þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Viðey

Maður hefur þessa eyju sem næsta útsýni út um gluggann í vinnunni en ég held ég hafi aldrei komið út í Viðey fyrr en í gær. Gæti reyndar verið að fara með rangt mál en það verður þá bara leiðrétt síðar. Í gærkvöldi var sem sagt skipulögð bekkjarferð hjá bekknum hans Ísaks Mána út í Viðey og ég fór með honum sem fullorðinn fulltrúi.
Það var frekar kalt, það verður að segjast en maður var nú þokkalega útbúinn. Kíkt á þessa friðarsúlu hennar Yokoar og var farið yfir með okkur yfir helstu staðreyndir þessa listaverks. 12 km uppí loftið sem ljósið nær, það verður að teljast magnað. Heilt yfir mjög flott, annað verður ekki sagt. Stutt stopp í kirkjunni ásamt helstu staðreyndum þar áður en lokastoppið var tekið í Viðeyjarstofu. Þar fengum við kakó og möffins á túristataxta, þ.e. fyrir allan peninginn. Aðeins farið að hvessa með dallinum á leiðinni í land aftur en það var bara hressandi, það örlaði fyrir smá sjómennskufíling frá því í gamla daga en það var nú reyndar djúpt á því.

Það virðist oftar en ekki þurfa eitthvað svona hópskipulag til að maður framkvæmi eitthvað sem er venjulega fyrir framan nefið á manni.

þriðjudagur, nóvember 22, 2011

London, England

Skellti mér í helgarferð til Englands um síðustu helgi. Fótboltaferð með nokkrum vinnufélögum, svipaður hópur sem hefur farið í nokkrar ferðirnar, bætist heldur í hann en hitt enda gleðin í fyrirrúmi. Ég er reyndar búinn að setja mér það takmark að telja saman þessar ferðir og leiki svona áður en um langt líður. Skemmtilegra að vera með þetta á hreinu. Við skulum bara lofa þeirri bloggfærslu eigi síðar en í janúarlok 2012.

Flugum út á föstudagsmorgni og gistum á hótelinu á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, ekki í fyrsta skipti en hópurinn telur m.a. tvo grjótharða Chelsea aðdáendur sem þekkja þetta eins og handarbakið á sér. Dagskráin var að taka Reading - Cardiff á laugardeginum en Chelsea - Liverpool á sunnudeginum. Menn verða að taka tvo leiki í svona ferð, til að réttlæta kostnaðinn viljum við meina. Við höfðum gælt við það að ná úrvalsdeildarleik á laugardeginum en þegar sú athugun fór í gang kom í ljós að það var ekkert að gerast í London á þeim degi. Reyndar voru uppi hugmyndir að fara á Millwall - Bristol City, bara til að geta sagt hafa farið á leik með Millwall en þeir eru þeir snarvitlausustu á Bretlandseyjum og þótt víðar væri leitað. Sá leikur var svo færður yfir á sunnudaginn, kannski sem betur fer, svo það féll um sjálft sig. Þannig að Reading var fyrir valinu, annað skipti sem við förum þangað enda einn úr hópnum með góða tengingu við Brynjar Björn, leikmann Reading sem reyndar var ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla. Svo var Aron Einar Gunnarsson að spila með Cardiff þannig að þetta hljómaði ágætlega.

Klukkutíma rúntur frá Chelsea yfir til Reading á laugardeginum og við vorum komnir þar í tíma. Fengum okkur eins og einn kaldann og spjölluðum við gesti og gangandi á stuðningsmannabarnum, þægileg fjölskyldustemming þarna og flestum finnst mjög gaman að tala um hvernig standi á því að Ísland eigi svona marga góða fótboltamenn. Svo fengum við að fara til þarna bakatil í players lounge-ið, sem var nú óttarlega dapurt miðað við hvað ég hefði getað ímyndað mér. Fínn leikur, reyndar 1:2 tap heimamanna en stuðningur gestanna sem sátu rétt hjá okkur var með því flottara sem ég hef séð, sungu megnið af leiknum og stuðningsmenn heimamanna áttu ekki roð í þá. Það er hægt að sjá sýnishorn af því -HÉR-. Sáum einhverja leikmenn þarna inn á lounge-inu eftir leikinn. Íslendingarnir tveir voru þarna og svo voru einhverjir karlar þarna, markmaðurinn Adam Federici, fyrirliðinn Jobi McAnuff og Noel Hunt. Ekki stærstu nöfnin í boltanum enda var lítið að kveikja í mér í leikmannalistinn. Sáum reyndar svo skoska framherjann Kenny Miller sem spilar með Cardiff.


Styttra ferðalag á sunnudeginum, nokkur skref frá hótelinu yfir á völlinn. Búið að loka hinum margfræga So Bar sem bullurnar stunduðu þannig að við röltum yfir á Imperial sem er á Kings Rd, þar sem stemmingin er. Ekki alveg eins sveitt eins og gamli So en slapp alveg, maður er farinn að kannast við nokkra Chelsea söngvana. Vorum í fínum sætum á vellinum og leikurinn alveg ágætur, aftur fengum við 1:2 útisigur þannig að stemmingin varð kannski ekki eins og hún hefði geta orðið. Chelsea-menn mega nú eiga það að það er flott að hafa hótel svona á vellinum, skapar líf í kringum þetta eins og eftir leikinn. Það var stemming fyrir því að safna fleiri myndum af okkur með celebs en við náðum að smygla okkur niður í bílakjallarann og sáum á eftir Didier Drogba setjast inn í bílinn sinn en gengum í flasið á Jose Bosingwa og Raul Meireles þannig að það slapp áður en okkur var vinsamlegast bent á að hypja okkur sömu leið til baka af öryggisvörðunum.
Mánudagurinn var svo heimfarardagur þar sem það helsta gerðist að bílstjórinn sem starfsmaður hótelsins pantaði fyrir okkur til að keyra okkur upp á flugvöll hélt að við værum að fara í einhverja skoðunarferð á heimavöll Arsenal. Þetta kom í ljós eftir ða ferðin hófst en einn ferðafélaginn áttaði sig á því að við vorum að fara í vitlausa átt og þá kom þetta í ljós. Það þýddi bara U-beygju á staðnum, blót í sand og ösku frá bílstjóranum en allt hafðist þetta í tíma.

Utanlandsferðalistinn tæmdur í bili, þetta hefur verið ansi hressilegt með 4 ferðir á einhverju 6 vikna tímabili. Ég held að ég hafi sagt þetta síðast en nú segi ég það aftur, næsta fótboltaferð mun innihalda leik á Old Trafford, segi og skrifa það.

sunnudagur, nóvember 13, 2011

Flúðir, Ísland

Enn eitt dæmið um að karlinn kanni áður ókomna staði á Íslandi, þökk sé íþróttaiðkun barnanna. Ég þurfti sem sagt að rífa mig upp daginn eftir Írlandsferðalagið og vera mættur með frumburðinn á Flúðir fyrir hádegið. 8. flokkurinn hjá ÍR í körfunni var að spila tvo leiki þar, við Grindavík og Hrunamenn. Menn náðu að vígja nýju búningana með tveimur sigrum. Hafði sem sagt ekki komið þangað áður, örugglega margt vitlausara en að eiga bústað þarna í grendinni, ekki það að ég sé að fara fjárfesta í svoleiðis.


Annars að frétta af Loga Snæ að hann tilkynnti fyrir helgina að hann væri hættur (í bili a.m.k.) í handboltanum. Hann hefði átt að spila í sínu fyrsta móti í dag en það varð eðlilega ekkert úr því, ekki fyrst menn eru hættir. Hann er þá í fimleikum og körfubolta og það er í sjálfu sér alveg fínt, minnkar aðeins skutlið sem er aðallega á verkefnalista mömmu hans.

laugardagur, nóvember 12, 2011

Dublin, Írland

Þurfti að bregða mér til Dublin í vikunni sem er að líða. Samnorrænn sveskjufundur, ekki orð nánar um það.

Aldrei komið til Írlands áður.

Ég held það sé sama hvar þú býrð þá séu væntanlega alltaf ákveðnir kostir en á móti ákveðnir gallar. Mér fannst svolítið fúlt að fyrir einn dag í Dublin þurfti ég vera mættur upp í flugvél klukkan 09:00 daginn fyrir þennan eina dag og lenda svo í Keflavík kl 17:00 daginn eftir þennan eina dag.

3 dagar fyrir 1.

Þegar ég vissi að þetta stæði til þá hafði ég smá von að ég gæti flogið beint með einhverju kvenfólki á leið í "power-shopping-ferð" frá Íslandi en komst svo að því að þetta er víst ekki eins vinsæll viðkomustaður eins og hérna fyrir einhverjum árum. Það þýddi bara Keflavík-London-Dublin fyrir mig og sama leið til baka.

Ferðalagið út eftir gekk svona stórslysalaust fyrir sig. Gleymdi reyndar að láta taka einhverja mynd af mér í London sem kom ekki í ljós fyrr en ég var á leiðinni út að hliðinu. Þurfti þá að taka þennan þvílíka sprett einhverja bakleið og hlaupa svo aftur í gegnum allt öryggisdraslið eftir að búið var að smella mynd af karlinum og mætti svona líka pungsveittur þegar verið var að boarda í vélina. Sem betur fer var frekar raðalítið í þessari seinni umferð minni. Ég fékk ekki nafnið mitt kallað upp í hátalakerfinu sem hefði náttúrulega bara verið kúl. Get brosað að þessu núna en mér var enginn hlátur í huga þegar ég hljóp þarna dimman bakgang og fann hvernig svitaperlurnar fóru að spretta fram úr enninu.

Get ekki sagt að ég hafi séð nokkuð af Dublin svo heitið getur. Fór út að borða fyrra kvöldið, á lítinn stað við sjóinn og það var ekki hægt annað en að taka sjávarréttina á þetta. Hörpuskel í forrétt en ég hef ekki hugmynd hvað ég át í aðalrétt enda fiskienska mín ekki alveg sú besta. Enda kannski aukaatriði, þetta bragaðist nokkuð vel.

Að öðru leyti hef ég ekki úr miklu að moða. Ég veit reyndar ekki alveg með þessa skólabúninga þarna..., ...eða ég veit svo sem alveg hvað mér finnst um þetta en ég held að ég haldi þeirri skoðun bara fyrir mig. Svo tókst mér að bjarga deginum hjá einhverri ungri dömu sem flissaði þessi lifandi ósköp þegar ég, eins og algjör hálfviti, stóð á gatnamótum og beið eftir græna karlinum. "Just go over" lét hún mig heyra þegar hún valhoppaði á milli bílanna. Ég veitti því svo athygli það sem eftir lifði ferðar að það beið ekki kjaftur á gatnamótum, menn létu sig bara hafa það. Ég reyndi bara að muna að líta til vinstri.

Heimferðin í gær gekk ágætlega. Þurfti reyndar að vakna kl 04:15 enda átti vélin að fara 07:05 en þegar á reyndi þurftum við að chilla út í vél í einn og hálfan tíma áður en hægt var að leggja af stað sökum þoku í London. Skipti ekki öllu máli, það stytti bara tímann sem ég þurfti að hanga á flugvellinum í London. En þar var ég sem sagt þann 11.11.11 kl 11:11. Hluti af U-21 fótboltalandsliðinu var svo á leiðinni heim eftir 5:0 tap á móti Englandi. Þeir voru samt hressir.

Nú fer utanlandsferðunum að ljúka í bili.

Ekki alveg strax samt.

sunnudagur, nóvember 06, 2011

Logi Snær í körfunni

Hér sé líf og hér sé fjör. Helgin að líða undir lok og það hlýtur m.a. að þýða íþróttabrölt barnanna ef við höfum ekki verið svikin, jújú mikið rétt. Í þetta sinn var Logi Snær í aðalhlutverki en drengurinn sá var að keppa í körfubolta í fyrsta sinn. Slær eldri bróðir sínum við svo munar einu ári ef reikniskunnáttan er ekki að bregðast mér en Ísak Máni tók þátt í sínu fyrsta körfuboltamóti þegar hann var 8 ára á meðan Logi er „bara“ 7 ára. Á móti kom reyndar að Ísak Máni hafði verið í handbolta árinu áður, á meðan Logi Snær byrjaði í handboltanum, eins og körfuboltanum, núna í haust. Nóg komið að tilgangslausum samanburði sem eru reyndar tölfræðiupplýsingar sem vonandi gaman er að vita seinna meira, þó það sé bara fyrir drengina sjálfa.


Logi Snær var að taka þátt í Sambíómótinu hjá Fjölni, hét áður Hópbílamótið held ég og spilaði Logi í Rimaskóla. ÍR sendi aldrei lið í þetta þegar Ísak Máni var á þessum aldri þannig að við vorum að fara í fyrsta sinn á þetta mót. Fullmikið prógramm fyrir minn smekk, 5 leikir sem voru teygðir yfir laugardag og sunnudag með bíóferð og kvöldvöku. Við fjölskyldan reyndum svona að skipta þessu á milli okkar, Sigga tók aðallega laugardaginn og fékk þá bíóferð og kvöldvöku í kaupbæti. Við Daði Steinn fylgdum Ísaki Mána á tónleika í Seljakirkju á laugardeginum áður en við kíktum upp í Grafarvoginn. Ég tók svo sunnudaginn. Þetta prógramm hefur væntanlega allt verið gert til að geta réttlætt að rukka hvern iðkanda meira en ella. Meira að segja var liðunum boðið að gista í skólanum, sem ÍR þáði sem betur fer ekki. Strákurinn stóð sig vel, smellti niður einhverjum körfum og var voða ánægður með þetta sem hlýtur að vera mergur málsins. Nýju ÍR búningarnir komu í hús rétt fyrir lokun á föstudeginum hjá Braga í Leiksport þannig að menn tóku sig vel út á velli. Númer 5 eins og stóri bróðir fékk sér.

föstudagur, nóvember 04, 2011

Lestrarstundir

Daða Steini finnst ekki leiðinlegt að láta lesa fyrir sig. Mér finnst ekki leiðinlegt að lesa fyrir hann, svona yfirleitt. Það er nú samt þannig að mér finnst bókakosturinn sem er í boði misskemmtilegur, eins og kannski eðlilegt er. Og ég og Daði Steinn höfum ekki alltaf sömu skoðun hvað þetta varðar.

Tökum sem dæmi ritröðina Skemmtilegu smábarnabækurnar sem eitthvað er til af hérna heima, mér fyndist réttara að nefna þær Misskemmtilegu smábarnabækurnar. Daða er nefnilega ekki sama hvaða bækur verða fyrir valinu þegar hann er í lestrarhlustunargírnum, sumum vill hann ekki gefa svo mikið sem eitt tækifæri á meðan aðrar eru heilagar. Og þær þarf að lesa aftur og aftur og aftur... Sem er svo sem í lagi, á meðan efni bókarinnar er í lagi en þegar það er ekki í lagi þá er það ekki í lagi.

Bláa kannan er déskoti fín finnst Daða, get ekki sagt að ég deili þeirri skoðun. Saga sem gengur út á að aðalsöguhetjan hittir mismundandi persónur og spyr þær sömu spurningarinnar og fær alltaf sama svarið, þangað til í lokin. Græni hatturinn og Svarta kisan ganga út á það sama, get ekki sagt að ég sé einskær aðdáandi Alice Williamsson sem er skráð fyrir þessum þremur sögum en geri mér jafnframt grein fyrir að hún hefur væntanlega verið stödd á öðru tímaskeiði en ég blessunin. Þá er skárra að lesa um Grísina þrjá eða Úlfinn og kiðlingana sjö sem eru sem betur fer líka ofarlega á vinsældarlistanum hjá þeim yngsta.