnarfirði en þar hafði Ísak Máni ekki spilað áður, ég hef spilað þar a.m.k. einu sinni. Samkvæmt planinu sem gefið var upp fyrir mót var drengurinn í B-liði en þegar á hólminn var komið var hann "hækkaður" upp í A-lið vegna þess að eitthvað mættu fleiri en ráðgert var og því þurfti að endurskipuleggja þetta á staðnum. Fyrir þessa breytingu höfðu A-liðs drengirnir áhyggjur af því að þeir væru markmannslausir en með tilkomu Ísaks Mána þá var hann fenginn til að taka stöðuna milli stanganna. Hann ætlaði nú bara að taka fyrstu tvo leikina í hönskum en þetta gekk svo vel og var svo gaman að hann kláraði alla fjóra leikina sem nr. 1.

Þeir spiluðu við Víking, Stjörnuna, FH-1 og FH-2. Tveir 1:0 sigurleikir, 2:1 sigur og 0:0 jafntefli var niðurstaðan við mikinn fögnuð enda gaman þegar vel gengur. Hann fékk sem sagt bara eitt mark á sig í leikjunum fjórum og stóð sig rosalega vel. Það er smá pressa á drengnum, að ég tala nú ekki um með foreldrana á bak við markið alveg með hjartað í hnút þegar andstæðingarnir nálgast markið hjá drengnum. En hann stóðst þetta allt sem sagt með prýði.

Smábrot með kappanum í stórræðum:



Af hinum, Logi Snær fór út að hjóla í dag með mömmu sinni og fékk að prófa tvíhjólið hans Ísaks Mána. Hjálpardekkin voru vitaskuld sett undir og það var alveg magnað hvað hann var duglegur og flakkaði aðeins um, fór meira að segja út í Tomma-blokk. Datt reyndar tvisvar en lét það ekki stoppa sig og fór jafnharðan á bak aftur. Það er því ljóst að nú þarf að fjárfesta í nýjum fák fyrir Ísak Mána, staðreynd sem var nú ljós fyrir daginn í dag. Sá eldri fær nýtt en sá yngri fær þetta gamla, gangur lífsins?

Nammidagurinn í dag gleymdist eiginlega í allri þessari dagskrá þannig að samið var um að það að fresta honum um einn dag. Furðulegt að þetta hafi gleymst svona, það er kannski ekki meiri áhuga fyrir þessu. Þetta virðist vera sama áhugaleysið og hefur ríkt í kringum páskaeggin tvo sem gleymdust heima. En við sjáum til, þetta er framundan á morgun:

föstudagur, apríl 13, 2007

Bræðurnir og snuddurnar

Seinni part vetrar þegar Ísak Máni var á þriðja ári þá var farið að ræða það að hann myndi hætta að nota snuddur. Einhversstaðar í þessum umræðum innan fjölskyldunnar þá var ákveðið að þegar sumarið kæmi þá myndi hann hætta þessari notkun fyrir fullt og allt. Voru allir, þ.a.m. Ísak Máni sáttir við þessa niðurstöðu. Mig minnir að foreldrar hans hafi nú ekkert mikið velt sér upp úr því hvernig ætti að standa að þessu að öðru leyti, né hvernig framkvæmdin ætti verða þegar sumarið kæmi.

Að morgni sumardagsins fyrsta þetta ár, 2002, skreið drengurinn upp í rúm til foreldra sinna með snudduna sína. Svo var eitthvað verið að ræða um lífið og tilveruna og upp kom umræðan um sumarið, að nú væri sumarið komið. Hann var nokkuð spenntur með það en talaði jafnframt um það hvort það væri því tími kominn að kveðja snuddurnar. Við játuðum því vitaskuld og þá tók drengurinn sig til, dreif sig úr rúminu og safnaði saman þeim snuddum sem hann átti, fór fram í eldhús og henti snuddunum í ruslið. Og þar með var þeim kafla í lífi hans lokið án þess að það hafði nokkra eftirmála. Aldrei bað hann meira um snuddur þannig að þessi endalok voru algjör draumur í dós.

Logi Snær er aðeins á eftir bróður sínum því hann er víst orðinn þriggja ára og finnst enn voða gott að totta snuddurnar sínar. Kerfið var þó orðið þokkalegt fyrir nokkru, hann var aldrei með þetta nema þegar hann fór að sofa á kvöldin. En svo varð hann veikur og þá datt hann í eitthvað rugl og fór að nota þetta í tíma og ótíma. Við erum að reyna að fá hann til að samþykkja að hætta með snuddurnar þegar sumarið kemur, gengur ekkert rosalega vel. Hann er alveg samþykkur því að hætta með snuddurnar, ef það felur í sér að sá tímapunktur sé einhvern tímann seinna.

Nú styttist í sumarið, spurning hvað gerist.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Football... bloody hell

Þá er einvígið sem ég vissi ekki hvernig ég átti að takast á við lokið. Ég hef þurft þennan sólarhring síðan síðari leiknum lauk til að jafna mig. Fyrri leikurinn sem spilaður var á Ítalíu var skrítinn, Scholes rekinn út af eftir rúmlega 30 mínútur og 1:2 tap United staðreynd. Mér leið rosalega furðulega allan leikinn. Fann ekki fyrir neinu þegar Scholes fékk rauða spjaldið né heldur þegar Roma komst yfir. Leið eiginlega hálfilla bara, vissi að það skipti engu máli hvað myndi gerast, ég yrði aldrei alveg sáttur. Leið reyndar vel með markið sem United skoraði, fannst það gefa seinni leiknum smá meira gildi.


Seinni leikurinn var sem sagt í gærkvöldi. Ég var farinn að undirbúa mig undir það að Roma kæmist áfram og reyndi að sjá kosti þess fyrir United. Meiri hvíld fyrir lokabaráttuna í ensku deildinni o.s.frv. Hvað getur maður sagt? 7:1 fyrir United. Þetta er náttúrlega ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Í stöðunni 5:0 í byrjun seinni hálfleiks var mér orðið flökurt og farinn að grátbiðja um að leiknum yrði hætt. Þetta var orðið meira en nóg og óþarfi að snúa hnífnum í sárinu. Aftur og aftur. Ef þeir hefðu verið að spila við eitthvað annað lið þá hefði hlakkað í mér fyrir allan peninginn en þetta var ekki gott. Svona vont-gott en óþarflega mikið vont.


En United er sem sagt komið í undanúrslit meistaradeildarinnar og tímabilið er búið fyrir Roma. Ég hafði loksins látið verða af því og verslað mér United treyju daginn sem fyrri leikurinn fór fram. Hann tapaðist eins og fyrr segir 2:1 og síðan spiluðu þeir við Portsmouth í deildinni og töpuðu líka 2:1. Mér var alveg hætt að lítast á þetta og var staðráðinn í að skila treyjunni ef þessi leikur myndi tapast líka, og hvað þá 2:1. En þetta fór eins og það fór og það er því allt í lagi með treyjuna.

Hitt var svo að ég held að Gunni hennar Ingu hafi verið á vellinum í gærkvöld. Ef svo er rétt, hvernig er hægt að grísa á svona leik, ég bara spyr? Ekki það að kappinn hafi ekki verið nýkominn af Old Trafford og séð 4:1 sigur á móti Bolton. Svona karlar...

Næst þegar Gunni fer á Old Trafford þá vil ég fara líka.

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Farið á kostum

Var alveg eins og asni í morgun. Vissi að hlutirnir voru ekki eins og þeir áttu að vera þegar ég keyrði inn á bílastæðið í leikskólanum í morgun því venjulega er það þéttsetið af bílunum. Núna var hinsvegar ekki einn einasti. Ekki einn. Fyrir utan minn.

Ákvað samt að drösla Loga Snæ út úr bílnum en var ekkert rosalega hissa þegar kom í ljós að hurðin var harðlæst. Skimaði inn og sá tilkynninguna á hurðinni fyrir innan þar sem kom fram að dagurinn í dag væri einhver skipulagsdagur. Meiriháttar.

Sem betur fer fyrir mig var mamma hans Loga ekki að kenna í dag en var þó að vinna í ákveðnum undirbúningi niðri í skóla og var búin að undirbúa sig andlega undir það að hafa Ísak Mána hjá sér. Hún var samt ekkert sérstaklega ánægð með þessar fréttir þegar við feðgarnir komum heim aftur því það var nokkuð ljóst hver fengi að hafa yfirumsjón yfir yngri drengnum þennan dag.

Ég vil þó taka það fram að Logi Snær fór ekki á leikskólann þarna nokkra daga fyrir páskafrí þannig að það var ekki skrítið að þessi auglýsing hafi farið fram hjá okkur. Í alvöru.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Páskarnir

Hérna í Grundarfirði er páskarnir með hefðbundnum hætti. Reyndar hafði það uppgötvast um það leyti og Hvalfjarðargöngin nálguðust á leiðinni vestur að tvö stykki páskaegg höfðu gleymst heima í Eyjabakkanum. Ekki gott mál. Lítið annað að gera en að stoppa í Bónus í Borgarnesi og versla tvö ný egg. Það verður því rosagaman að fara heim á morgun og getað gúffað í sig páskaegg eitthvað fram eftir vikunni. Frábært.

Áður en lagst var til hvílu í gær voru eggin falin svo Jóhanna og hin börnin gætu leitað að þeim á páskadagsmorgun. Þetta er víst hluti af spennunni segja þeir. Ég hef aldrei skilið hvaðan þessi siður kom upp, þetta var aldrei þegar ég var lítill. Man hins vegar vel eftir fyrstu kynnum mínum af þessum sið. Kannski ekki rétt að segja að ég muni vel eftir því vegna þess að ég man ekki hvað ég var gamall og ég get heldur ekki sagt að ég muni hvar ég var né heldur með hverjum ég var. Hljómar geðklofningslega, ég veit. Það sem ég man er að þetta var í einhverju sumarhúsi eða bústað og eins og fyrr segir hjá einhverju fólki sem ég þekkti ekkert. Tel helst að þetta hafi verið eitthvað tengt Danna æskuvin en er þó ekki viss, man þó að ég var einn með einhverju fólki. Hvað um það, þarna var ég og einhverjir krakkar sem ég þekkti ekki neitt. Allir með páskaegg en þar sem ég var einhver afgangsstærð þarna þá fékk ég páskaegg eftir því, eitthvað lítið og aumt. Öll eggin voru svo falin og þetta var einhver stemming sem ég þekkti ekki. Þekkti sömuleiðis lítið staðhætti þarna og var langsíðastur að finna mitt egg, allir hinir orðnir þreyttir á að bíða því enginn mátti byrja á sínu fyrr en öll eggin voru komin í leitirnar. Loksins eftir smávísbendingar fann ég eggómyndina sem mér var úthlutað en leið eins og asna svo ekki sé meira sagt.

Aftur í núið, hérna fundu allir eggin sín eftir ánægjulega leit og engin sem fékk ör fyrir lífstíð á sálina sökum þessarar framkvæmdar að ég tel. Reyndar gekk Jóhönnu eitthvað brösulega með þetta en eftir að mamma sá auman á henni og gaf henni vísbendingu þá rambaði hún loksins inn í örbylgjuofninn og fann herlegheitin. Ísak Máni saup svo kveljur þegar hann beit í eggið, ekki að það hafi verið eitthvað vont á bragðið heldur var efri framtönnin sem eftir var að syngja sitt síðasta. Það þýddi því lítið annað en að fara inn á klósett og spýta blóði og juðasta á tönninni þangað til hún gaf endanlega upp öndina. Menn voru ekkert að æsa sig yfir þessu heldur héldu bara tvíefldir aftur að borðinu. Það þýðir ekkert að gefast upp fyrir smá blóði.

Annars held ég að þessi blessaða hátíð hafi tekið einhverjum breytingum á ekki svo löngum tíma. A.m.k. datt mér ekki til hugar að taka með mér sparifötin vestur, var meira bara sveittur í joggingbuxum og bol. Eina kristilega tengingin núna var að ég vaknaði eitthvað fyrir kl. 8 í morgun við kirkjuklukkurnar þegar verið var að minna fólk á messuna. Ég bölvaði bara í hljóði og velti mér yfir á hina hliðina.

Myndir komnar inn á myndasíðuna.

laugardagur, apríl 07, 2007

X-factor

Þar sem fjölskyldan er stödd í Grundarfirðinum yfir páskana eins og svo oft áður þá njótum við þess munaðar að geta horft á Stöð 2, nokkuð sem við höfum ekki við hendina í Eyjabakkanum. Fram að deginum í gær gat ég með réttu sagt að ég hafi ekki séð eina einustu mínútu af þessum X-factor þætti sem tók við af Idolinu núna í haust. Að mínu viti hefur líf mitt ekki tekið neina niðurdýfu sökum þessa X-factorsleysis, nema síður sé. En nú sá ég sem sagt eitthvað af þessu í gær sem var lokaþátturinn. Sá reyndar ekkert nema þegar úrslitin voru kynnt.

Eitt orð yfir þetta allt: Kjánahrollur. Djöfull var þetta ömurlega dapurt sjónvarpsefni og Frú Law var alveg glataður kynnir. Kannski stafar þessi viðbrögð mín vegna þess að ég var ekki búinn að sjá neinn þátt af þessu áður og því ekki alveg inn í hlutunum. Held samt ekki.

Vona að menn sjá að sér og hendi þessari karókíþáttagerð út á hafsauga. Það hefur líka sýnt sig að þegar showið er búið þá er enginn heimsfrægð framundan hjá þessu liði sem tekur þátt í þessu. En kannski þarf útlending til að afsanna þessa kenningu, hver veit.

Saga af sparkvellinum

8 ára gutti nálgast sparkvöllinn í Grundarfirði. Á honum eru nokkrir unglingsdrengir að sparka bolta. Guttinn tekur sér stöðu við völlinn og horfir á strákana. Svolítið á eftir kemur maður á besta aldri ásamt 3ja ára syni sínum. Maðurinn er í íþróttabuxum, fótboltasokkum og gervigrasskóm, ásamt því að vera með fótbolta. Hann sér að sparkvöllurinn er upptekinn og tekur því við að kasta fótboltanum í körfu með litla drenginn hjá sér, á vellinum við hliðina á sparkvellinum. Eitthvað vekur þetta furðu unglingsdrengjanna sem eru á sparkvellinum og þeir snúa sér að þeim 8 ára sem er að horfa á þá og spyrja hann hvort hann viti hvað karl þetta er. "Já, þetta er pabbi minn." Unglingarnir halda áfram og spyrja hvort hann geti mögulega eitthvað í fótbolta. "Já, hann er að spila í Utandeildinni" svarar hann aftur. Svarar í fullri alvöru.

Held að unglingsdrengirnir hafi ekki þótt þetta merkilegur pappír. En mér er alveg sama, þetta er í lagi á meðan Ísak Máni er ekki orðinn unglingur, þangað til hefur hann vonandi fulla trú á getu minni á þessum vettvangi. Þegar börnin hafa trú á manni þá hlýtur allt að vera hægt.