sunnudagur, september 30, 2012

Helgin

Karlinn í einstæða hlutverkinu þessa helgina, me-me á kantinum hjá kerlu og það verður að segjast að það var þokkalegasta keyrsla þessa helgina.  Byrjaði á því að taka smátíma á föstudagskvöldinu niðri í vinnu og kjósa nýtt fólk í okkar flotta starfsmannafélag, með indverskum mat á boðstólnum. 
Körfuboltaæfing hjá Loga Snæ kl 09:00 á laugardagsmorgninum en ég hafði víst stillt klukkuna á 07:45.  Það reyndist óþarfi þar sem minnsta verkjaraklukkan skreið upp í til mín 06:45 og var eitthvað að spá í lífið og tilveruna.  Eftir körfuboltaæfinguna réðst ég í það verkefni að losa eldhúsofninn úr innréttingunni hjá okkur.  Hann hefur átt það til að vera hálfdularfullur og þegar hann tók upp á því að senda stóran hluta framhliðarinnar beint í gólfið þegar heimilsfaðirinn var að möndla pizzur fyrir einhverjum dögum ákváðum við að segja stopp.  Sú framhlið fór í trilljón parta og eftir ítarlegt sóp og fjórar umferðir með rygsugunni var orðið gangfært aftur í eldhúsinu.  YouTube kom mér í gegnum ofnalosunina án mikilla vandkvæða og ég kláraði málið með því að horfa á eftir honum ofaní gáminn á Sorpu.  Ég vona að við verðum búin að leysa þetta fyrir jól en þessi hluti innréttingarinnar er ekki alveg hefðbundin varðandi hlutföll, eins og við komumst að þegar við versluðum okkur uppþvottavél hérna um árið.  Ég finn lykt af skítamixi allan daginn þar sem eflaust mun ganga illa að finna græju sem passar í gatið.  Það kemur í ljós, kannski efni í nýjan pistill.  Við verðum bara að grilla á meðan.
Ísak Máni á körfuboltaæfingu líka þarna á laugardeginum og við hinir fórum að kaupa í matinn ásamt því að stoppa í Elko svo ég gæti rölt í gegnum ofnadeildina.  Verð að segja að ég stoppaði lengur í flatskjádeildinni...

Ísak og Eldar
Sunnudagurinn hófst á Hausthátíð í Breiðholtskirkju þar sem fermingarbörnin léku rullur.  Fjölskyldustund í kirkjunni og svo var boðið upp á grillaðar pylsur og einhverja leiki og þrautir á eftir.  Ísak Máni var í einhverjum ægilegum búningi ásamt félaga sínum og bauð alla velkomna við innganginn.  Eftir þetta var skotist heim í smástund áður en farið var upp í íþróttahúsið í Seljaskóla, sem heitir víst í dag Hertz-Hellirinn, en þar ætlaði Ísak Máni að taka þátt í Íslandsmótinu í Stinger.  Annað árið í röð sem Körfuknattleiksdeild ÍR og Karfan.is halda þetta mót.  Þeim hefur nú enn ekki tekist að laða að mikið af nafntoguðum fallbyssum en það hefst vonandi.  Ca 30 manns sem tóku þátt og Ísak Máni datt út þegar hópurinn var kominn niður í 8 manns, nokkuð gott hjá guttanum.  Eftir það var brunað heim með Ísak en við hinir þrír vorum að fara í Borgarleikhúsið til að sjá Gulleyjuna.  Það var alveg ágætt og Daði Steinn var þokkalegur í sinni fyrstu leikhúsferð.  Ég hafði smá áhyggjur af því að hann yrði eitthvað smeykur við sjóræningjana en svo var ekki og hann hélt athyglinni allan tíma sem hlýtur að túlkast sem að takmarkinu hafi verið náð.

Þangað til næst.

laugardagur, september 29, 2012

Áramótaheitið hangir, eða plankar, enn...

Plankaæfing dagsins í dag búin, tvöhundruð-sjötugasta-og-þriðja daginn í röð.
Aðeins, innan gæsalappa, níutíu-og-þrír dagar eftir. 

30+ boltinn: Season III

Lét plata mig í bumbubolta með Fylki þriðja árið í röð.  Tók þetta eins og í fyrra, mætti ekki á nokkra einustu æfingu en alla þá leiki sem ég komst í.  Eitthvað róleg stemming yfir þessu á landsvísu, sjaldan eða aldrei færri lið í þessum 30+ flokki.  Við erum að tala um að ég missti bara af einum leik, sem þurfti auðvitað að vera sigurleikur og svo skilst mér að við höfum gefið síðasta leikinn.  Maður er ekki alveg að massa neina champion-tölfræði hérna, leikir sem undirritaður tók þátt í þetta sumarið:

4 leikir: 1-0-3

22. maí Fylkisvöllur 
Fylkir - Breiðablik/Augnablik 1:7

29. maí Kaplakrikavöllur 
FH - Fylkir 6:2

12. júní Fylkisvöllur
Fylkir - Fjölnir 13:1

4. september Fylkisvöllur
Fylkir - Afturelding 2:7


Heildarferillinn:
18 leikir: 5-0-13

Og enn ekki búinn að halda hreinu á ferlinum, þetta er hálfdapurt eitthvað.

fimmtudagur, september 13, 2012

Körfuboltalandsleikir

Man ekki eftir því að hafa farið á landsleik í körfubolta fyrr en núna síðla sumars, það gæti svo sem verið misminni.  Landsliðið hefur jú nánast legið í dvala síðustu ár sem skýrir þetta að einhverju leyti, leiðir mínar á körfuboltaleiki hafa fyrst og fremst náð einhverjum hæðum síðustu 3-4 árin.
En KKÍ menn spýttu í lófa og dustuðu rykið af þessu ásamt því að nýtt fyrirkomulag, a.m.k. á undankeppni EM var kynnt til sögunnar.  Það þýddi 10 landsleikjahrina með 5 heimaleikjum fór fram á rétt tæpum mánuði.  Menn geta haft sínar skoðanir á þessu formi en það voru a.m.k. alvöru körfuboltamenn að kíkja á svæðið, svo mikið varð ljóst.  Ég verslaði mér passa á alla leikina og var yfirleitt í hlutverki andarpabba einhverja drengja hérna úr hverfinu.  5 leikir og 5 töp, það gengur bara betur næst.

14. ágúst  Ísland - Serbía  78:91
Fyrsti leikur liðsins í keppninni og það var þokkalega þétt setið í Laugardalshöllinni.  Massasterkir andstæðingar en með mikilli baráttu náði íslenska liðið flottum leik.

21. ágúst  Ísland - Ísrael  83:110
Áttum aldrei möguleika í öfuga Ísraela.  Hérna var eitt af aðalmálunum að fá áritun hjá Omri Casspi, leikmanni Cleveland Cavaliars.  Ísak Máni mætti í Cleveland peysunni sinni og hann og Logi Snær voru mættir með mynd af kappanum og penna.  Það hafðist og er komið í safnið.

27. ágúst  Ísland - Eistland  67:86
Eitthvað andleysi í gangi og þetta varð aldrei neinn leikur.

2. september  Ísland - Slóvakía 84:86
Unnum þá á útivelli og menn voru að gæla við að hérna væru menn að verða vitni af sigurleik.  Spennan var mikil en boltinn rúllaði af körfuhringnum við síðasta skot Íslands þegar bjallan gall og sárt tap staðreynd.  Menn loksins búnir að átta sig á því að mæta með trommu í kofann.

8. september  Ísland - Svartfjallaland  92:101
Ekki áttu menn von á nokkrum sköpuðum hlut hérna enda gestirnir á toppnum og búnir að vinna alla leikina.  Eitt af markmiðunum var að bæta annarri NBA áritun í safnið en því miður lét leikmaður Minnesota Timberwolves, Nikola Pekovic, ekki sjá sig á klakanum.  Hvort það hvar hlutur af einhverju vanmati skal ekki segja en Ísland fór hamförum og var með 22ja stiga forystu í hálfleik.  Svartfellingar söxuðu hinsvegar á forystuna og náðu að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.  Menn voru frekar súrir eftir þetta.

sunnudagur, september 09, 2012

Listamaður

Svona fyrst ég hélt ekki lista yfir fótboltaleiki sumarsins þá þurfti ég að búa til einhvern annarskonar lista.  Sundlaugar sumarsins urðu fyrir valinu.  Helklikkaður, ég veit en lífið væri bara svo miklu leiðinlegra ef ekki væri fyrir klikkið.

Álftaneslaug:  Fórum 2-3x þangað í sumar, en höfðum aldrei farið þarna áður.  Menn þurftu að prufa öldulaugina og þessháttar í þessu bákni sem mér finnst alltaf vera holdgervingur daprar fjárhagsstöðu þessa annars ágæta bæjarfélags.

Árbæjarlaug:  Aldrei þótt hún neitt spes, alltaf skítköld og eitthvað unsexy við hana.  Innilaugin er reyndar fín en núna er ég bara ekki með nein ungabörn á mínum snærum, ég er meira að hugsa í rennibrautum.

Breiðholtslaug:  Laugin okkar, finnst hún bara flott eins og hún er.  Fínir klefar og skipulagið á lauginni alveg til fyrirmyndar.

Grafarvogslaug:  Smelltum okkur í hana á einum blíðviðrisdegi og félagi hans Ísaks fékk mömmu sína til að skutla sér svo hann kæmist með okkur.  Sá þurfti svo að taka strætó heim, enn ein röksemdarfærsla sem segir að ég þurfi að eiga 7 manna bíl.

Lágafellslaug:  Laugin í Mosó.  2 heimsóknir í hana síðla sumars á 2ja daga tímabili og Daði Steinn fór einn í allar rennibrautirnar.  Þetta er ekki flókið.

Laugardalslaug:  Ekki mitt uppáhald en allt í lagi að fara stökum sinnum þarna.

Seltjarnarneslaug:  Hafði ekki komið þarna áður og hún kom bara skemmtilega á óvart, ágætis tilbreytingarlaug.

Sundlaugin Hvolsvelli:  Þokkalegasta sveitalaug.  Einhverjar frekari heitapottsframkvæmdir þegar við vorum þarna þannig að þetta verður kannski enn betra næst.

Sundlaugin Vík:  Fínasta laug miðað við stærð plássins, ég myndi t.d. velja þessa framyfir þá grundfisku hvaða dag vikunnar.

Sundlaugin Borgarnesi:  Einhver þrengsta og furðulegasta búnings/sturtuaðstaða sem ég hef séð á ferlinum en ekkert út á sundlaugina eða rennibrautirnar að setja.  Þarna tók Daði Steinn að-fara-einn-í-stóru-rennibrautirnar upp á næsta stig, efsta stig.

Sundlaugin Grundarfirði:  Skiljanlega talsvert notuð á brölti okkar í firðinum enda þægileg leið til að skola skítinn af liðinu.  Vaðlaugarleysið gerir þetta hinsvegar hálfleiðinlegt ef maður er með börn undir ca 5 ára aldri.  Fær þó plús fyrir ágætlega skemmtilegt dót.

Sundlaugin Stykkishólmi:  Sleppur alveg en vantaði einhvern þokka yfir þetta.  Fóru mest í mig helv... útlendingarnir sem mættu ofaní án þess að fara í sturtu.  Þjóðverjar...

Minnir að aðrir en ég hafi farið í Kópavogslaug og svo voru nú nokkrar sem voru á óskalistanum hjá fjölskyldumeðlimum þetta sumarið en komust ekki á listann.  Vestmannaeyjar voru þar líklega efst, og við vorum nálægt því að taka rúntinn þangað en tímasetning og góð veðurspá fóru ekki saman.  Logi Snær hefur sótt það stíft að fá að fara í Sundhöllina, held að það tengist eitthvað stökkpallinum, en það var sjaldan stemming fyrir því að skella sér í hundgamla innilaug þegar sólin skein.  Við þurfum að fylgja honum þangað við tækifæri.

laugardagur, september 08, 2012

Fall - Staðfest

Það sannaðist það fornkveðna að yfirleitt er bara best að kippa plástrinum af hratt og örugglega frekar en að draga þetta eitthvað á langinn.
ÍR fór niður í 2. deild, eða C-deildina, í dag með 1:0 tapi í Ólafsvík en samt tvær umferðir eftir.  Eftir þokkalega ásætanlega fyrri umferð þá hafa komið 9 tapleikir í röð með markatöluna 3:26 og þá á staðan ekkert að koma á óvart.  Síðasti leikurinn sem var ekki tap var sigurleikur gegn hinu Breiðholtsliðinu þann 17. júlí.  Sem er ömurlega lélegt, skrifandi þetta í fyrrihluta september.
Við erum að tala um líklega leiki næsta sumar, við KV (varalið KR), HK, Aftureldingu, Dalvík/Reynir, Njarðvík, Reynir S., Hamar, Gróttu, Sindra og Ægir, a.m.k. eins og staðan er núna.  Með fullri virðingu fyrir allt og öllum þá drýpur nú ekki kynþokkinn af þessari upptalningu.  Bara eins gott að liðið í póstnúmeri 111 verði þarna líka, aðra möguleika vil ég ekki hugsa út í.

Við erum að tala um að næsta sumar mun muna einni deild á ÍR og Grundarfirði.  Hver hefði trúað því fyrir 2-3 árum?