fimmtudagur, mars 26, 2009

Ekki minnkar ríkidæmið


Drengur: 4260 gr - 17 merkur - 53,5 cm - höfðumál 37,5 - kl. 12:55

Sem betur fór þá fór þetta af stað á náttúrulegan máta. Sigga fór að finna fyrir einhverjum verkjum um klukkan 02:30 í nótt, ekki það að ég hafi orðið neitt var við það. Síðan um klukkan 06:30 var ljóst var í hvað stemmdi. Hafsjór af reynslu í þessum efnum náðum við að halda ró okkar og drengirnir tveir voru græjaðir í skóla og leikskóla. Tekið því rólega í smátíma heima áður en við ákváðum að skutlast upp á spítala, vorum komin þangað um kl 09:30. Þegar við komum var ein ljósmóðirin að mæta til vinnu og það var sú sem sá um okkur og svo skemmtilega vildi til það var sama og tók á móti Loga Snæ, frábær kona.


Allt leit vel út, Sigga náði að slappa nokkuð vel af, belgurinn sprengdur um kl. 12:30 og 25 mínútum seinna var þriðji prinsinn mættur. Engin mænudeyfing og ekki neitt og mér fannst við vera rétt komin þegar litli drengurinn var allt í einu kominn í fangið á manni. Sigga ótrúlega spræk, þrátt fyrir að vera eðlilega frekar þreytt en allt mjög afslappað. Hinir tveir tóku alveg svakalegan tíma þegar þeir komu í heiminn, send heim aftur í tilfelli Loga og allt mjög langt ferli og erfitt. Núna dúlluðum við okkur niður í Hreiðrið þegar allt var afstaðið, nokkuð sem við höfðum ekki prófað áður, voða næs. Ég náði svo í strákana og þeir fengu að kíkja á nýjasta meðliminn, voru bara mjög sáttir. Við Ísak og Logi fórum svo bara heim en Sigga fær að slappa af þarna þangað til á morgun en kemur þá heim, allir sáttir.


Maður er svona að ná þessu. Hef sagt þá áður og segi það enn, stundin þegar börnin manns draga andann í fyrsta sinn og láta heyra í sér...

...ómetanlegt.

miðvikudagur, mars 25, 2009

„Góðan dag, er hægt að panta tíma í start?“

Eitthvað lætur þetta á sér standa. Mér var ekki alveg farið að lítast á blikuna þarna síðustu helgi, prófið mitt á mánudeginum og ég sá alveg fram á það að eitthvað færi að gerast kannski seint á sunnudeginum eða jafnvel snemma á mánudeginum. En ekkert gerðist og ég gat farið í prófið, reyndar með titrarastillingu á símanum ef eitthvað færi nú að gerast. En ekkert gerðist. Held að prófið hafi gengið þokkalega, eða ég vona það a.m.k., klúðraði reyndar smápakka en ég vissi nú eitthvað um hvað ég var að tala í öðru. Vonum hið besta og svo kemur þetta í ljós. Annars byrjar næsti kúrs á mánudaginn þannig að það er lítil pása.

Ég var því alveg klár í nýjan grísling bara þarna á þriðjudeginum, en viti menn, ekkert gerðist. Það var hringt í Siggu og hún fékk tíma í startsetningu á fimmtudaginn. Sem er á morgun. Ég stillti mig þá bara inn á það að þessi gríslingu væri ekkert að fara að koma svona að sjálfsdáðum þannig að ég gæti bara tekið því rólega þangað til. Enda hélt sagan svipuðum stíl og áður þessa tvo daga, ekkert gerðist.

Það er mæting sem sagt í fyrramálið að því gefnu að ekkert gerist í kvöld eða nótt. Þetta er frekar spes. Svona eins og að eiga tíma hjá tannlækninum, þú bara mætir á fyrirfram ákveðnum tíma og hlutirnir eru gerðir og græjaðir. Reyndar er þetta vitaskuld aðeins viðameira en tannlæknirinn en þið vitið vonandi hvað ég meina.

Að lokum átti að fylgja hérna spá fjölskyldunnar um kynið sem kæmi úr pakkanum en þar sem 75% af þátttakendunum breyta spá sinni nánast oft á dag þá gengur það ekki upp. Það er ljóst að þetta er annað hvort dramadrottning sem vill láta bíða eftir sér eða drengpjakkur sem er fyrst og fremst óstundvís.

Ég ætla að giska á pjakkinn, bara svona til að segja eitthvað.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Er ekkert að gerast?

...er yfirleitt það fyrsta sem fólk segir við mann þessa dagana. So far er svarið einfaldlega nei.

Maður reynir alltaf að finna út eitthvað kerfi til að áætla hlutina þegar maður er með fordæmi. Ísak Máni lét bíða eftir sér í 12 daga, Logi Snær í 8 daga. Þessi gríslingur í 4 daga? Neibb, ekki það enda komnir 6 daga nú þegar. Ísak Máni fæddist á föstudegi, Logi Snær fæddist á föstudegi. Á morgun er föstudagur. Veit ekki.

Annars er ég að fara í próf seinnipart mánudagsins. Sigga er að fara í skoðun fyrripart mánudagsins og þá gæti verið farin sú leið að ýta þessu eitthvað af stað. Shit marr.

Ætli sé ekki best að nýta biðtímann í próflestur því helgin er meira svona óráðin.

föstudagur, mars 13, 2009

Friday the 13th

Þetta væri aldeilis fæðingardagur, ef menn væru nú einu sinni on-time. Varla samt, menn mættu seint í fyrsta skiptið og seint í annað skiptið, hið þriðja verður það sennilega líka.

mánudagur, mars 09, 2009

Afrakstur

Mér telst svo til að þetta hafi verið tæpur mánuður sem maður rakaði sig ekki. Ekki svona á hefðbundinn máta það er. Maður gat nú ekki beilað á þessari mottuvitleysu í vinnunni eins og ég fjallaði um hérna á þessum miðli ekki alls fyrir löngu. Ekki gat maður hins vegar látið sjá sig með hormottuhýjung í nokkrar vikur eins og trefill og ég tók því þann pólinn á þetta að láta þetta bara vaxa svona heilt yfir. Eins heilt yfir og hægt var en vitaskuld snyrti ég þetta aðeins til, svæðið yfir kinnarnar t.d. er frekar eyðimerkurlegt svona frá náttúrunnar hendi. Svona er ég sem sagt búinn að vera síðustu vikur:Þetta vandist nú þokkalega en reyndar var ég orðinn frekar þeyttur undir lokin á þessu, klæjaði oft og iðulega í þetta ásamt því að þetta var bara vesen að halda þessu þokkalega snyrtilegu. Þetta fékk sem sagt að fjúka á laugardaginn enda var árshátið samsteypunnar þann dag. Var reyndar að spá í að græja mottuna á föstudeginum en ákvað að bíða með það, svona ef maður ætlaði að láta sjá sig meðal fólks fyrirpart laugardagsins. Notaði reyndar tækifærið og prófaði nokkrar útfærslur svona í afrakstursferlinu, fyrst maður var á annað borð með andlitið fullt af hárum.Kleinuhringurinn eða aparassinn skilst mér að þetta sé kallað en þessi útfærsla var frekar vinsæl meðal samstarfsmanna minna í ferlinu. Ég nennti nú ekki alveg að vera eins og allir hinir og tók frekar ákvörðun um að vera eins og á fyrstu myndinni og hefur verið rætt um.Ég kýs að kalla þessa útfærslu „Günther“ en hérna vantar eingöngu flennistór RayBan gleraugu og leðurhatt með deri, þá væri maður klárlega good-to-go. Þegar hér var komið við sögu var lítið orðið eftir annað en að græja þessa blessuðu hormottu eins og hún átti að birtast öðrum árshátíðargestum.Þetta er vitaskuld algjör viðbjóður, eða horbjóður öllu heldur og ég gerði mér full grein fyrir því að þátttaka mín á þessari árshátið yrði ekki falleg. Það var samt ekki annað hægt en að láta sig hafa það, mæta á svæðið og reyna að gera gott úr þessu. Ég þakkaði æðri máttarvöldum fyrir það að hafa ekki græjað þetta kvöldið áður því göngutúrinn á laugardeginum hefði verið hræðilegur svona útlítandi. Ég passaði mig til að mynda á því að ég rækist ekki á einhverja íbúa í stigagangnum á leiðinni út. Á árshátíðinni sjálfri hafði einhver fékk þá flugu í höfuðið að verðlauna fyrir bestu mottuna. Kom það í hlut þess sem þetta ritar að fara upp á svið og taka við verðlaununum. Reyndar hvíslaði formaður dómnefndar þess að mér þegar ég veitti verðlaununum viðtökur að ég hefði nú sennilega ekki verið með fallegasta skeggið (enda sumir þarna sem höfðu tekið þetta alla leið og farið í litun og plokkun) en ég var klárlega perralegastur. Þannig að verðlaunin voru mín.Eitthvað var verið að ýja að því að sigurvegarinn þyrfti nú að skarta herlegheitunum eitthvað fram í næstu viku en ég hlustaði ekki á svoleiðis. Eftir að ég kom heim og áður en ég skreið upp í rúm fór rakvélin á loft og kláraði verkið. Ég lít svo á að ég hafi hætt á toppnum.

föstudagur, mars 06, 2009

Heilsuátak

Er í heilsuátaki í vinnunni en í vinnunni er líkamsræktaraðstaða sem menn hafa verið að reyna að nota með svona la-la árangri. Þetta átak byrjaði fyrir rúmum mánuði síðan með ítarlegu mati á karlinum og svo verður tekið tjékk einu sinni í mánuði fram í maí held ég. Tjékkið fer svona fram: Fyrst er stigið á vigt og farið í allan sannleikinn um einhverja niðurstöðutölu í þeim efnum. Fitumælt og helstu mál tekin, brjóstkassi, bumba, spenntur upphandlegsvöðvi og eitthvað í þeim dúr. Síðan eru armbeygjur teknar í eina mínútu áður en endað er á 5 mínútna hjólreiðartúr. Allt skráð niður af viðurkenndum einkaþjálfara sem heldur um bókhaldið.

Ég var sem sagt í fyrsta tjékki í gær og auðvitað vonaði maður að maður hefði eitthvað náð að laga hjá sér tölurnar eftir þennan mánuð. Heilt yfir nokkuð sáttur, kominn úr einhverjum 92,3 kílóum niður í 89,3 en takmarkið var að komast niður fyrir 90 kílóa múrinn í fyrstu hrinu. Ok, ekkert gríðarlegt takmark kannski en eins og flest annað í lífinu þá er þetta langhlaup en ekki spretthlaup. Fituprósentan leit betur út, armbeygjurnar gengu betur o.s.frv. Þá var komið að hjólinu. Vitaskuld þegar hér var komið voru menn ákveðnir í að ná betri árangri þar líka. 5 mínútum síðar og rúmum 4,7 kílómetrum, sem var bæting, kom ég í „mark“ og hafði bara tekið þetta á jöfnum en ákveðnum hraða. Fann þegar ég steig niður af hjólinu að kannski hafði keppnisskapið eitthvað hlaupið (hjólað) með mig í gönur. Lappirnar nötruðu allar en ég náði að setjast á næsta bekk áður en ég hreinlega hrundi í gólfið. Þjálfi hæstánægður með þetta og sagði að ég ætti núna bara að vera grimmur og stefna á 5 kílómetra í næsta tjékki. Ég reyndi að brosa út í annað en fann að ég varð að komast inn í klefa. Lappirnar voru smástund að kaupa þá hugmynd að hreyfa sig meira en það tókst á endanum og ég náði að halda kúlinu gagnvart þjálfaranum þangað til ég var horfinn inn í klefa. Þegar þangað var komið inn fannst mér allt vera á fleygiferð og ég fann hvernig blóðbragðið fyllti munninn. Komst í sturtu en rétt náði að skola það helsta af mér en þá fannst mér ég vera að líða út af. Náði að komst að næsta klósetti og settist þar til að þurrka mér. Eftir smá setu þar var ekkert annað en að koma sér í fötin og koma sér út. Kláraði síðasta hálftímann af vinnudeginum helfölur og hóstandi. Var í raun ekki orðinn þokkalegur fyrr en um kvöldmatarleytið heima.

Nú er ég sem sagt í vondum málum með því að hafa keyrt mig svona út, það stefnir í að næsta tjékk verði tóm vonbrigði. Mér er alla vega strax farið að kvíða fyrir hjólinu.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Ekki eftir neinu að bíða ... en bíðum samt aðeins


Búið að grafa upp eitthvað sambland af lagernum og henda í vél. Þýðir víst ekkert annað en að hafa þetta að mestu leyti hlutlaust, hvítt, röndótt og doppótt enda ekki búið að kíkja í pakkann. Það hlýtur þá að vera næsta skref að henda einhverju í tösku og halda svo áfram að bíða.