föstudagur, maí 30, 2008

Stóri skjálftinn

Skjálftinn í gær sem hristi ærlega upp í íbúum Suðurlands fór ekkert fram hjá manni. Ég var staddur niðri í vinnu, á 3. hæð. Síminn minn hringdi, þjálfari karlaliðs Snæfells í knattspyrnu var á línunni. Þá fór jörðin að hristast.

miðvikudagur, maí 28, 2008

Síðustu dagar

Það er voðalega mikið búið að vera í gangi þessa síðustu daga. Svo mikið að maður hefur ekki náð að smella neinu hérna inn þótt það hafi í raun verið ástæður til þess. Best að súmma þessu bara upp:

Grundarfjörður mætti liði Snæfells í bikarkeppni KSÍ á laugardaginn síðasta, annað árið í röð. Eftir mikið fjör, umdeilda dóma og fjöldann allan af innáskiptingum töpuðum við 4:2. Ekki voru allir liðsmenn Grundarfjarðar sáttir við þetta allt saman sérstaklega í ljósi þess að heimamenn notuðu 5 innáskiptingar í leiknum, nokkuð sem er leyfilegt í 3ju deildinni en ólöglegt í bikarkeppninni þar sem hefðbundnir 3 innáskiptingar eru leyfðar. Eftir miklar umræður manna á milli síðustu daga, var tekin sú ákvörðun um að kæra leikinn til KSÍ, með tilheyrandi skýrslugerð. Ekki er komin niðurstaða úr því máli en ef Grundarfirði verður dæmt í hag þá er ljóst að bikarævintýrinu er ekki lokið þetta árið og næsti leikur næstkomandi þriðjudag í Grundarfirði. Það verður að koma í ljós.

Tveir skemmtilegir punktar við þennan blessaða leik annars. Í fyrsta lagi er formaður Ungmennafélags Grundarfjarðar, þeirra sem eru að kæra lið Snæfells, liðsmaður Snæfells! Þessi formaður missti reyndar af leiknum sökum þess að hann er staddur erlendis og heyrst hefur að hann sé mjög fegin því svo hann þurfi ekki að standa í þessari orrahríð. Reyndar var samdómaálit hlutaðeigenda að hann teljist vanhæfur með öllu og því annarra í stjórninni að skrifa undir kæruna. Hitt atriðið er að ef skýrsla leiksins er skoðuð, t.d. til að fá yfirsýn yfir allar skiptingarnar, sjá þeir sem til þekkja ákveðin tengsl annars þjálfarans og liðsmann í liði hans. Ég veit ekki hvort það telst viðeigandi þegar sannað þykir að þjálfari liðs og leikmaður í liðinu séu að deila rúmi. Það útskýrir kannski byrjunarliðssætið, veit ekki... Fyrir áhugasama má sjá skýrsluna HÉR

Til að toppa þennan furðulega leik þá labbaði ég nánast í flasið á Björk Guðmundsdóttir, söngkonu, við innganginn í íþróttamiðstöðina í Stykkishólmi. Hversu steikt er það?

Afmælisdagskvöldinu mínu eyddi ég s.s. í kærugerð, frábært alveg eða hitt þó heldur.

Að lokum ætla ég að leggja orð í belg um Júróvisíon keppnina um síðustu helgi. Tyrkneska lagið var langbesta lagið, klárt mál. Held að það hafi lent í 7. sæti.

föstudagur, maí 23, 2008

Rændur í sveitinni?

Borgaði mig inn á fyrsta fótboltaleik sumarsins í kvöld, Snæfell - Ýmir. Hefði eflaust misst andlitið en þar var búið að leka þessum upplýsingum í mig, þ.e. að það kostaði 500 kall inn á völlinn. Var nú búinn að taka mér sæti í stúkunni góðu í Stykkishólmi og leikurinn byrjaður þegar ofvirkur rukkari tók að ganga á „alla“ í stúkunni og rukkaði með miklum móð. Hótaði að henda kunningjum sínum út með það sama ef þeir borguðu ekki um hæl. Hann var meira að segja svo grimmur að hann hélt áfram að rukka þá sem slysuðust á völlinn langt fram í síðari hálfleik, fullt verð að sjálfsögðu.

Ef ekki hafði verið fyrir markasúpu þá hefði maður heimtað að fá endurgreitt en B-lið HK tók heimamenn nokkuð létt 1:6. Leikurinn fer þó í sögubækurnar sem upphaf 3. deildar ferils Tomma frænda en karlinn kom inná þegar mjög lítið var eftir og vitaskuld settur beint upp á topp. Náði þó ekki að setja mark sitt á leikinn enda takmörk hvað hægt er að gera á 3 mínútum.

Svo er stóri leikurinn á morgun en verst að Tommi er að fara til London og getur því ekki skorað fyrir Snæfell á móti Grundarfirði...

laugardagur, maí 17, 2008

Almenn stemming langt frá því að vera góð

Vorum sem sagt í Grundó um síðustu helgi. Á sunnudeginum þar var farinn að hellast yfir mig einhver skítur sem margfaldaðist á mánudeginum þegar farið var heim. Álpaðist í vinnuna á þriðjudeginum eins ómissandi starfsmaður og ég er en náði ekki að klára daginn. Lá heima í eymd og volæði á miðvikudag og fimmtudag en tók þá ákvörðun um að ég væri orðinn nógu hress til að skella mér í vinnuna. Var þokkalegur en fann samt að ég gekk ekki á öllum hreyflum.

Núna er árstími rollurassa hjá konunni þannig að hin heilaga karlpeningaþrenning fjölskyldunnar sá um að gæta heimilisins þessa helgina. Logi Snær var þokkalegur í morgun en fór fljótlega að dala þegar nær dró hádegi. Þegar hann lá bara fyrir ákvað ég að taka vísindalega út hitastigið á honum sem kom í ljós að var ekki gott. Ástandið batnaði ekki þegar Cocoa Puffsið frá því í morgun kom aftur sömu leið og það hafði farið inn. Það var því ljóst að sjálfur formaður húsfélagsins var að fara skrópa á hinum árlega hreinsunardegi og gefa þar með skít í sótsvartan almúgann. Ísak Máni var sendur út sem fulltrúi íbúðarinnar og stóð sig eins og hetja.

Logi Snær er núna búinn að sofa síðan klukkan 17 í dag og ég bíð „spenntur“ eftir að sjá hvort hann vaknar kl. 04:30 eða eitthvað álíka, reiðubúinn að fara á fætur. Reyndar er spurning hvort maður gerir nokkuð annað en að sofa þegar líkamshitinn er kominn upp í 39,5? Nema að hitalækkandi dótið fari að kikka inn. Vonum það besta. Og ef allt færi á allra besta veg þá er kannski spurning hvort ég fari líka að ná 100% heilsu...

sunnudagur, maí 11, 2008

Hliðarframkvæmdir á heimilinu

Ég hef ekki yfir miklu að hrósa mér yfir þessa síðustu daga og hef því ákveðið að tala um framkvæmdargleðina hjá konunni. Ekki var verið að tækla mál sem hafa verið lengi á listanum eins og að mála ganginn hjá okkur, leysa speglavandamálið í forstofunni eftir að hluti af þeim brotnuðu o.s.frv. Það er nefnilega þannig að oft þegar þau verkefni sem fyrir liggja er ekki nógu spennandi þá eru einfaldlega búin til ný verkefni sem talin eru meira spennandi.

Nú var farið í það að skreyta aðeins svefnherbergi strákanna með tilheyrandi handavinnu, nokkuð sem sumum á þessu heimili finnst ekki leiðinlegt. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá voru stafirnir á veggnum gerðir áður en Ísak Máni kom í heiminn en núna var ákveðið að poppa þetta aðeins upp.Ekki á að láta staðar numið hér heldur er búið að leggja drög að næsta verki.

Tveir góðir

föstudagur, maí 09, 2008

Á ýmsu átti maður von en...

Í gær var þvílík blíða að annað eins hefur ekki sést síðan síðasta sumar. Þess vegna var maður hálffúll yfir því að spáð var rigningu yfir þessa hvítasunnuhelgi þegar maður var á leiðinni til Grundó til að leika sér í góðu yfirlæti. Á leiðinni hingað vestur gerði maður sér grein fyrir að vandamálið var ekki í rigningarformi.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Kominn heim, ef einhver tók eftir því að ég var ekki hérna

Tók stuttan túr til London í síðustu viku í smá vinnufélagahóp. Farið var út seinnipart miðvikudags og komið heim núna á sunnudaginn. Fyrri hlutinn var vinnuferð, eyddum fimmtudeginum og föstudeginum í heimsóknum hjá birgjum okkar, annars vegar UB og hins vegar Heinz. Helv... magnað að þeir eru staðsettir við hliðina á hvor öðrum þannig að þegar við vorum búnir hjá UB þá var einfaldlega rölt yfir götuna yfir til Heinz. Svo var tekið góður rúntur í verslanir (matvöruverslanir, ekki fataverslanir), ASDA, Tesco, Sainsbury, Lidl, Iceland og hvað þetta heitir allt saman. Skemmtilegur túr og eitthvað situr vonandi eftir á harða disknum.

Seinnipart föstudags færðum við okkur yfir á Chelsea hótelið og gistum þar í tvær nætur. Fórum út að borða á geðveikan indverskan stað, það var alveg í lagi. Rifum okkur upp snemma á laugardagsmorgninum og héldum yfir til Reading en þar var stefna sett á Madjeski stadium til að sjá Reading mæta Tottenham. Flottur völlur, alls ekki stór en flottur. Svipað dæmi og á Stamford Bridge, hótel sambyggt við sjálfan völlinn. Vorum mættir tímanlega til að sjá hádegisleikinn, Man Utd - West Ham, í sjónvarpinu. Öruggur 4:1 sigur minna manna en ég gleymdi svolítið stað og stund þarna. Þéttsetinn salur af fólki á öllum aldri þarna og annar hver maður í Reading treyju. Að búningunum undanskildum þá hefði ég alveg eins geta verið á Ölveri eða öðrum sambærilegum sportbar og þegar United komst í 1:0 hoppaði ég upp úr sætinum og gargaði: „YES“. Ég áttaði mig hins vegar á stað og stund þegar ég gerði mér grein fyrir að ég var sá eini sem sýndi þessi viðbrögð. Viðbrögð annarra við þessum viðbrögðum mínum voru þó ekki harkaleg sem heitið getur en einn samferðarmaður minn hallaði sér að mér og hvíslaði: „Ég ætla bara að minna þig á að við erum staddir í Reading.“ Brynjar Björn leikmaður Reading sem var reyndar ekki í hópnum vegna meiðsla kom á svæðið með miðana okkar en hann hefur náin tengsl við sölustjórann hjá okkur. Það vakti smá athygli en samt ekki eins mikla og ég hefði kannski haldið, nánari skýringar á því hérna á eftir. Seinna tók mig tali maður á karlaklósettinu og spurði hvort ég væri ekki United aðdáandinn sem þekkti Brynar Björn þannig að maður var orðinn heimsfrægur í Reading...

Leikurinn sjálfur var nú ekkert spes en maður skemmti sér samt mjög vel og alltaf gaman að fara á völlinn í Bretlandi. Heimamenn töpuðu 0:1 og eru í bullandi fallbaráttu fyrir síðustu umferðina um næstu helgi. Eftir leikinn röltum við aðeins þarna um svæðið og það kom nú í ljós að þetta var náttúrulega hálfgerður „sveitaklúbbur.“ Leikmennirnir gengu nú frekar óáreittir þarna um, einn og einn sem bað um eiginhaldaráritun og einstaka ljósmyndir teknar en heilt yfir var þetta frekar heimilislegt. Maður var bara ekki nógu mikið lesinn yfir þessu Reading liði til að þekkja þessa leikmenn og vorum við ósparir að spyrja næsta mann hver þessi og hinn var. Alveg eins og asnar... Fyrir áhugasama má nefna leikmenn eins og Kevin Doyle, James Harper, Stephen Hunt, Michael Duberry, Shane Long sem voru að spóka sig þarna í góðum gír með bindishnútana á hreinu. Annars lítið um að vera í Reading þannig að við komum okkur aftur til London, á Piccadilly Circus og smelltum okkur á Fridays. Á meðan við biðum eftir borði fór fram minn eini „verslunarleiðangur“ í ferðinni, náði að henda mér inn í Lillywhite´s og versla sinn hvorn Roma bolinn á drengina en því miður náði ég ekki að taka almennilegan rúnt þarna. Ég elska nefnilega svona risaíþróttabúðir! Rifin á Fridays voru alveg í lagi.

Hádegisvélin heim á sunnudeginum, fínt að koma heim svona um miðjan dag frekar en að vera í einhverju tómu rugli fram eftir nóttu. Sigga og Ísak Máni komu að sækja mig en Logi Snær var hjá ömmu sinni í Mosó. Á leiðinni heim enduðum við á ÍR vellinum en ÍR var að spila við Hvöt, úrslitaleikur í einhverjum Framrúðubikar, Lengjubikar B held ég að hann heiti. Komum beint í framlenginguna og sáum ÍR komast yfir. Leikurinn var að fjara út þegar allt varð vitlaust á vellinum, spilandi þjálfari Hvatar straujaði einn ÍR-inginn út við hornfána og fékk kröftugt stjak fyrir. Hann ákvað að svara því stjaki með velútilátandi hægrihandarkrók svo glumdi í. Orðbragðið sem fylgdi í kjölfarið verða ekki höfð eftir hérna. Allt gerðist þetta tæpum 3 metrum frá okkur og Ísak Máni fékk því sýnikennslu í því hvernig fullorðnir karlmenn hegða sér þegar illa gengur.

Íþróttir = forvarnir?