föstudagur, ágúst 31, 2018

Blautt var það


Þetta var svolítið svona í sumar.  Eiginlega ekki bara svolítið heldur meira svona fullmikið.  Að minnsta kosti hérna á þessu blessaða Suð-Vesturhorni, íbúar Austurlands fengu þó betri tíð.  Hérna rigndi í einhverju formi hvern einasta dag í maí.  Júní og júlí voru blautir og framan af ágúst ekkert sérstakt, slapp nú til seinni parturinn.  Sökum þess að við fórum með allan mannskapinn til Bandaríkjanna um páskana þá samþykkti buddan lítið annað en að veðja á það að taka sumarið hérna heima og vonast til að geta verið á pallinum í góðum gír.  Það var þá árið til að gera það.  Grillið var minna snert en áður og trampólínið, þetta nýja, það hefði líklega verið hægt að spara sér samsetninguna á því þetta árið.

sunnudagur, ágúst 19, 2018

Reykjavíkurmaraþon í 35. skipti - en mitt fyrsta skipti

Reykjavíkurmaraþonið var haldið núna í 35. skiptið í gær.  Við skulum alveg vera róleg, ég var ekkert að henda mér í einhverja 42 km á hlaupaskónum.  Ekki einu sinni í hálft maraþon ef út í það er farið en ég ákvað að henda mér í 10 km.  Ég hef stundum hugsað þetta, að það væri nú gaman að taka þátt einhverntímann en hingað til hafði það aldrei orðið raunin.  Reyndar var þetta eiginlega allt Jóhönnu að kenna, einhverntímann á síðasta ári var hún farin að væla í mér að þetta væri bara áskorun sem við ætluðum að taka, að fara 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu núna í sumar.  Ég hef ekki verið neinn hlaupari í gegnum tíðina, djöflast á hlaupabrettinu svona með reglulegu millibili en lítið annað.  Man eftir að hafa skokkað nokkrum sinnum með Villa í Grundarfirði þegar hann var ágætlega öflugur í þessu, fyrir einhverjum áratugum og í minningunni tók ég einu sinni þátt í Norræna skólahlaupinu í grunnskólanum í Grundarfirði og fór 10 km en þeir voru að stórum hluta labbaðir.  Þannig að ætla að hlaupa 10 km var tiltölulega nýtt fyrir mér.

Allavega, í einhverju stundarbrjálæði þá borgaði ég þátttökugjaldið í þetta 10 km hlaup bara nánast um leið og það opnaði fyrir skráningar, snemma í janúar og spáði svo lítið í það í sjálfu sér.  Hugsaði þetta þannig að það væri best að hugsa sem minnst um þetta, bara skrá sig og svo áfram gakk.  En þann 13. apríl, sem er auðvelt að muna af því það er afmælisdagurinn hennar mömmu, þá stóð ég upp úr sófanum og reimaði á mig skóna.  Ókey, þetta var nú kannski ekki alveg svona dramantískt en 13. apríl var það samt sem ég fór að hreyfa mig, eftir meira og minna algjört hreyfingarleysi vikurnar á undan.   Downloadaði einhverju Home Workout appi og byrjaði, aðallega bara til að koma mér í gang.  Tók lítinn Seljahverfishring á degi tvo og hélt þessu ferli gangandi.  Ákvað að það væri algjörlega nauðsynlega að skrá alla hreyfingu og bjó mér til svona lítið bókhald til að halda mér við efnið, sem virkaði mjög vel.  Reyndi að blanda saman svona skokki, smá lyftingum, hjólreiðum og fór meira að segja nokkrum sinnum í sund, til að synda.
Ég ákvað að taka þá nálgun á þetta að ég ætlaði ekki að vera búinn að hlaupa 10 km fyrir þetta maraþon, heldur ætlaði ég bara að vinna með styttri vegalengdir og sigrast svo á þessum múr í hlaupinu sjálfu.  Skokkaði mikið svokallaðan stóra Seljahverfishring, sem er rétt tæpur 5 km, ásamt því að skokka aðrar leiðir hérna í hringum Kögurselið en fór lengst tæpa 9 km.  Fyrir mér var augljóst markmið að komast þetta á undir 1 klst, algjörlega borðleggjandi.  Þegar nær dró þá var það ljóst, ef allt gengi samkvæmt plani, þá myndi það hafast en auðvitað var maður með smá hnút yfir þessu, hafði aldrei hlaupið í svona dæmi áður, mikið af fólki og ég var skíthræddur við að sprengja mig á þessu, í allri stemmingunni.  Ljóst var að Jóhanna hafði önnur markmið heldur en ég, hún reiknaði með að vera lengur að þessu.  En við hittumst fyrir hlaupið og ákváðum að fara saman af stað.  Staðsettum okkur svona við 55-60 mínútna hópinn í startinu og veðrið var algjörlega frábært, helst að maður hefði áhyggjur að það yrði hreinlega of heitt.  Leiðir okkar Jóhönnu skildu strax í upphafi og mér til andlegrar styrkingar þá var ég að hlaupa hraðar en fólkið í kringum mig.  Ég var því aðallega í því að taka fram úr fólki fyrsta hlutann sem var á margan hátt gott en eftir að hyggja hefði ég líklega átt að planta mér framar í upphafi.

Mættur í mark
Það verður að segjast að mér leið nokkuð vel í hlaupinu, fylgdist ágætlega með pace-inu og þetta gekk vel.  Ég hélt að ég væri kominn í vesen þegar úrið sýndi að ég væri búinn að hlaupa í einhverjar 51-52 mínútur en þá fannst mér að ég ætti talsverða vegalengd eftir enn.  Það slapp nú alveg til, ég fékk brautartímann 1 klst og 1 mínúta held ég, en flögutíminn minn (frá því að ég fór formlega yfir startlínuna og að endalínu) var 56:57, sem ég var helsáttur með.  Jóhanna náði þessu á tæpri 1 klst og 30 mín.

Spurning hvað maður gerir á næsta ári.

fimmtudagur, ágúst 09, 2018

624-6776

Þá er litli grís hinn síðasti búinn að símavæðast.  Reyndar hefur hann nú verið að dandalast með eitthvað snjalltæki hérna heima við, en í dag fékk hann sitt eigið símanúmer.  Ekki þótt það gáfulegt að smella því símkorti í snjalltækið þannig að það var brugðið á það ráð að versla ódýrt símtæki handa honum.  Fyrir valinu varð Nokia 3310, sem gekk í endurnýjun lífdaga fyrir stuttu síðan og kemur nú með einhverjum meiri fítusum heldur en hérna í den en er áfram old school takkasími.

OK, Ísak var 12 ára, í 7. bekk þegar hann fékk sinn fyrsta síma og Logi Snær var 9 ára, fékk hann í lok sumars áður en hann fór í 4. bekk.  Daði Steinn fékk þó ekki símann þegar hann var 6 ára, eins og ég var farinn að geta mér til um miðað við framþróunina á milli hinna drengjanna en var s.s. á pari við Loga, 9 ára og á leiðinni í 4. bekk.

Þannig týnist tíminn.