mánudagur, desember 31, 2012

Plankaárinu lokið!

Ótrúlegt en satt þá hafðist þetta hjá mér og Ísaki Mána.  Plankaæfing á hverjum degi allt almanaksárið 2012 sem voru víst heilir 366 dagar.  Á hótelherbergi út í löndum, útilegu á Suðurlandinu, í Grundarfirði, í Baulumýri, á Suðureyri svo eitthvað sé nefnt, alltaf drullaðist maður til að klára þetta.  Svo til upprifjunar á þessu þá má sjá lýsingu á þessari æfingu hérna:


Það verður að segjast að það kom mér á óvart að mér fannst ég ekki mikið auka "plankaþolið" hjá mér, þetta var einhvern megin alltaf jafn erfitt.  Kannski það segi mér um líkamsþyngdina hjá mér en eitthvað annað.
Hvað næst?  Það verður a.m.k. ekki nein ein æfing sem verður gerð dagleg á næsta ári, þetta var orðið meiri kvöl en hitt undir lokin.  Og það verður enginn planki gerður á morgun, það er alveg á tæru.

miðvikudagur, desember 26, 2012

Jólin 2012

Jólastússið gekk heilt yfir á bærilegastan hátt þetta árið.  Hefðbundin aðfangadagur á þessum bænum, ég byrjaði á því að fara í vinnuna til rétt rúmlega 11:00.  Hef val um að mæta á aðfangadag eða gamlársdag og hef haft það að venju að velja aðfangadaginn og finnst það bara fínt.  Geri svo sem ekki margt djúpstætt, en tek aðeins til í tölvupóstinum og þessháttar.  Ég þurfti aðeins að koma við í Elko áður en ég myndi renna heim og hélt að það yrði easy-peacy verkefni.  Ekki alveg svo, eftir stutt stopp við hillurekkana til að finna það sem ég var að leita að tóku rúmlega 15 mínútur í biðröð á kassa við.  Magnað, en ég get víst ekki fussað yfir því þar sem ég var þátttakandi í vitleysunni.

Skytturnar þrjár voru mjög slakir og fínir, auðvitað nettur spenningur en allt innan skynsemismarka.  Hamborgarahryggurinn úr Fjarðarkaup rann ljúflega niður og svo þurfti víst að ganga frá eftir matinn áður en farið var í aðalatriðið.  Ekki verður sagt annað en að allir hafi verið sáttir með sinn hlut, sem er alltaf kostur.  Miðað við það sem kom undan jólapappírnum hefði eitthvað annað líka verið hálfskakkt.

Yfirmaður pakkaúthlutunarnefndar
Daði Steinn og mamman
Spennan að bera menn ofurliði

"Díses, þið eruð ekki í lagi"
Bæði betra?


Fórum svo í hangikjötið í Bröttuhlíð á jóladag.  Þar var rúllað um á meltunni í einhverja tíma á milli þess sem maður kyngdi hangikjötinu, jólaísnum og döðlukökunni.  Líkaminn hélt nú áfram störfum þrátt fyrir þetta allt, sem kemur manni alltaf hálfpartinn á óvart á þessum árstíma.

Verð að viðurkenna almenna leti í dag, börnin náðu u.þ.b. 30 mínútum úti í kuldanum í dag, sú súrefnisinntaka, þ.e. af fersku hráefni, varð að duga.  Ég straumaði Man Utd - Newcastle og sá ekki eftir því, Litla baunin með sigurmark þegar klukkan sló í 90 mínútur og 4:3 sigur staðreynd.  Sannaðist hið fornkveðna - Football, bloody hell...
Var svo rétt með meðvitund þegar hin árlega frétt um alla þá sem fóru í ræktina, annan í jólum, kom á skjáinn.  Mér finnst hún orðin svolítið lúin ef ég á að vera alveg heiðarlegur.  Ég hristi þó af mér slenið og tók létta hreyfingu inn í eldhús til að athuga hvort ég gæti ekki æft kjálkana enn betur.

Það er hægt að tala um Quality street-ið sem var keypt fyrir jólin í þátíð núna.

mánudagur, desember 24, 2012

Gleðileg jól


Þar sem nýjasta eintakið var algjörlega ófáanlegur til að taka þátt í myndatökunni í jólateitinu hjá Nathan þetta árið, eitthvað sem tókst svona glimrandi vel í fyrra, þá er víst ekki annað hægt en að henda inn annarri mynd líka sem náðist þegar beðið var eftir því að klukkan yrði sex.

föstudagur, desember 21, 2012

Skottúr á Snæfellsnes og tónleikar

Tók bíltúr í Stykkishólm á föstudaginn fyrir viku.  Körfubolti hjá börnunum, hvað annað?  Ísak Máni að spila í bikarkeppni KKÍ í Stykkishólmi með 9. flokknum hjá ÍR.  Í fyrsta skipti að spila í Stykkishólmi og einnig að spila í bikarkeppni KKÍ í fyrsta sinn.  Skemmtilegt að það hafi hitt á fæðingardaginn hjá afa hans.  Leikurinn sjálfur gekk nú ekki alveg nógu vel en það er bara svoleiðis stundum.
Man ekki hvort ég hef minnst á það á þessum miðli en ég held ég geti sagt að keppnisþátttaka mín í körfubolta hafi hafist og lokið í þessu húsi, þ.e. með einum leik.  Það hlýtur að hafa verið eitthvað skóladæmi því það eina sem ég man að ég skoraði ekki körfu en fékk samt tvö vítaskot, það fyrra var air-ball en hið síðara rataði ekki niður þrátt fyrir einhvern dans ofaná hringnum.  Meira varðandi þetta man ég ekki.
Við höfðum nú ekki tök á því að stoppa í firðinum fagra í þessari ferð þar sem þetta var bara farið fram-og-til-baka, plús að við Ísak Máni vorum með þjálfarann og tvo aðra leikmenn með okkur í bílnum, veit ekki hvernig þeir hefðu tekið í heimsókn til Eygló ömmu.  Það verður að vera bara næst.

Jólatónleikar svo hjá Ísaki Mána á laugardeginum en að öðru leyti rólegt bara.

Endað svo sunnudaginn á jólatónleikum Baggalúts í Háskólabíói, þar lék ég hlutverk Tinnu Rutar sem sá sér ekki fært að mæta á skerið þessi jólin frá Kanada en Villi og co höfðu verslað miða fyrir hana.  Ég veit ekki í hve mörg ár þeir hafa haldið jólatónleika en þetta var alla vega í fyrsta sinn sem ég fer.  Skemmti mér vel, enda drengirnir alveg með þetta og stemmingin fín.  Aldrei að vita að maður skelli sér að ári verði það í boði, gæti alveg séð Loga Snæ í góðum gír svona aðeins eldri.  Prógrammið var þétt hjá þeim, jafnvel einhverjir slagarar sem hljómuðu ekki.  Ég saknaði mest þessara tóna:

sunnudagur, desember 09, 2012

Íþrótt án snertingar

Jólahlaðborð með vinnunni minni fyrir rúmri viku, föstudagskvöld nánar tiltekið.  Mæting kl 19:00 og planið var svona:  Ísak Máni á körfuboltaæfingu til kl 19:00 í Breiðholtsskóla og átti að bruna heim strax eftir hana, þar átti að vera pizza klár fyrir gríslingana þrjá svo undirritaður og frú gætu þá hent sér út á meðan Ísak Máni hefði yfirumsjón yfir restinni af kvöldinu heima fyrir.

Allt hófst samkvæmt áætlun, ég og Logi Snær fóru og sóttum pizzuna á meðan Sigga var að græja sig.  Ég sá fram á að þetta myndi allt saman smella, yrði komin tímalega heim með pizzuna og gæti skellt mér í betri fötin, allt á flottum tíma.  Þegar ég er að leggja bílnum í stæðið heima með rjúkandi pizzuna fæ ég símtal.  Körfuboltaþjálfarinn hans Ísaks.  Drengurinn kominn með skurð á höfuðið og ég þarf að gera svo vel að sækja hann asap.  Logi Snær stökk inn með pizzuna á meðan ég skutlaðist eftir Ísaki.  Þegar upp í íþróttahús var komið beið blóðugur Ísak eftir mér.  Ég fékk þær útskýringar á málinu að þetta gæti gerst þegar vörn mætti sókn, í þessu tilfelli voru tveir aðilar með ólíka sýn á það í hvaða átt boltinn ætti að fara og þetta varð útkoman.  Eftir stutt mat á stöðunni var drengnum skrölt heim og inn á klósett fyrir frekara mat.  Ég sá fyrir mér föstudagskvöld á slysó með tilheyrandi stemmingu.  Matið leiddi hinsvegar af sér að meira um skeinu en skurð væri að ræða og ekki væri lengur að blæða, tilgangur vettfangsferðar upp á slysó væri því lítill.

Rót vandans
Það var því tekin sú ákvörðun um að halda upprunarlegu plani, foreldrarnir færu á jólahlaðborðið og Ísak Máni sæi um bræður sína í einhverja klukkutíma.

Það væri hægt að orða það þannig að áfengis- og skemmtanasjúkir foreldrarnir hefðu tekið ákvörðun um að láta ekkert stoppa sig, skítmixað höfuðumbúðir um sárið á drengnum örfáum mínútum áður en hann var settur yfir sem ábyrgðaraðili heimilisins.  Hann hafi síðan fengið sú fyrirmæli að hringja eftir aðstoð ef blóðið færi að frussast aftur úr hausnum á honum eða ef honum fyndist hann vera að missa meðvitund vegna höfðuáverkanna.  Ég vill meina að það væru stórlegar ýkjur.  Enda fór þetta allt vel og allir komu heilir út úr þessu.

Skál.

Barnapían klár