miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Hreyfingarskýrsla febrúarmánaðar

15 dagar í rækt eða bolta af þessum 28 sem í boði eru í febrúar. Þokkalegt held ég, sérstaklega í ljósi þess að fyrsta vikan fór meira og minna í veikindi. Ég vona að þolið sé eitthvað að aukast, ekki minnkar bumban neitt. Það er ljóst að eitthvað verð ég að vera grimmari við mig í átinu. Hef samt ákveðið að fara engar offarir í þessum málum en minnkun á gosdrykkju hefur gengið nokkuð vel. Spurning um að hafa næsta skref að minnka át eftir klukkan 20 á kvöldin og sjá hvað það gerir fyrir sál og líkama. Svo er ekkert annað að gera en að halda áfram í mars.

Ítalski boltinn

Nenni varla að skrifa um þetta. Var að gorta mig hérna um árið þegar Roma sló eitthvað skítamet í ítölsku deildinni með því að vinna einhverja 11 leiki í röð sem mér þótti heavy merkilegt. Inter tók þetta met og pakkaði því saman. Þeir voru að gera jafntefli við Udinese núna rétt áðan og því endaði sigurleikjahrina þeirra eftir 17 sigra í röð.

Toppurinn

Sigga er búin að toppa mig. Ég get ómögulega séð hvernig ég get komið til baka og toppað hana á móti. Að komast á mynd á forsíðu heimasíðu knattspyrnufélagsins Vals er bara eitthvað sem mér dreymir um en Sigga einfaldlega framkvæmdi.

Klikkið HÉR til að sjá þetta og svo á myndina til að fá hana stærri.

Hvað get ég gert? Spilað eins og engill með UMFG í bikarkeppni KSÍ sem nær sínum besta árangri í sumar og verð svo seldur til Old Boys liðs Vals fyrir háar fjárhæðir.

Arrggg...

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Eigðu afganginn

Mér finnst alltaf gott þegar fólki gengur vel í lífinu, hvort sem það er fjárhagslega, líkamlega, andlega eða á einhverjum öðrum sviðum. Það hlýtur að vera gott ef fólki gengur vel, því ef mönnum gengur vel þá ætti þeim að líða vel og ég vil endilega að öllum líði vel.

En það er bara samt stundum sem ég stend á gati. Fréttir bárust af því í morgun að forstjóri eins banka hér í bæ hafi grætt tæpar 400 milljónir á einu bretti með því að nýta sér svokallaðan kaupréttarsamning. Hann kaupir hluta í bankanum á rúmlega 40 millur sem hann selur svo aftur og fær fyrir það rúmlega 420 millur. Gróði upp á 380 millur. Hvað ætli þetta hafi tekið langan tíma? Korter?

Ég skil þetta alveg en samt stend ég á gati. Er ekki nóg að borga þessum mönnum einhverja fleiri tugi milljóna í árslaun? Er nauðsynlegt að gefa þeim svona smá extra fríðindi? Fást annars engir hæfir menn til að stýra bönkunum?

Spyr sá sem ekki veit.

Á ég svo bara að taka þá staðreynd í ósmurðan afturendann að ef ég vil taka 15 milljónir í lán til að kaupa mér nýtt hús þá verð ég búinn að borga einhverjar 60-70 milljónir í bankann aftur þegar ég verð búinn að borga lánið?

Stundum líður mér eins og asna.

Aðallega af Ísaki Mána

Best að henda inn nokkrum línum, smettið á minni ástkæru systir þegar maður villist hérna inn er orðið hálfþreytt.

Ekki laust við að það sé smá spennufall hérna eftir helgina. Ísak Máni var að taka þátt í fótboltamót í Austurbergi núna á sunnudeginum sem ÍR hélt. Með mömmu hans í foreldraráði og pabba hans sem formann, ritara og stjórnarmann í mótsnefnd þá var í nógu að snúast á þessu heimili. Ég er búinn að eyða einhverjum tíma sl. tvær vikur í að hafa samband við þjálfara hinna ýmsu liða til að fá þá á svæðið, gera leikjaplan o.s.frv. Svo kom mótsdagurinn og allt gekk eins og vel smurð vél og formaðurinn, ritarinn og stjórnarmaðurinn fór í enn eitt kvikindalíkið og gerðist tímavörður, á tveimur völlum í einu í rúma 4 tíma. Ekki slæmt hjá kallinum.

Ísak Máni var í B-liðinu sem stóðu sig vel, 5 sigurleikir í 6 leikjum var flottur árangur, aðeins minnsta mögulegt tap á móti Val sem kom í veg fyrir 100% árangur. En gleðin var þó fyrir mestu og ég held að flestir hafi gengið sáttir frá borði. Það var svo ekki slæmt að taka á móti viðurkenningu í lokin úr hendi mömmu sinnar.



Annars er Ísak Máni farinn að læðast á handboltaæfingar, þ.e. þá daga sem hann er ekki á fótbolta- eða sundæfingum. Ég veit, þetta er náttúrlega bilun en á meðan hann vill þetta sjálfur þá viljum við ekki standa í vegi fyrir honum. Þetta eru svo ekki neitt djúpstæðar handboltaæfingar fyrir þennan aldur, meira svona skotbolti og þessháttar. Eitthvað hefur maður heyrt þó af því að það styttist í mót fyrir þessa maura, það verður án efa skrautlegt. Spurning hvort maður sér 0:0 úrslit í einhverjum leikjum?

Vantar nokkuð reynslubolta á klukkuna?

föstudagur, febrúar 23, 2007

Meira af afmælum

Jóhanna systir er alveg að verða ÞRÍTUG, eftir 365 daga eða svo. En í dag getur hún haldið upp á síðasta tuttuguogeitthvað afmælið sitt. Enjoy!

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Logi Snær 3ja ára í dag

Litli grís er 3ja ára í dag. Magnað.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Lyklabarn

Stundum gera börnin einhverja tóma gloríur sem eru síðan fyndnar... eftir á! Fimmtudagurinn byrjaði eins og flestir aðrir virkir dagar, fjölskyldumeðlimirnir skriðu á fætur og gerðu sig tilbúna fyrir daginn. Breiðholtsskólatvennann fór á undan út úr húsi og við Logi Snær gerðum okkur klára fyrir leikskólann. Þetta var orðið bara spurning um hefðbundnu fernuna áður en við fórum út: Veskið, símann, húslyklana og bíllykilinn. Já, já, já, ...... Hvar var helvítis bíllykillinn? Hann var pottþétt ekki í neinum vasanna af þeim lufsum sem ég stóð í. Ekki í skálinni á kommóðunni og ekki á eldhúsborðinu. Ekki í neinum öðrum flíspeysu- eða jakkavasa inni í útifataskáp.

Hummm.

Ekki inni á borðstofuborðinu og ekki á sófaborðinu. Ekki í sófanum. Ekki inni á klósetti og ekki inni í hjónaleysisherberginu.

Lít á klukkuna. Fer annan hring á alla þessa staði. Ekkert.

Lít aftur á klukkuna. Fæ nettan kvíðahnút. Þetta hefur gerst áður en alltaf hef ég grísað á að finna lykilinn. Af hverju er ekki hægt að hringja í lykilinn? Fer þriðja hringinn á alla þessa staði, núna mun hraðar og með meiri stresstilburðum en áður. Ekkert. Logi stendur kappklæddur inn í forstofu, enda vorum við nánast á leiðinni út um dyrnar. Hann fer að kvarta yfir hita. Mér er líka orðið heitt, öðruvísi heitt.

Tek ákvörðun um framhaldið. Tek Loga undir hendina og skokka með hann út á leikskóla. Tek síðan stefnuna á Breiðholtsskóla þar sem konan fór á fjölskyldubílnum. Finn bílinn á bílastæðinu og fer á honum í vinnuna. Finn aukalykilinn af vinnubílnum niðri í vinnu og fer aftur með fjölskyldubílinn á bílastæði Breiðholtsskóla og hleyp heim til að ná í vinnubílinn.

Dagurinn líður og ég passa bíllykilinn alveg extra vel. Heyrði síðan í konunni sem var fljót að kveikja á perunni. "Var Logi Snær ekki að troða lyklinum inn í stóru gröfuna sína í gær?" Þá kveikti ég á perunni, mín virkar greinilega aðeins seinna en pera konunnar. Ég hafði meira að segja verið að aðstoða hann við þessa iðju kvöldinu áður. Þegar ég kom heim þá fór ég beint að stóru gröfunni hans Loga og dró bíllykilinn góða úr henni.

Lærdómur af þessari sögu: Það er gott að búa í Neðra-Breiðholti þar sem allt er í göngufæri.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Drátturinn

Staður: Grundarfjarðarvöllur
Stund: Föstudagur 11. maí 2007 kl. 20:00

Hvað er ég að tala um?

Visa-bikarkeppni KSÍ: Grundarfjörður - Höfrungur

Fyrir þá sem eru ekki að kveikja þá fengum við strákarnir í hinu geysiskemmtilega og fallega utandeildarknattspyrnuliði sem gengur undir nafninu Vatnsberar að skrá okkur í bikarkeppnina undir merkjum Ungmennafélags Grundarfjarðar.

Eftir því sem við komumst næst er þetta lið frá Þingeyri og þökkum við guði fyrir heimaleikinn. 2ja tíma rúntur í fjörðinn fallega og í mat til mömmu í leiðinni hljómar betur en hálfsdagsferðalag vestur á firði og svefnpokapláss hjá Jóhönnu systir.

Dráttinn má sjá hér. Frekar óþægilegt að sjá framhaldið, þ.e. ef við vinnum þetta lið þá fáum við nágranna okkar frá Stykkishólmi og ef kraftaverkin myndu gerast þá fengjum við leik við Aftureldingu á þeirra heimavelli í Mosó.

Hvað segja kempurnar alltaf í sjónvarpinu: "Við tökum bara einn leik fyrir í einu."

mánudagur, febrúar 12, 2007

Þegar ég æfði fótbolta með KR

Ég get ekki neitað því að þegar ég villtist inn á blogg eins af þekktari bloggurum landsins og uppgötvaði að ég var að lesa um mig þá fór um mig nett furðutilfinning, varð reyndar að kjánahrolli þegar ég uppgötvaði hvað hann var að skrifa um.

Þessi drengur er reyndar gamall bekkjarfélagi úr Melaskólanum og verður að teljast þokkalega þekktur í okkar litla samfélagi fyrir hin ýmsu verk. Yfirlýstur herstöðvaandstæðingur og varð þekktur fyrir vasklega framgöngu sína með skólaliði MR í Gettu betur og starfaði síðan hinumegin við borðið sem spurningahöfundur og dómari í sömu keppni. Mætti kannski kalla hann "celeb", veit samt ekki, hef aldrei fundist það jákvætt orð.

Eitt af því sem einkennir þennan dreng er að hann er yfirlýstur Frammari og hefur alltaf verið. Fjallar hann um í þessum pistli sínum (sem lesa má hér) um þá skömm sína þegar hann fór að æfa knattspyrnu með KR ásamt nokkrum drengjum úr C bekknum í Melaskóla fyrir tilstuðlan eins þeirra, mín nánar tiltekið. Man ég ekki alveg af hverju mér datt þetta í hug en eitthvað tengist þetta þeirri staðreynd að mér fannst alveg ómögulegt að hafa ekki farið að æfa fótbolta. Til að leiðrétta allan misskilning þá hef ég aldrei haldið með KR, því er fjarri lagi. Villi bróðir æfði körfubolta með Val og það hjálpaði mér að sjá ljósið. Hafði meðal annars viðrar þá hugmynd við mömmu að ég fengi að fara á æfingu hjá Val við frekar daprar undirtektir svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Hugmyndin að fara á æfingu með KR er því enn villtari, Valsari og Frammari þrátt fyrir að hýbýli okkar á þessum tíma hafa varla getið verið meira KR-leg, hann í Frostaskjólin steinsnar frá KR vellinum og ég á Hagamelnum alveg við Melabúðina.

Ég man að þessi æfing var algjör hörmung fyrir okkur vinina, menn gerðu tóma vitleysu úti á vellinum og gat maður greint fyrirlitningarsvip fótboltatöffarana sem gengu þarna um eins og kóngar. Flestir C-bekkinganna komu aldrei aftur á æfingu hjá KR, man ekki hvort einhver kom oftar með mér en ef svo var þá voru það ekki mörg skipti. Ég lét samt ekki segjast og mætti í einhvern tíma á þessar æfingar, alveg eins og álfur út úr hól en þetta lét ég mig hafa enda búinn að bíta þetta í mig. Man meira að segja að ég þurfti að mæta á laugardags eða sunnudagsmorgnum en það skipti engu mál, áfram hélt ég að mæta. Eflaust var fjöldi æfinganna færri í raun en í minningunni en ég vil samt meina að ég hafi sýnt ákveðna þrautseigju með þessu, aðrir myndu eflaust nefna þetta einhverjum öðrum nöfnum.

Upplifun mín af fótboltaæfingum varð öllu jákvæðari þegar ég flutti í sveitina, ekki leiðinlegt fyrir nýja gaurinn að geta tjáð sveitastrákunum að hann hefði sko verið að æfa með KR.

Á vissan hátt hefur þetta líka verið nett böl fyrir mig, vissi ekki hvert eldri drengurinn ætlaði þegar pabbi hans viðurkenndi hálfskömmustulega fyrir honum að hann æfði með KR á sínum yngri árum. Var svo farinn að verja þetta með þeim rökum að ég hafi aldrei spilað fyrir félagið og því hafi þetta ekki verið eins mikil dauðasynd og honum fannst.

Garpur

Eins og hefur komið hérna fram þá hefur verið talsvert um veikindi á þessu heimili. Eitthvað voru menn orðnir þreyttir á þeim Playstation2 leikjum og DVD myndum sem til voru á lager heima enda þetta grimmt stundað í veikindunum og menn farnir að þrá tilbreytingu. Fór ég því í smá leiðangur til að kíkja á það sem var á boðstólnum í verslun hér í bæ. Eitthvað finnst mér alltaf hálfleiðinlegt að versla tölvuleiki, aðallega vegna þess að ég er engan veginn nógu vel lesinn í þeim fræðum og veit því lítið hvað er málið og hvað ekki. Fór svo að ég endaði í DVD rekkanum og rak augun í svolítið sem kallaði fram þvílíkar endurminningar. Var það hvorki meira né minna en HE-MAN en það var nokkuð sem ég horfði mikið á hérna í den. Eitthvað átti maður af svona körlum og meðfylgjandi dóti sem maður lék sér með. Ég man eftir af hafa séð þetta á DVD í versluninni Nexus fyrir ekki svo löngu síðan en þá kostaði svona 3ja diska box rúmlega 5.000 kall eða eitthvað álíka. Við nánari athugun kostaði þetta 3ja diska box þarna sem ég stóð þarna á gólfinu í ELKO 1.250 kr. Sennilega var Nexus útgáfan einhver flottari en þetta dugði mér. Verslaði þetta og vonaðist til að þetta myndi slá í gegn hjá sjúklingnum. Reyndar var hvorki íslenskt tal eða texti en eftir smá fyrirlestur frá mér (var reyndar búinn að gleyma miklu af því hver væri hvað o.s.frv.) þá var Ísak Máni kominn inn í helstu atburðarrásina, a.m.k. hver væri góður og hver ekki.

Logi Snær hefur sýnt líka efnilega tilburði við að horfa á þetta, gott að horfa á þetta þegar menn eru þreyttir eftir daginn.



Svona smá upprifjun fyrir gamla Garpsaðdáendur:

sunnudagur, febrúar 11, 2007

28. september 2004

Ísak Máni er búinn að vera veikur nánast alla vikuna, hann fór í skólann á mánudeginum en hefur síðan verið heima. Þessu hefur vitanlega fylgt tóm steypa, mikið sjónvarpsgláp og tölvuleikjaástundun en eitthvað verða menn að gera til að stytta sér daginn. Svefnvenjurnar fara líka út um gluggann. Við feðgarnir tókum tvö fótboltakvöld í röð í þessari viku en það voru vináttulandsleikir í gangi. Það var tekið popp og teppið á þetta, reynt að hafa þokkalega kosí. Reyndar voru þetta leiðindaleikir, eina merkilega við þetta að Ben Foster að spila sinn fyrsta leik í enskri treyju en þá er það líka upptalið.

Mér fannst gaman af þessu því Ísak Máni hefur ekki verið mjög æstur í að horfa á fótbolta í einhvern tíma. Ég fór því að minnast á við hann hvort hann myndi eftir ákveðnu atriði sem markaði visst upphaf að áhuga hans á að horfa á fótbolta sem, eins og fyrr segir, hefur ekki örlað á í einhvern tíma. Mér til mikillar furðu þá mundi hann ekkert eftir þessu atviki því mér finnst svo stutt síðan að við töluðum um þetta en líklega er það lengra en mig minnir og þar sem hann er nú bara 7 ára þá er þetta kannski ekki skrítið. Mér fannst því við hæfi að koma þessu á prent áður en ég myndi gleyma þessu líka.

Þann 28. september árið 2004 var þriðjudagur og Ísak Máni var á fótboltaæfingu. Ég var á svæðinu og dreif hann heim því ég ætlaði að sjá Manchester United spila við Fenerbahce frá Tyrklandi í Meistaradeildinni sem var sýndur beint á Sýn. Ég man bara að við komum inn og fórum beint inn í stofu og kveiktum á sjónvarpinu áður en við gerðum nokkuð annað. Þrátt fyrir að lítið var búið af leiknum þá var staðan annað hvort 1:0 eða 2:0, man það ekki alveg, og í hönd fór magnaður leikur. 6:2 fyrir okkar mönnum og Wayne nokkur Rooney smellti þrennu í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Magnað.



Eftir þetta var Ísak Máni spenntur fyrir þessu öllu og horfði á talsvert af fótbolta þarna rúmlega 5 ára gamall. Drakk m.a. í sig eitthvað af þeim spólum sem ég átti, t.d. af þrennutímabili Man Utd frá 1999 og stundum tók ég upp fyrir hann leiki sem fóru fram eftir að hann var farinn að sofa sem hann horfði síðan á síðar.

Jæja, að því gefnu að internetið hrynji ekki þá er ég búinn að gera mitt til að þessi atburður gleymist ekki. Spurning um að prenta þetta út.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Hrakfallabálkurinn

Fékk símtal um miðjan dag í gær. Logi Snær hafði dottið úti þegar hann var í leikskólanum og fékk stærðarinnar sár fyrir neðan annað augað. Töldu fóstrurnar að réttast væri að ég færi með hann og léti athuga hann betur. Það var því lítið annað fyrir mig að gera en að sækja piltinn og fara með hann niður í Heilsugæsluna í Mjódd til nánari skoðunar. Kom svo á daginn að lítið var hægt að gera, fóstrurnar höfðu búið eins vel um sárið og frekast var hægt. Logi Snær var reyndar allt annað en sáttur þarna inni þannig að á vissan hátt var maður guðslifandi feginn að ekki þurfti að framkvæma einhverja meiriháttar aðgerð á drengnum. Það verður að teljast líklegra en hitt að hann fái myndarlegt ör eftir þetta.



Þetta er nú ekki fyrsta byltan á andlitið hjá honum, skemmst er að minnst þess þegar hann flaug á hausinn á Grundarfjarðardögunum sl. sumar sem endaði þannig að skafa þurfti malbikið úr enninu á honum.



Vona að fall sé fararheill inn í lífið.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Dauðarokkið lifir

Frétt sem vakti athygli mína í dag en sagt var frá því í Fréttablaðinu að bandaríska dauðarokkhljómsveitin Cannibal Corpes sé á leiðinni til landsins og muni halda tvenna tónleika á Nasa í sumar. Þetta er fyrsta dauðarokkssveitin til að hljóta platínusölu í heiminum og sömuleiðis fyrstir til að koma dauðarokksplötu á vinsældarlista Billboard Magazine í Bandaríkjunum. Eitthvað af dauðarokksdiskum á maður í safninu en ef einhverjum ástæðum þá aldrei hlustaði ég mikið á þessa karla. Það voru því viss persónuleg vonbrigði að ekki væri á leiðinni eitthvað annað band sem ég hlustaði meira á. Ég myndi væri alveg tilbúinn að sjá t.d. Jo Bench og félaga í Bolt Thrower, þar yrði ég mættur fremstur í röðina.

Fannst nú fyndið með komu Cannibal Corpes er að þeir eru víst að halda tvenna tónleika og þar af eru seinni tónleikarnir fyrir alla aldurshópa. Ég veit ekki. Ég man að þarna í kringum 1990 komu út tveir diskar með þeim, annars vegar Eaten back to life og hins vegar Butchered at birth sem gefa til kynna að þetta séu nú engir KFUM & K söngvar. Coverin á þessum diskum eru líka engan veginn fyrir viðkvæma. Eins og sagði líka í fréttinni að hugmyndaheimur þeirra leitar fanga hjá raðmorðingjum, uppvakningum og hryllingi af öllum toga. Efast því að maður færi mikið með börnin sín á svona tónleika.

Þar sem maður er sem sagt enginn Cannibal Corpes fan þá er réttast að enda þetta bara á Bolt Thrower myndbandi. Lagið Cenotaph af Warmaster disknum sem kom út 1991, gargandi snilld í bókstaflegri merkingu.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Ekki öll vitleysan eins

Þetta staðfesti bara grun minn, að við Becks ættum eitthvað meira sameiginlegt en það sem ég tíundaði hérna í pistli um daginn. Enda hef ég oftar en ekki verið stöðvaður úti á götu og beðinn um eiginhandaráritun, svo sláandi svipur er með okkur. Ég verð að hafa samband við karlinn og bjóðast til að vera tálbeita fyrir alla papparazzana svo hann geti fengið smá breathing space. Gegn vægu gjaldi vitaskuld.

Veit ekki með hina á listanum, skiptir ekki öllu því þeir eru ekki eins líkir mér og Becks.