miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Hin fullkomna jólagjöf

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum heilvita manni að blessuð jólin eru á næsta leyti með tilheyrandi glaum og gleði. Maður er alltaf hálfkærulaus í þessu öllu, ekki komin með svo mikið sem ein sería upp í íbúðinni og ferlið í kringum jólakortin fer yfirleitt af stað ekki mikið fyrr en á síðasta sjéns.

Ég datt niður á grein í dag þar sem farið var yfir hvað væri besta gjöfin, samkvæmt stjörnumerkjunum. Fyrir þá sem ekki vita þá hef ég ekki nokkurn áhuga á stjörnumerkjum og tengdum málefnum. Ég er ekki að segja að pælingar þessu tengdu séu bull og vitleysa, hef enga hugmynd um það en ég hef bara ekki verið áhugasamur um þetta. En af einhverjum ástæðum vakti þetta athygli mína.

Og hver er hin fullkomna gjöf fyrir tvíburann, samkvæmt stjörnumerkjunum?

Það þarf ekki mikla hugsun til að gefa tvíbura gjöf því tvíburinn vill helst ekki að aðrir hugsi fyrir þá. Það er því mjög auðvelt að gefa tvíburanum gjafir og þær mega vera margvíslegar. Tvíburinn verður sérstaklega þakklátur ef gjöfin víkkar út sjóndeildarhring hans, gjöf eins og ársáskrift að tímariti eða erlendri fréttastöð, nýjasta tegundin af farsíma eða jafnvel ferðalag á framandi stað. Pakkningarnar þurfa ekki að vera glæsilegar því satt að segja hefur tvíburinn meiri áhuga fyrir því sem er innan í pakkanum. Tvíburinn er ekki keyrður áfram af græðgi heldur forvitni. Það má því segja að besta gjöfin fyrir tvíbura séu peningar sem þeir geta svo eytt í það sem þá langar helst.

Þetta var það gáfulegasta sem ég hef heyrt lengi.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Upptekni sonurinn

Það er brjálað að gera þessa dagana, aðallega í einhverju tengdu Ísaki Mána. Í gær voru tónleikar upp í Breiðholtsskóla hjá þeim sem eru að æfa á hljóðfæri hjá henni Birnu tónlistarkennara en Ísak byrjaði aðeins að fikta í þessu í fyrra. Hann flutti tvö lög, Gamli Nói og Klukknahljóð og gerði það bara listavel, kalt mat. Hann var nú líka búinn að æfa sig talsvert undir þetta, aðallega undir styrkri leiðsögn móður sinnar. Síðan verða eiginlegir jólatónleikar núna á næstu vikum.Í dag var síðan sundsýning hjá Ægir en hann er á sundæfingum 2x í viku upp í Breiðholtslaug, a.m.k. fram að áramótum hvað svo sem hann gerir eftir áramót. Þessi sýning var haldin í Laugardalslaug og það var margt um manninn, ég vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í og Ísak Máni svo sem ekki heldur. Hlutverk hans var að synda skriðsund alla 25 metrana í innilauginni sem er nú talsvert þegar menn eru vanir minni polli, að ekki sé talað um þegar þú nærð ekki til botns. En hann fékk nú fylgdarsvein úr eldri hópnum hjá Ægir sem gott var að grípa í þegar þreytan var að yfirbuga menn.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Meiri vondgóð tónlist

Meiri tónlistarfurðulegheit að hætti Bonnie Tyler. Til upprifjunar er hér hluti af upphafspistlinum:


Nú hef ég lent í því öðru hvoru í gegnum tíðina að ég er að fíla einstök lög sem ég heyri einhversstaðar, lög sem mér finnst einhvern veginn að ég "eigi" ekki að fíla. Lög sem tengjast annað hvort tónlistarmönnum eða -stefnum sem ég hef hingað til ekki verið mjög ginkeyptur fyrir. Ég er ekki að tala um það þegar maður er að uppgötva nýja hljómsveit eða söngvara sem reynist svo við nánari skoðun vera nokkuð góð/góður. Nei, ég er meira að tala um þegar einstaka lög sem af einhverjum óútskýranlegum orsökum snerta einhverjar rásir í hausnum á mér en við nánari skoðun finnst mér allt annað sem viðkomandi listamaður hefur gert vera rusl, eða miður gott til að orða þetta ekki alveg svona sterkt. Svona mitt eigið one-hit-wonder.Big Country - In a big country

Man aðeins eftir þessu bandi frá Duran Duran tímabilinu. Mér fannst þeir alltaf hálffurðulegir, spilandi eitthvað rokk/popp með skosku þjóðlagaívafi. Söngvarinn þeirra, Stuart Adamson, átti víst að vera einhver nettur snillingur en það fór fyrir honum eins og mörgum snillingnum, varð þreyttur á þessu jarðlífi og hengdi sig í hæsta gálga árið 2001. Ég verslaði mér Best of disk með þeim á einhverri útsölu og hef pínt mig til að renna honum tvisvar í gegn og get sagt með vissu að ég sé engan veginn að fíla þetta. Nema þetta lag, get hlustað á það endalaust.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Verkaskiptingin á heimilinu séð með barnsaugum

Ég tel mig vera nokkuð frambærilegan í heimilisstörfunum, a.m.k. í einhverjum hluta þeirra. Ég er þó fyrstur til að viðurkenna að ég mun seint teljast duglegur með skúringarfötuna og að þurrka af er ekki eitthvað sem er mér ofarlega í huga. Hins vegar tel ég mig vera ansi öflugan hvað þvottavélina varðar og uppþvottavélina á ég með hurðum og gluggum.

Einu sinni sem oftar var ég að ganga frá í eldhúsinu eftir kvöldmatinn en konan var eitthvað að föndra inn í stofu og var með hamar í hönd. Hún kallar á mig og biður mig um aðstoð og vitaskuld sinni ég því kalli. Hins vegar varð Logi Snær ekkert sáttur við að sjá karl föður sinn inn í stofu og sagði: "Nei pabbi, þú vera inn í eldhúsi."

Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta þegar ég snéri aftur inn í eldhús og hélt áfram að ganga frá matarleifunum á meðan hamarshöggin dundu frá stofunni.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fótbolti getur verið þjáning

Laugardagsmorgun og klukkan hringdi kl. 07:40. Ég pírði augun og gat séð að það stóð -11,6 stig á mælinum. En þar sem ég var búinn að ákveða að fara í ræktina þá var ekki aftur snúið og í ræktina var farið. Þurfti bara að koma þessu frá mér því ég var ekki lítið sáttur við mig, þ.e. að hafa ekki velt mér yfir á hina hliðina og frestað ræktarför sökum kuldabola.

Annars var Ísak Máni að keppa í fótbolta í Keflavík í dag svo það var annað hvort að fara á þessum tíma í ræktina eða sleppa því alveg. Þeim gekk alveg ágætlega, 1 sigur, 2 jafntefli og 2 töp. En fótbolti er ekki bara tóm gleði þegar maður er bara 7 ára, þetta getur stundum verið sárt eins og samherji Ísaks Mána fékk að kynnast.Jú, þetta er Sigga sem hljómar þarna undir.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Þjóðminjasafnið - long time no see

Foreldaraviðtalsdagur í Breiðholtsskóla í dag og því enginn skóli hjá Ísaki Mána í dag. Ég smellti út einum sumarfrísdegi og við vorum bara að chilla í dag. Ekki að það hafi verið eitthvað hangs í gangi, ekki hægt að bjóða bara upp á Playstation í heilan dag. Ég skrölti með Loga Snæ á leikskólann því eitthvað af dagskrá dagsins var ekki alveg að hans smekk. Við Ísak Máni höfðum fengið það verkefni að koma nagladekkjunum undir heimilisbílinn, á kostnað sumardekkjanna. Þetta verður að teljast með leiðinlegri verkefnum sem ég fer í en af einhverjum ástæðum gekk þetta bara nokkuð fljótt fyrir sig. Kannski vegna þess að guttinn var ágætlega áhugasamur um þetta og lét sig hafa það að drösla hluta af dekkjunum úr geymslunni og út í bíl.Að því loknu var tekin ákvörðun um að fara á Þjóðminjasafnið. Ég hafði ekki stigið fæti þarna inn eftir að það var opnað eftir breytingar, samt eru komin einhver tvö ár síðan það var opnað eftir 6 ára lokun svo ljóst er að það eru örugglega einhver 10+ ár síðan ég álpaðist inn á þessa menningarstofnun. Þetta er náttúrulega ekki sama safnið og hérna í den, það er alveg ljóst. Fyrir mitt leyti finnst mér þetta hið flottasta safn og gaman að koma þarna. Ísak Máni var líka nokkuð spenntur fyrir þessu en hann hafði farið þarna áður. Maður var samt svolítið eins og álfur út úr hól þarna, staddir þarna um hádegisbil á miðvikudegi innan um hóp miðaldra þýska túrista og einhverra annarra þjóða kvikindi.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Sáttur við grasið mín megin... í bili a.m.k.

"Veistu að þú færð einbýlishús upp á Akranesi fyrir minni pening en eitt stykki raðhús í Breiðholti?"

Þessari fullyrðingu smellti konan á mig í gærkvöldi, án þess að ég væri nokkuð að ræða nein húsnæðismál eða nokkuð því tengt. Þetta er nú staðreynd sem ég var alveg með á hreinu en búinn að taka ákvörðun um þetta mál fyrir nokkru. Ég er ekki að fara flytja upp á Skaga né í nokkra aðra sveit. Ég þyrfti þá að leggja ÍR peysunni minni og fjárfesta í ÍA peysu, þannig að "gróði" minn úr þessum viðskiptum myndi minnka í samræmi við það. Og því ætti maður að stoppa upp á Akranesi, ég hlýt að geta fengið 4ra hæða einbýli á Suðureyri með sundlaug og tennisvelli í bakgarðinum fyrir Breiðholtsblokkaríbúðina mína.

Nei, ég verð eitthvað lengur hérna og held áfram að dunda mér á fasteignavef mbl.is þegar þannig liggur á mér. Ég tel mér þá trú um að ég geti notað peningana mína í eitthvað skemmtilegt og konan getur keypt sér nýja 16.000 kr. íþróttaskó eins og í gær en þurfi ekki að fara í Hagkaup og kaupa sér 1.900 kr Addadax skó í ræktina.Spurning um að fara að skella sér aftur á Old Trafford og lifa lífinu. Eða a.m.k. kaupa mér nýja skó í ræktina, dýrari týpuna að sjálfsögðu.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Um græna grasið hinu megin

Ég fæ stundum svona dellur. Þær fela aðallega í sér að ég vilji fá mér nýjan bíl eða að ég vilji taka hatt minn og staf og flytja. Tek ég svona nettar tarnir í þessu, ligg þá yfir fasteigna- og bílasölum á netinu og hugsa mikið en framkvæmi minna.

Núna er ég með íbúðardelluna. Ekki það að maður hafi það eitthvað slæmt þar sem maður er, alls ekki. Hér eru báðir drengirnir með sitt hvort herbergið, þvottahús í íbúðinni, nýleg eldhúsinnrétting og baðherbergið allt á réttri leið í endurbótum. Hvað vill maður meira? Jú, ég væri alveg til í sérinngang, lítinn bakgarð til að dunda sér með fótbolta yfir sumartímann, stærra svefnherbergi, stærra eldhús og svona eitt og annað sem maður sér í hillingum. Eitt af vandamálinu í þessu, ef vandamál skyldi kalla, er að ég vil ekki fara úr hverfinu því sama hvað menn segja um Breiðholtið þá er ég svona líka sáttur hérna, búinn að kaupa mér ÍR peysu og allt. Íbúðir hérna í hverfinu í kring sem hafa þennan sérinngang o.s.frv. eru margar hverjar alltof stórar, 200+ í fermetrum talið og ég hef ekkert við það að gera, hvað þá efni á því að borga fyrir það. Nei, ég er meira að hugsa í svona 130-160 fermetrum sem yrði alveg yfirdrifið fyrir mig og mína.

Það hefur dottið inn á fasteignasölur bæjarins svona ein og ein íbúð sem uppfyllir flestar af þessum óskum mínum en yfirleitt er alltaf eitthvað við þær sem gerir mér létt að afskrifa þær, enda hefur maður nú ekki verið að spá í þessu af neinni alvöru, það er ekki eins og ég sé að fara að skoða ásamt því að verðpunkturinn er nú talsvert annar en hann var ´99 þegar við Sigga keyptum þessa íbúð. En þá datt draumahúsið inn á fasteignavefinn, raðhús í Breiðholti með sérinngangi vitaskuld, 150 fermetrar á tveimur hæðum með stóru hjónaherbergi, æðislegu eldhúsi, bakgarði og bílskýli. Fljótt á litið (án þess að ég hafi farið og skoðað) þá virðist þetta uppfylla alla mína drauma. En eins fljótt og ég komst á flug þá brotlenti ég jafnharðan. Tæpar 35 millur sem menn vilja fá fyrir herlegheitin! Djöfulsins rugl. Ég gæti grátið.

Er maður reiðubúinn til að skuldsetja sig til fjandans, selja djöflinum sálu sína þangað til maður er kominn niður í 6 fetin? Fórna utanlandsferðum og öðru sem manni langaði kannski að gera næstu árin fyrir lengra bili milli útveggja?

Æi, þetta er bara steypa. Í bókstaflegri meiningu.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Endurnýjuð kynni

Loksins hafði maður það af. Mætti í ræktina aftur eftir guð-má-vita-hve-lengi. Ákvað að láta slag standa og peppaði mig upp í að mæta eftir vinnu í dag. Ég hafði talsverðar áhyggjur af þessu, var alveg viss um að það væri komið eitthvað nýtt innritunarkerfi eða eitthvað sem myndi láta mig líta út eins og hálfvita. Sá fyrir mér alltof hressa afgreiðsludömu segja við mig: "Nei, ert þú með gamla kortið, við hættum með það fyrir einhverjum mánuðum. Þú þarft að fylla út nýtt eyðublað og bla bla bla..." En þetta hafðist allt saman, ég stillti mér upp í anddyrinu af minni alkunnu lymsku og létti mjög þegar ég sá gæja fara inn og hélt kunnuglegu korti á lofti. Var líka nokkuð feginn þegar fjandans vélin meðtók kortið mitt og ég komst inn.

Þetta var nú engin djúpstæð æfing, tók 30 mínútur á hlaupabrettinu og teygði síðan á ásamt einum góðum skammti af magaæfingum. En það var fínt að kíkja aftur og taka stöðuna á þessu. Nú er bara að koma sér í form fyrir sumarið, undirbúningstímabilið er byrjað.