þriðjudagur, október 31, 2006

Meira af Bonnie

Smellum inn Bonnie Tyler lag mitt nr. 2, af því að ég er í stuði fyrir að opinbera meira af mínum furðulegheitum. Nánari útskýringar í tónlistapistlinum hérna fyrir neðan.Daft punk - One more time
Gjörsamlega óskiljanlegt af hverju ég er að fíla þetta lag. Ég peppast allur upp þegar ég heyri þetta lag. Þetta er einhver franskur diskodúett sem mættu m.a. í viðtal í Kastljósið á RÚV með bréfpoka á hausnum því þeir vilja ekki vera í sviðsljósinu, eða eitthvað. Hef heyrt eitthvað annað með þessum gæjum en get ekki sagt að ég sé að fíla það. Engan veginn. Nema þetta lag.

mánudagur, október 30, 2006

Fríða og dýrið

Ég er heilt yfir sáttur með vinnuna mína. Auðvitað eru dagarnir mismunandi eins og gengur og gerist en almennt er ég sáttur. Maður fæst við hin ýmsu verkefni og sum eru athyglisverðari en önnur. Sum eru líka furðulegri en önnur. Fór á fund um daginn og spjallaði þar við móðir fráfarandi alheimsfegurðardrottningar og sjálf er hún fyrrverandi fegurðardrottning og telst vera rúmlega yfir meðallagi á augnkonfektaskalanum.

Meðal þeirra orða sem við notuðum á þessum fundi voru:

Blautklútar
Vaselín
Bómullarskifur
Húðhreinsun
Handáburður
Augnfarðahreinsir

Þegar ég kom út af fundinum hugsaði ég bara: "Hvað var þetta?"

Sáttur með vinnuna.

laugardagur, október 28, 2006

Fjórir spenar í stað vinarins

Kaninn getur verið alveg rosalega klikkaður. Við Ísak Máni fórum á forsýningu á einhverri amerískri vellu teiknimynd, Barnyard, en Sigga hafði orðið sér út um tvo frímiða og auðvitað nýttum við okkur tækifærið. Í grófum dráttum var myndin um dýr á einhverju sveitabýli en þegar mannskepnan var ekki að fylgjast með þá gengu þau upprétt og töluðu mannamál. Hvað um það, aðalsöguhetjan hét Oddur (Otis) og pabbi hans var Brjánn (Ben) og þeir voru beljur eða naut öllu heldur. Það hefur greinilega ekki verið nein stemming í henni Ameríku að hafa tvo upprétta tudda með þetta allra heilagasta dinglandi fyrir framan börnin og það var leyst hvernig? Jú, þeir smelltu bara júgur framan á tuddana eins og það væri ekkert sjálfsagðara. Enda hallaði Ísak Máni sér að mér fljótlega eftir að myndin var byrjuð og hvíslaði: "En pabbi, naut eru ekki með spena". Held að þetta sé það sem þeir kalla að vera kýrskýr. Veit ekki hvaða áhrif svona myndir hafa á kýrskýrleika barna í Bandaríkjunum.

fimmtudagur, október 26, 2006

Getur vond tónlist verið góð tónlist?

Ég man að það var síðasti dagur síðasta árs, skömmu fyrir hádegi. Veit ekki af hverju ég man það en ég geri það samt. Logi Snær var að borða hafragrautinn sinn, aðeins á eftir áætlun en allt í lagi með það svo sem. Ísak Máni var inni í stofu að horfa á Star Wars III Revenge of the Sith, mér heyrðist að Obi-Wan væri kominn til Utapau að leita að General Grievous. Konan var í ræktinni. Ég var að raða í uppþvottavélina og kveikt var á útvarpinu, Bylgjan var í gangi. Gulli Helga var að tala við Björgvin Halldórsson söngvara og Bjarna Ármannsson bankastjóra Íslandsbanka (Glitnir heitir þetta víst í dag) en þeir voru að tala um sýninguna hans Bo sem ég held að hafi verið á Broadway. Snérist þá umræðan um að talsvert af ungu fólki hafi verið að koma á þessa sýningu, mörgum þætti líklegra að eldra fólk en yngra væri að koma á sýningu með Björgvini Halldórssyni. Voru þeir Bo og Bjarni sammála um að með tilkomu MP3 spilaranna og Ipodanna væri aðgengi að tónlist miklu meiri og auðveldari og fólk væri því að hlusta á allskonar tónlist og jafnvel eitthvað sem það myndi að öðru leyti kannski ekki vera að hlusta á.

Ég er nefnilega í smávandræðum. Málið er að ég hef alltaf haft ákveðin tónlistarsmekk, eða a.m.k. talið mér trú um það. Það er sumt sem maður hlustar á og annað ekki. Ég man þegar ég var að byrja í tónlistarpælingunum sem gutti að þá var sjóndeildarhringurinn ekkert rosalega breiður, skoðanir manns einskorðust við vinsældarlista Rásar 2 og svo tónlistarmyndbönd sem sýnd voru í þættinum Skonrokk á RÚV enda lítið annað að hafa. Svo fór maður aðeins að víkka þennan hring.

Nú hef ég lent í því öðru hvoru í gegnum tíðina að ég er að fíla einstök lög sem ég heyri einhversstaðar, lög sem mér finnst einhvern veginn að ég "eigi" ekki að fíla. Lög sem tengjast annað hvort tónlistarmönnum eða -stefnum sem ég hef hingað til ekki verið mjög ginkeyptur fyrir. Ég er ekki að tala um það þegar maður er að uppgötva nýja hljómsveit eða söngvara sem reynist svo við nánari skoðun vera nokkuð góð/góður. Nei, ég er meira að tala um þegar einstaka lög sem af einhverjum óútskýranlegum orsökum snerta einhverjar rásir í hausnum á mér en við nánari skoðun finnst mér allt annað sem viðkomandi listamaður hefur gert vera rusl, eða miður gott til að orða þetta ekki alveg svona sterkt. Svona mitt eigið one-hit-wonder.

Þetta minnir mig alltaf á eitt. Eitt sinn fyrir einhverjum árum var ákveðinn aðili í lífi Dabba litla sem viðurkenndi fyrir mér að lagið Total eclipse of the heart með Bonnie Tyler gerði eitthvað fyrir sig. Þetta sló mann nokkuð því þessi aðili var á þessum tíma meira að spá í bassaplokk að hætti Cliff heitins Burtons og skók höfðinu villt og galið í takt við tóna Iron Maiden. Ég hef stundum hugsað til þessa atburðar þegar ég lendi í þessum umdeildu tónlistaruppgvötunum.

Til að leggja áherslu á mál sitt er best að koma með dæmi. Og ég á þau nokkur. Ég er að hugsa um að henda einu hérna og svo koma kannski önnur við tækifæri, þau eru misslæm, þótt ég sjái einhverja fegurð í þeim öllum.

Fyrsta Bonnie Tyler lagið mitt er:Robbie Williams - Old before I die
Take That var alls ekkert fyrir mig og mér hefur fundist það sem Robbie Williams hefur gert síðan þá ekkert spennandi. Svona þokkalega vönduð popptónlist sem er að gera ágætishluti fyrir fullt að fólki, en ekki mig. Nema þetta lag.

Þýðir þetta að tónlistarsmekkurinn er að breytast með árunum? Veit ekki. Þroskamerki? Veit ekki. Eða er ég einfaldlega í tómu rugli? Kannski. En niðurstaðan er einfaldlega sú að hvað tónlist varðar þá er ekki hægt að gera neitt í því hvað maður fílar og hvað ekki. Góð lög eru bara góð lög, þótt þau "eigi" að vera vond.

sunnudagur, október 22, 2006

Lokahóf

Geisp...

Var á lokahófi Vatnsberanna í gærkvöldi. Það var mikil gleði en sú gleði var haldin á Blásteini, eðalpöbb upp í Árbænum sem verður líklega að teljast helstu höfuðstöðvar klúbbsins. Voru veitt hin ýmsu verðlaun, misdjúpstæð en öll með góðum huga. Aðalverðlaunin voru ekki af verri endanum, skítug Fulham treyja með 6 daga gamalli Heiðari Helgusyni svitafýlu sem strákurinn var að spila í sl. mánudag. Tók Bolungarvíkurtröllið Karvel Steindór Pálmason aðalverðlaunin og var hann vel að þeim kominn. Ég fékk það hlutverk á föstudaginn að nálgast treyjuna þar sem skaffarinn, sjálfur Jón Frímann, var kominn með annan fótinn út á sjó. Kostaði það rúnt til höfðustöðva Glitnis til móts við sjálfan Birki Kristinsson fyrrverandi landsliðsmarkvarðarins en hann hafði séð um að ferja treyjuna til landsins, með svitafýlunni og alles. Sem geymslumaður verðlaunanna gat ég ekki annað en látið Ísak Mána pósa aðeins með gripinn.

Það fór svo reyndar að þegar ég skrölti heim þá var Logi Snær búinn að æla eitthvað og því var lítið sem ekkert sofið í nótt því hann hélt áfram að skila einhverju. Vona að þetta sé bara eitthvað smáræði sem hverfi jafnfljótt og það kom.

Held að séu myndir af lokahófinu væntalegar á myndasíðunna hans Tomma.

Geisp...

mánudagur, október 16, 2006

Dagbækur

Dagbækur eru skemmtilegt fyrirbrigði. Svo skemmtilega vildi til að ég hélt dagbók á mínum yngri árum, í tveimur skorpum ef kalla má. Fyrra tímabilið var þegar ég var 11 ára og svo aftur þegar ég var 15 ára. Ætli aðalverðmætin í þessu séu ekki bara fyrir mig sjálfan, að eiga upplýsingarnar og pælingarnar sem koma fram í þessum skrifum þótt þetta sé langt frá því að vera djúpstætt eða merkilegt. Mér finnst meira varið í síðara tímabilið, af einhverjum ástæðum örlítið skemmtilegri lesning. Kannski orðin aðeins meiri hugsun í manni á þeim árum, ef hugsun mætti kalla. Núna finnst mér bara verst að ég hafi ekki verið duglegri að skrifa í dagbókina á þessum árum því óneitanlega er gaman að eiga þetta. Þetta er líklega ein af ástæðum sem maður er að dúlla í þessu bloggi, það er vonandi að ég geti haft eitthvað gaman af því að skoða gamlar færslur seinna meir.

Annars var ég búinn að reyna mana Jóhönnu systir upp dagbókarskrif á netinu. Díllinn var þannig að ég myndi birta eitthvað af dagbókinni minni á þessum vettfangi og þá myndi hún gera slíkt hið sama. Hún hélt, að eigin sögn, ansi athyglisverða dagbók á táningsárunum þegar hormónarnir og gelgjan voru í sögulegu hámarki. Hvað get ég sagt, hún tók það ekki í mál. Hún hefur líklega haldið að hennar dagbók innihaldi safaríkari lýsingar en mínar ég-vaknaði-kl-8-fór-í-fótbolta-borðaði-kjötbollur-fór-að-sofa-kl-23 lýsingar. Það er líklega rétt.

sunnudagur, október 15, 2006

Helgin

Helgin kom og fór. Sigga fór vestur svo það var þriggja karla helgi hérna í Eyjabakkanum.

Laugardagurinn byrjaði snemma eins og venjan er orðin. Ísak Máni á fótboltaæfingu kl 9:50 þannig að það þýddi ekkert að stripplast á næturklæðunum langt fram eftir morgni. Fínt fyrir alla að losa smá orku inni í íþróttahúsi, sérstaklega þegar veðrið var jafnömurlegt og það var, rigning og rok. Sökum þess var nú ekki mikið hægt að vera útivið en menn fundu sér eitthvað til dundurs. Bolti í sjónvarpinu og nokkrir viðbótamaurar mættu á svæðið í Playstation, nýji Star Wars lego leikurinn að gera gott mót. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun um að fara EKKI í nýju IKEA búðina eins og hinir plebbarnir. Auðvitað er þetta eitthvað sem maður verður að kíkja á en ekki fyrstu helgina eftir opnun, einhverntímann seinna. Fór þó í einhverja Leikbæjarútsölu, aðallega bara til að komast aðeins út úr húsi en hélt langan pistill yfir drengjunum að við værum ekki að fara þangað til að kaupa eitthvað heldur aðallega bara til að skoða og ef ég myndi kaupa eitthvað þá væri það eitthvað mjög lítið og mjög ódýrt. Fór svo að eftir stutt rölt þarna fóru við út, þeir með sinn hvorn dótakarlinn og ég 200 kr. fátækari.

Við reyndum bara að dúlla okkur hérna í dag, enda úrhellisrignig og lítið útivistarveður. Hræðum í eina Betty Crocker og höfðum það gott, ef menn hafa ekki prófað gulrótarkökuna þá hafa menn ekki lifað lífinu. Ákváðum síðan að réttast væri að styðja handboltalið hverfisklúbbsins og fórum og sáum ÍR - Fylkir. Ég var smá smeykur við að taka Loga Snæ með mér vegna hávaðans sem er oft á svona leikjum en þetta bjargaðist allt saman. Sátum ekkert of nálægt trommunum en nóg var hávaðinn samt. Sá litli var orðinn frekar lúinn en var samt ósköp þægur og góður. Því miður tapaði ÍR leiknum og virðist eiga erfiðan vetur framundan.

laugardagur, október 14, 2006

1 árs afmæli...

Í dag er eitt ár liðið frá fyrsta bloggpistli undirritaðar. Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir en áhugasömum er bent á skandinavíska styrktarsjóð örvhentra sem er með höfðustöðvar í Finnlandi, nánari upplýsingar um sjóðinn og klúbbinn sem honum tengist má fá á www.lefthandlovers.fi. Til gamans má geta þess að höfuðstaður klúbbsins er staðsettur í lítilli hliðargötu við ráðhústorgið í Helsinki og á efri hæðinni er fyrsta allífræna kaffihúsið sem opnað var í Evrópu. Fyrrverandi formaður klúbbsins var þekkt karlfyrirsæta í Finnlandi og var m.a. andlit Nivea þar í landi. Hann lenti hinsvegar í því að slasast á vinstri hendinni þegar hann var í handsnyrtingu og þurfti að þjálfa upp hægri hendina til daglegra notkunar. Var honum vitaskuld sagt upp störfum sem formaður klúbbsins og gerður brottrækur úr honum.

Í tilefni bloggafmælisins var stefnan tekin á að poppa eitthvað upp þessa síðu en það er spurning hvernig það fer, skíthræddur um að þetta fari allt fjandans til ef ég fer eitthvað að fikta í þessu. Það ætti samt að vera hægt að taka til í linkunum hérna til hliðar, svona til að gera eitthvað. Sjáum til.

föstudagur, október 13, 2006

Meira rokk og ról

Ég verslaði mér nokkra diska í Manchester, annað ekki hægt þegar hægt er að fá fína diska á einhver 5 pund, innan við 700 kr. Meðal þess sem ég keypti mér var einhver collection diskur með Dio. Það hafði alltaf verið planið að kaupa safndisk með karlinum og þegar ég sá þennan í HMV var aldrei spurning um annað en að slá til. Ég var ekki alveg klár á hverju ég átti von á, þekkti nokkur lög með kappanum en síðan kom í ljós að þetta var bara rosalega solid dæmi. Þessa dagana er Dio blastaður á góðum hljóðstyrk í Puffy, mér til mikillar gleði. Ég er kominn á þá skoðun að Ronnie James Dio sé einfaldlega snillingur. Ég fór meira að segja inn á www.youtube.com og fann myndbandið við Rock and roll children. Flashback dauðans maður lifandi. Þetta myndband var á einhverju VHS spólu sem Tommi frændi átti og við horfðum talsvert á í Grundarfirði en á henni voru hellingur af myndböndum með hinum ýmsu rokk og ról böndum. Alla vega, ég gróf þetta upp, njótið vel því þetta er bara snilld:


föstudagur, október 06, 2006

Spurning um átak

Þegar kreditkortareikingurinn kemur inn um lúguna mánaðarlega þá er alltaf ein lína sem fær mig til að hugsa: "Jæja, nú verð ég að fara að gera eitthvað í þessu máli". Eins og staðan er í dag þá er ég að styrkja ákveðna líkamsræktarstöð hér í bæ um tæpar 3000 kr á mánuði. Veit ekki hversu langt síðan ég mætti, allavega langt. Tók reyndar meðvitaða ákvörðun um að byrja EKKI aftur í byrjun september eins og allir aðrir, taldi sterkt að láta smá tíma líða og byrja aðeins á eftir öðrum. Kannski var það bara afsökun fyrir að mæta ekki strax. Hvað um það, ég held að þessi tími sé kominn. Vandamálið er að ég veit ekkert hvernig ég á að fara að þessu. Að stilla klukkuna á 5:55 eða eitthvað álíka er í alvöru ekki my-thing, þetta var ekki alveg að gera sig fyrir mig. En eitthvað verður maður að gera, þetta er ekki hægt svona. Er búinn að bíta það í mig að ef ég fer léttu leiðina út úr þessu máli, sem væri að hafa samband við þessa líkamsræktarstöð og skila inn kortinu mínu, þá sé ég búinn að tapa. Veit ekki hverju, líklega baráttunni við hreyfingarleysið. Og ég þoli ekki að tapa.

Ég er búinn að skora á sjálfan mig að vera í betra formi næsta sumar en ég var í síðastliðið sumar, úthald og annað var ekki nógu gott. Maður finnur að það er ekki eins gaman í boltanum þegar formið er miður gott. Ekki það að stefnan sé sett á eitthvað ofurform, byrjum á betra formi.

Ég ætla að klára M&M pokana sem ég keypti í fríhöfninni og svo byrja ég.

miðvikudagur, október 04, 2006

Undanþágur

Ísak Máni vill fá nammi á þriðjudegi. Ég segi nei á þeim forsendum að það sé ekki laugardagur, þ.e. nammidagur og því komi það ekki til greina. Hann vill fá undanþágu því að hann er að fara í afmæli til vinar síns og þar verði nammi á boðstólnum. Ég fellst á að veita þá undanþágu og gef honum leyfi til að fá nammi. Hann fer í afmælið, fær sér nammi og kemur heim. Ég tek á móti honum og segi honum að ég hafi gert mistök með því að leyfa honum að fá nammi. Laugardagar væru einu nammidagarnir í vikunni og því hefði hann ekki mátt fá nammi á þriðjudegi. Ég læt hann í mánaðarnammibann af því að hann fékk sér nammi á öðrum degi en laugardegi.

Já, ég er að æsa mig.
Já, ég er að æsa mig yfir kvennaboltanum á Íslandi.

Meira ruglið
.

þriðjudagur, október 03, 2006

Manchesterferðin mikla

Þá eru menn komnir heim eftir Manchesterhelgarferðina miklu. Eitt orð: Snilld!

Fórum út á föstudeginum, og lentum þá um kvöldið í Manchester. Lítið gert annað en að koma sér á hótelið og fá sér að éta, Hard Rock varð fyrir valinu.

Laugardagurinn var tekinn ágætlega snemma, egg og beikon í morgunmat (hvað annað?) en svo var ákveðið að fara á Old Trafford og kíkja á Megastore-ið og versla. Fyrir þá sem ekki vita er dauðadæmt að ætla að versla þarna á leikdegi, við erum að tala um að það er hleypt inn í hollum. Versluðum aðeins þar eins og lög gera ráð fyrir. Svolítið fúll með það að á meðan ég var að bíða eftir Tomma fyrir utan þá labbaði sjálfur Carlos Queiroz, aðstoðarþjálfari Man Utd, út úr búðinni en þar sem ég var akkúrat að horfa í einhverja aðra átt þá sá ég varla nema rétt baksvipinn af honum þegar hann þrammaði í hina áttina, það hefði ekki verið leiðinlegt að eiga mynd af sér með karlinum. Röltum svo yfir í verkamannamollið þarna hinum megin við, enda vanir Manchester menn á ferð sem þekkja orðið borgina eins og handarbakið á sér. Komum reyndar við í einhverju hersafni sem er þarna við, allt í góðu með það en ekki eins flott og safnið í London. Skrölltum síðan inn á pöbb þarna við Old Trafford, Bishop Blaize, og drukkum þar ótæpilega af bjór næstu tíma. Segir síðan lítið af ferðum tvímenninganna fyrr en morguninn eftir.

Sunnudagurinn var leikdagur þegar strákarnir frá Newcastle mættu á svæðið og því lítið annað sem var gert en að snúast í kringum það. Vorum komnir snemma á leikvanginn og dunduðum okkur þar. Vorum aðeins of seinir til að sjá leikmennina koma en náðum restinni af þeim, sáum O´Shea, Ferdinand og Saha mæta á svæðið. Vissum ekki hvert við ætluðum þegar við fórum að leita að sætunum okkar á vellinum og fundu þau, í 7. röð frá vellinum. Sást í kjölfarið til tveggja Íslendinga sem féllust í faðma og grétu af gleði. Leikurinn var æðislegur, bara eitt lið á vellinu, 2:0 ásamt 3 stangarskotum, Ole Gunnar með fyrstu mörkin á Old Trafford síðan 2003 og áfram héldu Íslendingarnir tveir að gráta af gleði, þetta var bara of gott til að vera satt. Chill um kvöldið, einhver ömurleg Superman Returns mynd sem við héldum að væri eitthvað ýkt 3-D dæmi en þurftum bara að nota þessi Imax gleraugu í 10 mínútur á meðan restin var nánast bara eitthvað vasaklútadæmi.

Mánudagur, röltdagur dauðans. Tjékkuðum okkur út fyrir hádegi og við tók rölt um miðbæ Manchester á meðan við biðum eftir kvöldinu enda flugið ekki fyrr en kl. 22 um kvöldið. Þetta var langt en samt bara drullufínt. Rákumst á hljómsveitina Disturbed sem var að árita diska og smellti maður sér á eintak þótt maður teljist nú ekki vera neinn fan.

Niðurstaða ferðarinnar: Snilld!

Manchester... þangað til næst