þriðjudagur, október 28, 2008

13. mars 2009


Maður á nú að vera orðinn nokkuð sjóaður í þessu en alltaf er þetta jafnmagnað.

mánudagur, október 13, 2008

Verkfæri djöfulsins

Ég vældi hérna í byrjun ársins um þessa helv... auðkennislykla. Ég treysti þessum græjum aldrei og rosalega hafði ég rétt fyrir mér.

Ég, sem gjaldkeri stigagangsins, fékk auðkennislykil frá Glitni fyrir húsfélagsreikningnum. Á þessum tíma var ég ekki búinn að virkja hinn auðkennislykilinn sem ég fékk frá Landsbankanum fyrir mínum prívat reikningi. Svo kom að því að ég þurfti að virkja Landsbankalykilinn og í framhaldi notaði ég þann auðkennislykil þegar ég fór á einkabankann minn en hinn lykilinn þegar ég fór inn á reikninginn hjá Glitni.

Þannig gengur þetta þangað til nokkrum dögum fyrir hið almenna bankahrun í landinu. Þá hætti ég að komast inn á Glitnisreikninginn með Glitnisauðkennislyklinum. „Of oft verið slegið inn röngu auðkennisnúmeri og lykillinum hefur nú verið læst bla bla bla...“ Ég fer niður í Glitni og fæ nýtt lykilorð, kem heim en kemst ekki inn á reikninginn. Hringi niður í Glitni og þá fæ ég að heyra að talnakóðinn sem er aftan á lyklinum stemmi ekki við það númer á lyklinum sem er skráð fyrir reikningnum. „Hefur þú eitthvað ruglað auðkennislyklum?“ Uhhh, nei!

Aftur fér ég niður í Glitni, núna umvafinn brjáluðum hluthöfum (eða fyrrverandi hluthöfum) til að fá einhvern botn í þetta. Þar loksins leysist þetta. Glitnisstigagangsreikningurinn var ekki tengdur við Glitnisauðkennislykilinn heldur við persónulega Landsbankaauðkennislykilinn minn. Hvernig stendur á því? Jú auðkennislykillinn er alltaf tengdur við kennitölu umráðamanns og á bak við hverja kennitölu er bara einn auðkennislykill. Þannig að þetta virkar þannig að ég nota Landsbankalykillinn hvort sem ég er að fara inn reikning hjá þeim eða Glitni.

Gott og vel. En ég sat þarna eins og eitt spurningarmerki með þjónustufulltrúann ekki mikið gáfulegri. Hvernig gat ég notað tvo lykla í 7 mánuði ef ég átti bara getað notað einn? Og af hverju fór þetta að klikka á þessum tímapunkti? Engin svör hjá þjónustufulltrúanum, hann gerði bara annan lykillinn upptækan og kvaddi mig.

Auðkennislyklar, smauðkennislyklar...

Töff mynd sem fannst á netinu

sunnudagur, október 12, 2008

Eymundssonmótið 2008


Eymundssonmótið í körfubolta fór fram í gær og Ísak Máni var að spila með ÍR. Hann steig einmitt sín fyrstu spor í þessu sporti á þessu móti í fyrra. Talsverðar framfarir hjá gaurnum frá því í fyrra, bara gott með það. ÍR-ingar taka samt greinilega aðra nálgun á þetta mót en önnur lið, voru með byrjendur í bland við þá sem lengra eru komnir og voru með slakasta liðið. En sigur er víst ekki allt þegar þú ert 9 ára...

...það er ógó töff að fá medalíu, hafa skorað körfu og fengið verðlaunin úr hendi Jóns Arnórs Stefánssonar.

föstudagur, október 10, 2008

Rússagull

Í ljósi þess að Íslendingar eru orðnir réttdræpir í Bretlandi og Rússar ætla líklega að lána okkur pening í þessu hallæri sem ríkir þá er réttast að hætta þessari ást á breskum fótbolta og fótboltaliðum en snúa sér frekar að því að fylgjast með deildinni í Rússlandi. Þessi Kani sem á Manchester United er hvort sem er búinn að steypa félaginu í skuldafen, sömuleiðis búið að þjóðnýta AIG þarna í henni Ameríku og varla nokkurt lið þarna úti sem vill kaupa Ronaldo á skriljónir eins og stemmingin var í sumar. Það er því óhagstætt að selja en spurning hvort þeir fái Budweiser til að sponsa á næsta ári.

En ég hef ekki áhyggjur af því, vegna þess að núna held ég bara með Spartak Moskvu. Held að það sé best, í takt við það sem er að gerast, að velja bara gamla ríkisliðið þarna.

Í þá gömlu góðu

Sá þetta á blogginu hjá Gunna og varð að prófa sjálfur. Árið er 1982 og ég er sem fyrr fjallmyndarlegur.

þriðjudagur, október 07, 2008

Fjármálakreppan

Jæja, viðskiptabankinn minn var víst þjóðnýttur í dag. Eftir atburði gærdagsins kom það nú ekkert sérstaklega á óvart. Í dag er maður sáttur við það að hafa ekki hoppað um borð í rússíbanann og keypt sér raðhús á 90% bankaláni fyrir ári síðan eða svo. Ekkert myntkörfulán á heimilisbílnum og undirritaður hefur ekki verið með yfirdrátt í bankanum í talsverðan tíma. Hlutabréfaviðskipti hafa ekki verið stunduð svo heitið geti. Samt er nettur hnútur í karlinum.

Það er kannski bara best að vera ekkert að safna of mikið af peningum, takmarkið bara að eiga í og á sig og sína en ekki verra að geta nurlað inn nokkrum krónum í hverjum mánuði inn á einhvern viðurkenndan reikning. Manni finnst a.m.k. lágt risið á mörgum í kringum mann, eðlilega kannski ef menn áttu kannski eina milljón eða svo í hlutafé í viðskiptabankanum sínum. Áttu... En hvað er hægt að segja, þetta átti að vera skothelt. En það átti nú DeCode svo sem að vera líka.

Nú er bara að sigla í gegnum þessa lægð. Ég hef engar töfralausnir en gott er samt að byrja með að plögga heyrnatólin og blasta græjurnar, þetta kemur manni alltaf í góðan gír. Ekki margt sem toppar þetta gítarriff.

sunnudagur, október 05, 2008

Ferill að fæðast?

Í dag mætti Logi Snær á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá ÍR, 8.flokkur var það heillin. Ég var nú sjálfur í bolta í dag og varð því ekki vitni af þessu en mamman og Ísak Máni fylgdu drengnum úr hlaði. Strákurinn byrjaði víst að rúlla upp stórfiskaleiknum en var svo ekkert rosalega æstur í að spila fótbolta. En þetta var víst voða gaman þannig að líkurnar á endurtekningu eru víst einhverjar.Reyndar var aðeins búið að gæla við fótboltaæfingar í sumar eftir að hann hitti leikskólafélaga sinn sem var þá nýbyrjaður að mæta á æfingar hjá Breiðablik sökum þess að ÍR hélt ekki út 8. flokk um sumarið. Umræðan um að Logi Snær myndi mæta með þessum félaga sínum komst nú aldrei af umræðustiginu en mamma hans mætti nú samt með hann einu sinni á æfingu hjá HK, sem buðu víst upp á hentugri æfingatíma. Hann lagði nú ekki í að taka þátt þegar á hólminn var komið. Það var kannski eins gott, nú er hægt að segja að ferillinn hafi hafist hjá ÍR. Svo slapp ég líka þá við að fá félagaskipti fyrir drenginn...

Snæfinnur

Karlinn kíkti í heimsókn í gær. Í dag var hann farinn.