föstudagur, október 28, 2005

Fjörusteinar og fiskabúr vs. Nokia 5110

Er búinn að vera frekar slæmur í bakinu síðan í sumar, veit ekki alveg hvort þetta kallast skúringarmeiðsli en allavega var þetta þannig að ég vaknaði frekar slæmur daginn eftir að hafa verið að skúra heima hjá mér. Það má alveg færa rök fyrir því að ég hafi ekki verið í æfingu. Þetta hefur verið þannig að ég vakna alveg ónýtur á morgnanna en verð svo betri þegar ég fer að hreyfa mig. Maður fór svo til læknis sem henti í manni verkjalyf og lét svo fylgja: “Komdu aftur ef þú sérð ekki mun á þér eftir 10 daga - 2 vikur”. Tíminn leið og maður taldi sér trú um það að þessi vika væri betri en sú síðasta o.s.frv. Annars var þetta ekkert að hamla mér í þessu daglega lífi, ég missti ekkert úr vinnu og gat svona stundað minn fótbolta þótt að ég fyndi að ég væri ekki alveg heill. Svo gerðist það í síðustu viku að ég er í fótbolta og finn talsverðan verk í seinni hlutanum á tímanum og daginn eftir... úff. Þegar ég vaknaði daginn eftir þurfti ég næstum því að kalla á Siggu til að klæða mig í sokkana! Ég sá að þetta þýddi ekkert, nú væri kominn tími á aðgerðir. Ég var búinn að fara þessa hefðbundnu læknaleið svo þá var bara að fara í kírópraktorinn a.k.a. hnykkjari. Það er nokkuð sem ég hafði prufað áður með svona ágætisárangri. Sá hafði hins vegar ekki tekið neinar myndir af bakinu á mér eða neitt svoleiðis en núna var ég ákveðinn í að fara til einhvers sem myndi gera það. Tengdó er hjá einum sem ég ákvað að hringja í en vissi reyndar fyrirfram að það yrði erfitt að fá tíma hjá honum. Ég lét reyna á það og komst að því að “erfitt” var eiginlega ekki nógu sterkt lýsingarorð. Ég gæti komist að í febrúar (þó 2006) en þar sem sú sem svaraði í símann var ekki komin með tímaplan fyrir febrúar þá þyrfti ég að hringja aftur í lok þessa mánaðar til að geta fengið tíma í febrúar! Hóf ég þá smá raunarsögu og fór að ýja að því að ég gæti alveg verið á svona stand-by ef það losnaði einhver tími með stuttum fyrirvara. Símadaman lét ekki slá sig út af laginu og hafði greinilega heyrt þetta allt saman áður en gerði mér það ljóst að jú, það væri biðlisti fyrir þá sem að þyrftu lífsins nauðsynlega að komast að, en sá listi væri orðinn svo langur að hún væri eiginlega hætt að taka niður nöfn á hann. Til að rjúfa þögnina sem myndaðist mín megin á línunni þá bauðst hún til að gefa mér nafnið á öðrum hnykkjara sem að tæki myndir ef það væri það sem ég væri að spá í. Ég tók það fegins hendi og fékk tíma hjá honum í dag sem sagt (ég neita að hugsa um það af hverju ég fékk tíma hjá þessum í dag en hefði þurft að bíða fram í febrúar hjá hinum).

Reynsla mín af hnykkjurum er, eins og fram kom áðan, ekki mikil en var fyrir daginn í dag bundin einum manni. Flottur karl með mjög einfalda umgjörð svo ekki sé meira sagt. Engin símadama, sér sjálfur um allar sínar bókanir í gegnum Nokia 5110 símann sinn. Engin kortaviðskipti, komir þú vopnaður einu slíku er þér vinsamlega bent á hraðbankann sem er í sama húsi. Ef húsgögnin gætu talað hefðu þau eflaust frá einu og öðru að segja því þau líta út fyrir að muna tímann tvenna. Svei mér þá ég held að karlinn skúri sjálfur stofuna...
Þegar ég opnaði dyrnar á stofunni hjá nýja hnykkjaranum var það fyrsta sem ég sá, risastórt fiskabúr í horninu á setustofunni og risastór leðurhornsófi. Við móttökuborðið var kona sem bauð mig velkominn og bað mig um að fylla út smá spurningalista. Á gangnum inn á stofuna hjá honum voru veggljós neðarlega á veggnum sem lýstu því vel upp einhverja fjörusteina sem voru meðfram veggnum inn ganginn. Svo kom hnykkjarinn sjálfur, ungur maður eins og klipptur út úr tískublaði. Hann vísaði mér inn á stofuna sem leit mjög vel út, við ræddum aðeins um bök og hryggjarsúlur en að því loknu var mér vísað á annað herbergi þar sem ég fékk slopp og allt var voða “hipp og kúl”. Á þeim tímapunti var mér það ljóst að það hafði verið sterkur leikur hjá mér að fara í hreina sokkar áður en ég kom, mjög sterkur. Niðurstaðan hjá þessum ágæta manni var sú að neðstu hryggjarliðirnir hjá mér eru svolítið framarlega, sem geta valdið bólgum og gera það að verkum að ég er eins og ég er. En hann ætlar að taka mig í stíft prógramm næstu 4-6 vikurnar þar sem ég kem til hans svona 3svar í viku og sjá hvort það er ekki hægt að kippa karlinum í lag.

Niðurstaðan úr þessu er ekki sú að fjörusteinar og fiskabúr sé málið en Nokia 5110 sé úti. Mér fannst bara sniðugt að sjá hvað þessar tvær stofur, sem innihalda sömu starfsemina, eru ólíkar. Alveg eins og dagur og nótt. En eins og alltaf þá snýst þetta ekki um umbúðir heldur innihald, annað ekki.

sunnudagur, október 23, 2005

Megi jólamátturinn vera með þér

Nálgast lok október og ég er kominn í jólagjafapælingar! Skrítið? Kannski ekki þegar litið er á það að ég á nú tvo stráka, 6 ára og 1 1/2 árs, eða mér finnst það alla vega ekki svona þegar ég fer að spá í það. Það er nú ekki svo rosalega langt síðan ég var gutti, rétt að nálgast tvítugt núna, og maður þarf að kynna sér hvað er það heitasta í Star Wars dóti eða hvar maður fær flottustu fótboltabúningana. Spái í það hvernig það væri ef ég ætti stelpu, væri sama stemmingin að kíkja á Bratz-dúkkurnar? ... Held ekki svona ef ég á að vera alveg heiðarlegur, það væri a.m.k. öðruvísi. Þetta er líka ekki sanngjarn samanburður, ég meina maður lék sér sjálfur að Han Solo og félögum og horfði á þetta jafn dáleiddur og Ísak Máni gerir núna. Sem er svolítið ótrúlegt, ég meina gömlu myndirnar eru 25-30 ára gamlar. Það segir okkur að þessar myndir voru algjört snilldarverk á sínum tíma og hafa staðist tímans tönn en það er efni í annan pistil.

miðvikudagur, október 19, 2005

Er ekki kominn tími til að kíkja í IKEA?

Ég er þreyttur...svo þreyttur á IKEA að ég þyrfti líklega að lúlla í heila öld til að vera endurnærður á ný. Málið er að við konan keyptum okkur hillusamstæðu í vor í fyrrnefndri verslun nema það að við ætluðum að hafa glerhurðir á samstæðunni. Þessar glerhurðir voru reyndar ekki til en væntanlegar þótt ekki væri hægt að segja hvenær það yrði. Leið og beið og aldrei komu helv... hurðirnar, þangað til að einhver starfsmaður guppaði því út úr sér að líklega myndi ekkert gerast í þessu máli fyrr en að nýji IKEA bæklingurinn kæmi út í haust því að þessar hurðir væru núna að koma í stykkjatali en höfðu alltaf komið í pörum! Anyway, þetta er búið að kosta fleiri ferðir í IKEA en mig hefur langað í. Hurðir hafa stundum verið væntanlegar eftir 4 vikur, 3 vikur, 2 vikur eða í næstu viku en aldrei koma helvítis hurðirnar. Botninum var svo náð þegar einn af starfsmönnunum í einni ferðinni bauðst til að setja okkur á lista þar sem yrði hringt í okkur þegar hurðirnar væru komnar. Ekki það að það væri í sjálfu sér slæmt heldur það að núna í vikubyrjun var hringt í mig frá IKEA og mér tilkynnt að hurðirnar sem ég væri að bíða eftir væru komnar. Frábært! Meiriháttar! ...eða hvað? Ég brunaði niður í sjoppuna strax eftir vinnu, reyndar með eitthvað drasl í bílnum en mér var alveg sama, ég ætlaði bara að versla þessar hurðir og ekkert kjaftæði, það yrði seinnitímavandamál hvernig ég myndi koma þeim í bílinn. Í minni einfeldni hélt ég í alvöru að sagan endalausa væri í raun að enda ... mín mistök. Í ljós kom að það voru ekki hurðirnar sem ég vildi sem voru komnar heldur sambærilegar hurðir úr einhverju öðru efni og öðruvísi á litinn. Ég held að IKEA samsteypan hefði alveg eins getað lamið mig í hausinn með gegnheilu stálröri til að framkalla þær tilfinningar sem brustu út þegar þetta var ljóst. Þegar starfsmaðurinn sá vonarljósið í augunum á mér slokkna fann hann sig knúinn til að kíkja betur á þetta í tölvunni og vildi fullvissa mig um að hluti af sendingunni sem væri í pöntun kæmi hérna í næstu viku. Ringlaður, svekktur og sár hélt ég út í rigninguna og tókst með naumindum að komast heim. Daginn eftir mundi ég eftir því að í öllum vonbrigðunum deginum áður hefði mér láðst að láta hringja í mig aftur þegar hurðirnar kæmu (eða ekki) svo ég herti mig upp og var mættur aftur til að ganga frá því máli. Sá starfsmaður þurfti því miður að tilkynna mér að þessar hurðir væru sjálfsafgreiðsluvara og það væri eiginlega búið að taka fyrir þessa þjónustu að hringja í fólk þegar þessháttar vörur kæmu. “En þetta er að koma í næstu viku?” stundi ég upp á meðan ég reyndi að stoppa mig í því að rífa pennann sem var á borðinu og reka starfsmanninn á hol. Starfsmaðurinn kíkti betur á þetta í tölvunni og sagði svo: “Það eru a.m.k. 2 vikur í þessar hurðir...”

föstudagur, október 14, 2005

Byrjunin

Jæja, prófum þetta helv... og sjáum hvað gerist. Sannleikurinn er nú reyndar sá að ég græjaði þessa síðu í sumar en gerði svo ekkert meira en það. Svo fékk Sigga sér síðu og bloggar alltaf öðru hvoru þannig að ég ætla að testa þetta. Það verður bara að koma í ljós hvort maður er einhver maður í þetta eða hvort þetta deyr bara út en takmarkið er hins vegar að gera betur en sumir sem urðu á vegi mínum í leit minni að urli. Þessi er ekkert að gera neina sérstaka hluti eða þá þessi hvað þá þessi. Byrjum á að bæta svona "árangur" og sjáum svo til.