sunnudagur, júní 25, 2006

Skagamótið 2006 - Dagur 3

25.júní, lokadagur Skagamótsins 2006. Líka afmælisdagurinn hjá Ísaki Mána, guttinn orðinn 7 ára gamall. Ótrúlegt allt saman.



Ég byrjaði daginn á sturtu um morguninn og skildi ekkert í því hvurslags stillingar þetta væru á sturtuhausunum upp á Akranesi því mér fannst eins og það væru naglar sem lentu á hausnum á mér þegar ég stakk hausnum undir bununa. Áttaði mig svo á því að þetta var sæmilegasti sólbruni í hársverðinum sem kallaði fram þessar tilfinningar. Man ekki eftir að hafa sólbrunnið svona ferlega í skallanum áður. Reyndar var ég nýbúinn að vera í vélinni þannig að stráin voru í styttra lagi.

Síðasti leikurinn fór ekki nógu vel fyrir afmælisbarnið. Spilað var við Grindavík og varð niðurstaðan 0:3 tap. Þetta þýddi fjórða sætið í efsta riðlinum og í raun fjórða sætið af tuttugu D-liðum, ekki hægt að vera ósáttur við það. Við tók síðan grillaðar pylsur og lokahóf á aðalvellinum á Akranesi þar sem allir fengu viðurkenningar. Held að allir á þessu heimili séu sáttir með þetta allt saman og þannig á það að vera.

Myndasíðan víst komin í lag og ég ætti þá að geta hent inn myndum annað kvöld, klukkan orðin alltof margt til þess í kvöld.

laugardagur, júní 24, 2006

Skagamótið 2006 - Dagur 2

Ég held að ég sé helsólbrunninn í framan. Sól og svöl gola eru kjöraðstæður fyrir mann að sólbrenna, maður verður ekki var við neitt fyrr en maður fer inn og finnur þá hvernig hitinn magnast í andlitinu og það er sárt að gretta sig. Það var sem sagt ekkert að veðrinu í dag heldur.

D-lið ÍR hóf leik í svonefndri íslensku deild upp úr hádeginu í dag en svo nefndist deild hinna bestu, þ.e. þeirra sem best gekk í gær. Þetta hóf reyndar með einhverjum aukaleik við FH til að öll liðin fengju jafnmarga leiki. Honum lauk með markalausu jafntefli. En svo hófst alvaran. Spiluðu við Breiðablik þar sem 2:1 sigur hafðist. Átti drengurinn flottan leik, bjargaði m.a. á línu og kórónaði síðan leik sinn með því að setja sigurmarkið af vítapunktinum, ískaldur. Hans fjórða mark í keppninni og það þriðja úr víti. Fóru svo tveir erfiðir leikir í hönd, 6:0 tap fyrir Keflavík og 12:2 tap fyrir Fylkir sem eru víst færðir til bókar sem 3:0 og 5:2. Það var greinilegt að þreytan var farinn að segja til sín án þess að það hafi ráðið einhverjum úrslitum. Enn verð ég að vísa í ummæli mín um fjölmenna klúbba, það er nokkuð ljóst að einhverjir leikmenn í Keflavíkurliðinu og Fylkisliðinu hefðu hæglega komist í A-liðið hjá ÍR. Lokaleikurinn á morgun gegn Grindavík, vonum að strákarnir nái að enda þetta vel. Þá enda þessi herlegheit með grilli og mótssliti fljótlega upp úr hádegi. Þá verður þetta líka orðið ágætt bara og ég held að allir verði sáttir í leikslok, í raun aðalatriði helgarinnar.



Margir landsfrægir menn á svæðinu, helstur verður líklega að teljast sjálfur Eiður Smári en ég held að guttinn hans sé að spila með HK. Mögnuð þolinmæði sem kappinn hefur sýnt með krakkahópinn á eftir sér og pabbarnir með myndavélarnar á lofti. Það voru orðnar ansi margar teyjur með áritun frá leikmanni númer 7 hjá Barcelona upp á Akranesi í dag. Ekki hægt annað en að taka ofan fyrir mönnum sem tapa sér ekki þótt þeim gangi vel.

föstudagur, júní 23, 2006

Skagamótið 2006 - Dagur 1

Þá er það skollið á. Hið árvissa 7. flokksmót í fótbolta sem er haldið upp á Skaga. Ísak Máni fór í fyrra með ÍR þrátt fyrir að vera enn í 8. flokki en hópur í hans aldurflokki fékk að fara þrátt fyrir að vera, eins og fyrr segir, enn í 8. flokki. Maður sér alltaf betur og betur í svona ferðum hvað það er flott að vera í stórum klúbbi en samt ekki of stórum. Í liðum sem eru í stórum hverfum í Reykjavík eins og Breiðablik og Fjölnir þá eru oft svo margir strákar að æfa að það er ekki hægt að fara með nema elsta árganginn á svona mót. Talandi um Skagamótið þá á Ísak Máni möguleika á að fara 3svar, ef hann fer á næsta ári, en sumir í margmennaklúbbunum fá bara tækifæri á einu skipti. Nóg um það.

Best að byrja að tala um veðrið. Í fyrra var þvílíkt slagverður að manni stóð ekki á sama. Allir blautir, kaldir og þreyttir eftir volkið en furðulega sáttir samt eftir að hyggja. Núna þorði maður ekki að spá í veðrið fyrr en jákvæðar fréttir fóru að berast í veðurfréttatímum í byrjun vikunnar. Sagt er að myndir segji oft meira en þúsund orð og því ákvað ég að birta bara tvær myndir af þessum atburðum, önnur er tekin 2005, hin í dag. Þið finnið út úr þessu hvor er hvað.



Þrír leikir í dag hjá Ísaki Mána og félögum í ÍR. Þeir unnu HK í fyrsta leik 4:0, tóku svo hálfdofin grey frá Njarðvík 15:0 áður en þeir lögðu FH 3:2 í miklum baráttuleik þar sem orkugeymarnir voru alveg að tæmast. Reyndar eru reglurnar þannig að leikirnir eru aldrei skráðir með meira en 3ja marka mun og því teljast leikirnir við HK og Njarðvík sigraðir 3:0. Snillingurinn minn spilaði í vörninni eins og venjan er, númer 5 eins og meistari Rio Ferdinand og stóð sig vel. Toppurinn í dag var nú samt leikurinn gegn Njarðvík þar sem þjálfarinn setti hann í það hlutverk að taka vítaspyrnur. Þeir fengu tvær slíkar og setti guttinn þær báðar inn, í sitt hvort hornið en í millitíðinni hafði hann sett eitt mark í opnum leik og skoraði því þrennu en markaskorun hefur nú ekki verið hans sterkasta hlið, enda oftast í vörninni. Það var yndislegt að heyra hann lýsa þessu fyrir mér eftir leikinn og hann var að reyna að útskýra einhverja tilfinningu þegar hann stóð fyrir framan vítapunktinn en fann bara ómögulega orð til að lýsa henni. Ég gat ekki skilið annað en að hann hafi bara verið stressaður en hann kláraði þetta með stæl. Sigga lét hafa sig út í það að vera farastjóri og þess vegna gistir hún með liðinu í öðrum grunnskólanum hérna í bænum en við Logi lifum í vellystingum í 3ja hæða einbýlishúsi með nettengingu og afruglaranum að heiman. Hvað um það, áframhald á mótinu á morgun og verður það eflaust eitthvað þyngra þar sem þar mætast þau lið sem unnu riðlana sína í dag en vonandi gengur það bara vel.

Því miður er eitthvað helv... vesen á þessari blessaðri myndasíðu en ég vona að það leysist fljótlega svo ég geti sett inn eitthvað af myndum. Þið getið þó klikkað á þessar myndir sem eru hérna til að fá þær stærri.

Miðbæjarrottur sem uppfyllingarefni á NFS

Tók stutta vinnuviku núna í vikunni sem er að líða, lét mér nægja að láta sjá mig á Cocoa Puffs lestinni á mánudeginum og þriðjudeginum og lét það duga. Vitið menn, búið að rigna í 7 vikur samfleytt en síðan kom sólin á miðvikudeginum. Fór svo á eitthvað snatt með Loga Snæ á fimmtudeginum sem endaði í chilli niðri í miðbæ. Ég er engin miðbæjarrotta. Ólst samt upp í póstnúmerunum 101 og 107 frá fæðingu til 13 ára aldurs og hef því smá taugar til miðbæjarins, ég neita því ekki. Við Logi enduðum þennan rúnt okkar við tjörnina. Þegar við stóðum þar kom til okkar kona sem hafði farið á einhvern samlokustað til að sníkja smá brauðhleif til að gefa öndunum (eða mávunum) en fékk þennan risapoka með 6 eða 7 lengjum af brauði þar sem hver lengja var vel á annan metra. Hún sá fyrir sér að vera í vandræðum með þetta og lét okkur Loga fá eina lengju. Loksins þegar við vorum við það að klára þessa lengju okkar kemur til mín ung kona vopnuð míkrafóni merktum NFS en ég hafði veitt henni og myndatökumanni hennar athygli einhverju áður þarna við tjörnina. Þegar ég sé að hún nálgast mig reikna ég með að hún ætli að forvitnast um álit mitt á nýju borgarstjórninni, framtíð flugvallarins eða eitthvað álíka djúpstætt. Ekki aldeilis, hún kemur upp að mér og spyr hvort ég geti sagt frá besta sumarfríinu mínu! Frábært hugsa ég, á nú að nota kallinn sem eitthvað uppfyllingarefni á NFS með eitthvað innantómt tal. Hvað um það, maður gat nú ekki neitað þessu, babblaði eitthvað um þegar ég fór til Namibíu og andstæða menningarheima og bla bla bla. Þar sem að Sýn er ríkisstöðin á heimilinu mínu þessa dagana þá spáði ég ekki einu sinni í þessu meira, Sýn rúllaði bara í kassanum þegar fréttirnar á Stöð 2 (NFS) voru sýndar um kvöldið. Frétti svo í gegnum símtal sem ég átti við vinnufélagann minn að ég hefði verið í fréttunum þar. Ekki neitt sumarfrísviðtal heldur heilalaust myndefni í frétt um atgang máva niður við tjörnina. Í brotinu sem mér bregður fyrir sást þegar Logi nálgaðist ískyggilega brúnina á tjörninni og þegar ég nánast skutla mér á hann og gríp hann áður en hann steypir sér út í vatnið. Auðvitað var þetta ekki svona ýkt en þessi klippti og skorni myndbandsbútur leit samt frekar illa út fyrir mig þegar ég kíkti á þetta á netinu eftir að ég fékk þessar fréttir. Ábyrðarlaus faðir að spóka sig í sólinni með soninn og næstum því búinn að missa hann út í tjörnina... Spurning hvort einhver hafi séð mig lýsa íslensku sumri á namibískri grundu á undan Hrafnaþingi á NFS?

laugardagur, júní 17, 2006

17. júní

17. júní í öllu sínu veldi. Í minningunni tengist þessi dagsetning alltaf miðbæ Reykjavíkur og mikið af fólki. Það er líka alltaf sól. Ekki eins og núna sem sagt. Man að einhverntímann var ég niðri í bæ á þessum degi, lítill patti og mér fannst alveg yfirgengilegt hvað það var mikið fólk í miðbænum. Mig minnir að Villi hafi verið með mér, alla vega var það þannig að troðningurinn var svo mikill að ég sá ekkert fram fyrir mig eða út til hliðanna og það eina sem ég gat gert var að horfa til himins til að sjá eitthvað annað en olnboga og bök.

Hvað um það, núna tengist 17. júní ekki sól og ég sé það sem ég vil sjá. Við hjónaleysin erum búin að átta okkur á því að eina vitið er að mæta á slaginu niður í bæ þegar dagskráin á að hefjast og losna þar með við mestu biðraðirnar í hoppukastalana. Það var líka þannig í dag að menn voru búnir að fá sinn skammt nokkuð snemma, veðrið hafði sitt að segja, og því voru við að fara til baka þegar biðraðirnar voru farnar að þéttast allverulega.Í minningunni um sólríku 17. júní hátíðarhöldin man ég hins vegar ekki eftir hverskonar skemmtanir voru í gangi, ég held samt að ég geti fullyrt að í minni æsku voru hoppukastalar ekki búnir að ryðja sér til rúms, a.m.k. ekki af sama krafti og er í dag. Minnir að þetta hafi meira samanstaðið af einhverju labbi um miðbæinn og spjalli við kunningja sem menn rákust á við þetta títtnefnda labb. Svo ef ég rek mig áfram í tíma þá get ég varla sagt að ég muni eftir einum einasta 17. júní í Grundarfirði. Kannski hafa þau hátíðarhöld ekki haft eins djúp áhrif á mig og miðbær Reykjavíkur í frumbernsku. Sjómannadagurinn var meira eitthvað sem situr í kollinum í skránni Grundarfjarðarminningar.Ætli það eftirminnilegasta frá 17. júní í Grundarfirði hafi verið þegar ég var úti á sjó þennan dag og þegar við vorum búnir að hífa inn trollið var farið í stutta skrúðgöngu á dekkinu áður en haldið var niður í aðgerð, ekki öll vitleysan eins úti á sjó. Anyway, maður spyr kannski börnin sín þegar þau verða orðinn eldri um þeirra minningar um 17. júní. Kannski verður svarið einfaldlega rigning og hoppukastalar eða kannski eitthvað allt annað.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Eiður Smári

Ég verð aðeins að kommenta með þessa staðreynd að Eiður Smári sé farinn til Barcelona. Fyrir mitt leyti var þetta það næstbesta í stöðunni, auðvitað vildi ég helst að hann hefði farið til Manchester United en Barca er mitt lið á Spáni þannig að þetta var next-best-thing. Besta við þetta er þó að geta slitið allar íslenskættaðar taugar sem tengdust Chelsea. Mikið lifandi ósköp vona ég að strákurinn fái eitthvað að spila og komi til með að standa sig vel. Efast um að maður lifi það að sá annan Íslending spila með þessu liði og því um að gera að njóta þess í botn. Búinn að tala um það í mörg ár að fá mér Barcelona treyju en það hefur aldrei orðið raunin. Hún verður versluð í haust, og hvað á að standa aftan á? Ekki spurning: Gudjonsen 7.

Sami dagur alla daga

Mér líður svolítið eins og Bill Murray í Groundhog day þessa dagana. Vakna - fer í vinnuna - reyni að heyra einhverjar fréttir af fyrsta leik dagsins á HM fljótlega eftir hádegið og fylgjast með honum á hlaupum - sé glefsur af fyrri hálfleik af leik nr. 2 niðri í vinnu - fer heim og reyni að sjá restina af seinni hálfleik af leik nr. 2 - reyni að nota tímann milli 18:00 - 19:00 til að fæða fjölskylduna og leggst svo upp í sófa tímanlega fyrir leik nr. 3 - Glápi svo loks á 442 áður en maður fer að huga að sænginni. Vakna - fer í vinnuna - reyni að heyra einhverjar fréttir af fyrsta leik...

Ég telst til 25% af fjölskyldunni sem er ekki kominn í sumarfrí og ég get ekki sagt að það sé heilmikil stemming á bak við það. Ísak Máni er reyndar í stífum æfingabúðum, fótboltaæfingar mánudaga - fimmtudaga fyrir hádegi og síðan eftir hádegi tekur við fótbolta- og frjálsíþróttaskóli til kl. 16:00 á daginn. Svona verður þetta hjá kappanum þessa og næstu viku og hápunkturinn verður síðan Skagamótið aðra helgi. Vonandi verður betra veður upp á Skaga heldur en í fyrra.

laugardagur, júní 10, 2006

Tannlausi tónlistamaðurinn

Örugglega milljón hlutir sem maður ætlaði að blogga um á meðan ég komst ekki í tölvu, búinn að gleyma megninu af því eða búinn að ákveða að þeir hlutir séu gamlar fréttir og því ekki blogghæfir lengur.

Ísak Máni spilaði í fyrsta sinn "opinberlega" þann 24. maí sem vill svo skemmtilega til að er afmælisdagurinn hans Varða. Hann spilaði á píanó og blokkflautu og stóð sig vel - alveg hlutlaust mat!





Ég ætlaði samt að blogga eitthvað heljarinnar blogg á afmælisdaginn, 27. maí sl. en sökum títtnefndrar tölvuvandamála þá varð ekkert úr því. Það er alltaf 27. maí 2007.

Mér skilst að 27. maí hafi verið haldinn hátíðlegur í Namibíu, var það ekki fæðingardagur Jolie-Pittsdóttur? Gæti samt hafa verið 26. eða 28., spurning um að fá þetta staðfest úr innsta hring, namibíska tengslanetinu mínu.

Annar atburður sem stendur mér talsvert nær sem ég hafði vonast til að myndi gerast 27. en gerðist daginn eftir, þann 28. Tvær tennur voru farnar að vera ansi lausar upp í Ísaki Mána og svo gerðist það s.s. 28. maí að hann missti fyrstu tönnina sína. Eins og það væri ekki nóg heldur þá fór hin þremur dögum seinna í ærslagangi á fótboltaæfingu. Mínum varð eitthvað bilt við þetta og kastaði upp og varð eitthvað miður sín með þetta allt en kom þó heill út úr þessu.


Ein farin


Tvær farnar

Að lokum þá er myndasíðan búin að liggja niðri, en mér skilst að þetta standi allt til bóta.

föstudagur, júní 09, 2006

The boy is back

Jæja, jæja, jæja. Loksins er maður orðinn eins og maður með mönnum aftur. Nýja tölvan er sem sagt komin í hús og bullandi gleði. Maður hefur nú ekkert legið yfir þessu enn enda fékk maður þennan grip bara í hendurnar í dag og dagurinn í dag er dagur 1 í heilagri HM. Svolítið skrítið að vera í tölvunni því öll gögnin voru færð yfir og því er sama draslið á skjáborðinu og á gömlu græjunni en samt ný tölva. Það virðist nú flest hafa bjargast, stafrænu myndirnar og þessu helstu skjöl, reyndar á ég nú von á einhverjum hnökrum en ég vona að þeir verði litlir og fáir. Svo var það alveg dæmigert að sama tölva og ég keypti er á tilboði núna um helgina, 20 þúsund kr. lækkun. En ég minnist alltaf orðanna hans Villa sem sagði að maður mætti ekki skoða tölvutilboð næstu mánuði eftir að maður kaupir sér tölvu, það væri bara bömmer. Ég nenni líka ekkert að svekkja mig á því, þýðir ekki neitt. Um þetta leyti að ári á ég þessa tölvu og ekkert meira um það. Fyrir þá sem vilja vita meira um nýju græjuna mína er bent á þessa síðu, við hina get ég sagt að þetta er massa græja.

Það er furðulegt hvað þessar tæpu þrjár vikur í tölvuleysi vöndust vel. Samt var þetta ekki orðið hægt, borgandi reikninga í einkabankanum í vinnunni og allt í rugli en að mestu leyti lifði maður þokkalegu lífi. Magnað.

Þessir þrír sem villast reglulega hingað inn geta því átt von á reglulegri pistlum en verið hefur.

laugardagur, júní 03, 2006

Er æskan búin að missa það?

Var ásamt Ísaki Mána út á sparkvellinum í Grundarfirði hérna áðan, fastir liðir eins og venjulega í sveitinni. Við vorum með annað markið en með hitt voru einhverjir 4 guttar á aldrinum 8-14 ára. Þeir voru í rólegri saumaklúbbsstemmingu og voru eitthvað að röfla um lífið og tilveruna en aðallega samt boltann. Voru þeir að spjalla um hetjurnar, Ronaldino, Puyol, Beckham og þessa karla en eitthvað fannst mér umræðan, sem ég komst ekki hjá að heyra, á hálfdöpru plani þar sem ég stóð þarna og skaut á Ísak Mána sem stóð í marki. Voru pælingarnar aðallega um það hversu mikið þessir ágætu menn væru að þéna fyrir störf sín á sínum sparkvöllum. Þessir guttar voru óþreytandi að umreikna þessar tölur sem þeir höfðu í kollinum og fundu þannig út hversu marga þúsund kalla þeir voru að hala inn per sekúndu eða hvað hver snerting í einum fótboltaleik skilaði þeim inn á reikningana sína.

Ég man eftir því þegar maður stóð á malarvellinum í Grundarfirði og lét sig dreyma um að vera í treyju nr. 10 á Old Trafford og vera að fullkomna þrennuna sína í 7:0 sigri Manchester United á Liverpool. Ég man hins vegar ekki eftir því að hafa tengt það við nýjustu týpuna af BMW eða önnur veraldleg gæði.

Kannski er það misminni hjá mér.

föstudagur, júní 02, 2006

Tenging við umheiminn nálgast nær

Thú verdur ad blogga oftar... Þetta var sms sem ég fékk núna um daginn og get ég ekki sagt að ég hafi verið sáttur með það. Hérna er ég, búinn að vera tölvulaus heima hjá mér síðan 19. maí og nógu þunglyndur með það þótt maður fái ekki svona líka í bakið. Ég tók þá ákvörðun snemma í þessu bloggdæmi að blogga ekki í vinnunni og þar sem vinnutölvan er sú eina sem ég hef komið í tæri við þá segir það sig sjálft að ég er ekkert að blogga. Ákvað þó að beygja þessa reglu núna og eyða hádeginu mínu í að koma nokkrum línum á blað.

Hvað tölvuna varðaði þá gaf móðurborðið sig í henni (ekki biðja um nánar útskýringar) og er hún því alveg ónothæf. Kostnaðurinn við að gera við hana er ca. 40 - 50.000 kr og það eyðir víst enginn heilvita maður svoleiðis í rúmlega 3ja ára tölvu. Tókuð þið eftir að ég sagði rúmlega...? Málið var líka svo að það er 3ja ára ábyrgð á móðurborðsuppgjöfum á þessum gripum en þar sem framleiðsludagurinn á minni er 09.04.2003 þá var hún formlega orðin 3ja ára og 40 DAGA gömul = engin ábyrgð! "Góðu" fréttirnar voru reyndar þær að samkvæmt spekingunum þarna þá eru gögnin mín í góðu lagi og lítið mál að færa þær yfir í nýja tölvu. Andvarp. Hvað gera bændur þá? Kaupa sér nýja tölvu, ekkert annað í stöðunni. Ég fór fyrsta rúntinn niður í Apple (er nefnilega svoddan eplakall) og tók stöðuna. Komst að því að týpan mín, þ.e. í talsvert flottari útgáfu en ég á, var ekki væntanleg fyrr en eftir mánuð eða svo. Læddist þá innar í búðina og gaut augunum í Pro græjurnar, þ.e. dýrari týpurnar. Fór heim með verðlista og tæknilegar upplýsingar og horfði á þær í tvo daga. Til að gera langa sögu styttri þá ákvað ég að hætta að hugsa um þetta mál og framkvæma frekar og henti mér þarna niður með visakortið í rassvasanum. Búinn að skrifa undir, búinn að skuldbinda mig djöflinum næstu mánuði. Ef allt gengur upp á ég að vera klár með nýju tölvuna mína með gömlu gögnunum innanborðs í lok næstu viku.

Grundarfjörður í kvöld, aldrei að vita nema maður geti bloggað eitthvað á eplið hennar mömmu.