fimmtudagur, apríl 22, 2010

Einn ekki í góðum málum

Sumardagurinn fyrsti rann upp bjartur og fagur. Rifum mannskapinn út um kl 09:00 í morgun og héldum sem leið lá upp í Mosó. Inga og Hekla mætt á klakann í stutta heimsókn, við stoppuðum í bakaríinu og allt helv... gott bara.

Ég fór svo með dreng nr. 1 og dreng nr. 2 í smábíltúr en drengur nr. 1 þjáðist af valkvíða vegna sumargjafarinnar sinnar. Fékkst nú engin niðurstaða í það mál, ákveðið að setja það á smá bið, en við komum við í ísbúð og fengum okkur ís. Áfram allt gott.

Komum heim og þetta sama gengi sem hafði farið í ísbúðina var fljótlega sent á eitthvað nett sumarhúllumhæ við Hólmasel. Svolítið kalt, biðröðin í hoppukastalann ekkert spes en breakdanssýningin gerði gott mót. Meira gott en slæmt og því segjum við bara gott.

Komum heim og grillið var gert klárt í fyrsta sinn á árinu. Eðalkjöt og með því og svo var farið fyrir framan kassann og horft á Snæfell rúlla Keflavík upp í úrslitunum í körfunni og jafna einvígið í 1:1. Bara gott.

Fljótlega eftir leikinn, rétt rúmlega 21:00, segir konan við mig: "Hafðir þú eitthvað leitt hugann að því að dagurinn okkar er í dag, þú manst fyrir 16 árum?"...

...Ekki gott.

föstudagur, apríl 16, 2010

Meira gos?

Hmmm...

Gosið á Fimmvörðuhálsi hófst 20. mars, daginn áður en Haraldur bróðir hennar Siggu átti afmæli.

Gosið í Eyjafjallajökli hófst 14. apríl, daginn áður en Sigga átti afmæli.

Næst í systkinaröðinni er Inga, á afmæli 10. júní.

Katla, 9. júní?

fimmtudagur, apríl 15, 2010

Merkisdagur

Merkilegur dagur í dag í sögunni.

Ég man enn hvar ég var þegar ég heyrði af slysinu á Hillsborough þarna árið 1989 þegar 96 Liverpool stuðningsmenn létust.

Leonardo da Vinci fæddist.

Vigdís Finnbogadóttir sömuleiðis.

Titanic sökk.

Fótbolti.net hóf göngu sína árið 2002.

Og haldið þið að Sigga eigi ekki líka afmæli...

mánudagur, apríl 05, 2010

Páskarnir

Við skelltum okkur í Grundarfjörð núna um páskana. Maður var með smáhnút yfir þessu að demba öllum mannskapnum á gömlu konuna, sérstaklega ef Daði Steinn yrði alveg á útopnu þarna. Í ljós kom að áhyggjurnar voru að mestu óþarfar, Daði Steinn var hress en ekkert of hress. Það þurfti aðeins að hagræða sumum hlutum en ekki að gera íbúðina fokhelda frá jörðu og upp í 1,4 m.

Ótrúlega lítið pláss sem páskaeggjalagerinn tók í bílnum þetta árið. Logi Snær vildi frekar eignast Star Wars Lego-flaug og eftir smá umhugsun vildi Ísak Máni líka bara fá pening. Það var því tekin ákvörðun um að kaupa eitt meðalstórt egg sem svona „fjölskylduegg“. Áhrifin voru m.a. þau að menn voru ekki að narta í þetta langt fram á kvöld heldur kláruðust herlegheitin á örskotsstund.

Annars fór helgin bara í þetta hefðbundna: Sparkvöllurinn/körfuboltavöllurinn, göngutúrar, hefðbundið chill og smá grill.laugardagur, apríl 03, 2010

Man Utd - Chelsea 1:2

Strákarnir skelltu sér á pöbbinn enda Eygló amma ekki með Sportstöðvarnar. Pizzan fín, shake-inn ekki síðri. Vatnið var meira að segja ískalt. Annað var ömurlegt.