mánudagur, nóvember 28, 2005

Silfurmaðurinn og gullkálfurinn sonur hans

Jæja, þá er Ísak Máni búinn að slá mér við. Hann er núna búinn að takast það sem karl faðir hans hefur ekki ennþá tekist á sínu frekar dapra knattspyrnuferli, og tekst varla úr þessu, en strákurinn er búinn að vinna sinn fyrsta bikar. Held að undirritaður eigi þrjár silfurmedalíur fyrir Héraðsmótið innanhús back home, sem komu þrjú ár í röð.

Málið er það að á laugardaginn var 7. flokks knattspyrnumót í Reykjaneshöllinni þar sem ÍR sendi inn lið. Í raun sendi ÍR 4 lið, a, b, c og d. Eldri árgangurinn var í a og b liðunum og yngri árgangurinn var í c og d. Ísak Máni var í c liðinu eða spænsku deildinni eins og það var í raun kallað. ÍR áttu Stjörnuna í fyrsta leik og höfðu 4:0 sigur, Njarðvík í næsta leik sem vannst 2:0 og loks voru Keflvíkingar teknir í karphúsið, 6:0. Þetta þýddi einfaldlega að riðilinn vannst með markatöluna 12:0 og guttinn minn í vörn. Þá tóku við undanúrslit á móti Víkingum sem fór 0:0 en þar sem ÍR-ingar höfðu betri árangur í riðlinum sínum fengu þeir úrslitaleikinn við Grindavík. Úrslitaleikurinn var æsispennandi en eftir venjulegan leiktíma var staðan 0:0 og því þurfti að framlengja. Þegar 10 sekúndur voru eftir þá skoruðu ÍR og bikarinn varð því þeirra.Auðvitað er þetta alltaf spurning hvort það eigi að hafa bikarverðlaun í 7.flokki. Allir þátttakendurnir fengu verðlaunapening en svo fékk sigurliðið í hverri deild þennan bikar. Það var líka broslegt að með hverjum sigurleiknum þá æstust foreldrarnir án þess þó að einhver væri að missa sig þarna. En það var greinilegt að eitthvað var orðið í húfi þegar lítið písl í liðinu vildi fá að reyna sig í marki í undanúrslitaleiknum því þá var það snögglega umlað í hel og málið var dautt, liðið yrði óbreytt. En þeir stóðu sig allir vel og flott hjá þeim að spila í gegnum svona mót á þess að fá á sig mark. Það voru þreyttir en sælir drengir sem yfirgáfu Reykjaneshöllina loksins um kvöldmatarleytið eftir stífan fótboltadag.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Fæðing snjóbrettaferils?

Nú líður senn að jólum og Ísak Máni datt í óskalistagírinn um daginn. Það var svona þetta týpíska: "Þetta dót og hitt dót, fótboltabúningar, DVD o.s.frv. Eitt sem kom svolítið við mig þegar hann var að láta mig skrifa þennan lista fyrir sig ... snjóbretti! Þá vissi ég að nú væri ég nánast kominn út í horn, nú þurfti ég að fara horfast í augu við það sem ég vissi að væri yfirvonandi. Þessi saga á sér forsögu og forsagan á sér forsögu.

Forforsagan er þannig að eina skiptið á ævinni sem ég hef farið á skíði, Bláfjöll þann 31. mars 1988. Fékk lánuð skíðin hjá systir hans Danna Mausara og fór tvær ferðir niður "brekkuna". Þetta var reyndar einhver útidúrsbrekka þarna og hallinn þarna þótti víst ekki merkilegur fyrir hinn almenna skíðamann, en þegar maður er bara 13 ára kjúklingur sem kann ekki að stoppa sig eftir að á ferðina er komið þá var þetta bara talsvert. Fór tvær bunur, sú fyrri endaði í byltu og sú síðari sömuleiðis en með meiri brothljóðum þó, á vinstri fótlegg. Til að gera langa forforsögu stutta þá kostaði þetta karlinn einhverjar 6 vikur í gifsi og fyrirheit um að skíðaferlinum væri lokið, jafnsnögglega og hann byrjaði.

Forsagan er svo sú að þegar ég var að vinna hjá GÁP fyrir einhverjum árum þá var keypti eigandinn Týnda hlekkinn sem þá hét og var á Laugarveginum. Týndi hlekkurinn var aðallega verslun með hjóla- og snjóbretti og þótti nokkuð öflug sem slík. Nóg um það, eitthvað af vörunum frá Hlekknum tókum við yfir í GÁP svona til að hafa upp á þær að bjóða. Þarna var maður farinn að handfjatla snjóbretti, bindingar, brettaskó og brettaföt og á tiltölulega stuttum tíma var ég farinn að sjá þetta í hillingum, mig sjálfan brunandi niður snævi þaktar brekkur, vindinn leikandi um andlitið og ferskt fjallaloftið fyllandi lungun. Það hafði líka sitt að segja að aðaldrengurinn hjá Hlekknum, svaka fínn gaur sem heitir Jói að mig minnir, var stöðugt að æsa mann upp í þetta. Það fór svo á endanum að ég ég skutlaðist til hans í búðina á Laugarveginum einn laugardagsmorgun og hann fann fyrir mig bretti, bindingar og skó, stillti þetta og græjaði allt fyrir mig. Ég fékk þetta fyrir tiltölulega lítinn pening og var bara helvíti sáttur við þetta allt. Svo kom hins vegar að því að finna tækifærið að prófa þessar græjur..humm... Málið var auðvitað það að ég þekkti engan forfallinn brettara og því dó þetta æði fljótlega, ég hætti hjá GÁP og brettið fór alltaf innar og innar í geymslunni, alveg ónotað. Brettahugleiðingarnar grófu sig aftur út úr undirmeðvitundinni þegar Ísak Máni var lítill undir þeim formerkjum að það væri nú gaman að vera fær um að standa nokkra metra á bretti þegar hann færi að komast á brettaaldurinn.

Hjá þessu verður sem sagt ekki komist mikið lengur. Ég var eitthvað að lýsa þessu fyrir Siggu um daginn og þessi elska var nú ekki lengi að finna lausn á þessu vandamáli. Ég ætti bara að fara í stóru brekkuna sem er hérna í hverfinu, við hliðina á skólanum og æfa mig. Nú veit ég ekki hver almenn afstaða við þessari hugmynd er en hvað mig varðar: NO FU#%ING WAY! Að ég ætli að fara í hverfisbrekkuna og hækka meðalaldurinn umtalsvert og lækka getustigið sömuleiðis... næsta hugmynd takk. En það er ljós þarna úti. Ég var nefnilega búinn að stefna að því að láta Ingu systir hennar Siggu kenna mér brettatökin því hún er eitthvað búin að vera fikta við þetta en þá tókst henni að fá þá flugu í höfuðið að það væri kannski sniðugt að búa í Danmörku í einhvern tíma og því hefur sú framkvæmd verið á bið. Hins vegar hefur heyrst að hún ætli að koma heim í janúar og vera í nokkrar vikur. Gefur okkur það að sveinki gefi stráknum bretti, Inga komi til landsins og brettið hennar sé í seilingarfjarlægð, spurning hvort þetta sé allt að smella saman? Það skildi þó aldrei vera að karlinn sé að fara að stunda vetraríþróttir eftir áramót? Maður þyrfti þó að drösla öllu liðinu upp í bíl og eitthvert upp í sveit til æfingar, allt til að losna við hverfisbrekkuna...

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Lasinn

Það er ýmislegt sem fer í taugarnar á mér en það er eitt sem mér finnst sérstaklega ömurlegt. Það er að vera veikur. Að vera veikur er gjörsamlega óþolandi fyrirbæri. Ég er búinn að vera með einhvern skít í mér í ca. 10 daga, þessa hefðbundnu haustflensu sem leggst yfir landann um þetta leyti. Það var svo núna á föstudaginn að ég versnaði til muna, lumpaðist samt í vinnuna en var að drepast í hálsinum. Kom svo heim og lagðist upp í sófa og síðan í framhaldi upp í rúm. Hálsinn var svo bólginn að þegar ég tók verkjartöflur þá hélt ég að þær myndu ekki komast niður. En ef ég hélt að þetta yrði ekki verra þá voru það falsvonir. Ég svaf ömurlega um nóttina og þegar ég fór fram úr um morguninn þá hélt ég að þetta væri mitt síðasta. Ég gat bara ekki talað, svona grínlaust, og það að kyngja munnvatni var meiriháttar átak. Tók þá ákvörðun að fara til læknis og sjá hvað kæmi út úr því. Fór á læknavaktina í Smáratorgi og var kominn rétt áður en stofan opnaði, ásamt nokkrum foreldrum sem voru að koma með sín fyrstu börn sem virtust ekki vera vitund lasinn þegar þau hlupu þarna um allt öskrandi og gargandi fyrir utan einn og einn hósta sem þau stundu upp. Konan í afgreiðslunni átti í erfiðleikum með að skilja mig þegar ég reyndi að rymja út úr mér kennitölunni og varð svo eins og asni þegar hún ýtti á vitlausan takka á lyklaborðinu og ég þurfti að kreista kennitölunni aftur út um bólginn barkann. Doktornum fannst réttast að setja mig á pensilín og gat þess að ég gæti botið pillurnar niður til að eiga auðveldara með að koma þeim niður. Þannig að laugardagurinn fór í sófalegu með Gatorade í annarri og fjarstýringuna í hinni. Muldi svo í mig eina og hálfa pítu í kvöldmatnum sem er sögulegt lágmark. Fannst eitthvað svo hljótt við kvöldverðarborðið og lét þess getið að sökum þessara verkja í hálsinum þá ætti ég í erfiðleikum með að tala. Mér sýndist örla við glotti þega Sigga leit þá á mig og sagði: “Þú verður þá bara að þegja...”

mánudagur, nóvember 14, 2005

Systkinafréttir

Helginni lokið og það fór aldrei að það yrði ekki eitthvað fréttnæmt sem gerðist þessa helgina. Jóhanna og Elli fengu viðurkenningu fyrir gistiheimilið hjá sér, skelltu sér í bæinn og tóku í spaðann á Stullu Bö og allt. Þau eru að gera gott mót.

Svo hringdi Villi bróðir í mig og tjáði mér að hann væri búinn að segja upp hjá Háskólanum í Reykjavík og væri að snúa aftur til starfa hjá fyrrverandi atvinnurekanda sínum. Neibb, ekki var það Egils Ölgerðin eins og back in the 80´s heldur er kappinn að snúa aftur til Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Jebb, karlinn er að fara aftur til Namibíu! Og þetta er bara að bresta á, hann og Tinna Rut fara út núna um áramótin en ætli restin af fjölskyldunni fari ekki út síðan næsta sumar, spurning með Dagmar. Þetta er greinilega allt frekar óljóst og verður greinilega spilað af fingrum fram. Fjölskyldan tók rúntinn í Grundó á laugardeginum til að tilkynna mömmu þetta og meira að segja Dagmar fór með en það gerðist líklega síðast þegar þau tóku rúntinn til að tilkynna um komu Rúnars Atla í heiminn. Þannig að mamma veit núna að þegar öll fjölskyldan kemur ofan af Skaga með Dagmar í för þá er von á sprengju :)

Ég hef aldrei dottið í þennan gír að búa erlendis, en Villi er náttúrulega búinn að vera meira og minna í þessum pakka síðan 1988 eða 1989 og Jóhanna býr á Suðureyri við Súgandafjörð sem er svona eiginlega útlönd. Ef þetta er þangað sem hugurinn stefnir stökktu þá af stað, lífið er of stutt.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Malarvöllurinn vekur upp minningar

Ég heyrði af ungum knattspyrnumanni, ca 14 ára, sem spilar með yngri flokki hjá einum fótboltaklúbbi hér í bæ. Hann lenti í hræðilegu máli núna undir lok sumars með liðinu sínu. Hann þurfti að spila leik á malarvelli! Það var nokkuð sem hann hafði aldrei lent í á sínum ferli og af lýsingunum að dæma var þetta það versta sem hann hafði lent í. Datt í þokkabót og hruflaði á sér hnéð og fékk sand og smásteina í sárið, sem sagt hörmuleg lífsreynsla. Ég sé það líka núna þegar ég fylgist með Ísaki Máni og fótboltaferlinum hans þá eru þessir guttar hjá ÍR að æfa á flottu grasi og gervigrasi og spila svo mót í Reykjanes- eða Egilshöllinni. Sem er hið besta mál allt saman, flott að hægt sé að hafa toppaðstæður fyrir þessa krakka.

Ég tel mig ekki vera gamlan mann (Jóhanna systir myndi segja það vera misskilning) en maður æfði og spilaði stærstan hluta sinn yngri flokka feril á malarvöllum og kom svona nokkuð heill út úr því. Mér þótti sagan af unga, hruflaða knattspyrnumanninum krúttlega brosleg og jafnframt minnti mig á það hvað mikið hefur breyst á ekki lengri tíma.

• Ég man þegar það þótti eðlilegt að 10-11 ára guttar spiluðu í 11 manna liði á knattspyrnuvelli í fullri stærð. Á malarvelli að sjálfsögðu.

• Ég man þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og allan júlí mánuð.

• Ég man þegar það voru engir gemsar til eða númerabirtar. Þú svaraðir bara í símann og hafðir ekki hugmynd um hver var hinumegin á línunni, spáið í því.

• Ég lærði mína lyklaborðakunnáttu á TA Gabriele 7007L. Nei það er ekki gömul tölva heldur ritvél, já ritvél.

• Ég man þegar það var algengt að í fjölskyldubílunum væru engin bílbelti í aftursætunum.

• Fyrsti bíllinn minn var með gömlu númeraplötunum.

• Ég man þegar geisladiskarnir komu á markaðinn.

• Ég man þegar engum datt í hug að í Tomma og Jenna væri undirkraumandi kattahatur. Málið var bara að kötturinn fékk oftast á baukinn og það var bara einfaldlega fyndið.

• Ég man þegar afgreiðslufólkið á kössunum í matvörubúðunum sló handvirkt inn öll verðin á vörunum sem ég var að kaupa.

• Ég man þegar Norræna húsið stóð eitt og sér nánast úti í sveit.

• Ég man þegar markmenn í fótbolta máttu taka við sendingu frá samherja með höndunum.

• Ég man þegar það var algengt að búðir væru lokaðar um helgar.

• Ég man þegar maður fékk handskrifuð bréf frá ættingjum í útlöndum og handskrifaði svarbréf til baka.

• Ég man þegar maður fór til útlanda þá labbaði maður út úr flugstöðinni, út á flugbrautarsvæðið og upp stiga upp í vélina.

• Ég man þegar allir voru með 8 stafa nafnnúmer.

• Ég man þegar enginn var hetró, metró eða bi.

Veit ekki hvort það sé hægt að segja að maður muni tímanna tvenna en það er svona eitt og annað sem hefur breytst síðan ég komst til vits og ára.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Góðir hlutir

Góður hlutur 1: Mér tókst loksins að reka af mér slyðruorðið með þetta myndaalbúm og náði loksins að setja fleiri myndir inn eftir u.þ.b. mánaðarstíflu. Ég hafði ekki sett inn myndir eftir þessar breytingar sem urðu á albúminu þannig að ég þurfti að digga þetta allt uppá nýtt. Vona að það hafi tekist vel.

Góður hlutur 2: Skápahurðirnar komu loksins í IKEA og eru komnar á sinn stað, tær snilld! Ég er samt ekki á leiðinni í IKEA alveg á næstunni.