sunnudagur, janúar 29, 2006

Í sófanum

Sit hérna upp í sófa á sunnudagsmorgni. Er hálfaumur í skrokknum en Vatnsberarnir voru að spila á móti í Risanum í Hafnarfirði í gær. Stóðum okkur nokkuð vel, 10 liða mót en við töpuðum leiknum um 3ja sætið á svokölluðu gullmarki eftir að við höfðum vaðið í færum en mótherjar okkar í þeim leik voru Markaregn sem eru að fara í 3ju deildina í sumar.

Ég hafði aldrei komið í Risann en eftir að hyggja skil ég ekki nafnið á kofanum, nema að þetta eigi að vera eitthvað grín. Þetta er aðeins of lítið hús, er ekki alveg stór völlur í fullri stærð. Ég get ekki að því gert að þetta minnir mig óneitanlega á íþróttahúsið í Grundarfirði, sem er ekki alveg einn handboltavöllur. Það var orðið oflítið tveimur vikum eftir að það var tekið í notkun. Skil ekki svona “sparnað”.

Endursýningin á Júróvision er að rúlla í geng í imbanum. Þetta er snilldarsjónvarpsefni, keppni í söng, getur það klikkað? Umbúðirnar er flottar en innihaldið .... æi, þetta er eitthvað voða dapurt allt saman. Hef eiginlega meira gaman af spurningakeppninni þarna á undan. Eitt mesta slys í Júróvisionsögu Íslands var að senda ekki Botnleðju hérna um árið. Grínlaust. Ég er alltaf að sannfærast um það meir og meir. Hafði ekki heyrt það í nokkurn tíma en heyrði það svo í útvarpinu um daginn og ég verð að segja að það er alveg fantagott lag. Annars er ég ekkert að missa svefn yfir þessari keppni, maður glápir líklega á þetta með öðru eins og venjulega.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Súgfirskar svaðilfarir

Ég á systir sem á heima á Suðureyri við Súgandafjörð… ég veit, ég veit. Þar lifir hún eins og prinsessan á bauninni held ég stundum. Þarna þekkja allir alla og allir vita allt um alla, eitthvað sem henni finnst nú ekki leiðinlegt. Stundum þarf hún að koma niður úr skýjunum og hringja í elsku bróa í Reykjavík til að redda hinu og þessu. Þessar ferðir eru nú misjafnar eins og þær eru margar. Ein er reyndar í fersku minni. Þá þurfti ég að fara með svona hlandskál eins og eru á spítölunum (þetta heitir eitthvað annað á fagmáli) og skutla því í einhverja blómabúð vestur í bæ. Þar átti ég að afhenda þetta einhverjum aðila í blómabúðinni sem ætlaði að setja blómaskreytingu í þetta... já, hlandskálina. Jóhanna systir ætlaði nefnilega að gefa einhverri vinkonu sinni þetta sem var að útskrifast sem sjúkraliði eða eitthvað þvíumlíkt, sem sagt einhver sjúkraliðahúmor. Mér til mikillar hrellingar var konan sem var að vinna í blómabúðinni ekkert inn í málinu og ég er ekki frá því að hún hafi verið hálfskelkuð þegar ég tók gripinn úr pokanum. Með lagni tókst mér að útskýra þetta fyrir henni áður en hún stökk á símann til að hringja á lögregluna. Það reddaðist nú allt saman en ég hef aldrei stigið fæti inn í þessa blómabúð eftir þetta.

Jóhanna hringdi í mig í gærkvöldi þessi elska og vantaði smá reddingu. Ekkert flókið, bara fara niður á BSÍ í hádeginu og ná í pakka sem var að koma frá Snæfellsnesi og skutla honum í flug áfram til Ísafjarðar. Stelpan var samt eitthvað frekar treg til að gefa upp innihald pakkans. Ég gerði henni þá grein fyrir því að ég myndi bara opna pakkann og kíkja í hann en hún var fljót að gera mér það ljóst að það vildi ég alls ekki gera. Ekki undir neinum kringumstæðum.

Karlinn eyddi hádeginu sínu í þetta snatt. Byrjaði niður á BSÍ til að ná í þennan pakka, það fór ekkert á milli mála að eitthvað var í gangi, það lá a.m.k. í loftinu. Ég hendi pakkanum í framsætið við hliðina á mér og legg af stað í flugfraktina sem er nánast í næsta húsi. Búinn að keyra svona 4 metra þegar ég finn hvernig lyktin magnast upp í bílnum og mér er alveg hætt að lítast á þetta. Bíltúrinn tekur ekki nema svona 3 mínútur, legg bílnum við innganginn og rölti inn með pakkann. Reyni að láta ekki á neinu bera, legg pakkann á vigtina og brosi til afgreiðsludömunnar. Ég gef upp nafn viðtakanda, nafnið mitt og helstu upplýsingar. Daman lætur mig hafa einhvern staðfestingamiða og gefur til kynna um að þar með sé þetta allt klárt. Ég sný við á punktinum og geng hröðum skrefum í átt að dyrunum, vona að ég komist út áður en daman fer að handleika pakkann og kemst að því hvernig er í pottinn búið. Það tekst og ég þakka fyrir að þessari svaðilför sé lokið. Rölti að bílnum og sest inn. Þvílík djö..., ógeðslega fýla tekur á móti mér að það hálfa hefði verið yfirdrifið nóg. Ég ætla bara að vona að þetta sé ekki lengur að fara en svona meðal pizzulykt. Flíspeysan fer í þvott í kvöld.

En það er allavega gott að hákarlinn komst vestur í tæka tíð fyrir þorrablótið, verði ykkur að góðu.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Gengið á bak orða sinna

Ég er fallinn. Fjárinn. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að gera þetta aldrei. Aldrei!

En ég bara gat ekki haldið aftur af mér. Fjárinn. Ég bara trúi þessu ekki.

Íslendingar í biðröð fyrir utan raftækjaverslun, allir með von í brjósti um að “græða” þessi lifandi ósköp. Sorgleg mynd með afbrigðum.
Raftækjaauglýsingar með ofurtilboðum. Ég veit ekki hversu oft ég hef fussaði yfir þeim. Og ég tala nú ekki um þegar það er auglýst takmarkað magn, aðeins 10 stk, 50 stk. eða 100 stk o.s.frv. Þá finnst mér botninum náð. En menn virðast láta sig hafa það. En ekki ég. Ekki fyrr en núna. Reyndar þurfti ég ekki að mæta fyrir opnun og fara í biðröð en sú staðreynd linar lítið sársaukann... skömmina.

Sl. föstudagsmorgun, bóndadag, um klukkan 9:32 var ég staddur fyrir utan BT í Skeifunni. Það var búið að taka 9.999 krónur af kortinu mínu en í staðinn stóð ég með Playstation 2 leikjatölvu og einn leik undir hendinni. Mér leið furðulega.

Sagan byrjaði þannig að Sigga hafði spurt mig að því deginum áður hvað mig langaði í bóndadagsgjöf og af einhverjum ástæðum barst PS2 í tal. Líklega vegna þess að það hafði komið pési frá BT þar sem þeir auglýstu útsölu á ýmsu dóti og þar á meðal svona tölvu, aðeins 100 stk. þó. Það síðasta sem hún sagði við mig áður en hún fór í vinnuna á föstudagmorgninum var að ef ég mig langaði mikið í þetta þá ætti ég bara að fara og kaupa þetta. Ég held samt að hún hafi aldrei búist við að ég myndi taka hana á orðinu.

Ég hef aldrei verið mikill tölvuleikjakarl. Ísak Máni hefur verið margfalt spenntari fyrir svona græju heldur en ég. Kannski æsir hann upp barnið í mér, án þess að ég ætli að fara klína þessum kaupum á reikninginn hjá honum. Reyni líka að telja mér trú um það að þar sem þetta sé nú líka DVD spilari þá sé þetta meiri græja en bara leikjatölva.

Hvernig var þetta svo? Finnst mér ég hafa grætt á þessum viðskiptum? Svarið er eitthvað já og eitthvað nei. 10.000 kr fyrir svona tölvu plús leikur er í raun já-hlutinn. Ég veit að það fer að styttast í Playstation 3 og allt það en ég var var ánægður með að fá þessa græju fyrir þennan pening. Þá var það sennilega nei-hlutinn. Auðvitað fylgdi bara einn stýripinni (eins og þetta hét alla vega í gamla daga) og ég þurfti að kaupa annan því mikið af þessum leikjum bjóða upp á möguleikann að tveir spili saman leik. 2.500 kr sem bættust við þar. Svo vantaði minniskort til að vista leikina, 4.000 kr þar til viðbótar. Vitaskuld var ekki hægt að tengja þessa græju í sjónvarpið inn í stofu, þannig að maður þurfti að redda nýju sjónvarpi. 7.995 kr sem fóru í það.

Tíminn einn verður að leiða það í ljós hversu sáttur ég verð við þessi heildarviðskipti. En samt líður mér frekar illa yfir að hafa hlaupið á eftir þessu “aðeins 100 stk.”-tilboði.

Ég verð að taka mér tak. Aldrei aftur.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Spurning um að taka á því

Klukkan var 5:55 núna í morgun. Ég vakna við það að konan ýtir við mér því að klukkan mín vakti hana en ekki mig. Ég sprett á fætur, náttúrulega ekki vaknaður og tek tvö skref. Finn þá hvernig stengirnir frá síðustu fótboltaæfingu láta vita af sér og ég íhuga í nokkrar sekúndur hvort ég eigi að fara aftur upp í rúm. Mér finnst það nú eiginlega alveg vonlaust fyrst ég er nú staðinn á fætur og held því áfram. Held út úr húsi og þakka fyrir það að hitastigið er svona þolanlegt. Geispa alla leiðina niður í Hreyfingu og hugsa um það hvað í ósköpunum ég sé að gera.

Ég er sem sagt búinn að dusta rykið af líkamsræktarkortinu. Reyni að telja mér trú um að ég sé ekki einn af þeim sem byrja með látum á nýju ári eftir að hafa lofað sjálfum mér öllu fögru um jól og áramót á meðan ég mokaði í mig Nóa Síríus konfekti. Vitaskuld hefði ég byrjað fyrr en sökum bakmeiðsla þá gat ég það ekki, það er algjör tilviljun að þetta hittist svona á.

Í alvöru.

Hvað um það, spinning tíminn byrjaði kl. 6:30 og því var ekki eftir neinu að bíða. Troð mér þarna inn í klefann og þrátt fyrir þrengslin var ég í góðum gír. Willum var mættur þarna, Sigurbjörn, Kjartan Sturlu, Baldur Aðalsteins og fleiri góðir. Þeir voru greinilega að fara í eitthvað prógram þarna og ég var þarna í góðum fíling að ímynda mér að ég væri að fara á æfingu með þessum strákum sem eru by-the-way meistaraflokkur Vals í fótbolta. Mér var kippt niður á jörðina með það sama þegar þeir fóru úr að ofan og þegar ég fór úr að ofan, þarna voru magavöðvar vs. bumbu með björgunarhringsívafi. Smábitur eftir þessi endalok mín með meistaraflokki Vals rölti ég niður í spinningsalinn. Þar sem að þetta er ekki eitthvað sem ég hef stundað þá var ég svolítið týndur þarna en við mér blasti slatti af hjólum. Náði að velja mér eitt svona aftarlega út á kanti stutt frá útgönguleiðinni svona ef ég myndi örmagnast í miðjum tíma. Kennarinn var þvílíkt yfir sig hress dama með allt á hreinu. Hún tengdi mækinn á sig og setti músikina á fullt. Svo var haldið af stað undir dynjandi takti. Mér leist ekkert á tónlistarvalið til að byrja með en svo komu nú Creed-félagar og tóku mér opnum örmum þannig að það var nú í lagi. Kennarinn var bara eins og hún væri þaulvanur tónlistarmaður með tónleika fyrir fullu húsi: "Í næsta lagi ætlum við að gera þetta" o.s.frv. En mér gekk ákaflega illa að skilja hana þegar hún reyndi að garga hærra en tónlistin. Mér fannst nú alveg taka steininn úr þegar hún kallaði yfir okkur: "Í næsta lagi ætlum við að syngja." Svo byrjaði lagið og vitið menn, engin söng neitt. Ekki ég heldur því ég þekkti ekki textann. Alltaf gargaði hún þetta öðru hvoru út lagið: "Syngja - Syngja." Fattaði svo að líklega var hún að biðja okkur um að þyngja mótstöðuna á hjólinu, það meikaði meiri sens. Ég get nú sagt að þetta tók ágætlega á þótt að ég fylgdi dömunni nú ekki í einu og öllu, ég ætla að komast í vinnuna á morgun. Reyndi samt að nota þennan tíma til að digga þetta en það eru nú takmörk fyrir hversu mikið af upplýsingum maður getur innbyrti svona í fyrsta tíma. Hugtök eins og "80% álag" og "Handstaða þrjú" lærði maður á meðan þessu stóð en var í leiðinni að passa sig að anda rétt, halda magavöðvunum (sem leynast undir bumbunni) inni og vera slakur í öxlunum. Tónlistarvalið var í takti við álagið, þetta fór í hæðstu hæðir og tók svo þvílíkar dýfur. Bubbi vildi meina að fjöllin hafi vakað á meðan Whitney tilkynnti okkur að mundi ávallt elska okkur og Michael "barnaelskari" harðneitaði að hafa nokkuð átt við hana Billy Jean. Tvö hina síðastnefndu voru reyndar með einhverjum brjáluðum bít takti, líklega eitthvað spinning-master-mix. Gellan gargaði á okkur þarna í lokin, vildi fá verki í lærin og lungun hjá okkur með það sama.

Þetta hafðist nú allt saman, karlinn svitnaði vel en spurning hvernig það verður að vakna á morgun...

mánudagur, janúar 16, 2006

Brettadagur 2 og 3

Karlinn fór á snjóbretti bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Skellti mér í brekkuna upp í Seljahverfi um 2 leytið á laugardeginum. Manchester United var 2:0 undir í hálfleik á móti Manchester City þannig að ég stóð upp úr sófanum og slökkti á imbanum, þoli ekki svona rugl. Inga mætti og var með Ara með sér, Guðrún og Jökull voru þarna og loks Ísak Máni. Ég var búinn að undirbúa mig svolítið á föstudagskvöldinu og reyndi að komast að því hvort ekki væri hægt að læra á snjóbretti á netinu, eða að lesa sér a.m.k. eitthvað um hvernig best væri að fóta sig á svona græju. Fann svo einhverja tækni sem kallast “The falling leaf pattern” sem mér fannst alveg meika sens. Las það og lagði á minnið hvernig ég ætti að beita tánum og hælunum og var staðráðinn í að prufa þetta á laugardeginum.

Ég hafði vitaskuld aldrei komið þarna í þessa brekku upp í Seljahverfinu, einhver diskalyfta þarna sem var ekki í gangi, almannarómur í brekkunni vildi meina að hún væri biluð. Var fyrir smá vonbrigðum með þetta allt. Brekkan var alveg temmileg fyrir svona gúbba eins og mig en hún var mjög mjó að mér fannst. Síðan var talsvert af fólki þarna og af einhverjum ástæðum sem ég get bara ekki skýrt út þá labbaði fólk upp miðja brekkuna þegar það var búið að renna sér niður, ekki meðfram brekkunni. Brekkan var sem sagt yfirleitt full af fólki, annars vegar þeir sem voru að renna sér niður og svo hins vegar þeir svo voru að labba upp aftur. Ég, byrjandinn, sem ætlaði að fara að leika eitthvað fallandi lauf þarna var sem sagt í vonlausum málum. Komst nú niður brekkuna án þess að negla eitthvað niður af þessari gangandi umferð sem þarna var en sá að þetta gengi aldrei upp. Ákváðum við þá að færa okkur þarna í brekkuna til hliðar en hún er styttri og brattari. Það var eitthvað hægt að æfa sig þarna en talsvert var maður á rassgatinu enda kaldasti líkamshlutinn þegar við ákváðum að láta gott heita.

Þar sem að ég var ekki nógu ánægður með hversu lítið hægt var að vera í aðalbrekkunni þá ákváðum við að reyna að fara aftur á sunnudeginum og vera frekar í fyrra fallinu. Fór það svo að ég, Sigga og Inga vorum mætt þarna um klukkan 11 og ekki hræða mætt. Þetta var náttúrulega allt annað að hafa sviðið útaf fyrir sig, þarna gat ég dundað mér í brekkunni þveri og endilangri. Sigga fékk að prufa brettið hjá Ingu og má segja að þetta hafi verið frumraun hennar, hún átti fína spretti í hlíðinni. Síðan fór eitthvað af fólki að mæta þarna, þó ekkert eins og á laugardeginum.

Niðurstaðan á þessu öllu saman er að ég er enn arfaslakur á snjóbretti, en verð vonandi skömminni skárri með hverju skipti. Það er nefnilega ótrúlega gaman þá stuttu skorpur þegar ég finn að ég hef smá stjórn á brettinu. Mjög stuttu skorpur.

laugardagur, janúar 14, 2006

Á útsölum í furðulegum erindagjörðum

Rosalega er landinn klikkaður, það hálfa væri mikið meira en nóg. Málið er það að ég þurfti að nálgast bók á bókasafninu núna fyrir síðustu helgi. Fór svo á bókasafnið mitt í Gerðubergi á föstudeginum og gerði mig líklegan til að nálgast þessa bók. Þá kemur í ljós að hún er úti en skiladagurinn er 14. júlí 2005! Konan í afgreiðslunni gerði mér það ljóst að líklega gæti ég eytt mínum tíma í eitthvað annað en að bíða eftir henni. Mér var bent á það að ég gæti t.d. farið annað hvort í Foldasafn eða Kringlusafn og fengið bókina þar að láni. Svo var það á laugardeginum að ég ákveð að kíkja á þetta og ákveð að fara í Kringlusafn. Já, fyrir þá sem ekki vita það þá er bókasafn í Kringlunni. Ég fatta náttúrulega ekki að það eru byrjaðar útsölur en kemst fljótlega að því. Eftir að hafa rúntað um nánast allt bílastæðasvæði Kringlunnar innan um fjölda bíla sem voru í sömu erindagjörðumm og ég, þ.e. að leita að bílastæðum en ég leyfi mér að efast um að margir hafi verið að fara á bókasafnið, þá fann ég loks stæði lengst í burtu frá innganginum að bókasafninu. Þrammaði í gegnum Kringluna innan um stífmálaðar smástelpur, aflitaða FM-hnakka og dauðuppgefin smábörn sem voru dregin áfram af þokkalega pirruðum mæðrum sínum. Matsölustaðirnir voru þvílíkt troðnir og öll borð þéttsetin, fullt af fólki að bíða eftir borðum og stemmingin var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það var talsverð önnur stemming á bókasafninu, eins og kannski við var að búast, ég hélt að ég væri bara kominn á aðra plánetu, lítið af fólki og frekar mikil þögn. Fann bókina mína og lagði af stað sömu leið til baka. 50 metrum frá dyrunum að bókasafninu var ég aftur kominn til helvítis, feitlagin kona með asískan skyndibita á bakka í annari hendinni og með gemsa í hinni var það fyrst sem ég sá. “Já, ég stend hérna á sama stað, ertu búinn að finna borð? Ég sé þig ekki.” Sonur hennar á unglingsaldri sem stóð við hliðina á henni virtist ekki vera skemmt. Talandi um að vera á öðrum plánetum þá hef ég litið furðulega þarna út með Hagskinnu: sögulegar hagtölur um Ísland undir hendinni innan um alla sem voru flestir með útsölupoka meðferðis. Tala nú ekki um að Hagskinna er stærðarinnar skrudda. Misskildi ég þetta eitthvað eða er ég sá eini sem fékk Visa reikning yfir meðallagi núna um mánaðarmótin og eitthvað væntanlegt um þau næstu? Þó var ég mjög rólegur að ég tel en þetta jólastúss kostar jú alltaf eitthvað. Það er búið að búa þannig um friðinn og kærleikann að honum fylgir einhver verðmiði, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Er þetta lið sem rogast með fimm innkaupapoka í hvorri hendi af útsölunum í Kringlunni í byrjun janúar kannski með “útsölusjóð” sem það leggur í allt árið svo það sé klárt í janúar? Vonandi, en ætli þarna séu nú ekki einhverjir sem eru nýbúnir að láta dreifa jólunum á einhverja mánuði og hugsa svo með sér þegar þeir “detta í útsölur”: Þetta reddast...

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Dagdraumar sem rætast?

Inni í litlu, hlýju rými með daufri birtu var ég staddur ásamt tveimur stúlkum, önnur var ljóshærð en hin var dökkhærð. Þær voru báðar í einkennisbúningum og þarna voru handjárn og kylfur. Man ekki hvort svona byrjuðu einhverjir dagdraumar hjá manni þegar maður var að fá hvolpavitið, get borið fyrir mig minnisleysi sökum aldurs.

Alla vega, þetta er lífsreynsla sem ég lenti í bara núna í morgun. Kannski finnst einhverjum þetta hljóma spennandi, en get ég fullyrt það að þetta var ekki að gera neitt fyrir mig. Ef menn halda að sú frásögn sem fer hér á eftir muni gera eitthvað fyrir blóðþrýsinginn hjá þeim þá get ég sömuleiðis fullyrt að svo verður ekki.

Tilfinningin þegar maður uppgötvar að löggubíllinn sem er á eftir þér með blikkandi ljósin er í raun að blikka á þig er ekki að gera sig. Lítið hægt að gera en að leggja út í kant þarna á Sæbrautinni og vera teymdur inn í löggubílinn, af þeirri dökkhærðu, við litla hrifningu hjá mér. Þær voru eitthvað að fetta fingur út í það að kannski, mögulega, líklega hafi gula ljósið á gatnamótunum þarna áðan verið orðið full rautt. Þýddi lítið fyrir mig að malda í móinn, hlýddi bara þegar þær sögðu mér að kvitta þar sem x-ið var, fékk ökuskírteinið mitt til baka ásamt glósum um að ég væri unglegur á myndinni. Veit ekki hvort þetta átti að vera brandari til að milda andrúmsloftið, mér var alla vega ekki hlátur í huga. Drullaði mér inn í bílinn og bölvaði minni eigin heimsku í sand og ösku. Nú er bara að bíða eftir símtalinu frá starfsmannastjóranum þegar reikningurinn kemur, get varla notað ræðunum um að ég hafi verið að auglýsa Cocoa Puffs. Minnir að ég hafi notað hana síðast.

Nú veit ég hvað þær meina þegar þær tala um Girl Power.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Snjóbrettafrumburður

Spurning 1: Hvað er þetta?



Svar: Þetta er notað snjóbretti


Spurning 2: Hvað er þetta?



Svar: Þetta eru tvær heilar fætur eftir snjóbrettanotkun


Jú, það er rétt, undirritaður er búinn að hafa sig út í það að fara á snjóbretti. Í morgun mætti á svæðið hópur af fólki hingað heim og eitthvað af snjóbrettum. Það var alveg ljóst fljótlega í hvað stemmdi, hér var engin undankomuleið. Inga var náttúrulega búin að drösla brettinu frá Danmörku og komin með það alla leið í Eyjabakkann þannig að ég gat ekki sagt að mig langaði ekki að fara með, sem hefði líka verið tóm steypa. Kom reyndar smá bakslag þegar ég heyrði að stefnan var tekinn á hverfishólinn og rifjaði upp í kollinum þær yfirlýsingar sem ég hafði haft um þennan hól, m.a. hér á þessari síðu. En ég gerði mér það ljóst að ég yrði að éta þetta allt ofan í mig, það eina sem ég gat vonað að ég kæmi sterkari út úr því.

Karlinum tókst að fara nokkrar ferðir niður brekkuna, sem var reyndar fulllítil, svona stórslysalaust. Tilburðirnir voru samt frekar daprir en maður var að reyna. Ákvað að læra af skíðamistökunum og eyddi þessum tíma í að reyna að fá smá tilfinningu fyrir hlutunum en ekki bara að láta mig vaða. Myndræn framsetning á þessu öllu saman er hægt að sjá á myndasíðunni.

Ég ætla nú að enda þennan pistil með smá hugleiðingu um börnin í Breiðholti. Þarna var ég að hafa mig að fífli um hádegisbil á sunnudegi, snjóföl yfir öllu og 2-3 stiga hiti. Á meðan við vorum þarna sem var ágætistími þá kom einn krakki með sleðann sinn í brekkuna, einn! Ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að bruna niður einhverja gríslinga í minni frumraun þarna. Er þetta Playstation kynslóðin sem er að vaxa úr grasi?

föstudagur, janúar 06, 2006

Komin og farinn

Þá er Inga kominn til landsins og Villi farinn. Fékk reglulega sms frá Villa á meðan hann var á ferðlaginu sem var ekkert smá ferðalag. Fyrst flaug hann til Frankfurt, síðan til Jóhannesarborgar í S-Afríku og svo loks til Windhoek í Namibíu. Maður tók nú svipaðan pakka þegar við Sigga fórum út 2003, rúmlega einn sólarhringur á ferð og flugi. Ég öfundaði hann ekki að vera með Rúnar Atla, tæplega 18 mánaða á svona ferðalagi en þetta hefur vonandi verið þokkalegt.

Inga tilkynnt mér það nánast um leið og hún sá mig að snjóbrettið hefði ratað með í farangrinum og því væri allt klárt. Ég veit ekki alveg hvað ég er búinn að koma mér út í, tala nú ekki um þegar hún dró upp úr töskunni sinni forláta skíða/brettahjálm. Ég á nú talsvert af búnaði fyrir svona sport sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina, allt “lítið” notað en hjálm á ég ekki. Fyrir þá sem ekki vita það þá fékk Ísak Máni snjóbretti í jólagjöf en hann á engan hjálm nema þá bara hjólahjálminn, sem er svo sem hægt að nota í þetta. Ég sé fram á það að ég verð að nota hjólahjálminn ef maður drattast í þetta með Ísaki Mána. Maður hefur reynt að vera ábyrgur uppalandi og nota hjólahjálm þegar við förum út að hjóla. Manni fannst þetta frekar lummó fyrst en þar sem að ég er harður á því að drengirnir noti hjálm þá er ekki um annað að ræða nema að nota eitt svoleiðis stykki sjálfur. Hjálmarnir eru nú orðnir þokkalega útlítandi svo þetta á nú alveg á réttri leið, manni er nú líka talsvert annt um toppstykkið því ég er alltaf að reyna telja mér trú um að það sé eitthvað í það spunnið. Man líka eftir einu sem ég sá síðasta sumar en þá var nágranni minn hérna í hverfinu úti að hjóla með fjölskylduna. Fyrst kom yngri dóttirin hjólandi, síðan kom eldri dóttirin og þá næst kom konan, allar með hjálm. Síðan kom karlinn og rak lestina en hann var hjálmlaus. Þetta horfði ég á og af einhverjum ástæðum fannst mér þetta óheyrilega hallærislegt.

Veit nú ekki af hverju ég er að velta mér upp úr snjóbrettum í mígandi rigningu og roki...

sunnudagur, janúar 01, 2006

Árið 2006 framundan

Jæja, 2006 gengið í garð. Við áttum fínt áramótakvöld uppí Mosó, fengum fínt að borða og gripum í spil á meðan var verið að bíða eftir Skaupinu. Skaupið var frekar slappt að mér fannst, ekki oft sem ég glotti yfir því. Svo var farið og skotið upp. Ég er alveg búinn að sjá að ég þarf að beita nýrri tækni að ári. Við vorum með einhvern fjölskyldupakka sem ég keypti og svo hafði Tommi gaukað að mér öðrum minni sem honum hafði áskotnast í vinnunni hjá sér þannig að við Ísak Máni voru að skjóta úr tveimur fjölskyldupökkum. GEISP... það var ekki að virka. Við vorum góðan klukkutíma að klára draslið í þessu, endalausar smáýlur, froskar og púðurkerlingar og hvað sem þetta heitir allt saman. Ég gat lítið notið þess sem aðrir voru að sprengja upp því ég var allaf með nefið ofan í kössunum okkar. Þannig á næsta ári verður alveg reynt eitthvað nýtt í flugeldamálum. Ég er reiðubúinn að eyða einhverjum krónum meira í staðinn ef við kaupum okkur bara 1 köku og 3-4 alvöru bombur og sleppum öllu hinu draslinu. Best að setja þetta í memóið svo hægt verði að ræða þetta við Ísak Mána í tíma fyrir næstu áramót.

Hvað er svo framundan á nýju ári?


Villi bróðir er að flytja aftur út til Namibíu, minnir að hann eigi flug þann 5. janúar þannig að hann ætti að vera að pakka niður þegar þessi orð eru skrifuð. Spurning hvernig fjölskyldulífið hjá þeim verður en við verðum bara að fylgjast með blogginu hans.

Inga er kíkja á klakann 6. janúar og verður einhverjar þrjár vikur á svæðinu áður en hún heldur aftur á vit danskra námsbóka. Ég er að fara niður í geymslu á morgun til að athuga hvort brettaskórnir séu ekki örugglega á sama stað og brettið.

Sigga er að fara í 4ra daga ferð til Svíþjóðar með Breiðholtsskóla bara núna í lok mánaðarins til að kynna sér sænskar kennsluaðferðir eða eitthvað þvíumlíkt.

Ef allt gengur upp þá á ég von á smá dæmi í vinnunni minni, líklega í byrjun mars, ekki orð um það meira í bili en vonandi síðar...

Utandeildin verður næsta sumar og þar ætla Vatnsberarnir að gera gott mót, takmarkið hlýtur að vera að gera betur en í fyrra sem var svona þokkalegt, ekki mikið meira. Ég er hins vegar búinn að sjá að ég verð að haga undirbúningstímabilinu eitthvað öðruvísi en í fyrra. Það er ekki nógu gaman að standa í þessu ef maður er í ömurlegu formi. Ekki misskilja mig, ég er ekki að koma hér með einhverjar svaka yfirlýsingar um bætt líferni á nýju ári en ljóst er þó að eitthvað þarf að gera, spurningu um að setja sér einhver hæfileg, raunhæf markmið.

Á ekki von á því að fjölskyldan í Eyjabakkanum fari til útlanda þetta sumarið en það verður eitthvað chillað þá í staðinn um fjöll og firnindi innanlands.

Jóhanna er að fara gifta sig þann 12. ágúst í Grundarfirði ef það er eitthvað að marka hana, þannig að maður þarf að taka daginn frá.

Spurning hvað næsti vetur ber svo í skauti sér, það verður eflaust eitthvað ótrúlega skemmtilegt en hvað það verður nákvæmlega mun koma í ljós.

Þetta er svona það helsta held ég, ef annað poppar upp þá verða fluttar fréttir af því um leið og það gerist.