fimmtudagur, mars 30, 2006

Útvarpsstöðin mín

Tók nettan Lýð Oddsson á þetta. Þið vitið, Lottó-auglýsingarnar. Gúgglaði nafnið mitt og er búinn að vera að fara í gegnum þetta en sökum vinnu (ólíkt Lýð) hef ég nú ekki enn komist í gegnum blaðsíðu 1. Ég hef ekki fundið borg í Tyrklandi sem ber mitt nafn en hinsvegar fann ég þessa þvílíku snilld, útvarpstöð frá Macomb í Bandaríkjunum sem heitir Wium FM 91.3! Hversu kúl er það? Er búinn að prófa að stilla inn en það er yfirleitt eitthvað leiðindar blaður í gangi. Áður en ég tapaði mér og sendi meil þangað til að komast að því hvort ég ætti einhverja ættingja þarna sem hefðu mögulega stofnað stöðina þá róaði ég mig niður og reyndi að komast að því hvers vegna í ósköpum þessi útvarpsstöð bæri þetta fallega nafn og ég tel mig hafa svarið á reiðum höndum. Þessi stöð er í eigu Western Illinois University sem er staðsettur þarna í Macomb og ef maður tekur fyrsta stafinn úr þessum orðum færðu WIUM. Algjör Sérlákur. Áhugasamir geta hlustað hér.

Spurning um að undirbúa heimsókn þangað.

mánudagur, mars 27, 2006

Tölvutæknin

Tölvutæknin er yndisleg.

Eins og glöggir lesendur þessarar síðu hafa tekið eftir þá var konan ekki heima frá því snemma á laugardeginum fram á sunnudagskvöld. Hún kom sem sagt heim í gærkvöldi eftir að hafa verið fyrir vestan. Hún kom heim, skellti tveimur töskum á gólfið í forstofunni, einn sængurfatapoki og úlpa fóru sömu leið. Húsbóndinn á heimilinu fékk koss og knús. “Gaman að sjá þig” sagði hún. “Úff, ég er frekar þreytt eftir þetta allt” hélt hún áfram þegar hún rölti inn í stofu, teygði sig í fartölvuna og settist í sófann.

Eftir einhvern tíma lokaði hún fartölvunni, stóð upp og sagði: “Já, helgin var sem sagt svona hjá þér”. Og það besta var að ég varla búinn að segja orð frá því að hún kom inn um dyrnar.

Tölvutæknin er yndisleg.

sunnudagur, mars 26, 2006

Árshátíð

Vinnan hélt árshátið í gærkvöldi og það var vandað til verka eins og venjulega. Byrjaði heima hjá forstjóranum eins og venjan er, í öl og snittur en síðan var öllum mannskapnum komið niður í Laugardal þar sem aðalgeimið var í Félagsheimili Þróttar. Þar sem fyrirtækið vex og dafnar þá voru ansi margir þarna sem ég þekkti engin deili á. Fyrir svona 2-3 árum voru þetta 30+ starfsmenn hjá fyrirtækinu og dótturfyrirtækinu. Þá mætti maður á árshátið og það var svona ein og ein hræða sem maður var ekki alveg viss hvort væri starfsmaður eða maki. Á ekki svo löngum tíma er búið að versla einhver þrjú batterí, misstór reyndar, sem hafa bæst í pakkann og þaraf er eitt fyrir norðan á Akureyri. Þannig að núna voru þetta rétt rúmlega 100 manns með mökum sem mættu og ég verð að viðurkenna að ég var gjörsamlega týndur þarna. Gott ef ég þekkti deili á 1/3 af mannskapnum. Það hjálpaði ekki að ég missti af árshátiðinni í fyrra vegna veikinda og var því týndari en ella.

Konan kom ekki með í þetta skiptið þar sem hún ákvað að skella sér vestur á Snæfellsnesið og fara á jökulinn með einhverju fólki sem allt þurfti að fara og ná sér í orku. Vona að allir komi þaðan sem endurnærðir orkuboltar.

Þar sem ég var maður einsamall þá fannst mér ég stundum verða hálfgerð afgangsstærð í svona dæmi. Dregið til borðs og þá gilti miðinn með númerið á borðinu fyrir tvo o.s.frv. Leist ekkert á þetta þegar ég sá borðið sem mér var “úthlutað”, 11 hausar að mér meðtöldum, lagermaður hjá okkur og konan hans sem ég þekkti vitaskuld en afgangurinn var allt lið að norðan sem ég hafði aldrei á ævinni séð. Enda vorum við þrjú ekki alveg að digga alla umræðuna og brandarana sem fengu að fljúga þarna um borðið. Maturinn var fínn og skemmtiatriðin sömuleiðis. Krakkar úr Fjölbraut í Garðabæ komu og fluttu tvö lög úr Sister Act eða Systraspili, söngleiknum sem skólinn er að setja upp. Svo komu tveir kóngar á svæðið, nei það voru ekki Simmi og Jói eða Sveppi og Auddi. Það voru Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson. Langflottastir, miðað við undirtektirnar í salnum og það verður ekki sagt að þessir kappar kunni þetta ekki. Ef þetta var ekki nóg fyrir mannskapinn þá kom IceBlue sjálfur, Geir Ólafsson, og söng einhver lög. Ég ákvað þá að standa upp og kíkja á liðið út í smók, jafnvel þótt ég reyki ekki. Þarna á milli atriði var haldið happdrætti þar sem dregnir voru út misspennandi vinningar, allt frá páskaeggjum til utanlandsferðar til Evrópu fyrir tvo. Það fór aldrei svo að kappinn hirti ekki einn vinning og bara þokkalegan held ég. Flug fyrir tvo til Akureyrar og heim aftur, gisting í eina nótt fyrir tvo á KEA Hotels og 8.000 kr inneign hjá veitingarhúsinu Greifanum á Akureyri. Heyrðu, þetta lítur bara ágætlega út svona á prenti, veglegur vinningur.

Maður var svo bara rólegur, tók leigara heim með eitthvað af Breiðholtsbúum og var kominn heim klukkan að verða 2.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Það er bara ein Jóhanna systir

Kannski er ég að gera þvílík mistök að birta eftirfarandi sögu. Kannski verður Jóhanna systir brjáluð. En þetta er bara svo fyndið. Og aulalegt.

Sagan er sú að hún rekur gistiheimili á Suðureyri við Súgandafjörð og eitt sumarið komu Svisslendingar sem urðu svona rosalega hrifnir af landi og þjóð. Núna um daginn fékk hún sent frá þeim eitthvað rosalega flott súkkulaði sem hún hélt ekki vatni yfir. En einn hluti af súkkulaðipakkanum var stílaður á stelpu sem var að vinna hjá henni þetta sumar en býr núna á Ísafirði. Ég heyri nú á Jóhönnu að hún var eitthvað að vandræðast með að koma pakkanum til þessarar stelpu, hún var greinilega eitthvað að mikla þetta fyrir sér. Kemur þá upp úr kafinu að þessi stelpa eignaðist barn núna í lok síðasta árs, eignaðist myndarlega litla dömu og allt í góðu með það. Henni er síðan gefið nafn, Solveig Amalía og fljótlega eftir það fer Jóhanna inn á barnalandssíðuna hennar og ákveður að skrifa í gestabókina og dásamar þetta nafn. Eða ekki alveg því henni tókst að klúðra þessu algjörlega og kallaði barnið Sigrúnu Amalíu! Þetta er náttúrulega alveg skelfilega fyndið, þ.e. svo lengi sem maður lenti ekki í þessu sjálfur. Þessi yndislegu mistök má sjá hér. Þetta verður fyrst almennilega fyndið þegar maður sér þetta með eigin augum.

Jóhönnu leið eitthvað asnalega með þetta allt saman en ákvað svo að hringja í þessa stelpu og segja henni frá súkkulaðinu og boða sig í heimsókn, svona bara til að koma með þetta svissneska gull. Ef commentið í gestabókina var ekki nógu mikið klúður þá ákvað þessi yndislega systir mín að ganga alla leið og lét út úr sér í þessu símtali: “Ég verð svo líka að kíkja á hana Sigrúnu…”

þriðjudagur, mars 21, 2006

Lasleiki og aulameiðsli

Logi Snær er lasinn, líklega kominn með flensuna, það er allir með flensuna þessa dagana. Eins og það sé eitthvað töff. Ég skrölti nokkrar ferðir inn til hans síðustu nótt svona til að gefa honum að drekka og athuga með hann, ekkert massa stemming. Mamma hans var svo heima með hann í dag en á morgun er víst komið að mér að standa vaktina. Hann sofnaði hérna í sófanum rúmlega sex í kvöld og lá þar til klukkan að verða átta en þá bar ég hann inn í rúm. Spurning hvort kerfið fari allt til fjandans og hann vakni klukkan fjögur í nótt reiðubúinn til að fara á fætur. Ég held ekki. Ég vona ekki. Svona var annars stemmingin á guttanum núna um kvöldmatarleytið.Annað mál. Getur maður slasað sig alvarlega með því að sparka í markstöng? Ég mætti á sunnudeginum upp í Austurberg til að taka þátt í þessum 8-liða úrslitum á innanhúsmóti Utandeildarinnar. Fór að því leytinu til á versta veg að við töpuðum leiknum 1:0 og gátum því pillað okkur heim á meðan liðið sem sló okkur út fór alla leið og hirti dolluna. Ekki það að við ættum að vera eitthvað sorgmæddir með úrslitin, töpuðum öllum leikjunum á þessu sama móti í fyrra og fengum á okkur einhver 17 mörk í þremur leikjum þannig að þetta var talsverð bæting. En maður er aldrei sáttur við að tapa og í bræði minni þegar dómarinn flautaði leikinn af þá fann ég ekki upp á neinu gáfulegra en að taka stöngin á markinu fyrir og sparka duglega í hana. Ekki það að hún hafi gert mér nokkurn skapaðan hlut eða haft á einhvern hátt eitthvað með þetta tap okkar að gera. Man ekki alveg hvernig ég hitti stöngina en núna er eins og ég sé marinn á ilinni, það er vont að stíga fast niður. Þvílíkur aulaháttur. Jæja, þetta hlýtur að jafna sig. Boðskapur dagsins: Anda rólega og láta ekki stundarbrjálæði leiða mann í einhverja vitleysu.

laugardagur, mars 18, 2006

Framkvæmdir og fótboltamót

Alltaf einhverjar framkvæmdir hérna megin, núna var það eldhúsið. Máluðum það um síðustu helgi og létum svo smíða borðplötu eins og okkur hafði alltaf langað í og kláruðum svo málið með nýjum stólum. Við erum helv… ánægð með þetta allt saman. Hérna er niðurstaðan, fyrir breytingar og eftir breytingar.

Vatnsberarnir voru að spila í innanhúsmóti Utandeildarinnar í dag og okkur gekk svona glimmrandi vel, unnum 3 leiki en töpuðum einum. Það þýddi að við unnum riðilinn okkar og spilum í úrslitum á morgun. Hef reyndar ekki hugmynd um hvernig framkvæmdin á því verður en vonandi höldum við áfram að gera góða hluti.

föstudagur, mars 17, 2006

Úti að aka

Ég er heilt yfir góður ökumaður. Sumum finnst reyndar ökulagið mitt full glannalegt á köflum en það breytir samt ekki mínu áliti á mér sem ökumanni. Ég er búinn að hafa bílpróf næstum því í 14 ár og hef átt minn eigin bíl örugglega í einhver 12 ár. Það skal alveg viðurkennast að ég hef ekki flekklausan feril en stórslysalausan. Á mínum ökumannsferli hef ég verið tekinn tvisar fyrir að keyra yfir á rauðu ljósi en að öðru leyti hefur þetta verið án stórra áfalla. Reyndar missti ég einu sinni vinstra framdekkið undan bílnum á leið minni frá Grundarfirði til Reykjavíkur en það tengist nú ekki mínum hæfileikum til að keyra bíl heldur frekar ástandið á þeim bíl sem um ræðir. Skrifa kannski þá sögu síðar.

Sökum vinnunnar þá keyri ég mikið og maður hefur nú séð eitt og annað í umferðinni en kveikjan af þessum pistli var lítið atvik sem gerðist núna í vikunni:

Ég var að keyra á Sæbrautinni og sé að það kemur gult ljós á gatnamótunum framundan. Ég dreg úr hraðanum og geri mig líklegan til að stoppa en bílinn við hliðina á mér gefur í og fer yfir á hvínandi rauðu ljósi. Mér brá svolítið því bíllinn var merktur ÆFINGARAKSTUR en dró þá ályktun að einhver hefði bara gleymt að taka miðann af, það gæti ekki verið að einhver sem væri í æfingarakstri myndi aka svona. Tveimur gatnamótum seinna lendi ég við hliðina á þessum bíl og mér til mikillar hrellingar situr ung stelpa bak við stýrið, líklega á bílprófsaldri, og eldri kona við hliðina á henni. Veit ekki hvort þetta var móðir-dóttir ökutími en hvað sem þetta var þá var það slæmt.

Ég reyni að vera góð fyrirmynd í akstri sem og öðru, sérstaklega gagnvart drengjunum mínum. Stundum fæ ég illt auga frá konunni þegar við, eða öllu heldur ég, erum að keyra. Enda get ég alveg kvittað upp á það að stundum má ég alveg draga andann djúpt og slaka á. Ég hef hinsvegar tekið eftir einu sem ég get ekki alveg útskýrt. Mér finnst að ég keyri öðruvísi þegar ég keyri sjálfskipta bíla, tala nú ekki um ef þeir eru með þægilegum sætum og svona vel úr garði gerðir. Maður dettur í einhvern chill fíling, lætur bara fara vel um sig og stýrir, allt voða afslappað og letilegt. Spurning hvað það þýði, kannski ekki neitt. Kannski er þetta bara réttlæting á því að fara að kaupa sér nýjan bíl, einhvern þægilegan slyddujeppa, sjálfskiptan með leðursætum, topplúgu og cruise control. Eða kaupa… ég hef auðvitað ekkert efni á kaupa eitt né neitt, er þetta ekki frekar spurning um að skrifa bara nafnið sitt á eitthvað blað? Nei, ætli maður verði ekki bara eitthvað áfram stoltur eigandi Renualt Megane Scenic, hvað svo sem síðar verður…

föstudagur, mars 10, 2006

Konungurinn í Latabæ

“Þú stendur þig vel og ert klár strákur en mér finnst þú stundum svolítið latur” Þarna stóð ég steinrunninn á bókasafninu í grunnskólanum í Grundarfirði, svona 13-14 ára pjakkur, þegar þáverandi íslenskukennarinn minn og núverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, lét þessi orð falla í minn garð. Ég veit ekki alveg af hverju ég man svona vel eftir þessu en af einhverjum ástæðum situr þetta í mér. Kannski hefur hún hitt naglann á höfuðið, sem hlýtur að vera sorglegt því leti telst ekki beint vera eftirsóttur eiginleiki. Ég vona nú samt að þetta hafi verið eitthvað orðum aukið hjá háttvirtum umhverfisráðherra en þó viðurkenni ég að stundum get ég verið svolítið góður við sjálfan mig.

Stundum vildi ég að ég væri íþróttaálfurinn. Hoppandi og skoppandi allan daginn geðveikt ýkt hress og allt í gangi. Man eftir að hafa séð Magnús Scheving í Innlit-Útlit fyrir einhverjum misserum þar sem hann var að lýsa því þegar hann stóð í framkvæmdum heima hjá sér, var að nostra við fataskápinn hjá sér sem var mjög flottur en þetta var svo fáránleg handavinna að þetta tók hann þvílíkan tíma. Allt á hvolfi heima hjá honum, hann að föndra einhverjar drúsidúllur á fataskápinn heima við á milli þess að þeysast út af einhverjum Latabæjarfundum út um allan bæ. Hvað geri ég? Er að redda einu sérsmíðuðu eldhúsborði og mála eldhúsið og er að bugast yfir þessu “öllu” saman. Kem mér varla að verki og konan lýsir áhyggjum yfir þessu ástandsleysi á kappanum.

Tapparnir sem eiga að fara undir fæturnar á borðstofustólana svo þeir rispi ekki gólfið sem konan keypti fyrir einhverjum dögum gegn því að ég myndi setja þá undir fæturnar eru enn í umbúðunum upp á borðstofuborðinu. Ég veit af þeim og sé þá alltaf útundan mér þegar ég er að vappa í kringum borðstofuborðið en ekkert gerist. Veit að ef ég kem mér í þetta þá tekur þetta bara nokkrar mínútur en samt gerist ekki neitt.

Kannski er þetta bara vítamínskortur. Spurning um að fjárfesta í einu glasi af einhverju. Sá ég ekki Latabæjarvítamín til sölu í einhverri búðinni núna um daginn?

mánudagur, mars 06, 2006

FORZA ROMA

Þetta er fótboltapistill. Fannst réttast að aðvara þá sem finnst tíma sínum eytt í eitthvað annað betra.

Þennan pistil ákvað ég að skrifa þann 26. febrúar sl., en þó ekki fyrr en ákveðnum kafla lyki í ítalskri knattspyrnusögu, sem gerðist svo núna á sunnudaginn en þá lauk sigurleikjahrinu AS Roma. Eftir 11 sigurleiki í röð gerði liðið jafntefli núna á sunnudaginn við Inter en það er nýtt met í ítölsku deildinni.Forsagan er að fyrir þetta tímabil áttu þrjú lið met yfir fjölda sigurleikja í röð í ítölsku deildinni: Juventus (1931-32), AC Milan (1950-51) og Bologna (1963-64) spiluðu 10 sigurleiki í röð. Eftir vægast sagt brösuga byrjun á tímabilinu hjá mínum mönnum þá duttu menn í gírinn og tóku við að vinna hvern leikinn á fætur öðrum. Maður var farinn að svitna svolítið þegar farið var að tala um að þetta met gæti mögulega verið slegið. Sérstaklega þegar ég reiknaði það út að 11. leikurinn yrði á móti erkióvinunum í Lazio. Svo hafðist það að jafna þetta met með 10. sigurleiknum í röð, á móti Empoli, en sá sigur kostaði því gulldrengurinn Totti meiddist alvarlega í leiknum og er víst tæpur varðandi HM í sumar. Ég var með hnút í maganum fyrir Lazio leikinn, alveg viss um að þessum fasistum myndi takast að að eyðileggja þetta fyrir mér. En það tókst, 2:0 fyrir Roma og sigurvíman var algjör. Totti fagnaði á hliðarlínunni og Di Canio labbaði niðurlútur af velli, 26. febrúar 2006 verður minnst með gylltu letri í ítalskri knattspyrnusögu.

Auðvitað vonaðist maður að hægt væri að bæta aðeins við metið í næsta leik á móti Inter. Vorum 1:0 yfir þegar einn mesti pappakassi Ítala, Marco Materazzi, jafnaði leikinn á 90. mínútu og úrslitin urðu 1:1, ekki tókst að landa 12. sigurleiknum. Fúlt að fá á sig jöfnunarmark svona seint í leiknum en samt sem áður, metið er okkar og ég hef enga trú á því að það verði tekið af okkur í bráð.

Hérna í lokin eru sigurleikirnir 11:

21. desember 2004 - Chievo 4:0
8. janúar 2005 - Treviso 0:1
15. janúar 2005 - AC Milan 1:0
18. janúar 2005 - Reggina 3:1
22. janúar 2005 - Udinese 1:4
29. janúar 2005 - Livorno 3:0
4. febrúar 2005 - Parma 0:3
8. febrúar 2005 - Cagliari 4:3
12. febrúar 2005 - Siena 0:2
19. febrúar 2005 - Empoli 1:0
26. febrúar 2005 - Lazio 0:2

föstudagur, mars 03, 2006

Öfgafullir andskotar

Þetta er ekki pistill um sykur. Þetta er pistill um öfga. Ég þoli ekki öfga. Þótt þetta sé ekki pistill um sykur, heldur öfga, þá er kveikjan af þessum pistli sykur, eða öllu heldur umræða um sykur. Þrátt fyrir að ég vinni hjá stærsta sykurinnflytjanda landsins þá tel ég mig ekki vera neinn sérstakan talsmann sykurs. Enda snýst þetta ekki um sykur, heldur öfga.

Á einni sjónvarpsstöðinni hérna á skerinu er nýbyrjaður einhver heilsuþáttur þar sem teknir eru einhverjir einstaklingar sem buðu sig fram og vildu breyta hjá sér matarræðinu og vona að það tryggi þeim betri líðan. Hið besta mál allt saman. Sá fyrsta þáttinn og þvílíkir öfgar. Sykur var settur í sama flokk og eiturlyf. Er ekki í lagi hjá þessu liði, ég bara spyr? Enda var einn virtasti næringarfræðingurinn á Íslandi ekki lengi að skjóta þetta lið í kaf, á vinsamlegum nótum þó. Greinina má sjá hér.

Ég trúi því að allt sé gott í hófi. Ef þú hreyfir þig af einhverju viti og borðar fjölbreyttan mat þá líður þér betur en ef þú gerir það ekki. Ég trúi því ekki að maður eigi að henda út sykri, hvítu hveiti, morgunkorni o.s.frv. og éta í staðinn ekki nema bygg, rúsínur í vatnsbaði og gufusoðið grænmeti. Kannski öfgafull einföldun en samt... Auðvitað er algjör steypa að 13 ára unglingur komist ekki í gegnum daginn án þess að innbyrða einn lítra af gosi, súkkulaðisnúð og bland í poka fyrir 200 kall. Hófið er lykillinn að þessu.

Það fer bara ótrúlega í mínar fínustu þegar menn taka upp á einhverju, hvort sem það tengist heilsu eða einhverju öðru og verða svo helteknir af því að ekkert annað kemst að. Tala nú ekki um þegar þessir sömu menn eru gjörsamlega óþreytandi að boða út fagnaðarerindið í sínum öfgum.

Kannski er ég bara svona öfgafullur í minni andstöðu gegn öfgum.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Nýja myndavélin

Ég er enn drullufúll yfir myndavélaklikkinu út í London. Ömurlegt að eiga nánast engar myndir eftir svona ferð. Fór niður í Elko í dag með gripinn en var ekki alveg viss um hverju ég átti von á. Þóttist nú vera með allt á hreinu mín megin, var með nótuna, hafði ekki átt vélina í eitt ár og þegar hún var versluð var keypt einhver rándýr trygging. Gæinn sem kíkti á þetta var ekki að skilja af hverju vélin lét svona eins og hún lét. Fór svo að ég fékk bara nýja vél, sömu týpu og ég átti en eitthvað nýrra módel (verð að vísa í linkinn fyrir nánari lýsingar). Ég gekk út bara nokkuð sáttur en ég er samt fúll yfir myndunum sem ég hefði geta átt.