mánudagur, júlí 30, 2018

Á góðri stund í Grundarfirði 2018

Eins og líklega hefur einhverntímann komið fram á þessum miðli þá man ég ekki eftir að hafa misst af þessari bæjarhátíð sem var nú haldin í ca 20. skipti undir þessum formerkjum, var haldin í fyrsta sinn undir öðru nafni, 100 ár í Nesinu, í tilefni 100 árum eftir að Grafarnes, þar sem Grundarfjörður stendur nú, varð löggildur verslunarstaður.  Alla vega, þetta árið varð þátttaka mín í sögulegu lágmarki, að ég man best.

Þessa helgi hittist þannig á að það var Baulumýrarhittingur á laugardeginum þannig að það var ljóst að það var ekki hægt að vera á báðum stöðum samtímis.  Niðurstaðan var því sú að við fórum á föstudeginum, öll fimm en Ísak hefur nú ekki alltaf komist með undanfarin ár.  Planið var að ná froðugamaninu kl 17:00.  Bílferðin var í fínasta verði, alveg þangað til að við sáum Grundarfjörðinn en þá fóru rúðuþurrkurnar af stað og rok með því.  Við þurftum nánast að hlaupa inn úr bílnum inn til mömmu til að komast hjá því að verða ekki holdvot.  Sem betur fer rættist úr þessu, þegar styttist í froðugamanaði þá fór að birta til og þegar sú dagskrá hófst þá var komið þetta fína veður.  Þetta var með aðeins breyttu sniði frá undanförnum árum, en núna var búið að koma dúknum fyrir í brekku við íþróttavöllinn og þetta virkaði því eins og stór froðurennibraut.  Daði Steinn og Logi Snær tóku þátt í þessu, Ísak Máni er formlega búinn að leggja froðusundskýluna á hilluna enda hefði hann líklega slasað aðra þátttakendur.  Rúnar Atli sem var þarna með Villa lét sér hinsvegar nægja að sitja hjá enda ekki klæddur í þetta en hann lýsti áhuga sínum að vera með að ári.  Sjáum til með það.
Að öðru leyti var lítið annað gert en að hlýða á Ingó Veðurguð kyrja sinn brekkusöng um kvöldið, sem verður að segjast var með þreyttari sniði, það má eflaust alveg fara að poppa það upp.  Á undan því voru reyndar tónleikar hjá Grétu á Smiðjustígnum, sem voru nokkuð skemmtilegir.  Ég klikkaði reyndar á því að gæjast inn í gamla kofann sem hefur víst tekið einhverjum breytingum.  Geri það bara næst.

Daði Steinn lætur sig flakka

Bræðurnir

Á laugardeginum var farið yfir í Baulumýri og slakað þar á í góðu yfirlæti en um kvöldið var svo grillað.  Við vorum búin að ætla að halda því opnu hvort við færum aftur í Grundarfjörð, til að ná einhverri rest á þeirri skemmtun en ákváðum bara að halda heim í Breiðholtið um kvöldið.

Hópurinn í Baulumýri