þriðjudagur, apríl 17, 2018

Ameríska ævintýrið

Á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að fara með fjölskylduna í páskaferð til Flórída á þessu ári.  Við vorum búin að hugsa þetta aðeins, okkur langaði að gera eitthvað sérstakt þar sem Logi Snær var að fara fermast og Ísak Máni að útskrifast úr Kvennó.  Ferð á hefðbundnum sumarleyfistíma var ekki í myndinni þar sem Ísak Máni er kominn á þann stað að þurfa að vinna á sumrin og 2-3 vikna leyfi í júní/júlí er ekki í boði.  Þannig að að páskarnir urðu niðurstaðan.

Eftir að hafa skoðað þetta var planið sett á 14 daga ferð (12 dagar ef við drögum frá báða ferðadagana) og að við færum vikunni fyrir páska, út 18. mars en tilbaka 31.  Að komast á NBA leik var eitt af stóru málunum og þegar leikjaplanið kom út var ljóst að Miami átti heimaleik við Cleveland á þessu tíma þá var það nánast bara merki um að kýla þetta í gang.  Byrjað var að fjárfesta í flugi með WOW til Miami og bílaleigubíl.  Nennti engu rugli með bílamál og tók því stærsta kvikindið sem ég gat fengið.  Ljóst að ferðalagið frá Miami upp til Orlando þar sem við ætluðum að vera var góðir 4 klst með stoppi og við vorum að lenda í Miami seint um kvöldið þá ákvað ég að taka tvær fyrstu næturnar á hóteli í Miami.  Sem eftir að hyggja var sterkur leikur, við náðum því einum heilum dag í Miami áður en við rúlluðum upp til Orlando.  Við notuðum Miamidaginn í að fara í dýragarðinn þar ásamt því að chilla við sundlaugarbakkann á hótelinu okkar, sem var mjög ljúft.

Útsýnið af sundlaugarbakkanum í Miami var ekki slæmt

Fórum svo upp til Orlando, eða Kissimme nánar tiltekið þar sem við höfðum leigt okkur hús þær 11 nætur sem eftir voru.  Við vorum með hús í Crystal Cove resortinu, í því voru 3 herbergi sem rúmaði okkur mjög vel.  Lítil sundlaug í garðinum sem var reyndar óupphituð en þeir allra hörðustu létu sig hafa það þegar það hentaði.  Hitastigið var fínt, 20°C+ stig og náðist mest upp í 30°C.  Lítið klúbbhús var á svæðinu, með stærri sundlaug, smá líkamsrækt, poolborði og fótboltaspil o.s.frv.  Við notuðum það nú ekki mikið en aðeins þó.

Blue Diamond Street í Kissemme - Verður ekki amerískara

Harry Potter kastalinn í Universal
Byrjuðum á alvöru látum, fórum í Universal Studios garðinn, sem samanstóð af rússíbönum og Universal kvikmyndatengdum upplifunum.  Rosalega gaman en að sama skapi rosalega dýr pakki.
Þegar þessi hugmynd um þessa ferð var að fæðast og ég var að versla miðana á Miami - Cleveland sá ég að nokkrum dögum áður yrðu mínir menn í 76ers að spila við Orlando Magic þannig að það var ekki annað hægt en að hjóla í þá líka.  Leikirnir á NBA leiki urðu því tveir, fyrst fórum við á Orlando Magic - Philadelpia 76ers og sáum þar mína menn sigla heim þægilegum 118-98 sigri.  Það kom mér rosalega á óvart hvað það voru margir áhorfendur á bandi útiliðsins, ég held svei mér að það hafi örugglega verið meirihlutinn á bandi þeirra, a.m.k. miðað við þá sem voru fötum merktum liðunum (ég klikkaði á Sixers outfitnum, það gerist ekki aftur).  Reyndar getur þetta Orlando lið ekki neitt og stemmingin eftir því var ekki góð hvað þá varðar.  Frekar erfiður dagur á skrifstofunni hjá peppliðinu, dönsurunum og því fólki.  En ég var ánægður að sjá Embiid, Simmons og þá karla, þetta var eitthvað sem ég væri til í aftur.  Það vildi svo skemmtilega til að þetta var hluti af 16 síðustu leikjum Sixers á regular season sem allir unnust og með því settu þeir félagsmet, sem er gaman að hafa tæknilega orðið vitni af.
Síðar í ferðinni fórum við á hinn leikinn, Miami Heat - Cleveland Cavaliers, en drengirnir mínir voru spenntir í að sjá Kónginn sjálfan, Lebron James.  Það var lagt á sig talsvert ferðalag fyrir það, þessi rúmlega 4 tíma bíltúr á leikinn í Miami og svo sami rúntur til baka eftir leikinn, menn voru því talsvert þreyttir þegar við skriðum heim um kl 03:00 um nóttina.  Því miður fyrir okkur hittum við á algjöran off-leik hjá Cavs og Miami vann þægilegan 98-79 sigur.  Smá skellur en aldrei neitt öruggt í þessum íþróttaleikjabrölti, en þetta varð eini tapleikur Cavs í 11 leikja hrinu og það minnsta sem þeir skoruðu á regluar seasoninu.  En stemmingin í húsinu var þó talsvert meiri heldur en í Orlando og sú upplifun því svakalegri.
Magic - 76ers
Við tókum tvo daga fyrir Seaworld, einn í Aquatica vatnsgarðinn þeirra og annan í rússibanahlutann.  Sá var á margan hátt meira value-for-money miðað við Universal.  Að öðru leyti fórum við eitthvað að versla, þó ekkert rosalega, kíktum á einn trampolíngarð og svona almennt chill.

Heilt yfir frábær ferð, margt sem maður fékk meira en í þeim Spánarferðum sem við höfum farið.  Auðvitað talsverðar mínútur sem maður eyddi í akstur, í heild voru þetta um 2.000 km sem við keyrðum í ferðinni.  En ég er klár í að endurtaka þetta við tækifæri.

Chillað í heimilislauginni

Fyrir utan Miami höllina - Go Cavs


Mættur að sjá Guðinn

Við M&M búðina í The Florida Mall

Enduðum ferðina á Seaworld - menn rússibönuðust í góða 6 tíma