sunnudagur, júlí 30, 2017

Í fríi á Akureyri - 5 réttir í veðurlottóinu

Við skelltum okkur norður á Akureyri í tæpa viku seinnipart júlímánuðar.  Fengum, fyrir talsverða tilviljun, kennarafélagsíbúð sem datt inn í úthlutun núna í vor.  Alltaf algjör lottó með veður í svona fyrirframákveðnum innanlandsferðalögum, minnist vikunnar í VR bústaðnum í Miðhúsaskógi fyrir þremur árum þar sem rigndi aðallega og fríið bar þess óneitanlega merki.  Þannig að maður var alveg með það í kollinum að við gætum verið að fara norður í einhverja norðanátt, 5 gráður og þoku.  Og fyrsta langtímaspáin var ekki að vinna með okkur.  En það rættist aldeilis úr þessu, fengum algjört bongóblíðuveður þessa daga sem við vorum á svæðinu.

Lögðum af stað á miðvikudagsmorgni, því miður Ísaks Mána-laus, þar sem hann þurfti að vinna.  Stoppuðum á Blönduósi og fórum í sund, skothelt dæmi.  Ókum svo inn til Akureyrar í skýjað en 20 stiga hita.  Vorum þarna fram á mánudag.  Höfðum ráðgert að taka mögulega rúnt til Húsavíkur, jafnvel skoða Dettifoss o.s.frv. en veðurblíðan var svo yfirgengilega góð að það endaði svoleiðis að við vorum nánast bara á Akureyri og næsta nágrenni.  Tókum reyndar part úr degi einn bíltúr út á Dalvík og Ólafsfjörð, slepptum Siglufirði í þetta skiptið.  Annars var þetta bara hefðbundið chill, endurbætta sundlaugin á Akureyri var í göngufæri frá íbúðinni okkar og svo dunduðum við okkur almennt.  Jólahúsið, Lystigarðurinn og Flugvélasafnið var meðal þeirra hluta sem voru teknir ásamt því að miðbærinn og skólalóðir voru stundaðar.  Inga, Gunni og Hekla mættu svo á svæðið, eftir ferðalag m.a. á Egilsstaði, og voru þau líka með hús fyrir norðan.  Tókum m.a. kvöldstund þar þar sem horft var á leik Íslands og Sviss á EM kvenna og grillað.

Þurftum svo að skila af okkur húsinu á mánudeginum þannig að það var bara tekin svipuð formúla og áður, stoppað í sundi á Blönduósi, borðað á Staðaskála og svo bara heim.  Engin geimvísindi á bak við þessa ferð en ofsalega var þetta ljúft.

Jólahúsið

Á flugvélasafninu

Eitthvað var farið í körfubolta

Á byggðarsafninu á Dalvík

Í lystigarðinum á Akureyri

föstudagur, júlí 14, 2017

Þriðji körfuknattleiksferillinn í fæðingu?

Í morgun minnti Facebook mig á þá staðreynd að á þessum degi fyrir tveimur árum fór Daði Steinn á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá ÍR.  Hann hefur verið á fullu í fótboltanum síðan og það er vel.  Við vorum svo líka að reyna að fá hann til að fara á körfuboltaæfingar síðastliðinn vetur, en hjá ÍR þurfa krakkar í 1. og 2. bekk ekki að borga mörg æfingargjöld heldur er bara eitt gjald og þau mega þá mæta á æfingar hjá öllum deildum félagsins.  En hann var ekkert ginkeyptur fyrir það, mætti bara á sínar fótboltaæfingar en stundaði svo körfubolta hérna heima í stofu með eldri bræðrum sínum.


En núna í sumar datt inn viku námskeið hjá Brynjari Karli, þjálfara sem er að hefja störf hjá ÍR næsta vetur, og var þetta námskeið fyrir stráka fædda 2009 og 2010.  Námskeiðið var ókeypis og okkur fannst tilrauninnar virði að tékka á stemmingunni hjá drengnum.  Hann var ekki alveg viss, en samt nokkuð spenntur.  Niðurstaðan varð sú að félagi hans, hann Bæring, ætlaði að fara með honum og sömuleiðis var samið um að ef Daði færi fyrsta daginn og líkaði það vel að hann myndi klára námskeiðið þá yrði farið og verslað handa honum körfuboltaskó sem hann rakst á um daginn á útsölu í Smáralindinni.  Bláir og hvítir Nike KD9, nákvæmlega eins skór og Logi Snær er að m.a. að spila í um þessar mundir.  Fyrsti dagurinn gekk svona glimrandi vel, Daða fannst þetta frábært og farið var og splæst í nýju skóna eftir fyrsta daginn og kláraði hann námskeiðið í nýju skónum.  Félagi Bæring sást reyndar ekkert eftir fyrsta daginn og það breytti engu fyrir minn mann, þetta var nefnilega svo gaman.

Þetta námskeið var að klárast núna í dag, á tveggja ára fótboltaæfingaafmælinu hans, og aðspurður um hvort hann ætli að kíkja á körfuboltaæfingar næsta haust var svarið einfalt og skýrt:  Já.

Sjáum til hvað gerist.  En skórnir eru a.m.k. klárir.

miðvikudagur, júlí 05, 2017

Logi Snær í körfuboltabúðum á Spáni


Logi Snær skellti sér til Spánar í körfuboltabúðir þetta sumarið.  Forsagan var sú að Borche Ilievski, þjálfari meistaraflokks ÍR og reyndar tveggja annarra yngri flokka, var með alþjóðlegar körfuboltabúðir í litlum bæ á Spáni, Amposta, sem er ekki svo langt frá Barcelona.  Alþjóðlegar já, en stór hluti af þessum 70-80 krökkum sem voru þarna, voru frá Íslandi og stærsti einstaki hópurinn kom frá ÍR, 23 strákar.  En þjálfarateymið var svo alþjóðlegt.  Búðirnar voru frá 23.-30.júní en hópurinn fór út þann 21. og kom aftur 31. júní.
Við vorum ekki alveg viss hvort við ættum að senda hann í þetta, þar sem þetta var á sama tíma og Skagamótið hans Daða og svo vorum við ekkert rosalega spennt fyrir því að fara þarna út til að „hanga“ í spænskum smábæ í rúma viku.  En það var úr að hann fékk að fara en út með strákunum fór flott fararstjórateymi og sömuleiðis eitthvað af foreldrum.  Logi var reyndar í yngri kantinum af þeim sem fóru og sá yngsti sem fór foreldralaus.  Hann var t.d. ári yngri en þegar Ísak Máni fór foreldralaus á körfuboltamót til Gautaborgar hérna um árið.

Þetta var mikið prógramm, vaknað snemma til æfinga og dagskráin var yfirleitt löng.  Eftir að hyggja var þetta aðeins of langt en hann var sáttur við allt og farastjórarnir báru honum mjög vel söguna.  Gerði sér lítið fyrir og tók sigurverðlaun í 1-á-1 meðal þeirra yngri.  Hópurinn náði svo lokadeginum í Barcelona þar sem kíkt var á Nou Camp völlinn og kíkt í eitt moll, sem Loga fannst nú ekki leiðinlegt þar sem hægt var að kaupa eins og 2 skópör.

En mikið ósköp var hann þreyttur þegar heim var komið, alveg búinn á því greyið.

Brottför á Keflavíkurflugvelli



Logi Snær og Erik




Heildarhópurinn

Hópurinn frá ÍR


Ívar, Erik og Logi

Menn sprækir að huga að heimferð