laugardagur, maí 29, 2010

Til mömmu

Varðandi áhyggjur af notkunarleysi. Ég fór á völlinn í gær. Peysan virkaði fínt.

fimmtudagur, maí 27, 2010

35 ár síðan


Engar stórvægilegar breytingar í gráa átt á kollinum þennan morguninn þrátt fyrir allt.

þriðjudagur, maí 25, 2010

Meira úr firðinum fagra

Sól og blíða um hvítasunnuhelgi í Grundarfirði. Hvað er þá betra en að skella sér í smá vatnsstríð?

Höfum gert þetta áður. Einhverjar rándýrar vatnsbyssur með pumpum sem gera ekkert annað en að bila hafa reynst okkur illa. Það er því bara best að bjarga sér í sveitinni og nota það sem til er í kotinu. Balar, fullir af ísköldu vatni, og 1/2 lítra flöskur virka fínt.

En myndir segja meira en þúsund orð, smella á til að stækka:


Tveir á móti einumKarlinn að fá góða gusu......beint í smettiðLogi Snær hélt sig í ákveðni fjarlægðÍsak Máni sýndi minni virðinguTekist áMenn aðeins farnir að missa sigEf menn eru að missa sig þá fá menn það í „bakið“ÚppsLogi Snær fékk líka gusu úr bala í lokin, ekki sáttur


En allir sáttir í leikslok, bara svolítið kalt

laugardagur, maí 22, 2010

Endalok leikskólans hjá þessu eintaki

Nú styttist í að ferli Loga Snæs sem leikskólabarns fari að ljúka. Frá og með 1. júní er leikskólinn off og hefðbundin skólaganga hefst svo í haust. Maður er sem sagt ekki að verða yngri.

Í gær var haldin meðalformleg útskriftarathöfn fyrir elstu börnin, þau sem eru að fara í skóla í haust. Söngur, dans, útskriftarmöppur og kökur í athöfninni. Drengurinn fór á kostum í valsinum og fóstrurnar grétu nánast af gleði.Djö... munur

Aðeins í óbeinu framhaldi af síðasta pistli. Maður gleymir því alltof oft hvað netið getur verið magnaður hlutur. Datt í Wratchild America flash-back dauðans á YouTube, og smá gúgúl með því. Band sem virðist hafa verið hálfóheppið með tímasetningar og annað þannig að heimsfrægðin kom aldrei. Breyttu nafninu síðan í Souls at Zero áður en þetta datt að mestu leyti upp fyrir hjá mannskapnum fljótlega eftir það. Nema hvað að trommarinn, Shannon Larkin, er að lemja húðir hjá Godsmack í dag. Þetta komst ég að á nokkrum mínútum ásamt því að geta hlusta/horft á tóndæmi af öllum þessum böndum.

Fór þá aðeins að hugsa um hvernig fór maður að í gamla daga í almennri upplýsingaöflun? Fór maður bara á bókasafnið og fletti í gömlum blöðum?

Djö... munur.

fimmtudagur, maí 20, 2010

Dio

Sá á netinu að ein goðsögnin í rokkinu féll frá um helgina. Mér fannst karlinn alveg eiga skilið að fá pistil hérna en mig minnti hins vegar að ég hafi verið búinn að spjalla um þennan heiðursmann. Gróf það upp og til að ég sé nú ekki að endurtaka mig þá er hægt að lesa um samband mitt og Dio - HÉRNA -

Verð að segja að ég man nú ekki eftir þessum tónleikum þarna 1992 í íþróttahúsinu á Akranesi sem menn hafa verið að rifja upp síðustu daga. Það hefur væntanlega verið þegar ég var á Laugarvatni, áður en ég flutti mig yfir á Skagann. Maður var of ungur og vitlaus til að grípa þetta tækifæri. Hvað um það, sá á upprunarlega pistlinum að linkurinn á myndbandið góða var ónothæfur svo ég gróf þetta bara upp aftur. Gargandi snilld og svona menn eiga ekkert nema virðingu skilið:

sunnudagur, maí 16, 2010

Helgin hérna

Enn ein sveitahelgi hjá konunni. Reyndar fór hún bara á laugardagsmorgninum og tók Ísak Mána með sér í þetta skiptið þannig að hinir tveir hausarnir voru hjá mér í bænum. Bongóblíða hérna á laugardeginum þannig útivera var á matseðlinum. Nennti ekki að rölta hérna um hverfið og ákvað að drösla vagninum niður í bæ og taka smá down-town á þetta. Lentum í talsverðu fjöri sem var vegna listahátíðar, fjölþjóðleg skrúðganga og fleira í þeim dúr, ég hafði reyndar ekki hugmynd um þetta en bara gaman að því.

Tókum Bæjarins bestu, Kolaportið o.s.frv. og enduðum miðbæjartúrinn á toppnum í Hallgrímskirkju, nokkuð sem Logi Snær er búinn að tala um í talsvert langan tíma og loksins fékk hann að gæjast út um toppinn. Daði Steinn nennti ekkert að sofa þegar fjörið var svona mikið, toppaði nú alveg ferðina að vera þarna uppi þegar klukkufjandinn sló tvö.

Vorum rólegri í dag enda held ég að þessi rúntur í gær hafi aðeins tekið í Daða Stein. Við Logi Snær fórum samt út á sparkvöll á meðan Daði svaf í vagninum sínum. Restin af liðinu svo væntanlegt á eftir.

laugardagur, maí 15, 2010

Af fjölskyldustuðningi

Á dögunum var ég að spjalla í símann við eina manneskju sem er tengd mér. Ég vil nú ekki nafngreina hana en við skulum bara segja að þetta er systir mín sem er þremur árum yngri en ég, hefur verið búsett á Suðureyri við Súgandafjörð en er nú að nema hjúkrun á Akureyri. Meira gef ég ekki upp.

Í þessu samtali mínu við þessi manneskja sem við skulum bara kalla Jóhönnu (svona til að kalla hana eitthvað), þá var verið að fara yfir stefnuskrá dagsins, hvaða verkefni hvor um sig sæi fram á að þurfa leysa þann daginn. Ég lýsti þar þeim áhuga mínum að henda í eina köku og athuga hvort það kæmi ekki sterkt inn. Jóhanna (sem er vitaskuld ekki hennar rétta nafn) vildi nú kippa mér niður á jörðina með það sama. Kannski væri það mér mögulegt svona ef ég fengi eins og eitt stykki Betty Crocker eða eitthvað sambærilegt upp í hendurnar, svona no-brainer dæmi. Sem sagt, ef þetta væri meira en að blanda saman dufti og vatni þá væri þetta hopeless-case og best væri ef ég tæki þá bara röltið strax út í bakarí.

Veit ekki hvort þetta sé það sem þeir kalla öfug sálfræði en með þetta í farteskinu ákvað ég samt að henda mér í þetta, opnaði KitchenAid bókina og byrjaði.


Marmarakakan varð fyrir valinu
Ekkert dass hérnaVélin látin sá um mesta puðiðKomin í ofninn
Dómstóll götunnar sáttur, ísköld mjólk og íþróttafréttinar punkturinn yfir i-ið

föstudagur, maí 14, 2010

New York #6?

Aftur klikkuðu LeBron og félagar í Cleveland á leið sinni að NBA-titlinum. Ísak Máni var ekki sáttur.

Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist í einhverri lengstu kjaftasögu síðari ára, það kitlaði enn frekar Gróu á Leiti þegar karlinn reif sig úr treyjunni í þann mund og hann var að yfirgefa völlinn. Það verður svo að koma í ljós hvort New York-treyja verður á einhverjum óskalistum hjá þeim elsta í haust ef fram fer sem horfir. Er Cleveland ekki hvort sem er ein mest „döll“ borgin í bransanum, annað en flestir vilja meina með Nýju Jórvík?Svo er líka eitthvað sem heitir Reykjavík-New York á flugáætlunum, við erum ekki að tala um neitt sem heitir Reykjavík-Cleveland í beinu flugi held ég.

fimmtudagur, maí 13, 2010

Eðlilegur eður ei?

Hérna á heimilinu er verið að bíða eftir niðurstöðu í ákveðið mál. Þessi niðurstaða mun nú ekki liggja ljós alveg strax held ég en það er gaman að velta þessu fyrir sér.

Staðan á heimilinu í dag er þessi:

Undirritaður: Örvhentur + örvfættur.
Betri helmingurinn: Rétthent + réttfætt.
Ísak Máni: Rétthentur + réttfættur.
Logi Snær: Örvhentur + örvfættur.
Daði Steinn: ???

Einhversstaðar heyrði ég að hlutfall örvhentra sé ca. 10-13%. Það er því ljóst að þessi fjölskylda er, eins og í svo mörgu öðru, langt frá því að vera eðlileg. Tala nú ekki um þegar ég er farinn að hallast að því að nýjasta eintakið sé örvhent, mér sýnist boltaköstin með vinstri vera aðeins öflugri en þau með hægri. Erfiðara að lesa í lappirnar, það er meira svona labbað á fullri ferð í átt að boltanum og svo virðist vera meira tilviljun háð hvort vinstri fóturinn eða sá hægri lendir á tuðrunni.

Kemur allt í ljós.

þriðjudagur, maí 11, 2010

Löggiltur eldriborgari

Braut odd af oflæti mínu og kíkti á Old-boys æfingu í kvöld, hina fyrstu ever. Á 99 ára afmælisdegi íþróttafélagsins Vals, furðuleg tilviljun. Samkvæmt pappírunum hefði ég getað verið að hefja mitt 5-ta tímabil í þessum heldrimannaflokki en sem fyrr segir hef ég ekki stigið þetta skref hingað til. Þrátt fyrir þrýsting að mæta á æfingar hjá Fylkir og ákveðnir möguleikar hafi verið til staðar hjá Þrótti (hljómar eins og maður sé þvílík eftirsótt kempa) þá ákvað ég að þreyta frumraun mína með hverfisklúbbnum. Vissi svo sem ekkert hverjir væru að spila í þessum hóp en einhverjir 18 hausar á svæðinu, kannaðist lauslega við 2 þannig að það var engin sérstök böddí-stemming. Byrjaði í markinu en tók svo centrocampista á þetta og setti meira að segja eitt kvikindi. Gamlir unnu samt.

En það gengur eitthvað illa að finna aftur gleðina í þessu, spurning hvað maður gerir.

sunnudagur, maí 09, 2010

Helgarfjör

Helgin var nokkuð þétt hjá karlinum. Var búinn að sjá fyrir einhverju síðan að hún yrði þétt. Boltinn að byrja og ég ætlaði að kíkja á völlinn bæði á laugardaginn og sunnudaginn. Einnig átti Ísak Máni að spila á tónleikum og svo var ég eiginlega búinn að lofa mér á Old-boys fótboltaæfingu hjá Fylkir. Þannig að það var ljóst að dagskráin yrði þétt.

Karlinn var hinsvegar settur í smáhnút þegar betri helmingurinn tilkynnti að hvað hana varðaði þá yrði þessi helgi rolluhelgi, einhverja 200 km að heiman. Það var því ekki annað fyrir undirritaðan að taka ákvörðun um að gera bara það nauðsynlegasta og sleppa hinu því það væri of mikið vesen. Það var ekki hægt að láta það spyrjast út um sig að vera eitthvað að væla. Reyndar blés ég fótboltaæfinguna af strax en ákvað að keyra á allt hitt. Dröslaði mannskapnum á tónleikana hjá Ísaki Mána á laugardeginum en hafði smá áhyggjur af Daða. Tímasetningin var nefnilega nánast hin sama og hádegismatur/lúr hjá honum. Það gekk hins vegar allt saman, farið heim og mannskapurinn fékk sér að borða. Svo var haldið upp í Mosó til að horfa á Visa-bikarinn, Afturelding - Grundarfjörður. Svolítið dejavú frá 2007 en samt ekki. Aðallega ekki vegna þess að ég var ekki að spila í þetta sinn og svo tapaði Grundó bara 3:0 þetta árið en ekki 10:1 eins og 2007. Daða var plantað í vagninn og það gekk bara helv... vel.

Sunnudagurinn tók á móti okkur með bongó-blíðu. Létta leiðin hefði verið að taka næstsíðustu umferðina í ítalska á netinu frá kl 13:00-15:00 og fylgjast svo með lokaumferðinni í enska í beinu framhaldi. Þar sem líkurnar á dollu eru litlar í ítalska og voru óraunhæfar í enska þá var ákveðið að fylgja upprunarlega planinu, þ.e. kíkja á fyrsta leikinn í 1. deildinni, Grótta-ÍR. Ég reyndi að taka sama plan og daginn áður, hélt Daða aðeins lengur vakandi en venjulega og henti svo bara vagninum í skottið og hélt út á Seltjarnarnes. Ekki gekk lúrinn hjá drengnum alveg eins vel í þetta skiptið, veit ekki hvort sólin var svona erfið eða misgáfuleg köll stuðningsmanna Gróttu fóru illa í menn. Hann var alla vega ekki til í að kúra í vagninum þannig að ég þurfti að hafa aðeins fyrir honum en sá svo sem allflest í leiknum. Þar sem markvörðurinn hjá ÍR fékk rauða spjaldið á börunum í blálokin þurfti að bæta við einhverjum 10 mínútum við leikinn. Það þýddi að við þurftum að hraða okkur upp í Breiðholtið aftur þar sem Ísak Máni átti að fara í aukatíma í píanó því hann er að fara í próf í þeim fræðum á morgun. Það rétt hafðist á umsömdum tíma.

Hér sé fjör.

laugardagur, maí 01, 2010

Framfarir


Uppskeruhátíð hjá körfuknattleiksdeild ÍR var haldin í dag. Ísak Máni fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar í flokknum sínum, annað árið í röð held ég bara. Þá hljóta menn að vera að gera eitthvað rétt. Þjálfarinn kallaði hann upp á svið sem stórskyttuna. Það þótti drengnum ekki leiðinlegt. Og ekki mér heldur ef út í það er farið.