mánudagur, júlí 31, 2006

Sigur Rós

Sá glefsur af tónleikunum með Sigur Rós sem voru í sjónvarpinu í gær. Ég ætla að standa upp og segja það sem enginn virðist þora að segja: Ég fíla ekki Sigur Rós! Takk fyrir, búinn að segja það. Engin leiðindi í gangi hvað mig varðar, ég bara fíla ekki þessa tónlist. Eflaust fínir strákar allt saman og margt sem þeir eru að gera er öðruvísi og það er flott í sjálfu sér, gaman þegar menn láta ekki markaðsöflin éta sig upp til agna. En ég bara fíla þetta engan veginn og ætla bara að halda fram þeirri skoðun. Þessi lög þeirra virðast vera allt sama gaulið, eins og verið að pína kött í slow motion. Þetta minnir mig svolítið á dauðarokkstímabilið þegar andstæðingar þess heldu því fram að öll lögin væru eins og ómögulegt væri að skilja hvað söngvarinn væri að syngja. Er það ekki eins og Sigur Rós?

Nei takk, þá set ég frekar Carcass - Symphonies of sickness eða Bolt Thrower - Warmaster undir geislann, og skammast mín ekkert fyrir það.

Fréttir síðustu daga


Við létum verða af því af skella okkur til Suðureyrar til Jóhönnu og co. Lögðum af stað á mánudeginum fyrir viku, vorum komin snemma af stað og búin að undirbúa okkur vel, með nesti og nýja skó. Fyrsta stopp var í einhverju veiðihúsi fyrir utan Borgarnes til að sækja Ingu en hún ætlaði að fá að fljóta með okkur eitthvað áleiðis. Svo lá leiðin til Rebekku í Reykhólasveitina en þar var búið að lofa okkur köku sem við og fengum og skoluðum henni niður með alvöru sveitamjólk. Þar sleiktum við sólina í smá stund en sólin var með í för alla leiðina. Næsti viðkomustaður var Flókalundur en þar voru Halli og Jenný með bústað og með þeim voru Guðrún, Jökull og Jenný jr. Við notuðum tækifærið og liðkuðum okkur með smá tuðrusparki ásamt því að fá að borða. Þar skildu leiðir við Ingu en við héldum áfram förinni til Sudureyri City. Þangað renndum við í hlað kl. 21:00, tólf tímum eftir að við yfirgáfum bílastæðið í Eyjabakkanum. Verð að hrósa drengjunum mínum en þeir stóðu sig alveg eins og hetjur í þessum langa rúnti. Held að málið hafi verið að taka bara góðan tíma í þetta, vera með nesti og taka góð stopp og gera smá stemmingu úr þessu. En mikið var gott að komast á leiðarenda. Á Suðureyri og í nærsveitum dúlluðum við okkur í tvo daga í brakandi blíðu og höfðum það rosalega gott.


Á fimmtudeginum var lagt af stað til Grundarfjarðar enda bæjarhátiðin Á góðri stund um helgina og af henni má maður eiginlega ekki missa. Það var sex tíma túr með stoppi og aftur fengu drengirnir mínir plús fyrir frammistöðuna. Ótrúlegur fjöldi af fólki var í plássinum um helgina, öll tjaldstæði pökkuð og í mörgum görðum voru þetta 1-3 tjöld. Eitthvað er komið af myndum á myndasíðuna.

Komið heim í gær en Sigga nennti ekki að stoppa lengi heima heldur fór í bústaðinn undir jökli í dag til að hjálpa við framkvæmdirnar á honum og tók strákana með. Á meðan hef ég það verkefni að fúa inni á baðherbergi hjá okkur. Vonandi leysi ég það fullnægjandi af hólmi.

Síðan fer fríinu að ljúka, mæti í vinnuna á fimmtudaginn og þá byrjar það fjör aftur.

föstudagur, júlí 21, 2006

3:1 og Manchester skorar...

Logi Snær er algjör snillingur, algjörlega hlutlaust mat, þetta er bara eitthvað sem ég er alltaf að komast betur og betur að. Þegar við erum að leika okkur í fótbolta þá segir hann stundum: "3:1" eins og hann sé að gefa til kynna hver staðan sé, án þess að það sem á undan hefur gengið gefi endilega tilefni til að halda að staðan sé 3:1. Nú er hann farinn að taka þennan frasa á næsta stig. Venjan er þegar hann er búinn að gera stykkin sín í bleyjuna sína þá eru ósköpunum smellt í poka og beint í ruslarennuna hérna fram á gangi. Ekki fyrir löngu fór hann að heimta það að hann fengi sjálfur að henda pokanum í rennuna. Svo tók hann upp á því að stilla sér upp fyrir framan rennuna og segja: "3:1". Þá tekur hann pokann og kastar honum inn í rennuna af öllu afli og segir: "Manchester skorar".

Snilldin í þessu öllu er að hann diggaði þetta trix sjálfur. En þvílíkur snillingur er þessi drengur.

Blindur fær sýn


Þá hefur þessi kappi prufað að fá sér linsur. Fyrir þá sem ekki vita hefur sjónin mín alltaf talist vera með afbrigðum góð og þrátt fyrir að árin færist yfir þá heldur hún enn megninu af sínum gæðum, hvað svo sem síðar verður. Málið var einfaldlega þannig að í gær, sem var einmitt leikdagur hjá Vatnsberunum, þá fékk ég hringingu frá formanni klúbbsins þar sem mér var tjáð að ég þyrfti að koma mínum rassi niður í ákveðna gleraugnabúð hér í bæ og nálgast þar linsur. Þetta voru engar venjulegar linsur heldur einhverjar magnaðar Nike fótboltalinsur sem eiga að hjálpa okkur sem stundum tuðruspark að sjá boltann í mikilli birtu, en einmitt þannig aðstæður voru í gær. Ég reyndi að malda í móinn enda hef ég reglulega þakkað æðri máttarvöldum fyrir það að þurfa ekki standa í svona gleraugna- og linsumálum. Tilhugsunin um að troða einhverju í augun á mér var heldur ekkert rosalega spennandi. Maður lét sig hafa það að koma sér þarna niður eftir enda eru þeir sem ráða þarna ríkjum löglegir meðlimir Vatnsberanna og ljóst að þeir myndu fara með satt og rétt mál í þessu máli sem og öðrum. Eftir stutt samtal var ákveðið að láta slag standa og maður var leiddur í bakherbergi þar sem maður fékk Linsuísetningu 101 á mettíma með tilheyrandi skýringarmyndum. Verð ég að segja að þetta gekk nokkuð vel held ég bara, þó ég segi sjálfur frá. Ég ákvað að hafa bara gripina í augunum, enda ekki nema 3 tímar í leik og óvíst að maður kæmi þessu aftur í sig svona einn og óstuddur. Með þetta í augunum og linsuvökva og linsubox undir hendinni hélt maður út í orangelitaðan heiminn. Ísak Máni var með mér og honum fannst pabbi sinn frekar furðulegur en ok samt. Drengurinn líklega farinn að venjast því að eiga furðulegan faðir. Hann var orðinn frekar svangur og náði með einstakri lipurð að plata mig til að fara á KFC. Þegar við eru á bílastæðinu þar þá fara að renna á mig tvær grímur. Ég er náttúrulega eins og einhver geðsjúklingur með appelsínugul augu! Hvað um það, ég læt mig hafa það enda búið að gefa loforð fyrir þessu. Inn arka ég og reyni að horfa ekki í augun á afgreiðslumanninum, borga og forða mér í sæti. Sit þarna og vona að ég hitti ekki neinn sem ég þekki, forðast að horfa á nokkurn þegar við förum.

Hvað um það, þetta virkaði nógu vel til að við unnum Nings Utd 2:1. Ég spilaði á móti sterkri sól í fyrri hálfleik, derhúfulaus og kom alveg heill frá honum. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik þegar sólin var í bakinu að við Haraldur lögðumst á eitt til að fá spennu í leikinn og gáfum Ningsurum eitt mark. Okkur til happs var okkur bjargað með stórglæsilegu sigurmarki sjö mínútum fyrir leikslok, magnaður Vatnsbera sigur og menn eru enn í toppbaráttunni í C-riðli.fimmtudagur, júlí 20, 2006

Enn af salernisherbergismálum

Ok, þetta gengur allt saman. Finnst mér þetta ganga hratt? Nei. Tel ég, svona eftir að hyggja, að þetta sé hins vegar eðlilegur tími? Já.Þegar við byrjuðum á þessu fannst mér annað ótrúlegt en að þetta yrði nú yfirstaðið á þokkalega skömmum tíma. Ég hef hins vegar komist að því að allt tekur þetta tíma og það eru ótrúlegustu hlutir sem taka ótrúlegastan tíma. Við skulum samt hafa það á hreinu að ég stend ekki sjálfur inn í innsta hring heldur hvílir það óneitanlega aðallega á Siggu og pabba hennar.Til að gera ljósa verkaskiptinguna eins og daginn í gær þá var dagurinn svona hjá mér annars vegar og Siggu hins vegar:

Ég:

Skreið á fætur um kl. 09:00 þegar drengirnir voru farnir að þrá meiri athygli. Gaf þeim að borða áður en Ísak Máni var gerður klár fyrir fótboltaæfingu. Fór með hann á æfingu og tók Loga Snæ með mér. Notaði tímann meðan Ísak Máni var á æfingu að fara í einhverjar snattferðir, m.a. kaupa meira flísalím. Við Logi fórum svo á æfingarsvæðið hjá ÍR og horfðum á restina af æfingunni hjá Ísaki í góða verðrinu og tókum léttan fótbolta í bland með. Fórum svo heim og dúlluðum okkur aðeins út í garði áður en við fengum okkur að borða. Við Logi smelltum okkur svo í Bónus og keyptu eitt og annað til heimilisins. Síðan fórum við heim, sóttum Ísak Mána og fórum í sund og fengum okkur sjeik að því loknu. Fengum skilaboð um að sækja eitt stykki slípirokk út í bæ. Komum með hann heim og fórum aftur út í garð í meira chill. Smellti mér svo út á svalir, stóð klofvega yfir flísasöginni og skellti nokkrum hamborgurum á grillið. Fjölskyldan henti þeim í andlitið á sér en síðar gerði ég Loga kláran fyrir svefninn svo móðir hans gæti bara hent honum beint inn í rúm því ég þurfti að fara út á stúfana og sinna skyldum mínum vegna stjórnarstarfa fyrir blokkina. Glápti svo á RockStar Supernova og fór alltof seint að sofa.

Sigga:


Klukkan hringdi kl. 08:00. Fékk mér að borða og byrjaði að flísaleggja. Pabbi kom fljótlega eftir hádegi og hjálpaði mér. Hann fór svo aftur heim fyrir kvöldmat. Fór út í 10-11 rétt fyrir kvöldmat og kíkti á sólina. Borðaði og hélt áfram að flísaleggja þangað til ég fór að sofa.

mánudagur, júlí 17, 2006

Óþægileg tilfinning

Þurfti að skjótast í Kringluna um daginn. Var á leiðinni út þegar ég rak augun í eina af myndunum sem eru á World Press Photo sýningunni þar. Hafði ekki sýnt þessari sýningu neinn áhuga og veit ekki af hverju ég stoppaði við þessa mynd. Sá ekki alveg hvað var á myndinni þannig að ég færði mig nær. Myndin var af líki Vani Vamuliya sem var 5 ára. Maður hefur séð allskonar hörmungar fréttamyndir utan úr heimi á síðum tímarita og í sjónvarpinu og gleymi seint ömurleikanum sem maður sá í fátækrarhverfunum í Namibíu en af einhverjum ástæðum þá sló þessi mynd mig svona rosalega. Svo þegar ég lét augun reika örlítið til hliðar þar sem ég stóð þarna þá blasti við mér Hagkaup með risastóra útsöluborða og fullt af fólki arkandi um með innkaupapoka. Þeirra helsta vandamál var líklega hvað það ætti að hafa í kvöldmatinn.
Ég fékk þessa furðulega tilfinningu, nánast eins og samviskubit. En samt ekki. En óþægileg var hún.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Í Grundó

Fór í Grundarfjörð um helgina. Það var biðstaða á framkvæmdum hérna á baðherberginu og því ákvað maður að skella sér einhvert þar sem salernisaðstaða var í boði. Sigga og Logi Snær fóru í Baulumýri en við Ísak Máni héldum áfram til Grundarfjarðar. Í gangi voru framkvæmdir á bjálkakofanum og Sigga sá þann kost vænstan að aðstoða við það, sem einskonar skiptimynt fyrir aðstoðina í baðherbergismálum. Eða það að því fyrr sem framkvæmdirnar í sveitinni myndu ganga yfir því fyrr væri hægt að fara aftur í baðherbergið.

Fengum þetta fína veður í Grundarfirði og þetta var svona hefðbundið, fórum á sparkvöllinn og fengum nóg að bíta og brenna. Ef það er eitthvað sem maður tengir ekki við Smiðjustíg 9 þá er það hungurtilfinning. Það setti skemmtilega mark á plássið þessi franska seglskútukeppni en skúturnar komu í Grundarfjarðarhöfn aðfaranótt sunnudagsins og við fórum og kíktum á gripina.Að öðrum málum: Fer eitthvað tvennum sögum af því hversu vel maður hefur staðið sig í foreldrahlutverkinu a.m.k. að því sem snýr að Ísaki Mána og bílum. Alla vega, drengurinn fékk að setjast undir stýri í fyrsta skipti núna á laugardaginn. Ég fann einhvern stuttan afvikinn vegspotta og leyfði honum að stýra fjölskyldubílnum. Veit ekki alveg hversu merkilegt honum fannst þetta. Það sem hann sagði var: "Pabbi, þetta er eins og í tölvuleik." Kannski eru tölvurnar að eyðileggja fyrstu upplifun okkar á ýmsa hluti, hvort sem það telst vera gott eða slæmt.

Forza Azzurri


Ítalía heimsmeistarar í fótbolta, bara snilldin ein. Þetta hefur tekið smá tíma að síast inn. Maður hefur verið talinn hálffurðulegur í gegnum tíðina vegna þess að maður hefur löngum stutt Ítalíu á helstu stórmótum í knattspyrnu. Leiðinlegur varnarbolti með dýfingameisturum í framlínunni heyrði maður alltaf en svei mér ef það var ekki bara til þess fallið að maður varð ákveðnari í að halda með liðinu. Man enn hvað manni sveið þegar Ítalir héldu keppnina árið 1990 og duttu út í vítaspyrnukeppni á móti Argentínu í undanúrslitum og gerðu þar með drauminn um úrslitaleikinn Ítalía - V-Þýskaland að engu. Roberto Donadoni og Aldo Serena klúðruðu vítunum og ég sá nýverið nýlegt viðtal við Serena þar sem hann fjallaði um þennan atburð og það var greinilegt að þetta var eitthvað sem hann losnar aldrei við. Þessar vítaspyrnukeppnir hafa farið illa með ferilinn hjá mörgum manninum

Í næstu keppni komust Ítalir alla leið í úrslitaleikinn á móti Brasilíu. Ítalirnir voru reyndar frekar rólegir í riðlakeppninni þar og það var ekki fyrr en gulldrengurinn sjálfur Roberto Baggio tók sig til og ruddi nánast einn og óstuddur öllum mótherjum sem fyrir þeim varð úr vegi. Úrslitaleikurinn var reyndar sá leiðinlegasti í manna minnum, hvorugt liðið skoraði í 120 mínútur og mig minnir að fyrst skot Ítala á mark Brasilíumanna hafi komið á 65. mínútu eða eitthvað álíka slæmt. Vítaspyrnukeppni í fyrsta sinn í úrslitaleik á HM staðreynd og þar töpuðu Ítalir. Franco Baresi og Daniele Massaro misnotuðu fyrir Ítalíu áður en títtnefndur gulldrengur steig upp og þurfti að skora til að halda þeim inn í keppninni en tók sig til og dúndraði himinhátt yfir markið.

Í keppninni 1998 duttu Ítalía út fyrir Frökkum í 8-liða úrslitum eftir vítaspyrnukeppni, man ég var að vinna hjá GÁP og við vorum með sjónvarp inná lager og þar sá ég leikmann Roma, Di Biagio, negla boltanum í þverslánna sem var nóg til að Ítalir fóru heim. 2002 fóru hinir bláu út í 16 liða úrslitum fyrir heimamönnum í S-Kóreu, sigurmarkið kom í framlengingu en ekki vítaspyrnukeppni sem verður að teljast til tíðinda.

Í millitíðinni höfðu þeir lent í úrslitaleik á EM 2000 á móti Frökkum. Marco Delvecchio leikmaður Roma setti fyrsta landsliðsmarkið sitt í þessum úrslitaleik og lengi leit út fyrir að það myndi duga en Sylvian Wiltord náði að jafna á síðustu andartökum leiksins og David Trézéguet kláraði svo leikinn í framlenginu með gullmarki. Það var skelfileg stund og þetta gullmark var fáránleg regla.

Ég sé á þessu að það var alveg kominn tími á þennan sigur hjá Ítalíu, fyrsta vítaspyrnukeppnin sem þeir klára og þetta var tíminn til að klára eina svoleiðis. Að ég tali nú ekki um að örgustu Ítalíuhatarar þurftu að kyngja öllum fyrri yfirlýsingum því Ítalarnir spiluðu flottan fótbolta, skiptu yfir í vörn og sókn eftir þörfum, með blússandi sóknarbakverði og fyrst og fremst gargandi liðsheild, ekki sundurleitur hópur prímadonna.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Framkvæmdirnar hafnar

Ég veit ekki alveg hvenær við, þ.e. ég og konan, ákváðum að stíga skrefið til fulls og fara af stað í framkvæmdirnar á baðherberginu okkar. Kannski var ég ekki á staðnum. Kannski var þetta um það leyti sem ítalski þjóðsöngurinn hljómaði fyrir þennan magnaða undanúrslitaleik Ítala og Þýskalands en þá var ég staðsettur í Þýskalandi, þótt ég væri hérna heima í stofu. Allavega, Sigga var búin að undirstinga karl föður sinn um að veita þessu verkefni forstöðu. Þannig að í gær var komið til að skoða aðstæður, eftir þá ástandsskoðun litu hlutirnir svona út:Tæpum sólarhring síðar var staðan svona:Ég sit hérna í reykmekki og veit ekki neitt. Eða þykist ekki vita neitt. Er annars mjög ánægður að þetta er farið í gang og verð enn ánægaðari þegar þessu verður lokið. Sigga er að fíla svona framkvæmdir upp að vissu marki, ég reyni frekar að velja mér eitthvað annað en að standa inn í svona reykmekki með kíttispaða eins og að fara í sendiferðir eftir vatnslásum o.s.frv. Þetta er s.s. allt farið af stað, gamla baðkarið komið út í Sorpu og nýja verður sótt á morgun. Upphengt klósett verður verslað á morgun og ferð númer 2 í Sorpu, með restarnar af flísunum. Þetta klárast nú ekki alveg á næstu dögum held ég, fer svolítið eftir hjálparhellunni en maður vill nú ekki halda uppi stöðugri pressu enda er sú hella með mörg járn í eldinum. Reyndar voru aðrar hellur líka duglegar eins og sjá má:

Nú koma nokkrir HM lausir dagar og þá verð ég ekki eins mikið í Þýskalandi, maður ætti því vonandi að komast í hóp hjálparhellna.

mánudagur, júlí 03, 2006

Sumarfríið framundan

Sumarfrí framundan, yessss! Kappinn vinnur daginn á morgun og svo er það bara tærnar upp í loft með tilheyrandi táfýlu. Ekkert lítið frí framundan, stilli vekjaraklukkuna á 3. ágúst. Ekki er nú ráðgert að yfirgefa landssteinana í þetta skiptið en það er spurning um að hossast um þjóðvegi landsins með ís í annarri, pylsu í hinni og Sumargleðina í geislanum. Bið ekki um mikið, bara örlitla sólarglætu á kollinn á mér.

Annars er mér alveg hætt að lítast á þennan to-do-list sem stækkar alltaf í höfðinu á mér með tilheyrandi þörf að setjast niður og hvíla mig. Mér finnst langt síðan ég fór að horfa til sumarfrísins þegar einhver verkefni fóru að skjóta upp kollinum. Hvað erum við að tala um?:

Taka WC herbergið í íbúðinni minni niður í frumeindir og tjasla einhverju upp aftur í staðinn.
Mála forstofuna og ganginn.
Mála svefnherbergið mitt.
Taka til í geymslunni og vera svolítið grimmur að henda hlutum í þetta skiptið.

Æi, þetta er nú ekkert svo rosalegt. Byrja af krafti og fer beint í geymsluna á frídegi nr. 1 og klára það mál fyrir helgi. Fresta WC málinu þangað til ég byrja að vinna aftur, lána konunni markmannsbuxur með góðum púðum á hnjánum svo hún geti dundað sér við að flísaleggja á meðan börnin eru látin dunda sér inn í herbergi. Finn svo einhvern rigningardag í fríinu (ætti ekki að vera vandamál) til að henda málingu á forstofuna og ganginn og kemst að þeirri niðurstöðu að ástandið á svefnherberginu hafi ekki verið svo slæmt og því sé engin nauðsyn að mála það.

Gleðilegt sumar.