laugardagur, mars 31, 2007

Hreyfingarskýrsla marsmánuðar

17 dagar í hreyfingu af þeim 31 sem í boði var í marsmánuði. Reyndar fór ég eitthvað minna í ræktina en venjulega aðallega vegna þess sífellt meira er að gera í boltanum. Æfingaleikur á sunnudegi, æfing á mánudegi og útihlaup á miðvikudegi er nokkuð sem tekur vel í aldraðan skrokkinn á mér þannig að ég er ekkert æstur í að mæta í ræktina alla hina dagana. Tók reyndar á mig rögg í dag þegar ég uppgötvaði að það væri síðasti sjéns að gera eitthvað í hreyfingarmálum í þessum mánuði og dreif mig út og hljóp hringinn niðri í Elliðaárdalnum, nennti ómögulega í ræktina. Rosalega var ég sáttur við sjálfan mig, þegar ég var kominn heim.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Af atburðum helgarinnar

Helgin leið alveg rosalega hratt, kannski af því að það var nánast stanslaust prógramm í gangi. Byrjuðum á föstudagskvöldinu í mat hjá Haraldi og Kristínu, eins og ég minntist aðeins á í síðasta pistli. Laugardagurinn var svo undirlagður þeirri staðreynd að við hjónaleysin vorum að fara á árshátið hjá Nathan síðar um kvöldið. Kallinn þurfti að byrja daginn niðri í vinnu við undirbúning vegna happdrættisins sem var veglegt að vanda. Drengirnir fengu gistingu upp í Mosó og ég held að allir hafi verið sáttir við það. Árshátíðin var hin ágætasta, fínn matur, fín skemmtiatriði en reyndar engin happdrættisvinningur sem endaði hjá okkur þetta árið. Kallinn fékk svo þess snilldarhugmynd á leiðinni heim að stopp á Nonnabita og fá sér einn bita. Þetta gerist ekki nema á nokkra ára fresti núorðið að undirritaður rati þarna inn en djö... var hann góður. Konunni þótti hann reyndar betri í minningunni en ætlar að fá sér nautabát í staðinn fyrir lambabát þegar við förum næst... 2010.

Drengjaleysið var nýtt á sunnudeginum í að rústa stofunni. Við höfðum keypt nýja sjónvarpsskáp um daginn sem hafði verið síðan þá óuppsettur inn í stofu. Hann var sem sagt settur saman, hillusamstæðan færð og snjáði hornsófinn var bútaður niður og er nú einfaldlega 3ja sæta sófi. Kostaði tvær ferðir á Sorpu, með eitt stykki gamlan sjónvarpskáp og cirka hálfan hornsófa. Við erum voða ánægð með þetta og erum aðeins farin að svipast um eftir nýjum húsgögnum í stofuna, svona til að bæta þetta enn betur.

Ekki tók við afslöppun eftir það því þá þurfti að sækja drengina upp í Mosó og koma sér niður í Austurberg þar sem ÍR átti að spila við Fylkir í meistaraflokki karla í handbolta. Búið var að blása til hátíðar þarna og var verið að gefa boli, töskur og handbolta ásamt nammi og ég veit ekki hvað. Þar hafði líka verið skipulögð smá uppákoma fyrir 8. flokkinn í handboltanum en þeir máttu koma og hlaupa með meistaraflokknum inná völlinn í byrjun leiks í búningum og alles. Þetta gekk allt saman og Ísak Máni var mjög sáttur með þetta allt. Honum fannst æðislegt að fá að prófa alvöru handbolta með klístri eða svokölluðu harpixi. Ég tek ofan af fyrir hverfisklúbbnum, ánægður með svona framtak sem gerir ekkert nema að vekja meiri áhuga ungviðsins á þessu starfi. Við þurftum að fara í hálfleik því kallinn þurfti að fara að spila æfingarleik með Vatnsberunum. Var svo sem alveg í lagi því Logi Snær var orðinn þreyttur á að hlaupa eftir pöllunum þverum og endilöngum og Ísak Máni var orðinn hálflúinn líka.

Það vottaði því fyrir smá þreytu eftir þetta allt saman þegar maður settist í "nýja" sófann sinn á sunnudagskvöldið.



föstudagur, mars 23, 2007

Í ljósaskiptunum

Var eins og svo oft í umferðinni í dag og var að hlusta á útvarpið. Þar glumdi auglýsing með vini mínum honum Lýð Oddsyni, lottóvinningshafa með meiru þar sem hann var að bauna eitthvað á konuna sína, eins og svo oft. Þá fór ég allt í einu að hugsa um af hverju þeir aðilar sem eru að keyra þessa markaðsherferð hafa ekki farið út í það að gera auglýsingar þar sem þessi ágæta kona yrði í aðalhlutverki. Fannst þetta sniðug hugmynd hjá mér og fór að velta því fyrir mér hvernig hún ætti að líta út o.þ.h. Þessi pæling fjaraði síðan bara út án þess að ég kæmist að einhverri niðurstöðu.

Við fjölskyldan fórum síðar í kvöld í matarboð til Haraldar og Kristínar og vorum þar samankomin ásamt fleira fólki. Það var kveikt á sjónvarpinu, einhverjir voru að spjalla saman, krakkarnir að leika sér með dót á gólfinu og píanóglamur var líka í loftinu. Allt í einu þar sem ég stóð þarna á stofugólfinu sá ég auglýsingu í sjónvarpinu sem ég hafði ekki séð áður. Vegna þess hve hljóðið í imbakassanum var lágt stillt og önnur umhverfishljóð í stofunni voru yfirgnæfandi gat ég ekki heyrt hvað kom fram í þessari auglýsingu en ég gat ekki skilið annað en þarna væri komin sjálf Björg, eiginkona Lýðs, í lottóauglýsingu. Óbærilegur kjánahrollur fór um mig og mér fannst eins og ég væri staddur í lélegum Twilight zone þætti. Nánast eins og einhver dökk máttarvöld væru að gera grín að mér. Ég leit í kringum mig og allir aðrir í stofunni létu eins og allt væri með felldu. Auglýsingin hvarf eins fljótt og hún birtist og ég stóð enn frosinn á gólfinu. Ég var ekki viss hvort þetta hefði í alvöru gerst eða ekki. Þetta var allt svo óraunverulegt. Gekk að næsta stól og fékk mér sæti. Lét eins og allt væri eðlilegt.

Ég verð að vakta imbakassann til að sjá hvort ég sjái ekki auglýsingu með Björg í aðalhlutverki. Spurning hvort ég sé sá eini sem sé hana...

laugardagur, mars 17, 2007

Handboltamót hið fyrsta


Þá er því lokið, fyrsta handboltamótinu sem Ísak Máni fór að spila á. Spilað var í Mýrinni þeirra Garðbæinga og spiluðu þeir þrjá leiki, við HK, Víking og Fylki. Ekki vissum við hvað við vorum að fara út í enda öll okkar mótareynsla komin úr knattspyrnunni. Þetta var spilað á litlum völlum, 4 inná + markmaður og lítið verið að æsa sig yfir hlutum eins og skrefum, tvígripi og öðrum smámunum enda greinilegt að leikmenn á þessu móti voru með handboltareglurnar mismikið á hreinu.

Þetta innlegg í reynslubankann fór nú ekki alveg nógu vel í mannskapinn. Fyrir það fyrsta fannst foreldrunum þetta ekki alveg nógu skipulagt. Við vorum mætt þarna skömmu fyrir klukkan 13:00 en þremur og hálfum tíma seinna var þriðja og síðast leik okkar manna að ljúka. Stundum var ekki einu sinni verið að spila á öllum völlunum. Ekki fannst mér þetta því vel unnið, séð með augum yfirmanns leikjamála á knattspyrnumótum haldin á vegum 7. flokks ÍR. Sjoppumálin voru líka svakalega döpur, það hlýtur að vera kappsmál þegar þú ertu að stjórna svona móti þar sem fyrstu liðin byrja kl. 9:00 og allt stendur til kl. 18:00 að vera með nóg af gosi og þessháttar til að selja. Þarna var hins vegar bara grænn kristall til sölu eftir kl. 14:00.

Ísak Máni byrjaði vel á mótinu, var óragur við að skjóta en fór svo að draga sig inn í skelina þegar samherjarnir fóru að rífast um hver ætti að enda sóknirnar og lýstu m.a. yfir óánægju með skotframlög hans. Endaði svo með sprengju þegar minn maður yfirgaf völlinn eftir síðasta leik með tárin í augunum, hundfúll með lífið og tilveruna. Þetta var nú allt saman rætt og ég vona að þetta hafi nú ekki djúpstæð áhrif á hann til verri vegar. Þetta gerist stundum með hann þegar keppnisskapið og sú tilfinning þegar honum finnst að gengið sé á hans hlut blandast saman, bannvæn blanda.

Við höfðum dregið Loga Snæ með á þetta en sáum að hann myndi nú aldrei endast þetta óskertur á geði. Ég tók því að mér að skutla honum upp í Mosó til afa og ömmu. Var það bara til að toppa þetta að akkúrat þegar það fór fram gekk á með stórhríð á höfðuborgarsvæðinu og var því rúnturinn úr Garðabæ upp í Mosó, með viðkomu í Breiðholtinu, og í Garðabæinn aftur aðeins lengri ég hafði ráðgert eða góður klukkutími. Frábært. Þegar við komum þarna í upphafi móts var sól og þegar við fórum heim eftir mótið var sól. En ekki þegar ég þurfti að komast hratt og örugglega Garðabær-Mosó-Garðabær, þá var stórhríð!

Eftir svona dag finnst mér knattspyrna alveg yndislega einföld íþrótt og það sem meira er, einföld í framkvæmd hvort sem þú ert 32 ára eða 8 ára. Handbolti er svo sem ágætur líka en ekki samt alveg sama snilldin. En það þýðir ekkert að hengja haus yfir þessu, það verður að reyna að peppa drenginn upp í það sem hann vill gera og gerir vel.

Það sem drepur þig ekki styrkir þig bara.

Fjölskyldumynd

mánudagur, mars 12, 2007

Svarthöfði

Líklegt verður að teljast að börn léttruglaðra foreldra verði léttrugluð sjálf...

sunnudagur, mars 11, 2007

ÍR 100 ára

Prógrammið um helgina var nú ekki alveg eins stíft og ráðgert hafði verið. Hverfisklúbburinn var með dagskrá alla helgina sökum aldarafmælisins en stofndagurinn var einmitt 11. mars 1907. Fórum upp í Seljaskóla í gær en þar var uppákoma svona aðallega fyrir börnin, hoppukastalar, töframaður og einhver söngatriði. Ísak Máni var vitaskuld hæstánægður, endalausar ferðir í hoppukastala eftir hoppukastala, það er ekki hægt að hafa það mikið betra. Logi Snær var ekki alveg eins spenntur, þ.e. ekki fyrr en hann fékkst loksins til að fara í minnsta kastalann sem var fyrir litlu börnin en þá var ekki aftur snúið. Hann var meira að segja hundfúll þegar pabbi hans vildi ekki leyfa honum að fara í stóru hoppukastalana, setti undir sig hausinn og strunsaði burt. Ísak Máni var búinn að ákveða að fara ekki á sundmótið sem var ráðgert að hann tæki þátt í seinni partinn í gær, hann var eitthvað smeykur um að eiga ekki orku til á lager fyrir það. Eftir á 3ja tíma hoppukastalahopp þá held ég að það hafi verið hárétt ákvörðun.

Leiðindarveður í morgun og lítil stemming fyrir að fara niður á ÍR-svæðið og taka þátt í vígslunni á gervigrasinu og öðrum veisluhöldum tengdum afmælinu. Hálffúlt að veðrið hafi ekki verið betra því það hefði verið gaman að kíkja á þetta.

Knattspyrnuvertíðin er hafin hjá mér, fyrsti æfingaleikur Vatnsberanna var í kvöld og var spilað gegn FC Ice. 2:1 tap staðreynd í miklum vorbragsleik. Sáttur við minn leik prívat og persónulega svo að ég gat gengið sáttur af velli. Logi Snær spurði mig síðan þegar ég kom heim hvort ég hefði verið í fótbolta sem ég gekkst við. "Með Vassberunum?" hélt hann svo áfram. Flottur strákurinn, hann er að læra þetta.

Ég ætla að enda þennan pistill á því að óska eftir meiri frumleika hjá lógó framleiðendum þessa lands. Sá þetta SS merki fyrir nokkru og fannst eins og ég hefði séð það áður. Kannski er samvinna ÍR og SS (sem er einhver held ég) það náin að þeir hafi fengið svona 2 fyrir 1 tilboð á afmælislógóunum.

föstudagur, mars 09, 2007

Þrjóskupúkinn

Logi Snær getur verið rúmlega handfylli ef maður getur íslenskað þetta orðatiltæki þannig. Algjört fatafrík sem getur stundum gert mann alveg gráhærðan með dillunum í sér. Ekki þessar buxur, bara hinar og alls ekki þessi peysa, bara Batman peysan o.s.frv. Maður er yfirleitt með í maganum þegar hann fær ný föt því það sést alveg á fyrstu viðbrögðunum hvort hann kemur til með að taka viðkomandi flík í sátt eður ei. Ef honum hugnast þessi flík ekki þá mun það verða eilíf barátta að fá hann til að klæðast henni, alveg sama hvað maður tautar og raular. Honum er nefnilega ekki auðhaggað blessuðum drengnum.

Þessa dagana hefur hann dottið í þann gír að vera óvenjumikið með húfur innanhúss. Ekkert alvarlegt svo sem, harðneitar t.d. stundum að taka niður húfuna þegar hann kemur heim til sín úr leikskólanum og er svo að dandalast með hana á hausnum í einhvern tíma. Nú gerðist það eitt kvöldið að hann kallaði á mig eftir að hann var farinn upp í rúm og heimtaði að fá húfu, og auðvitað ekki bara einhverja húfu heldur ákveðna húfu. Enda ákveðinn drengur. Eitthvað reyndi undirritaður að malda í móinn og vísaði í að honum yrði líklega vel heitt á kollinum með flíshúfu á hausnum upp í rúmi. Hann var ekki á því og ég lét þetta eftir honum en sagði honum að taka af sér húfuna þegar honum yrði heitt. Ég fór svo bara fram og spáði ekkert meira í þetta, steingleymdi þessu öllu heldur. Ekkert heyrðist meira í mínum eftir þetta og af tilviljun einni saman álpaðist ég inn til hans áður en ég sjálfur skreið upp í rúm og við mér blasti þetta:

8-liða úrslit í Meistaradeildinni

Það fór eins og ég hafði óttast, martröðin rættist þegar dregið var í dag:

8-liða úrslit:
AC Milan - Bayern Munchen
PSV Eindhoven - Liverpool
Roma - Manchester United
Chelsea - Valencia

Góðu fréttirnar eru þær að ég mun hafa lið til að hvetja í undanúrslitunum en hvernig ég tækla þessa rimmu í 8-liða úrslitunum er óvitað. Ætli United hjartað verði þó ekki yfirsterkari en vont verður þetta. Það munu verða furðulegar tilfinningar þegar ég horfi á þetta.

Æ-i, þetta er svo vont.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Fegurð í allri sinni mynd

Hvernig er annað hægt en að elska þennan leik?

þriðjudagur, mars 06, 2007

Drottningin blæs líf í ferilinn

Nú er íþróttaiðkun fjölskyldunnar endanlega að fara í ruglið. Hvað mig sjálfan varðar þá er fyrsti æfingaleikur Vatnsberanna um næstu helgi og næstu helgar fara í æfingaleiki, held einhverjar 5-6 helgar í röð. Síðan fer sumarið í hönd með tilheyrandi sparki.

Ísak Máni heldur ótrauður áfram í handboltanum ásamt því að vera í fótboltanum. Nýbúið mót í fótboltanum og framundan er handboltamót þann 16. nk, hið fyrsta sem drengurinn fer á. Svo er hann líka aðeins að fikta á sundæfingum og þar er einmitt byrjandamót núna á laugardaginn. Þar vill hann meina að hann sé að fara keppa í 25 metra flugsundi, ég á eftir að sjá eitthvað staðfest yfir þetta.

Nýjustu fréttirnar eru þó þær að frúin tók fram takkaskóna í kvöld eftir að það eina sem þeir skór hafa gert í einhver ár er að safna ryki. Veit ekki hvort það er hægt að kalla þetta "old girls" en þetta eitthvað 25+ ára dæmi hjá ÍR. Spilað á gervigrasinu hjá hverfisklúbbnum þannig að við erum að tala um toppaðstæður. Samkvæmt því sem ég hef heyrt er svokallað drottningamót á heimavelli ÍR 21. apríl nk. og það er ekki að heyra annað á minni enn að stefnan sé sett á byrjunarliðssæti, kom alla vega upprifin og æst eftir spriklið svo ljóst er að lengi lifir í gömlum glæðum. Ísaki Mána finnst þetta spennandi held ég að mútta sé farin að sparka bolta og talandi um einhver mót.

Eina sem ég veit er að þetta minnkar ekki sveittu fótboltafatahrúguna sem er reglulega hérna á gólfinu. Furðulegt heimilishald allt saman.

sunnudagur, mars 04, 2007

Incubus

Fór á Incubus í Laugardalshöllinni í gær. Þetta telst líklega eitt af þeim böndum sem maður hefur hlustað á með öðru eyranu í gegnum tíðina ef hægt er að nota það orðalag. Maður á sem sagt ekki alla diskana og þekkir ekki öll þeirra verk eins og handarbakið á sér en mikið af þeirra efni er manni vel kunnugt.

Ég lagði bílnum á mínum venjulega stað þegar ég fer á stórviðburði í Laugardalnum, sem eru þó venjulega fótboltaleikir og því var smá göngutúr upp í Höllina. Mígandi rigning gekk akkúrat þá yfir og ég kom holdvotur á svæðið. Tommi var ekki mættur á svæðið með miðann minn og ég þurfti því að hinkra í 10 mínútur eða svo. Sem betur fer gat ég hinkrað undir skýli svo ég þyrfti ekki að standa alveg undir bununni.

Mínus hitaði upp og spilaði í hálftíma. Mér skilst að þeir séu að vinna að nýju efni og ég var ekki alveg nóg vel inni í því sem þeir voru að flytja þarna, eins og þorrinn af mannskapnum sem var á svæðinu að mér virtist. Einn og einn slagari fékk þó að fljóta með og tók þá áhorfendurnir við sér. Ég hef séð þessa drengi nokkrum sinnum live og hef eins og venjulega annars lítið út á þá að setja.

Við tók hálftíma pása áður en aðalnúmerið steig á stokk. Þeir byrjuðu með látum og hristu fram seinni tíma slögurum, eitthvað sem allir innanhús þekktu. Þeir keyrðu svo í gegn þéttu prógrammi sem varði í einn og hálfan tíma. Lítið út á þá að setja, helst að manni fannst vanta svona 1-2 gamla slagara en ekkert sem maður missir svefn út af. Heilt yfir flott kvöld og ég var a.m.k. sáttur.

Það var líka hætt að rigna þegar ég rölti út í bíl.