þriðjudagur, júlí 24, 2007

Safngripur

Ég vil nú meina að ég hafi ekki miklar áhyggjur af hækkandi aldri mínum en af einhverjum ástæðum finnst manni aldrei skemmtilegt að vera minntur á aldurshækkunina.

Ég og eldri drengurinn vorum staddir á safni í Stykkishólmi núna í sumarfríinu og vorum að virða fyrir okkur hin ýmsu tæki og tól frá liðnum árum. Allt í einu galar drengurinn upp: „Hey pabbi, var þetta ekki til þegar þú varst lítill?“ Stóð hann fyrir framan ritvél og virti hana fyrir sér með furðu. Ég gat nú ekki neitað þessu en vildi nú meina að þær ritvélar sem ég notaði á sínum tíma hafi nú verið flottari og tæknilegri en þessi græja. Ég fann nú samt að þessi röksemdafærsla var nú ekkert að fegra þetta neitt, við vorum í raun staddir á safni að skoða grip sem ég þekkti vel.

Núna áðan komu svo tvær stelpur og spurðu eftir Ísaki Mána.

Maður verður ekki yngri með degi hverjum, það er ljóst.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Rigning?!

Ekki búið að rigna á landinu í einhverjar vikur og ég búinn að vera í frí í sól og sumaryl. Hvað gerist svo að morgni fyrsta vinnudags míns?Stórfurðulegt en víst nauðsynlegt fyrir gróðurinn.

mánudagur, júlí 16, 2007

Styttist í annan endann

Þá fer sælunni að ljúka þetta sumarið, þ.e. sumarfríinu. Stefnan er sett að stimpla sig inn niðri í vinnu núna á fimmtudaginn og þá hefst harkið aftur. Fórum á fimmtudaginn í bústað til Ingu og Gunna austur í Úthlíð, þau lögðu af stað í tjaldferðalag vestur á firði á föstudeginum en við fengum að slappa af í bústaðnum og vorum fram á sunnudag. Brakandi blíða eins og venjulega og niðurstaðan eftir svona er að heitur pottur er jafnnauðsynlegur bústöðum og nettenging er fyrir tölvu. Það var ekki óvenjulegt að það væru teknar tvær skorpur á dag í pottinum. Sömuleiðis komst ég að því að ég er óheyrilega öflugur í Yatzy, held ég hafi bara tapað tveimur leikjum en það voru teknir nokkrir leikirnir. Við vorum alvöru túristar og fórum á Gullfoss og Geysir, ár og dagar síðan ég hef komið þangað og ég held að drengirnir hafi ekki farið þangað áður, a.m.k. ekki Logi Snær.Við erum búin að taka Elliðaárdalinn og Nauthólsvíkina eftir að við komum heim, ekki slæmt það. Þetta sumarfrí hlýtur að fara í einhverjar sögubækur hvað veðrið varðar, man eftir að hafa fengið einhverja dropa en það var varla meira en hluti úr einhverjum tveimur dögum eða svo. Ekki nóg með að rigningarleysið hafi verið algjört heldur hefur sólin verið algjör. Hef líka ekki verið svona svartur held ég síðan að maður stundaði ljósabekkinn í kjallaranum hjá Magga og Bíbí í Baugatanganum á fyrstu námsárum mínum í Háskólanum.

Framkvæmdir heima fyrir hafa því legið niðri, ekkert var málað o.s.frv. en mér finnst það bara alveg í lagi. Þetta eru hlutir sem gera má þegar fer að rigna.

Niðurstaða úr sumarfríinu: Sáttur?

Mjög sáttur.

mánudagur, júlí 09, 2007

Afturhvörf

Á sl. tveimur sólarhringum hef ég endurnýjað kynni við nokkra hluti, sumir reyndar héldustu í hendur hvor við annan.

Ég hitti gamlan skólafélaga frá Laugarvatni í gær, hafði reyndar rekist á hann 2-3 sinnum nýverið á samkomum tengdar ÍR en hann er starfandi formaður knattspyrnudeildar félagsins ásamt því reyndar að vera framkvæmdarstjóri flugfélags hér á landi. Hvað um það, í samtali okkar kom í ljós að hann hefur viðhaldið ákveðnum samskiptum við hluta af gömlu skólafélögunum. Það er alveg á hinn veginn farið hjá mér, get með réttu sagt að hafa misst allt samband við gömlu félagana frá Laugarvatni af einhverjum ástæðum. Hluti af samskiptum félaga míns við þessa fyrrum skólafélaga er að spila reglulega fótbolta með þeim og svo vildi til að þeir áttu akkúrat að hittast síðar þetta kvöld. Hann spurði mig hvort ég væri ekki tilbúinn að mæta með í þetta skipti og fyrir forvitnis sakir lét ég slag standa. Sparkvöllur í Garðabæ var viðkomustaðurinn og voru nokkur kunnugleg andlit á svæðinu en það hittist þannig á að Old Boys hópur frá Stjörnunni var á svæðinu og skoraði okkur á hólm. Ég var sem sagt kominn út í stærra dæmi en ég ætlaði mér, völlurinn stærri en ég hafði ætlað mér o.s.frv. Annað sem ég dustaði svo rykið af var það að spila sem útispilari. Fór mikinn á vinstri kantinum þótt ég segi sjálfur frá og eftir að hafa m.a. sett tuðruna sláinn-inn með hægri þá var ekki aftur snúið með egóið. Hugsaði með mér að þetta væri helv... fínt að spila svona út og kannski ætti ég að hugsa minn gang með ferilinn, hæfileikum mínum væri kannski hreinlega sóað í markinu. Fljótlega var mér þó kippt niður á jörðina þegar þolið var búið, þá var þetta hætt að verða gaman. Lítið gaman að láta "gamla" karla taka sig í bakaríið þegar þolið var búið.

Svo fór ég í Melabúðina í dag, gömlu hverfisbúðarinnar úr æskunni. Var þarna inni um kvöldmatarleytið og þetta var væntalega eins og að vera í síldartunnu. Varla hægt að komast fram né aftur, allt vitlaust að gera í kjötborðinu og opið á þremur afgreiðslukössum. Þetta var afturhvarf sem bragð var af.

sunnudagur, júlí 08, 2007

Sumarfríið samanstendur af stuttbuxum og snjó

Kominn heim í kotið eftir smá útlegð í Grundarfirði og nærsveitum. Maður hafði það rosalega gott enda frábært verður eins og var búið að vera. Eitthvað var maður að aðstoða múttu við að mála hluta af húsinu en annars var bara slappað af að mestu leyti. Við tókum m.a. rúnt fyrir jökull og tókum þessa túristastaði þarna eins og Djúpalón, Hellnar, Arnarstapi svo eitthvað sé nefnt. Enduðum svo upp á jöklinum sjálfum og til gefa mönnum lýsingu á veðrinu þá var undirritaður í stuttbuxum og leið bara nokkuð vel. Myndir komnar inn á myndasíðuna, loks komu inn myndir sem eru ekki af einhverju fótboltamóti hjá einhverjum í fjölskyldunni!


Talandi um stuttbuxurnar þá hlýt ég að hafa slegið persónulegt met með því að vera 7 daga samfleytt í stuttbuxum á Íslandi (ekki alltaf sömu buxunum þó) sem verður að teljast mjög svo ásættanlegt. Þetta heitir jú Ísland og ætti þ.a.l. ekki að vera mjög stuttbuxnavænt.

Ekkert mikið planað fyrir næstu daga, bara finna sér eitthvað sniðugt að gera.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Framkvæmdarandleysi á kamrinum

Þá er nákvæmlega ár liðið síðan framkvæmdir á baðherberginu heima hjá mér hófust eins og talað var um hér við það tækifæri. Núna ári seinna eru við ekki enn búin að setja upp handklæðaslá og klósettrúlluhaldara, í raun erum við ekki einu sinni búin að versla þessa hluti. Það er alveg magnað hvað maður getur vanið sig á og hlutir sem virðast vera hluti af órjúfanlegri heild í lífsmynstrinu eru svo þegar á hólminn komið auðlifað án. Ég hef vanist því að klósettrúllan geti verið á 2-3 stöðum þegar ég þarf á henni að halda en svo lengi sem hún er í seilingarfjarlægð þá er ég sáttur.

En samt spurning hvort maður þurfi ekki að fara að taka sér taki og klára þetta mál?

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Samskipti í tungumálalegu ljósi

Því hefur oft verið haldið fram að eitt af því sem geri mannskepnuna æðri öðrum dýrum, eða hafi a.m.k. fleytt henni lengra á þróunarbrautinni, sé tungumálið. Þessi hæfileiki að geta tjáð sig við aðra af sama stofni er augljóslega sterkt afl í almennum samskiptum, við getum tjáð skoðanir okkar og tilfinningar við aðra og sömuleiðis fengið að vita annarra skoðanir og tilfinningar.

Ég fór bara aðeins að pæla í þessu um daginn þegar fjölskyldan var upp á Akranesi um daginn og Logi Snær var eitthvað að skoppast í kringum tvær sænskar skottur (eru víst samkvæmt mínum útreikningum 50% sænskar og 50% íslenskar) sem eru líklega árinu eldri en hann. Hann vitaskuld talar bara íslensku en þær voru bara í sænskunni að mér heyrðist. Börn eru mjög skemmtileg hvað þetta varðar því þau eru svo hrein og bein og laus við mikið af þeim hömlum sem færist yfir okkur með aldrinum. Ég hafði því talsvert gaman af því að fylgjast með þeim úr fjarlægð, Logi Snær lét dæluna ganga allan tímann og var óþreytandi að reyna að stjórna leiknum. Ég gerði mér reyndar ekki alveg grein fyrir því hvort hann gerði sér grein fyrir því að þær skildu hann ekki, eða a.m.k. illa. Þær voru reyndar fámálli en hann og héldu sig meira til baka en fannst hann samt nokkuð spennandi, það spennandi að þær voru staðráðnar í að láta tungumálaörðuleika ekki stöðva sig.Maður veit líka af fólki, samanber Varða fósturpabba, sem hafa ferðast talsvert um heiminn á íslenskunni einni saman en komist ótrúlega áfram á handarpati, yes-no-ok og brosað á réttum stöðum. Ég er ekki að segja að tungumálið sé ofmetið en líklega erum öll nógu lík til að geta farið í boltaleik í stofunni án þess að orða sé þörf.