sunnudagur, október 28, 2007

Hoppað, skoppað og hverfið verður ekki hið sama

Enn ein pabbahelgin að baki. Konan fór í sveitasæluna en við strákarnir héngum bara heima í menguninni. Aldrei þessu vant þá var ekkert íþróttamót þessa helgina hjá Ísaki Mána en þó var talsverð dagskrá samt.

Laugardagurinn fór að stórum hluta í að hjálpa Tomma að drösla búslóðinni hans úr Blöndubakkanum út í flutningabíl sem hefur rúntinn Reykjavík-Grundarfjörður. Kappinn að halda vestur á bóginn og það er hálffúlt að horfa á eftir karlinum úr hverfinu en maður skilur hann nú svo sem á vissan hátt. Sveitin heillar og sömuleiðis einbýlishús með bílskúr og garði...

Í dag fórum við með bekknum hans Ísaks í „óvissuferð“. Stefnan var sett á íþróttahús í Hafnarfirði, hjá íþróttafélaginu Björk nánar tiltekið. Þar hoppuðu krakkarnir og skoppuðu í einhverju fimleikaæfingasal í 90 mínútur. Eitthvað var þarna af systkinum bekkjarfélaganna sem fengu að fljóta með og vitaskuld var Logi Snær á svæðinu. Hann fór nú frekar rólega af stað en þegar sviðsskrekkurinn var farinn var hann alveg að fíla þetta. Ísaki Mána fannst þetta líka alveg frábært og ég verð að samþykkja það, þetta var bara nokkuð sniðugt en ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að leigja svona sal. Eftir hoppið og skoppið var haldið á Pizza Hut og nokkrum sneiðum sporðrennt. Allir sáttir.föstudagur, október 26, 2007

Gullkorn dagsins

Logi Snær: „Af hverju getur Tommi frændi ekki spilað í marki?“ (af einhverjum ástæðum hefur drengurinn enga trú á frænda sínum sem knattspyrnumarkverði)

Pabbi hans: „Ég veit það ekki, kannski er hann ekki búinn að æfa sig nóg.“

Logi Snær: „Er hann ekki búinn að æfa sig að fara í kollhnís og svoleiðis eins og ég?“

Pabbi hans: „Nei, ætli það.“

3ja ára, bráðum 4ra... frábær aldur.

sunnudagur, október 21, 2007

Upp um flokk á pizzalausu Akranesi

Alltaf líður tíminn. Ísak Máni tók þátt í sínu fyrsta 6. flokksmóti í fótbolta í dag. Strákarnir sem taka þátt í svona mótum verða alltaf stærri, sterkari, hlaupa hraðar og sparka fastar með hverju árinu, staðreynd sem verður augljósari þegar minns fer upp upp um flokk og í staðinn fyrir að vera 7 ára spilandi við 7 ára stráka er hann 8 ára spilandi við 8 og 9 ára stráka.

Fórum upp á Skaga, spilað í knattspyrnuhöllinni þar en í dag var einmitt eitt ár síðan sú höll var vígð. Engin kynding í kofanum og Sigga ákvað því að vera heima með Loga Snær. Við Ísak Máni tókum því daginn snemma enda mæting í ÍR heimilið 8:50. Kappinn í C-liði og fjórir leikir í boði. Sami kappi stóð í marki í þrjá leiki og batt saman vörnina í einum. Úrslitin voru nú ekki alveg upp á marga fiska, eitt jafntefli og þrjú töp en Ísak Máni stóð sig vel og var heilt yfir sáttur með sig, meira bið ég ekki um. Það hefur kannski hjálpað að A- og B-liðin töpuðu öllum sínum leikjum og A-liðið skoraði ekki eitt einasta mark svo hann fór heim sem meðlimur úr „sigursælasta“ ÍR liði dagsins.

Verð aðeins að enda þetta með að drulla yfir skagamennina (ekki illa meint samt). Einn af tilgangi með svona móti er að safna peningum fyrir flokkinn sem heldur svona mót. Þarna voru þeir með fullan kofa af foreldrum sem voru með veski og svöngum og þyrstum strákum þeirra. Úrvalið í sjoppunni var ömurlegt: Kaffi, svali, grillaðar samlokur og prins póló. Úrvalið var samt ekki það sorglega heldur sú staðreynd að í þessari sjoppubúllu var hvorki til posi fyrir kort eða nein skiptimynt sem heitið gat. Sorglegt. Ekki nóg með það heldur gáfumst við Ísak Máni upp á að bíða eftir „verðlaununum“ sem við vorum búnir að borga fyrir með mótsgjaldinu, pizzunni, þegar við vorum búnir að bíða í góðar 20 mínútur. Svitaperlurnar á enninu á gæjanum sem átti að redda þessu voru farnar að fjölga sér óeðlilega mikið þannig að við létum okkur hverfa, eins og ansi margir þarna.

Subway á Akranesi grætur þó varla klúður Dominos.

laugardagur, október 20, 2007

Konur konum verstar?

Varla annað hægt en að kommenta aðeins á val á bestu knattspyrnukonu ársins á lokahófi KSÍ sem var í gærkvöldi. Það eru leikmenn sem spila í deildinni sem eru með atkvæðisrétt í þessari kosningu.

Með fullri virðingu fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur hjá KR sem var valin best og átti flott tímabil þá get ég bara ekki skilið hvernig hægt var að ganga fram hjá Margréti Láru í þessu kjöri. Hún sló markametið sitt aftur, skoraði 38 mörk í 16 leikjum og er hreinlega í öðrum gæðaflokki en aðrir leikmenn í þessari deild. Hólmfríður var t.a.m. ekki einu sinni valin best á lokahófi hjá KR!

Það sem vekur mestu spurningarnar með þetta allt er sú umræða sem kom m.a. fram í þættinum Mín skoðun á X-inu þar sem heyrst hafði að skilaboð gengu leikmanna á milli um að kjósa ekki Margréti Láru, umræða sem þjálfari Vals hafði heyrt af. Það var þó að heyra að menn trúðu hreinlega ekki að þetta væri eitthvað sem yrði að veruleika.

En þetta er varð að veruleika. Hvað er málið? Öfund? Spurning hvernig er að eiga svona verðlaun uppi í hillu þar sem þessi skuggi hvílir yfir.

Það er allavega þvílík skítalykt af þessu máli, skítalykt sem meirihluti leikmanna í þessari deild náðu að framkalla.

föstudagur, október 19, 2007

Eiginlega ekkert

Voðalegt andleysi hérna á bænum, engar stórar fréttir... a.m.k. ekki enn um sinn.

Ísak Máni er að fara að keppa á sínu fyrsta 6. flokksmóti í fótbolta núna á sunnudaginn, upp á Akranesi. Ætli það endi ekki að ég fari einn með honum uppeftir en Logi Snær er orðinn eitthvað þreyttur á þessu íþróttabrölti öllu og svo er knattspyrnuhöllin þarna uppfrá óupphituð og drengurinn með hálfgerða kvefdrullu á vægu stigi og lítið spennandi að hanga með hann þarna. Ekki fer maður í kaffi í Stillholtið lengur...

Annars er maður farinn að bíða eftir að komast í smá frí, stefnan sett á Kaupmannahöfn núna um mánaðrmótin með konunni og dvelja þar í nokkra daga. Strauja visakortið aðeins, redda drengjunum veglegum jólagjöfum og kannski eitthvað smotterí handa sjálfum mér.

Ekki meira í bili sökum andleysis...

laugardagur, október 13, 2007

Teppi

Eru teppi að koma aftur sterk inn? Man þegar maður var lítill og allir voru með teppi í stofunni og jafnvel inn í svefnherbergjunum. Kom síðan ekki upp einhver æsingur um að teppi væru nánast handverk djöfulsins, þau mögnuðu upp flest öll ofnæmi og í þeim leyndust heilu lífríkin af skaðlegum örverum sem menn væru að anda að sér. Út með helv... teppið og allir fengu sér parket eða flísar.

Hluti af mér saknar teppisins. Ég myndi sennilega seint fá mér teppi inn í svefnherbergið en það var viss stemming með þetta í stofunni. Mjúkt að labba á þessu og hefðbundin þrif voru einfaldlega bara að ryksuga, ekkert skúringarvesen. Man reyndar að maður fékk nett brunasár í æsku þegar hitinn í innanhúsboltanum varð svo mikill að iðkendurnir renndu sér í skriðtæklingarnar á teppinu.

Reyndar yrðu afleiðingar „slysa“ í stofunni meiri og verri ef um teppi væri að ræða. Bara núna fyrir helgi þurfi frumburðurinn að kasta upp og komst hvorki lönd né strönd og morgunmatur þann dagsins endaði á stofugólfinu, þ.e. parketinu. Skúringarmoppan dregin fram, svalahurðin opnuð í smátíma og málið dautt. Sami atburður með teppi í sögunni hefði líklega ekki fengið eins snöggan endi.

Nei, líklega væri ó-það-er-svo-mjúkt-að labba-á-þessu tilfinningin með tilheyrandi unaðshrolli líklega of dýru verði keyptur. Kannski verður teppi í betri stofunni hjá mér þegar ég kaupi mér stærra hús, ég er hvort sem er ekkert mikið að sulla í rauðvíni.

laugardagur, október 06, 2007

Laugardagur í Frostaskjóli

Ísak Máni tók þá ákvörðun núna með haustinu að leggja handboltaskónum á hilluna en prófa þess í stað körfuboltann. Byrjaði í september og er ákveðinn í að halda áfram í vetur. Besta mál í sjálfu sér, hann verður jú sjálfur að finna út sín áhugasvið í þessum efnum og ég er bara ánægður meðan hann hefur áhuga á að vera í einhverju sporti þótt mér persónulega finnist skemmtilegast að tuðrusparkinu. Drengurinn verður því í fót- og körfubolta í vetur. Mér finnst fínt að sjá hann í körfunni, mikið til vegna þess að ÍR er aðeins að spýta í lófana með unglingastarfið í körfunni og réðu til sín serbneskan þjálfara, Bojan Desnica, til að sjá um þau mál. Hann er búinn að þjálfa hér á landi í nokkur ár, m.a. hjá KR og Breiðablik og það sem ég hef séð af honum (sem er reyndar ekki mjög mikið) líst mér mjög vel á, alvöru þjálfari þar á ferð.Það var sem sagt körfuboltamót hjá Ísak í dag, hið fyrsta á ferlinum og er ekki alveg eins gott að hefja leik í KR-heimilinu. Svolítið skrítið því þessir strákar æfa ekki allir saman nema einu sinni í viku, annars er Bojan með séræfingar í hverjum skóla í hverfinu. Og þar sem Ísak Máni hafði ekki enn komist á sameiginlega æfingu þá þekkti hann ekki alla strákana sem voru með honum í liði. Gekk svona þokkalega hjá liðinu, greinilega samt að hin liðin voru komin betur á veg með grunnþætti í íþróttinni. Mínum gekk allt í lagi, pabbanum fannst hann fá boltann alltof lítið en það er kannski ekkert skrítið þegar margir í liðinu vissu ekki einu sinni hvað hann hét. Náði tveimur skotum sem hvorugt rataði ofan í en hljóp alltaf samviskusamlega í vörn og sókn og sendi boltann venjulega bara yfirvegað á næsta mann. Hann var alla vega heilt yfir mjög sáttur með þetta og það er nú fyrir öllu.Þar sem konan á heimilinu er í lambakjötsleiðangri vestur í sveitum fékk Logi Snær að vera hjá Guðrúnu frænku enda leist mér ekkert á að hafa hann þarna ráfandi frá klukkan 9:00 - 14:00, með allri bið á milli leikja og öðru hangsi.

Til upplýsingar var matseðill kvöldsins hjá okkur strákunum eftirfarandi:

Forréttur: Æði-bitar.
Aðalréttur: Upphituð Dominospizza frá því í gær.
Eftirréttur: Mjúkís með súkkulaðibragði, ásamt súkkulaðisósu og ískexi.