miðvikudagur, nóvember 24, 2010

Ekkert bleikt?

Án þess að vera að henda neinum sprengjum hérna þá held að við hjónaleysin séum komin á þá skoðun að nú skuli látið gott heita hvað barneignir varðar. Ég veit að maður á aldrei að segja aldrei, ég hef alveg nærtækt dæmi um fólk sem tók upp á því á seinni ferilstigum að auka við barnafjölda sinn án þess þó að ég muni hvort einhverjar yfirlýsingar um að nú væri komið gott hafi fengið að fjúka áður en síðasta eintakið lét sjá sig. Ég er kannski ekki alveg marktækur því mig minnir að ég hafi verið hættur fyrir daga Daða Steins, eins gott að ég er ekki staðfastari en svo. Það er þá ekkert víst að maður sé hættur, hvað veit maður.

Ég fékk reyndar oft það komment þegar konan var ólétt af Daða hvort við værum að „reyna við stelpuna.“ Ég hef nú aldrei skilið það þegar fólk ætlar að skella í einn grísling enn og ætlast til að það sé annað hvort kynið, hvort ástæðan sé að jafna einhver kynjahlutföll eða einhver önnur. Hvað gerir maður svo þegar „vitlaust kyn“ kemur úr pakkanum? Verður ógeðslega fúll og reynir aftur? Og aftur? Fyrir mitt leyti var tekin sú ákvörðun að það skipti ekki öllu máli hvort Wíum III myndi pissa standandi eða sitjandi (reyndar segir Jóhanna systir að allir eigi að pissa sitjandi). Þegar svo Daði Steinn kom í ljós og dró andann þá skipti meira máli hvort það væru 10 tær og 10 fingur, ekki hvort hann væri með félaga eður ei. Góðu fréttirnar við það að Daði Steinn var strákur voru kannski þær að maður þekkti betur inn á gauragenið, einhvern tímann hef ég talað um hvað ég verð týndur í Hello Kitty rekkanum í Toys"R"Us.

En ef hann hefði verið stelpa þá hefði það samt ekki orðið neitt mál. Ég hefði klárlega getað farið þarna út og verslað í bleiku deildinni í einhverjum sjoppum. Litla daman sem Logi Snær spilaði við síðasta sumar sýndi vel fram á það. Meira að segja legghlífarnar voru bleikar.

föstudagur, nóvember 19, 2010

Græjufikt

Smá tilraunastarfsemi framundan. Reyndar bara leigt en ekki keypt.

laugardagur, nóvember 13, 2010

A la Gunni


Barcelona - Villareal og Juventus - AS Roma á laugardagskvöldi þegar lítið annað er að gera og aldrei þessu vant tiltölulega rólegt í stofunni. Þá er bara að taka Gunna á þetta.

föstudagur, nóvember 12, 2010

Í vandræðum með sambandið

Einhver verktakasnillingur á vegum borgarinnar sem var að grafa hérna í hverfinu tók upp á því að slíta í sundur ljósleiðarann núna á þriðjudaginn síðasta. Það þýðir einfaldlega fyrir okkur ekkert sjónvarp, ekkert internet og enginn heimasími. Það sem þetta gerðist síðla dags þá var víst ekki hægt að fara í neinar lagfæringar fyrr en daginn eftir.

Ég man aðeins eftir sjónvarpslausum fimmtudögum en get því miður ekki sagt að ég munu eftir sjónvarpslausum júlí. Þetta þriðjudagskvöld var því ekki fjarri lagi, ansi róleg stemming þar sem tölvuna virkaði á mann sem ansi hreint aumingjalegri græja svona netlaus og svarti skjárinn á sjónvarpinu var hálffurðulegur svona á þriðjudagskvöldi. Ég tók þetta nú ekki alla leið og kveikti á kertum og ráfaði um á náttbuxum en maður reyndi að anda með nefinu og missi sig ekki í einhverja sjálfsvorkunn. Það var óneitanlega rólegri stemming á heimilinu, er ekki frá því að kvöldlesturinn fyrir Loga Snæ hafi verið afslappaðri en oft áður.

Hlutirnir duttu reyndar ekki inn fyrr en um sex-leytið í miðvikudagskvöldinu og þrátt fyrir alla þessa yfirlýstu afslöppun frá því kvöldinu áður þá var ég mjög feginn, maður ætlaði sko ekki að missa af Man City - Man Utd í kassanum. En eftir að hafa eytt 90+ mínútur í það hálfdapra markalausa jafntefli þá hefði kannski verið nær að hafa dautt á draslinu og lesa meira af ævintýrum Bangsímons í staðinn.

fimmtudagur, nóvember 11, 2010

Ljósið í myrkrinu

Við feðgarnir höfum verið nokkuð duglegir að fylgjast með ÍR í körfunni þetta haustið. Maður tók þetta í raun alla leið og er ársmiðahafi nr. 005 í vetur. Árangurinn hefur þó verið frekar dapur þar sem af er, aðeins einn sigur í sex leikjum. Við fórum út á Ásvelli í kvöld og sáum okkar menn etja kappi við Hauka og eftir jafnan leik misstu gestirnir svolítið hausinn og töpuðu með sex stigum.

Á milli 3. og 4. leikhluta leiksins buðu heimamenn hinsvegar upp á skotleik þar sem tveimur körfuboltum var kastað upp í stúkuna, einum Hauka-megin og hinum ÍR-megin. Pallarnir voru nú svo sem ekkert þéttsettnir og með herkjum náði Ísak Máni að góma boltann sem flaug upp í stúkuna til okkar. Skotleikurinn var einfaldur, ein þriggja stiga skottilraun á hvorn, á hefðbundnum fullvaxta körfuknattleiksvelli, og ef hún rataði niður fékk sá hinn sami 5.000 kr inneign í stærstu matvöruverslun Hafnarfjarðar. Stuðningsmaður Haukanna, ungur maður á þrítugsaldri, reið á vaðið en náði ekki að hitta. Ísak Máni steig þá upp og gerði sér lítið fyrir og setti blöðruna niður og uppskar mikið lófaklapp... að mig minnir, ég stökk a.m.k. upp úr sætinu.

Það voru frekar hnipnir ÍR-ingar sem röltu niður af pöllunum eftir leikinn en einn klappaði Ísaki Mána þó á öxlina og sagði: „Jæja, þú ert ljósið í myrkrinu eftir þennan leik.“

Það var smápæling ef þetta hefði nú verið í úrslitakeppninni og skotið hefði gefið flug fyrir tvo til Evrópu eins og var síðasta vetur. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr því, kúl var þetta.

miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Tannlæknadraumurinn

Ólíkt sem sumir gætu haldið þá er þetta ekki endurskrifuð saga úr Rauðu seríunni heldur raunverulegur draumur sem mig dreymdi og ætti ekkert erindi í Rauðu seríuna. Draumar eru athyglisverðir, að minnsta kosti mínir. Mér finnst reyndar miður þær staðreyndir að mér dreymir frekar sjaldan og svo hitt að ég gleymi þeim nánast alveg um leið og ég opna augun. Ég man nú þennan ekki alveg niður í þaula en svona meginþemað situr í kollinum á mér og mér finnst það vera algjör steypa. Sem er gaman.

Í draumnum fór ég til tannlæknis upp í Mosó. Staðreynd sem kemur kannski ekkert á óvart þar sem gamli tannsinn minn var einmitt staðsettur í því bæjarfélagi. Þegar þangað var komið reyndist tannlæknirinn vera Guðjón Þórðarson, knattspyrnuþjálfari með meiru. Ekki leist honum á ástandið á kjaftinum á mér og tilkynnti mér að þetta yrðu nokkrar heimsóknir sem ég þyrfti að kíkja til hans og í þokkalegustu meðferð. Ég fer heim að þessu loknu og um kvöldið er komin reikningur í heimabankann minn upp á 390.000 kr. Mér líst ekkert á þetta og fer aftur til hans daginn eftir til að fá nánari útlistun á þessari meðferð. Þegar þangað er komið er sonur hans þarna líka, Þórður, sem er einnig þekktur fyrir knattspyrnuiðkun sína og ég varð svo frægur á sjá í Derby-treyju á Old Trafford um árið. Sem er önnur saga. Guðjón tjáir mér að tennurnar mínar þjáist af einhverju sem hann kallar „halla“ og Þórður kíkir upp í mig líka og tekur undir með karlinum. Held að sonurinn hafi nú ekki verið tannlæknamenntaður líka en ástæðan fyrir því að hann þekkti þetta var sú að hann hafi þjáðst af þessum sama tannkvilla á sínum yngri árum. Ég fer eitthvað að forvitnast um þennan kostnað hjá Guðjóni og þá er mér tjáð að þessi 390.000 kr reikningur hafi eingöngu verið fyrsti af nokkrum en heildarkostnaðurinn við að laga svona „tannhalla“ sé 1.400.000 kr. Því miður fer núna að fjara út af góðri sögu því það eina sem ég man af endirnum er að ég er eitthvað að vandræðast við að fá álit annars tannlæknis.

Svona getur maður verið klikkaður.