föstudagur, nóvember 28, 2008

Námshesturinn

Búinn að eyða síðustu dögum í lestur enda var próf handan hornsins. Enn endurnýjaði ég kynnin við hlöðuna og hélt þar til eftir vinnu og um síðustu helgi. Prófið skall svo á núna á miðvikudaginn með tilheyrandi rússíbanareið.

  • Var alveg kominn með upp í kok daginn fyrir próf.
  • leið svo illa nokkrum tímum fyrir prófið, fannst ég ekkert kunna.
  • leið svo vel þegar ég las yfir prófið því mér fannst ég geta þetta vel.
  • leið svo illa þegar maður fór að leysa það því þá var það eitthvað flóknara.
  • leið svo vel þegar ég kom út, sennilega bara af því að það var búið.
  • leið svo illa af því að ég veit ekki hver niðurstaðan verður.

Nú þykist maður vera í einhverri kreppu, eiginhagsmuna sjálfskreppu. Á maður að reyna að kýla eitthvað meira skóladót eftir áramót eða hvað. Reyni að taka allt í reikninginn: kostnaður, gríslíngur hinn III, andleg geðheilsa o.s.frv. Jæja, ég hef tvær vikur til að hugsa þetta, ætli maður sjái ekki fyrst hvort maður hafi leyst þetta próf með mannsæmandi árangri.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Í bankanum í miðri kreppu

Ekkert hægt að nota þessa banka í neitt annað gáfulegt en að poppa upp debbarann.

Ég hlýt að fá afslátt á völlinn í sumar, maður verður að bjarga sér í kreppunni.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Á laugardagskvöldi

Hef voða lítið að segja þessa dagana. Stundum er það þannig að maður þráir ekkert heitara en að hafa eitthvað merkilegt að segja en ekkert gerist, kollurinn alveg tómur.

Skutumst til Keflavíkur í dag, Ísak Máni var að keppa í fótbolta. Okkur talst það að þetta væri hans fimmta skipti sem þátttakandi á þessu móti svo enn safnast í reynslubankann. Fyrsta mótið eftir að Dóri yfirþjálfari hjá ÍR tók við þeim og þetta mót gekk alveg þokkalega, 3 sigrar og 2 töp.

Jæja, best að sjá hvort það er ekki eitthvað í kassanum á þessu laugardagskvöldi...

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Skjaldbökur borða bara flatbökur

Þjóðlegheit á matseðlinum í kvöld, sviðnir rolluhausar og rófustappa með því. Logi Snær var greinilega ekki að kaupa þessa hugmynd þegar mamma hans mundaði hnífinn og plokkaði augað úr kvikindinu. Hann horfði svo á þessa fjóra bita sem búið var að úthluta honum (í einhverju bjartsýniskasti foreldranna) undir þeim lýsingum að þetta væri nú bara kjöt. Hann kom þá með eina gullsetningu, ný rök fyrir því að sleppa við að borða matinn sinn:

„Mamma, ég er turtles og þeir borða ekki kjöt. Þeir borða bara pizzur.“

Kjötbitarnir gerðu ekki gott mót en rófustappan rann ljúflega niður í skjaldbökuna eftir að fyrsti bitinn gekk sína leið. Rófustappa er kannski álegg á einhverjum pizzastaðnum þar sem skjaldbökurnar búa.

Dagbók baksins

Er búinn að labba eins og skotin gæs í eina viku. Sunnudagsboltinn í síðustu viku leiddi þetta af sér. Ekki það að nokkuð ákveðið hafði gerst, fann bara fljótlega til í bakinu eftir boltann og búinn að vera s.s. handónýtur síðan þá.

Humm, það sama og ég leitaði til sjúkraþjálfarans með í byrjun ársins. Spurning um að grafa upp æfingaprógrammið sem ég fékk þá og reyna að gera þetta eins og maður. Var næstum því búinn að fjárfesta í svona humongous æfingabolta til að fara alla leið í þessu en get ekki sagt að það sé spennandi að hafa svoleiðis kvikindi skoppandi hérna um alla íbúð án þess að eiga nokkuð pláss fyrir svona tæki.

Takmarkið hlýtur samt að vera bakvandræðalaust ár, árið 2009.