sunnudagur, september 30, 2007

Uppgjör knattspyrnusumarsins 2007

Vatnsberar - Utandeildin

Utandeildinni lauk í síðustu viku, þ.e. riðlakeppninni. Sumarið endaði ekki nógu vel fyrir okkur, tap í siðasta leik þýddi 7. sæti í riðlinum (af 11 liðum) á meðan jafntefli eða sigur hefði dugað okkur í 5. sæti. Meira moð en í fyrra þar sem við vorum einu marki frá því að komast í úrslitakeppnina en reyndar vorum við í sterkari riðli í ár. Þokkalega sáttur við mína frammistöðu en var reyndar nánast á annarri löppinni í síðustu leikjum sumarsins sökum ökklameiðsla sem sér ekki fyrir endanum á. Spurning hvernig næsta sumar verður, ljóst er að formaður klúbbsins er að flytjast búferlum í sveitina og því staða formannsins líklega á lausu. Stefnan er að sett á að bögglast í þessu a.m.k. eitt ár í viðbót, enda karlinn kominn á þann aldur að líklega er best að taka bara eitt ár í einu.


ÍR - 2.deild

ÍR-ingar höfðu sett stefnuna á að komast upp um deild enda gáfu 3 efstu sætin í 2. deildinni sæti í 1. deildinni að ári sökum fjölgunar í úrvalsdeildinni. Leit vel út lengi sumars en ljóst var að baráttan um þessi þrjú sæti stæði á milli Hauka, Selfoss, KS/Leifturs og ÍR. 5 jafntefli í síðustu 5 leikjunum var dýrkeypt þegar upp var staðið, í fjórum þessara leikja voru þeir með 1 og 2ja marka forystu þegar skammt var eftir af leikjunum en tókst trekk í trekk að glopra leikjunum niður í jafntefli. 4. sætið í deildinni staðreynd og klárt mál að það verður erfiðara að komast upp á næsta ári, þar sem bara tvo liði fara upp og nú verða 12 lið í deildinni en ekki 10. Það verður athyglisvert að sjá hvern þeir fá til að þjálfa liðið fyrir næsta sumar og hvort hópurinn verður eitthvað styrktur, stefnan hlýtur að vera sett á 1. deildina.

Liðin sem verða í 2. deildinni á næsta ári eru:

Reynir Sandgerði
ÍR Reykjavík
Afturelding Mosfellsbær
Höttur Egilsstaðir
Völsungur Húsavík
ÍH Hafnarfjörður
Magni Grenivík
Grótta Reykjavík
Víðir Garði
Hamar Hveragerði
Hvöt Blönduós
Tindastóll Sauðárkrókur


Valur - Úrvalsdeild

20 ára bið eftir meistaratitlinum lauk loksins í gær. Get ekki sagt að maður hafi verið fyrirmyndarstuðningsmaður þetta árið, fór bara á einn leik í sumar, lokaleikinn á móti HK þar sem þeir tryggðu sér titilinn. Hlutirnir þróast þannig að hverfisklúbburinn togar æ meira í, sem er kannski ósköp eðlilegt þegar maður er orðinn talsvert tengdari inn í innvið hans á meðan maður er svolítið eins og krækiber í helvíti á Valsleikjunum, þekkir ekki hræðu þar. Taugarnar samt sterkar á Hlíðarenda, það verður alltaf þannig. Það verður gaman að fara á nýja völlinn á Hlíðarenda næsta sumar, þetta tveggja ára dæmi á Laugardalsvellinum er ekki búið að vera nógu sniðugt og aldrei að vita nema maður fari á fleiri en einn leik næsta sumar.

laugardagur, september 29, 2007

Meira af mér

Ég opnaði augun í morgun og sagði við sjálfan mig:
„Davíð, nú verður þú að fara í ræktina.“

Eða opnaði ég augun í morgun og konan sagði við mig:
„Davíð, nú verður þú að fara í ræktina.“

Skiptir ekki öllu máli, það sem skiptir máli er að ég fór í ræktina í morgun. Eftir skriljón mánaða hlé.

Mikið af sömu andlitunum. Búttaða gellan sem er alltaf í Valsæfingatreyjunni virðist nú vera svipað búttuð og áður og sköllótti karlinn sem er alltaf í hlýrabol er í ósköp svipuðu formi og áður. Það voru ákveðin vonbrigði að sjá að þetta lið sem er örugglega búið að vera að mæta samviskusamlega á meðan ég var í öðrum verkefnum er ekki orðið helköttað og skorið. Til hvers þá að vera að þessu? Svarið kom á vigtinni eftir spriklið. Ca 3 kíló kominn á karlinn frá því fyrir skriljón mánuðum. Greinilega nauðsynlegt að mæta og gera eitthvað þó ekki væri nema til að halda magninu af sjálfum sér í réttum hlutföllum. Allt er gott í hófi, líka ég.

sunnudagur, september 23, 2007

Rollur? Mínar ær og kýr

Ég og drengirnir skutumst vestur á föstudeginum, til Grundó nánar tiltekið. Gistum þar í eina nótt áður en stefnan var sett á réttirnar í Breiðuvíkinni á laugardeginum en þar upp í fjalli hafði Sigga haldið sig síðan á miðvikudaginn. Eitthvað fannst mér réttirnar frekar litlar og rólegar í umfangi enda eflaust varla svipur hjá sjón ef farið væri einhver ár eða áratugir aftur í tímann til samanburðar. Hægt gekk að koma verðandi stórsteikunum niður af fjalli og því þurftum við Logi Snær að dunda okkur í bílnum á meðan, enda skítakuldi úti. Þá var lítið annað að gera en að gera gott partí úr þessu og drengurinn kom sterkur inn. Náði meira að segja að koma inn frásögn um Eygló ömmu í millikaflanum.

fimmtudagur, september 20, 2007

Á Slysó

Fékk símtal frá leikskólanum skömmu eftir hádegið í dag, „Logi Snær datt og lenti á hnakkanum, það þyrfti að láta líta á hann.“ Ég fer niður eftir og fæ drenginn afhentan, hálfvankaðan og með þessa líka rosakúlu á hnakkanum. Hefði mátt halda að einhver hefði dúndrað golfkúlu upp í krakkann og kúlan hefði nánast gengið út hinumegin. Nánast. Spurning hvort myndin nær að lýsa þessu:


Stemming upp á Slysó, bið eftir lækni, bið eftir myndatöku, bið eftir niðurstöðu úr myndatökunni. Logi Snær var nú samt nokkuð góður í gegnum þetta allt. Var settur í einhvern höfuðskanna þar sem hann þurfti að liggja grafkyrr í ca 2 mínútur sem hafðist þegar honum var tjáð að þessi kyrrseta væri nauðsynleg ef hann ætlaði að sjá kindurnar í sveitinni á laugardaginn. Allan tímann var ég búinn að vera með æludall í eftirdragi því drengurinn var vitaskuld eins og næpa í framan og kúlu dauðans á hnakkanum. Hélt öllu niðri...þangað til við vorum á leiðinni heim að kappinn skilaði máltíðum dagsins í fangið á sér. Sem betur fer vorum við nánst komnir heim og því lítið annað að gera en að opna rúðurnar og drífa sig.

Sem betur fer var niðurstaðan úr þessu að allir komust heilir heim og ættu væntanlega að komast heilir frá þessu öllu.

mánudagur, september 17, 2007

Í bíó

Fjölskyldan úr Eyjabakkanum fór í bíó í gær í fyrsta sinn öll saman. Þetta var fyrsta bíóferðin hans Loga og kappinn því nokkuð spenntur. Fyrir valinu varð vitaskuld að vera eitthvað við allra hæfi, þó aðallega drengjanna og fyrir valinu varð Ratatouille, um rottuna sem hafði ofurást á matseld. Maður var smá stressaður að Logi Snær myndi ekki að höndla þetta enda myndin í fullri lengd, smeykur við að hann gæti ekki haft hljóð allan tímann enda finnst honum ekki leiðinlegt að tala. Til samanburðar fór Ísak Máni á sína fyrstu bíósýningu á svipuðum aldri og Logi Snær er núna og sá þá Litla lirfan ljóta en hún var ekki nema 20-30 mínútur á lengd. Logi Snær var hinsvegar í fínum gír alla myndina með sitt popp og M&M, varð smá smeykur þegar Anton Ego, hinn grimmi veitingahúsagagnrýnandi, var að belgja sig en fékk þá bara að sitja hjá pabba.

Það komu sem sagt allir heilir úr þessu og spurning hvað verður fyrir valinu næst til að fara í bíó og horfa á „risastóra sjónvarpið.“

laugardagur, september 15, 2007

Skómál drengjanna

Það að hnýta skóþveng sinn hefur reynst Ísaki Mána talsvert þungur lærdómur. Reyndar ekki alveg sanngjarnt að varpa þessu svona fram því maður hefur nú líklega ekki verið alltof öflugur við að hjálpa honum í að ná tökum á tækninni. Rámar í það þegar maður sjálfur var að nema þetta, sitjandi við eldhúsborðið á Hagamelnum með skó fyrir framan mig og hnýtti og hnýtti. Sem betur fer varð Ísaki Mána talsvert ágengt í dag, hann náði a.m.k. að framkvæma þetta nokkrum sinnum svona sómasamlega, reyndar með vakandi auga yfir öxlinni á sér en samt með eigin höndum. Nú er bara að taka næstu daga og sjá hvort hann nær ekki að ná fullum tökum á þessu. Það væri ekki verra.

Það er engin undankoma fyrir Loga Snæ úr þessu, í fótbolta fer strákurinn. Í dag fékk hann sína fyrstu alvöru takkaskó, skó sem pabbi hans rakst á einhverri útsölu og gat ekki staðist að kaupa eftir að þeir feðgar urðu sammála um að það væri rosasniðugt og rosanauðsynlegt að versla þessa skó. Skórnir eru reyndar aðeins of stórir en verða fínir næsta sumar og mögulega sumarið eftir það, fyrirhyggjan hjá karlinum er alveg mögnuð. Líklega má þó deila um þörf drengsins fyrir takkaskó næsta sumar en samt...

Ég geri mér þó grein fyrir að hann hnýtir skóþvenginn ekki sjálfur.

miðvikudagur, september 12, 2007

Léttara hjal

Var að blaða í gömlu dagbókinni minni í gærkvöldi svona á meðan maður lét hugann reika aftur til grunnskólaáranna. Því miður skrifaði ég ekki mjög djúpstæðar færslur og tímabilið sem ég skrifaði var alltof stutt. Fann samt eina sniðuga sem ég ætla að láta flakka hérna, vildi óska að ég myndi eftir þessum tónleikum:

Laugardagur 10. maí 1986

Ég vaknaði um klukkan níu. Klukkan tvö fór ég á mína fyrstu tónleika. Stebbi P. bauð mér. Á tónleikunum léku: Herbert Guðmundsson, Fölu frumskógardrengirnir, The Vokes, Megas, Possabillis og Næturgalarnir frá Venus. Ég ætlaði að taka á vídeóleigu kvikmyndina Vitnið en hún var ekki inni svo ég tók í staðinn Villigæsirnar II (Wild Geese II). Roger Taylor er hættur í Duran Duran, að minnsta kosti í bili. Ég lauk við að raða frímerkjunum sem mamma gaf mér fyrir nokkrum dögum í frímerkjabók. Ég horfði á Wild Geese II til klukkan eitt í nótt.

þriðjudagur, september 11, 2007

Daprar fréttir

Hver önnur óhuggulega andlátsfréttin sem dynur á manni, ekkert kannski alveg beint tengt manni en samt þó. Ég er búinn að minnast á Ásgeir Elíasson, ÍR þjálfara, hér á síðunni. Sömu helgi varð sömuleiðis bráðkvaddur ungur maður í veiðiferð en sá hafði verið verslunarstjóri í Bónus, tveggja barna faðir. Ég þekkti hann ekkert en aðrir strákar í vinnunni, þeir sem eru tengdari Bónus, þekktu hann vitaskuld. Svo var þriðja dæmið unga konan, sem vann með Tomma frænda, sem varð bráðkvödd. Tveggja barna móðir.

Er von að maður spyrji sjálfan sig?

Sá svo í Fréttablaðinu í morgun tilkynningu um að gamli bekkjarbróðir minn og æskufélagi, Úlfur Chaka Karlsson, hafi lútið í lægra haldi fyrir hvítblæði. Hann bjó á Hagamelnum eins og ég og við brölluðum margt saman þegar við vorum guttar en þegar ég flutti vestur í Grundarfjörðinn þá slitnuðu tengslin og ég hafði ekki séð hann í mörg ár. Hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði verið að berjast við hvítblæði í einhver ár fyrr en ég rak augun í auglýsingu um styrktartónleika handa honum sem haldnir voru síðastliðinn fimmtudag. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri svona stutt í endalokin hjá kappanum.

Maður heldur í minningarnar um góðan dreng.

sunnudagur, september 09, 2007

Fótbolti...F-Ó-T-B-O-L-T-I

Helgin búin að vera einn fótbolti eða svo gott sem. Byrjaði strax á föstudagskvöldinu þegar við Logi Snær viðruðum okkur og hittum hinn helming fjölskyldunnar á leik ÍR - KR í meistaraflokki kvenna, við Logi létum síðari hálfleikinn duga en hinn helmingur gat ekki annað en tekið allan leikinn. 0:8 tap fyrir Breiðhyltinga og framundan nánast úrslitaleikur við Þór/KA um veru í deildinni að ári.

Ísak Máni var svo að keppa í Egilshöllinni með ÍR á laugardeginum, hans síðasta mót í 7. flokki. Þrír leikir, tvö töp og eitt jafntefli en strákurinn var alla leikina í marki og stóð sig eins og hetja, pabbinn var þvílíkt sáttur þarna á hliðarlínunni. Þetta er ekki minna stress en að spila sjálfur, meira ef eitthvað er en rosagaman. Vona bara að guttanum haldi áfram að finnast gaman af þessu sjálfur, það er víst frumskilyrðið fyrir þessu öllu. Við feðgarnir smelltum okkur svo á Laugardalsvöllinn til að sjá Ísland spila við Spánverja. Frábær skemmtun í rigningu og roki og okkar menn 4 mínútum frá 1:0 sigri en 1:1 varð niðurstaðan.

Stefnan hafði verið sett aftur á ÍR völlinn í dag til að sjá heimamenn etja kappi við Mosfellinga en stórveldið úr Breiðholti er í harðri baráttu við KS/Leifur um sæti í 1. deildinni að ári. Við komuna á völlinn blasti hinsvegar við okkur fáni í hálfri stöng og ekkert merki um að leikur væri þarna að fara í gang. Þegar við fórum að grenslast fyrir um þetta þá kom í ljós að þjálfari liðsins, Ásgeir Elíasson, hafi orðið bráðkvaddur þá um morguninn og skiljanlega leiknum frestað. Minnir mann sem fyrr á að það er ekkert öruggt í þessu lífi og því er best að njóta dagsins á meðan maður getur.

Kvöldið í kvöld fór svo í spilamennsku hjá undirrituðum þegar Vatnsberar spiluðu við FC Dragon í margfrægu utandeildinni en ekki fór það á besta veg, 2:0 tap staðreynd í döprum leik að okkar hálfu. Tveir leikir eftir í sumar og ljóst er að niðurstaðan verður líklega miðjumoð í riðlinum okkar, vonandi ekkert verra en það.

föstudagur, september 07, 2007

Árviss togstreita

Þokkalega liðið á september og ég er ekki enn svo mikið sem farinn að spá í ræktarprógrammið þennan veturinn. Man að á tímabili hafði ég sett mér það takmark að byrja áður en allir þeir sem höfðu ekkert mætt í ræktina í sumar (samanber mig) myndu fara að mæta. Áður en auglýsingarnar um aðhaldsnámsskeiðin færu af stað. Enn hef ég þó ekki lagt í hann þrátt fyrir að aðhaldsauglýsingarnar frá líkamsræktarstöðvunum séu komnar og farnar sömuleiðis ef út í það er farið.

Veit ekki alveg hvað veldur, stöðin sem ég hef samviskusamlega styrkt síðustu mánuði er að flytja í nýtt húsnæði í lok ársins þar sem allt á að verða miklu flottara en það er í dag. Ef maður ætlar að halda þessu eitthvað áfram þá er nauðsynlegt að kíkja eitthvað af stað áður en sú breyting verður, annað er bara glatað. Svo á að verða einhver líkamsræktaraðstaða þegar vinnan flytur sig í nýtt hús, nokkuð sem gerist um næstu áramót. Er samt varla að sjá mig fara mikið á hlaupabrettið í vinnunni. En kannski verður það málið.

Svo var alltaf spurning um að drífa sig bara út og skokka reglulega einn hring í hverfinu, svona áður en snjórinn kemur.

Ætli sé ekki best að sofa á þessu...

þriðjudagur, september 04, 2007

Dejavú... á ítölsku?!

Vegna vinnu minnar er ég talsvert í matvörubúðum og stundum kemur það fyrir að fólk heldur að ég sé starfsmaður í viðkomandi búð, allt í góðu með það. Ég lenti hinsvegar í því um daginn að upp að mér vatt sér ítölsk hjón og voru eitthvað að reyna að biðja mig um að aðstoða sig. Gekk frekar illa því að þau töluðu greinilega hvorugt ensku en ég nappaði næsta „alvöru“ starfsmanni og fól honum það verkefni að aðstoða þau.

Hvert er ég að fara með þessari sögu?

Væri svo sem ekkert merkilegt í sjálfu sér nema vegna þess að tveimur dögum áður, á nákvæmlega sama stað í nákvæmlega sömu búð komu til mín ítölsk hjón, ekki talandi á enska tungu, og báðu mig um aðstoð með eitthvað, ekki sama hlutinn reyndar en samt rosalega furðulegt. Mér varð svo mikið um þetta að ég áttaði mig ekki á því hvort þetta var sama fólkið.

Þetta hlýtur að segja mér að ég verði að fara skrá mig á þetta ítölskunámskeið sem ég er alltaf á leiðinni í.

mánudagur, september 03, 2007

Skottúr til Suðureyrar

Hvað er hægt að gera þegar manni er boðið í skírnarveislu á Suðureyri annað en að mæta? Veislan boðuð á sunnudegi þannig að það var hægt að taka helgina í þetta. Fjölskyldan lagði af stað um þrjúleytið á föstudeginum úr Reykjavík og hélt sem leið lá vestur á firði. Eftir að hafa stoppað á Búðardal, þeim geysiskemmtilega stað, til að næra sig þá var komið til Suðureyrar rúmlega níu um kvöldið. Fengum þetta fínasta hótelherbergi, reyndar var enginn bátur innifalinn, en prýðisgott. Laugardagurinn fór í dundur í rigningunni, rúntað yfir á Ísafjörð og þessháttar.


Skírnardagurinn rann svo upp en skírnin var heima hjá Ella og Jóhönnu og haldin í hádeginu svona fyrir okkur ferðalangana held ég. Súpa og brauð og kökur á eftir, einfalt og gott. Svo var lítið fyrir okkur að gera annað en að ferðbúast á ný og halda heim. Fengum aukaferðalang með okkur en mamma kom með í bæinn eftir að hafa verið þarna fyrir vestan síðan á mánudag. Keyrt í einum rykk í Borgarnes, rúmir fjórir tímar, fyrir utan eitt stutt ferskt-loft-stopp eftir að Logi Snær hvítnaði og ældi smá eftir einhvern malarófögnuðinn. Sjoppufæði í Borgarnesi og komin bæinn sex tímum eftir brottför, um klukkan níu.

Þá var farið beint upp í Æsufell til að kíkja á Gullu og athuga stöðuna á flutningunum. Þar var allt á réttri leið þrátt fyrir mikið af kössum sem víst var búið að útvega eftir alkunnri leið á Akranesi, í ríkinu. Hinsvegar setti það flutningana í talsverðan bobba að drykkja Skagamanna var ekki nóg og því þurfti Gulla að fara á biðlista eftir kössum. Brá hún á það ráð að halda gott kennarapartí og það var ekki að sökum að spyrja, nóg fékk hún af kössunum. Vodka, Becks, Bacardi ... nefndu það, hún á kassann.


Það var því frekar þreytt stemming í Eyjabakkanum í morgun eftir allt þetta helgarbrölt. Enn finnst mér alveg ótrúlegt hvað drengirnir eru duglegir í svona bílferðum, biði ekki í þetta ef þeir væru ekki að „höndla“ þetta svona vel. Ég held samt að ég sé ekki að fara keyrandi aftur í helgarferð á Vestfirði í bráð.

Og já... Aron Kári.