miðvikudagur, desember 31, 2008

2009 færist nær

Styttist í endann á þessu ári. Mönnum eins og mér fannst frábært að sjá flugeldabæklinginn sem kom inn um lúguna hérna um daginn, nú þurftum við að brenna fleiri peninga fyrir sama magn af flugeldum og í fyrra. Frábært.

En sem fyrr var ekki annað hægt en að kaupa einn pakka eða svo, enn kemst ég upp með að kaupa næstminnsta pakkann og gat meira að segja slegið um mig og keypt tvo aukapakka af hurðasprengjum. Allir sáttir.

Tókum svo forskot á sæluna með því að húrrast hérna út fljótlega eftir hádegið í dag og tortímdum eitthvað af þessu smádrasli, ýlum, froskum og hvað þetta heitir. „Stóru“ bomburnar fara upp í Æsufellið og munu væntanlega mæta örlögum sínum snemma í kvöld því ég ætla að njóta útsýnisins þegar leik stendur sem hæst en ekki vera grúfandi yfir eigin bombum og missa af öllu saman.

Áramótaheiti þetta árið? Kannski reyna að minnka að segja: SÆÆÆDDDLLLLL.

Gangið hægt um gleðinnar dyr og lifið heil.

föstudagur, desember 26, 2008

Jólin 2008

Opnaði augun í morgun og leit á klukkuna. 9:30. Hlustaði eftir einhverju hljóði en heyrði ekki múkk. Allir sofandi á heimilinu og ég rölti fram úr til að athuga með drengina sem voru frekar myglaðir. Svona eru víst jólin en gaman til þess að vita að manni finnst hálf stjarnfræðilegt að sofa til hálftíu.

Annars eru jólin búin að vera alveg hreint fín, tiltölulega róleg stemming á aðfangadag en þannig vill maður hafa það. Ég þurfti reyndar að fara í vinnuna fram að hádegi en það var bara í góðu lagi. Mjög rólegt þar yfir og maður gat notað tímann til að hreinsa til í tölvupóstinum og þessháttar. Drengirnir voru meira og minna límdir við skjáinn þennan dag en víst lítið annað hægt að gera til að minnka kvölina í kringum biðina miklu. Sem fyrr var hamborgarahryggur á borðum hér og hann heppnaðist vel. Logi Snær heimtaði að fá að vera í jakkafötunum sem honum áskotnuðust hérna um daginn, reyndar í stærra lagi en það var algjört aukaatriði. Ísak Máni með mun minni áhyggjur af sparifatnaði og lét sér kasjúal fötin frá því í fyrra duga og ekkert nema gott um það að segja.

Ég fékk heila fjóra pakka, nokkuð gott bara. Veit nú oft fyrirfram um einhvern hluta af innihaldi þeirra og svo var það líka í ár. En það var reyndar einn sem ég var alveg týndur yfir og hafði ekki grænan grun um. Risastórt ferlíki frá tengdó. Ekki minnkuðu heilabrotin þegar pakkarnir frá þeim til hinna á heimilinu opnuðust einn af öðrum og upp komu hágæða ullarnærföt. Miðað við útlitið á pakkanum þá innihélt hann varla ullarnærföt eða hvað? Auðvitað hefðu þau getað pakkað ullarnærfötunum mínum í einhvern gamlan kassagarm og fyllt hann af krumpuðum dagblöðum, svona til að afvegaleiða mig. En, loksins komst pakkinn í mínar hendur og eftir nokkur fumlaus handtök kom innihaldið í ljós. Hágæðapottur, og ekkert eitthvað smáræði heldur 12 lítra kvikindi. Mér skilst að þar sem aðeins mitt nafn var á merkimiðanum þá verði aðrir heimilisbúar að biðja mig um leyfi ef nota á pottinn. Pottinn minn. Assskoti kom hún sér vel þessi gjöf því núna stendur 12 lítra potturinn hennar Guðrúnar sem við erum búin að vera með í láni í alllttttooooffff langan tíma á gólfinu í forstofunni hjá okkur, tilbúinn í að halda heim á leið.

Fengum Íslandsspilið í einum pakkanum. Við Ísak Máni tókum einn reynsluhring á því og það kom bara ágætlega út. Ísak fékk svo spurningu sem snérist um höfund ljóðsins Tíminn og vatnið. Þegar hann svaraði spurningunni rétt án þess að hika gat ég ekki annað en forvitnast nánar um vitneskju hans á ljóðskáldinu. „Pabbi, þetta stendur á Cheerios pakkanum.“

Mér fannst ég vera svolítið tekinn í bólinu...

þriðjudagur, desember 23, 2008

Kæst stemming

Búinn að vera hálftuskulegur þessa síðustu daga, það slæmt að maður tók trefilinn fram og spásserar með hann kvölds og morgna. Vona að það versta sé að baki og karlinn fari að hressast.

Skelltum okkur í Mosó á laugardeginum í skötu. Ansi magnað að þegar við renndum í hlað þá stóð pottur á hlóðum fyrir utan og þegar við stigum út úr bílnum fylltust vit okkar af skötuilmnum. Þetta nokkra stiga frost sem var úti var ekki nóg til þess yfirbuga kæstan ilminn. Auðvitað var matseðill fyrir okkur hin, saltfiskur og steiktur koli. Ég hef aldrei dottið inn í þessa stemmingu en þetta er ómissandi fyrir suma. Það var samt ekki annað hægt en að skella öllu því sem menn klæddust í þvottavélina þegar heim var komið. Kæst maður.

Við höfðum byrjað þennan laugardag á fótboltaæfingu hjá Ísaki Mána en þar sem þetta var síðasta æfing fyrir jólafrí þá var tekið létt á því, foreldrar vs. strákar. Það var því ekkert annað hægt en að reima á sig fótboltaskóna og láta finna fyrir sér eða svoleiðis. Karlinn skoraði glæsilegt mark sem vitaskuld náðist ekki á band en Ísak náði ekki að finna netmöskvana enda í stífri gæslu allan leikinn. Hann komast þó ansi nálægt því að setja´ann eins og náðist á band. Vil samt koma því á framfæri að markið í lokin taldi ekki því það var búið að flauta til leiksloka, maður gefur ekkert mörk í svona leik...

Gleðileg jól annars öll sömul.

Námshesturinn jr.

Ísak Máni þeytti próf á dögunum, nánar tiltekið samræmdu prófin í stærðfræði annars vegar og íslensku hins vegar. Á mínum grunnskólaárum tók ég nú bara samræmd próf í stærðfræði og íslensku í 10. bekk (var einmitt í fyrsta árgangnum sem var nefndur 10. bekkurinn) en núna eru próf í 4., 7. og 10. bekk. Minnir að það hafi verið eitthvað flökt á þessu prófformum því ég held að einhverjir af árgöngunum í kringum mig hafi verið líka í samræmdu prófum í dönsku og ensku.
Anyway, ég fékk 6 í báðum prófunum og var bara þokkalega sáttur ef ég man rétt, minnir a.m.k. að ég hafi ekki átt von á miklu meira og eftir því „sáttur“.

Ísak Máni fór hins vegar á kostum í sínum prófum, 8,5 í íslensku og 9,5 í stærðfræði.

Útlitið mitt en íslensku- og stærðfræðikunnáttan frá mömmu sinni, mögnuð blanda.

sunnudagur, desember 14, 2008

Ísak Máni á tónleikum

Ísak Máni var að spila á tónleikum í Seljakirkju í gær. Svona smá update fyrir þá sem ekki vita þá er drengurinn að spila á píanó og byrjaði á því hjá tónmenntakennaranum í Breiðholtsskóla. Sá kennari er snúinn til annarra starfa og því var brugðið á það ráð að sækja um fyrir hann í Tónskóla Eddu Borg. Þar hóf hann nám núna í haust og var að taka þátt í sínum fyrstu tónleikum á vegum Tónskólans. Tók Göngum við í kringum fjórhent með kennaranum sínum, henni Ragnhildi.

Meiri skóli

Jæja, var að ýta á enter. Skóli eftir áramót. Diplómanám í markaðsfræðum.

Sá að þeir hjá HR voru að bjóða upp á þetta núna eftir áramót, 6 kúrsa pakki frá jan 2009 og eitthvað framundir næstu jól. Ákvað að skella mér á þetta þar sem ég er nú búinn með 2 af þessum 6 kúrsum og fæ því rólegri ferð heldur en hinir. Þetta er samt kennt í skorpum eins og það sem ég er búinn að vera taka en breytingin er sú að núna er kennt 2x í viku en ekki 1x og því verður þetta eitthvað strembnara fyrir karlinn.

Undirritaður mun líka eiga eitthvað meira af frídögum á næsta ári en í hefðbundnu ári og kannski er hægt að samnýta það frí eitthvað bæði í barn og skóla.

Þrír litlir grísir. Er þá ekki um að gera að skella sér í skóla með vinnu svo maður geti nýtt dauða tímann í eitthvað?

Til sveinka

Eftirfarandi bréf bíður sveinkunum á hverju kvöldi í öðrum skónum sem prýðir eina gluggakistuna á þessu heimili. Veit ekki hvort eitthvað klikkaði í uppeldinu en síðan hvenær var það „refsing“ að fá mandarínu?

Yndislegt samt.

Kæri Jólasveinn.

Ef ég myndi vera óþekkur myndi ég helst þiggja mandarínu frekar enn kartöflu. Helst vil ég samt bíla, plaköt, risa blýant, dvd mynd og tússliti. Ég vona að þú skiljir skriftina mína.

Kv. Ísak.

P.S. Vinsamlega skildu þetta eftir.

föstudagur, desember 12, 2008

Fjésbók

Verð bara að koma því frá mér að karlinn fór í fyrsta skipti á Facebook síðu í kvöld. Tel líklegt að ég sé í einhverjum minnihlutahóp hvað þetta varðar enda hálf þjóðin eða svo með svona síðu hef ég heyrt.

Get ekki sagt að ég hafi misst mig í hrifningu en skil svo sem að einhverjum finnist þetta sniðugt. Ég held nú samt að maður sé nú ekkert á leiðinni í þetta samfélag en aldrei að segja aldrei. Varla samt.

þriðjudagur, desember 09, 2008

Voða lítið sniðugt í gangi

Búinn að vera rembast að lenda í einhverju sniðugu en það hefur bara ekkert sniðugt gerst í lengri tíma, svei mér þá. Eitthvað svona sniðugt eins og Tommi frændi lenti í. Þannig ef ykkur vantar eitthvað sniðugt að lesa þá bara lesið þið þetta -HÉR-

Námshesturinn stóðst annars prófið, með nokkrum glans þótt hann segi sjálfur frá. Held að ég skelli mér í einhvern pakka á komandi ári, meira um það síðar. Í takt við það kom markaðslegt gullkorni frá þeim yngri:

Logi Snær: „Pabbi, þegar ég var lítill í maganum á mömmu þá vissi ég ekki að 10-11 væri alltaf opið.“

Það er ljóst að máttur auglýsinga er einhver.

föstudagur, nóvember 28, 2008

Námshesturinn

Búinn að eyða síðustu dögum í lestur enda var próf handan hornsins. Enn endurnýjaði ég kynnin við hlöðuna og hélt þar til eftir vinnu og um síðustu helgi. Prófið skall svo á núna á miðvikudaginn með tilheyrandi rússíbanareið.

  • Var alveg kominn með upp í kok daginn fyrir próf.
  • leið svo illa nokkrum tímum fyrir prófið, fannst ég ekkert kunna.
  • leið svo vel þegar ég las yfir prófið því mér fannst ég geta þetta vel.
  • leið svo illa þegar maður fór að leysa það því þá var það eitthvað flóknara.
  • leið svo vel þegar ég kom út, sennilega bara af því að það var búið.
  • leið svo illa af því að ég veit ekki hver niðurstaðan verður.

Nú þykist maður vera í einhverri kreppu, eiginhagsmuna sjálfskreppu. Á maður að reyna að kýla eitthvað meira skóladót eftir áramót eða hvað. Reyni að taka allt í reikninginn: kostnaður, gríslíngur hinn III, andleg geðheilsa o.s.frv. Jæja, ég hef tvær vikur til að hugsa þetta, ætli maður sjái ekki fyrst hvort maður hafi leyst þetta próf með mannsæmandi árangri.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Í bankanum í miðri kreppu

Ekkert hægt að nota þessa banka í neitt annað gáfulegt en að poppa upp debbarann.

Ég hlýt að fá afslátt á völlinn í sumar, maður verður að bjarga sér í kreppunni.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Á laugardagskvöldi

Hef voða lítið að segja þessa dagana. Stundum er það þannig að maður þráir ekkert heitara en að hafa eitthvað merkilegt að segja en ekkert gerist, kollurinn alveg tómur.

Skutumst til Keflavíkur í dag, Ísak Máni var að keppa í fótbolta. Okkur talst það að þetta væri hans fimmta skipti sem þátttakandi á þessu móti svo enn safnast í reynslubankann. Fyrsta mótið eftir að Dóri yfirþjálfari hjá ÍR tók við þeim og þetta mót gekk alveg þokkalega, 3 sigrar og 2 töp.

Jæja, best að sjá hvort það er ekki eitthvað í kassanum á þessu laugardagskvöldi...

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Skjaldbökur borða bara flatbökur

Þjóðlegheit á matseðlinum í kvöld, sviðnir rolluhausar og rófustappa með því. Logi Snær var greinilega ekki að kaupa þessa hugmynd þegar mamma hans mundaði hnífinn og plokkaði augað úr kvikindinu. Hann horfði svo á þessa fjóra bita sem búið var að úthluta honum (í einhverju bjartsýniskasti foreldranna) undir þeim lýsingum að þetta væri nú bara kjöt. Hann kom þá með eina gullsetningu, ný rök fyrir því að sleppa við að borða matinn sinn:

„Mamma, ég er turtles og þeir borða ekki kjöt. Þeir borða bara pizzur.“

Kjötbitarnir gerðu ekki gott mót en rófustappan rann ljúflega niður í skjaldbökuna eftir að fyrsti bitinn gekk sína leið. Rófustappa er kannski álegg á einhverjum pizzastaðnum þar sem skjaldbökurnar búa.

Dagbók baksins

Er búinn að labba eins og skotin gæs í eina viku. Sunnudagsboltinn í síðustu viku leiddi þetta af sér. Ekki það að nokkuð ákveðið hafði gerst, fann bara fljótlega til í bakinu eftir boltann og búinn að vera s.s. handónýtur síðan þá.

Humm, það sama og ég leitaði til sjúkraþjálfarans með í byrjun ársins. Spurning um að grafa upp æfingaprógrammið sem ég fékk þá og reyna að gera þetta eins og maður. Var næstum því búinn að fjárfesta í svona humongous æfingabolta til að fara alla leið í þessu en get ekki sagt að það sé spennandi að hafa svoleiðis kvikindi skoppandi hérna um alla íbúð án þess að eiga nokkuð pláss fyrir svona tæki.

Takmarkið hlýtur samt að vera bakvandræðalaust ár, árið 2009.

þriðjudagur, október 28, 2008

13. mars 2009


Maður á nú að vera orðinn nokkuð sjóaður í þessu en alltaf er þetta jafnmagnað.

mánudagur, október 13, 2008

Verkfæri djöfulsins

Ég vældi hérna í byrjun ársins um þessa helv... auðkennislykla. Ég treysti þessum græjum aldrei og rosalega hafði ég rétt fyrir mér.

Ég, sem gjaldkeri stigagangsins, fékk auðkennislykil frá Glitni fyrir húsfélagsreikningnum. Á þessum tíma var ég ekki búinn að virkja hinn auðkennislykilinn sem ég fékk frá Landsbankanum fyrir mínum prívat reikningi. Svo kom að því að ég þurfti að virkja Landsbankalykilinn og í framhaldi notaði ég þann auðkennislykil þegar ég fór á einkabankann minn en hinn lykilinn þegar ég fór inn á reikninginn hjá Glitni.

Þannig gengur þetta þangað til nokkrum dögum fyrir hið almenna bankahrun í landinu. Þá hætti ég að komast inn á Glitnisreikninginn með Glitnisauðkennislyklinum. „Of oft verið slegið inn röngu auðkennisnúmeri og lykillinum hefur nú verið læst bla bla bla...“ Ég fer niður í Glitni og fæ nýtt lykilorð, kem heim en kemst ekki inn á reikninginn. Hringi niður í Glitni og þá fæ ég að heyra að talnakóðinn sem er aftan á lyklinum stemmi ekki við það númer á lyklinum sem er skráð fyrir reikningnum. „Hefur þú eitthvað ruglað auðkennislyklum?“ Uhhh, nei!

Aftur fér ég niður í Glitni, núna umvafinn brjáluðum hluthöfum (eða fyrrverandi hluthöfum) til að fá einhvern botn í þetta. Þar loksins leysist þetta. Glitnisstigagangsreikningurinn var ekki tengdur við Glitnisauðkennislykilinn heldur við persónulega Landsbankaauðkennislykilinn minn. Hvernig stendur á því? Jú auðkennislykillinn er alltaf tengdur við kennitölu umráðamanns og á bak við hverja kennitölu er bara einn auðkennislykill. Þannig að þetta virkar þannig að ég nota Landsbankalykillinn hvort sem ég er að fara inn reikning hjá þeim eða Glitni.

Gott og vel. En ég sat þarna eins og eitt spurningarmerki með þjónustufulltrúann ekki mikið gáfulegri. Hvernig gat ég notað tvo lykla í 7 mánuði ef ég átti bara getað notað einn? Og af hverju fór þetta að klikka á þessum tímapunkti? Engin svör hjá þjónustufulltrúanum, hann gerði bara annan lykillinn upptækan og kvaddi mig.

Auðkennislyklar, smauðkennislyklar...

Töff mynd sem fannst á netinu

sunnudagur, október 12, 2008

Eymundssonmótið 2008


Eymundssonmótið í körfubolta fór fram í gær og Ísak Máni var að spila með ÍR. Hann steig einmitt sín fyrstu spor í þessu sporti á þessu móti í fyrra. Talsverðar framfarir hjá gaurnum frá því í fyrra, bara gott með það. ÍR-ingar taka samt greinilega aðra nálgun á þetta mót en önnur lið, voru með byrjendur í bland við þá sem lengra eru komnir og voru með slakasta liðið. En sigur er víst ekki allt þegar þú ert 9 ára...

...það er ógó töff að fá medalíu, hafa skorað körfu og fengið verðlaunin úr hendi Jóns Arnórs Stefánssonar.

föstudagur, október 10, 2008

Rússagull

Í ljósi þess að Íslendingar eru orðnir réttdræpir í Bretlandi og Rússar ætla líklega að lána okkur pening í þessu hallæri sem ríkir þá er réttast að hætta þessari ást á breskum fótbolta og fótboltaliðum en snúa sér frekar að því að fylgjast með deildinni í Rússlandi. Þessi Kani sem á Manchester United er hvort sem er búinn að steypa félaginu í skuldafen, sömuleiðis búið að þjóðnýta AIG þarna í henni Ameríku og varla nokkurt lið þarna úti sem vill kaupa Ronaldo á skriljónir eins og stemmingin var í sumar. Það er því óhagstætt að selja en spurning hvort þeir fái Budweiser til að sponsa á næsta ári.

En ég hef ekki áhyggjur af því, vegna þess að núna held ég bara með Spartak Moskvu. Held að það sé best, í takt við það sem er að gerast, að velja bara gamla ríkisliðið þarna.

Í þá gömlu góðu

Sá þetta á blogginu hjá Gunna og varð að prófa sjálfur. Árið er 1982 og ég er sem fyrr fjallmyndarlegur.

þriðjudagur, október 07, 2008

Fjármálakreppan

Jæja, viðskiptabankinn minn var víst þjóðnýttur í dag. Eftir atburði gærdagsins kom það nú ekkert sérstaklega á óvart. Í dag er maður sáttur við það að hafa ekki hoppað um borð í rússíbanann og keypt sér raðhús á 90% bankaláni fyrir ári síðan eða svo. Ekkert myntkörfulán á heimilisbílnum og undirritaður hefur ekki verið með yfirdrátt í bankanum í talsverðan tíma. Hlutabréfaviðskipti hafa ekki verið stunduð svo heitið geti. Samt er nettur hnútur í karlinum.

Það er kannski bara best að vera ekkert að safna of mikið af peningum, takmarkið bara að eiga í og á sig og sína en ekki verra að geta nurlað inn nokkrum krónum í hverjum mánuði inn á einhvern viðurkenndan reikning. Manni finnst a.m.k. lágt risið á mörgum í kringum mann, eðlilega kannski ef menn áttu kannski eina milljón eða svo í hlutafé í viðskiptabankanum sínum. Áttu... En hvað er hægt að segja, þetta átti að vera skothelt. En það átti nú DeCode svo sem að vera líka.

Nú er bara að sigla í gegnum þessa lægð. Ég hef engar töfralausnir en gott er samt að byrja með að plögga heyrnatólin og blasta græjurnar, þetta kemur manni alltaf í góðan gír. Ekki margt sem toppar þetta gítarriff.

sunnudagur, október 05, 2008

Ferill að fæðast?

Í dag mætti Logi Snær á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá ÍR, 8.flokkur var það heillin. Ég var nú sjálfur í bolta í dag og varð því ekki vitni af þessu en mamman og Ísak Máni fylgdu drengnum úr hlaði. Strákurinn byrjaði víst að rúlla upp stórfiskaleiknum en var svo ekkert rosalega æstur í að spila fótbolta. En þetta var víst voða gaman þannig að líkurnar á endurtekningu eru víst einhverjar.Reyndar var aðeins búið að gæla við fótboltaæfingar í sumar eftir að hann hitti leikskólafélaga sinn sem var þá nýbyrjaður að mæta á æfingar hjá Breiðablik sökum þess að ÍR hélt ekki út 8. flokk um sumarið. Umræðan um að Logi Snær myndi mæta með þessum félaga sínum komst nú aldrei af umræðustiginu en mamma hans mætti nú samt með hann einu sinni á æfingu hjá HK, sem buðu víst upp á hentugri æfingatíma. Hann lagði nú ekki í að taka þátt þegar á hólminn var komið. Það var kannski eins gott, nú er hægt að segja að ferillinn hafi hafist hjá ÍR. Svo slapp ég líka þá við að fá félagaskipti fyrir drenginn...

Snæfinnur

Karlinn kíkti í heimsókn í gær. Í dag var hann farinn.

þriðjudagur, september 30, 2008

Fátt er svo með öllu illt

Þegar allt virðist vera að fara til fjandans á klakanum er erfitt að sjá eitthvað jákvætt. Eða hvað? Ég var að lesa núna í gær:

„If they think a show is really poor, they can hit a red button to indicate they´d turn it off at home. U.S. networks such as CBS and Fox pay as much as $20.000 per two-hour session to find their shows´ weak points.“

Hvert er ég að fara? Jú, núna gat ég bara umreiknað dollarann með því að smella tveimur núllum fyrir aftan til að fá út verðmætið í íslenskum krónum. Rosa þægilegt.

Í öllu svartnætti verða menn að reyna að sjá ljósið.

fimmtudagur, september 25, 2008

Fótboltaferðin til London

Fór í sannkallaða fótboltaferð um síðustu helgi. Vorum fimm úr vinnunni sem keyptum okkur pakka frá Iceland Express á West Ham - Newcastle á laugardeginum og höfðum náð að útvega okkur miðum á Chelsea - Manchester United á sunnudeginum.

Flugum út á föstudeginum og eyddum þeim degi í almennt chill, aðallega á Chelsea hótelinu enda tveir gallharðir Chelsea menn í hópnum. Leikurinn á laugardeginum á Upton Park og tókum við leigubíl á svæðið. Þetta var eins og alvöru heimsreisa, tómir indverjar í því hverfi. Við fundum bullubarinn þeirra West Ham manna og þar voru menn hressir. Gríðarleg stemming og fljúgandi bjór út um allt. Leikurinn var flottur, Gianfranco Zola að stýra West Ham í sínum fyrsta leik og landi hans Di Michele að byrja sinn fyrsta leik. Hann setti tvö í 3:1 sigri þar sem við sáum Michael Owen laga stöðuna fyrir Newcastle. Stemmingin fín á vellinum og allir sáttir.Það var búið að segja okkur að koma okkur út úr þessu hverfi hið fyrsta og skella okkur aftur í miðbæ London. Eftir leikinn var svo rosalegur fjöldi að fara í undergroundið að við ákváðum að rölta aðeins og athuga hvort við gætum ekki fundið leigubíl. Ákvörðun sem var eftir að hyggja frekar slæm. Eftir talsvert þramm í einhverja átt í þessu vafasama hverfi fundum við litla, subbulega „leigubílastöð“. Enginn bíll á staðnum en okkur var lofað bíl. Eftir að hafa hangið þarna í góðan klukkutíma inn í sóðalegri setustofu að horfa á Americans funniest homevideos á milli þess að rölta út til indverjans á horninu að kaupa öl þá kom loksins bíll. Við settumst inn og tiltókum hótelið okkar. Eitthvað varð indverskættaði bílstjórinn skrítinn á svipinn og upp kom úr kafinu að hann rataði ekki þangað. Ok, við sættum okkur við að hann myndi bara skutla okkur á Piccadilly eða bara eitthvað down-town London. Sorry, bílstjórinn hafði ekki hugmynd um hvað við vorum að tala um. Nýr bíll var boðaður á svæðið og öðrum klukkutíma seinna kom hann á svæðið. Sá bílstjóri vissi nú ekki mikið meira en hinn fyrri en var með svona GPS tæki eða hvað þetta heitir og eftir að við stöfuðum fyrir hann Oxford Street þá gátum við haldið af stað. Óskaplega var gott að komast út úr þessu hverfi.

Tókum sunnudaginn snemma og komum okkur bara út á Stamford Bridge. Ruud Gullit á svæðinu þegar við komum og vakti talsverða lukku. Fórum vitaskuld á So bar, bullubar Chelsea manna, sem er hluti af stemmingunni. Flottur leikur sem við fengum, ég var að gæla við það að Berbatov myndi setja sitt fyrsta mark fyrir United en það hafðist nú ekki. Við komumst yfir með marki frá Park en Chelsea menn jöfnuðu einhverjum 11 mínútum fyrir leikslok, 1:1 lokastaðan. Það gátu allir gengið þokkalega sáttir frá því held ég. Höfðum ekki mikinn tíma eftir leikinn, rétt klukkutíma áður en bíll sótti okkur til að skutla okkur út á flugvöll. Náðum að sjá einhverjar hetjur þarna á hótelinu, Deco, Ballack, Malouda ásamt því að Marcel Desailly var að þvælast þarna. Tókum svo í spaðann á gömlu Chelsea hetjunni Kerry Dixon á leiðinni út af hótelinu. Fyndið svo í lokinn að þegar bíllinn kom að sækja okkur sem var flottur Benz, þá lentum við á eftir bílnum hans Ashley Cole. Að bílnum hans hópaðist talsvert af fólki og hann stoppaði í smá stund. Okkur leið eins og kjánar þarna stopp á eftir honum, algjörir treflar.

Í heild bara flott ferð, flottir leikir og mikil gleði. Bara alveg eins og þetta á að vera.

miðvikudagur, september 17, 2008

Rúta óskast

Óska eftir nýlegri rútu til að ferja fimm manna fjölskyldu á milli staða með góðu móti.

Á sama stað óskast 3ja hæða koja, helst í skiptum fyrir eina 2ja hæða.

Afhending miðast við miðjan mars 2009.

Nýtt hlutverk

Magnað hvað það getur verið spennandi að fá svona gamlar gardínur að gjöf. Reyndar tók mamman sig til og umbreytti þeim aðeins og fá þær því nýtt hlutverk. Nátthúfa í kaupbæti!

fimmtudagur, september 11, 2008

Dr. Lárus, I presume?

Hef rætt um það hérna áður held ég hversu rosalega ómannglöggur ég get verið og hversu slæmt það getur verið í vinnunni þar sem ég hitti talsvert af fólki. Sem og í hinu daglega lífi svo sem.

Var að versla í Nettó á dögunum, rétt fyrir lokun. Sá þar mann sem ég kannaðist svo rosalega við en gat bara ekki áttað mig á því hver þetta var. Sá hann svo aftur í biðröðinni við afgreiðslukassa og ákvað að fara í einhverja aðra biðröð bara svona til öryggis ef hann myndi nú þekkja mig og þetta yrði eitthvað vandræðalegt. Sat svo heima í sófanum síðar um kvöldið og þá kom þetta allt í einu upp í kollinn á mér hver þetta var. Þetta var sko heimilislæknirinn minn.

Ég ætla að telja mér trú um að þetta sé hraustleikamerki að þekkja ekki alveg í svipinn heimilislæknirinn sinn.

miðvikudagur, september 10, 2008

Logi Snær á landsleik en pabbinn úti á túni

Áhorfendametið á knattspyrnuleik á Íslandi er 20.204. Laugardalsvöllurinn 18. ágúst 2004 þegar Ísland spilaði vináttuleik við Ítali. Við Ísak Máni vorum þar þann dag og eigum því hlut í því meti og sáum Eið Smára og Gylfa Einarsson skora mörkin í 2:0 sigri. Þetta var fyrsti alvöru leikurinn sem Ísak Máni fór á, rétt rúmlega 5 ára og ég man að mér kveið svolítið fyrir þessu því ég var ekki viss hvort hann myndi endast í sætinu sínu allan tímann. Það var ekki vandamál þegar á reyndi.

Nú var komið að Loga Snæ. Vantar nú einhverja 5 mánuði í 5 ára aldurinn en nú átti að láta verða af því að fara með drenginn á landsleik. Ísland - Skotland sem var í kvöld. Ég keypti 4 miða á netinu, fjölskyldustund skiljiði... Áttaði mig svo á því þegar ég sat fastur í umferðarsultu á leiðinni í vinnuna á mánudagsmorguninn að ég var fastur í öðru verkefni þetta kvöld, nokkuð sem ég hefði átt að kveikja á þegar ég verslaði miðana. Svona er ég stundum.

Það var því ekki annað hægt að gera en að fá staðgengil í mitt sæti og tók Guðrún það að sér. Logi Snær komst í gegnum þetta þrátt fyrir að vera vanur því á ÍR vellinum að horfa í smástund og fara svo afsíðis í smá boltaleik sjálfur, nokkuð sem er víst ekki alveg í boði á þjóðarleikvangnum. 1:2 tap fyrir Skotum og tæplega 10.000 manns, fullur völlur eins og hann er í dag.

Ég hinsvegar var staddur í húsakynnum HR í fyrsta tímanum í námskeiðinu sem ég skráði mig í á þessari önn. Mögulega meira um það síðar.

þriðjudagur, september 09, 2008

Á erlendri grundu

Ég er búinn að vera reyna að leika fyrirmyndarföðurinn þessa síðustu daga. Sigga fór í einhverja skólaskoðunarferð á miðvikudaginn síðasta en ferðinni var heitið til Svíþjóðar með viðkomu í Köben, hún kom svo heim núna síðastliðin sunnudag. Held að allir og allt hafi sloppið án teljandi skaða þrátt fyrir móðurleysið. Pizza kannski fulloft í kvöldmatinn en hey, þetta voru nú einu sinni strákadagar.

En annars af utanlandsferðum í fjölskyldunni. Hvað eiga þessir tveir knattspyrnuleikir sem háðir verða í Lúndúnum sameiginlegt?

Tími: Laugardagur 20. september 2008
Staðsetning: Upton Park
Viðburður: West Ham United - Newcastle United

Tími: Sunnudagur 21. september 2008
Staðsetning: Stamford Bridge
Viðburður: Chelsea - Manchester United

Jú, ég verð þar...

mánudagur, september 08, 2008

Markakóngur

Það er alltaf gaman þegar manni er komið ánægjulegt á óvart. Tala nú ekki um þegar börnin manns eiga í hlut.

Ísak Máni var að keppa á fótboltamóti í dag, eitthvað haustmót á vegum KSÍ í Egilshöll. Fyrir fyrsta leik tók hann á sig rögg og bað þjálfarann um að setja sig í fremstu víglínu, staða sem hann hefur afar sjaldan fengið að spila en hann hefur meira verið í vörn og marki. Það varð úr, fremsti maður í leik á móti Val. Byrjaði á því að fá þetta líka úrvalsfæri en hitti ekki rammann. Hausinn seig svolítið og pabbinn bað æðri máttarvöld um þó ekki væri nema eitt mark handa stráknum svo þetta yrði nú ekki bara böl. Einhver hefur verið að hlusta og strákurinn náði að setja eitt, úr talsvert erfiðara færi en því sem misfórst og hausinn reis upp. Valur jafnaði áður en Ísak Máni smellti inn sigurmarkinu. Skoraði svo eitt mark í næsta leik líka en var svo í marki í leik nr. 3, í þeim eina sem tapaðist. Fékk að fara fram í síðasta leikunum og sagði við pabba sinn að hann ætlaði að skora þrennu en karlinn reyndi nú að halda sínum niðri á jörðinni. Iss, 4:1 sigur á móti Þrótti og Ísak Máni með öll kvikindin. 7 mörk í þremur leikjum sem útispilari og hann snerti varla jörðina á leiðinni út úr höllinni.

Ég er ekki að sjá að hann fáist til að spila einhverja stöðu á sínum eigin vallarhelming í bráð.

sunnudagur, september 07, 2008

Skilgreining á unglingum

Pabbi hans Loga: „Er Ísak Máni orðinn unglingur?“
Logi Snær: „Já.“
Pabbi hans Loga: „Hvað eru unglingar?“
Logi Snær: „Það eru svona fótboltamenn og handboltamenn. Og Skagamenn.“

Þar hafi þið það.

föstudagur, september 05, 2008

Skilningsleysi

Oft er mér alveg fyrirmunað að skilja Kanann. Sá á netinu að NBA körfuboltaliðið Seattle Supersonics hefur verið flutt til Oklahoma og heitir núna Oklahoma City Thunder. Stutta útgáfan af forsögunni var að kaupsýslumaður, Clay Bennett, kaupir Supersonics liðið árið 2006 og náði ekki samningum við Seattle borg um nýtt svæði fyrir félagið. Hvað gera bændur, eða öllu heldur kaupsýslumenn, þá? Jú, þeir fara bara með liðið eitthvað annað...

Þetta hefur svo sem gerst áður og ég held fast í Vancouver Grizzlies búninginn sem ég á inn í skáp og áskotnaðist þegar Villi bróðir bjó þarna úti og tel mér trú um að búningurinn hafi söfnunarlegt gildi. Ég er líka alltaf að spá í að fara setja til hliðar Vancouver Grizzlies glösin sem ég á upp í skáp, svona í söfnunarlegum tilgangi líka. Fyrir þá sem þekkja ekki Grizzlies-söguna þá var þetta NBA lið stofnað í Kanada 1995 en flutti svo til Memphis 2001 og varð þá Memphis Grizzlies.

Ekki það að þetta hafi eitthvað tilfinningalegt gildi fyrir mig en mér finnst þetta bara alltaf óheyrilega asnalegt þegar þetta gerist. Í tilfelli Sonics fékk Seattle borg greiddar einhverjar bætur fyrir sinn „missi“ en hvað með íbúana og stuðningsmennina? Manni finnst furðulegt að í landinu þar sem það eitt að missa saltstauk á tánna á þér á McDonalds getur tryggt þér fjárhagslegt öryggi það sem eftir er, að einhver sæki ekki einhvern til saka í þessu máli. Menn sitja kannski uppi með fullan fataskáp af merktum liðsfötum af einhverju liði sem ekki er lengur til. Að ég tali nú ekki um þann tilfinningarússibana sem getur fylgt því að það er bara ýtt á „EYÐA“ takkann varðandi liðið þitt.

Eða hvað?

The SuperSonics nickname, logo and color scheme will be made available to any future NBA team in Seattle. According to the team's new owners, the Sonics' franchise history will be "shared" between the Thunder and any future Seattle team.

Afsakið, en ef einhverjum dettur í hug að koma með nýtt lið til Seattle er það þá nýtt lið eða ekki? Hvernig getur saga íþróttafélags verið „shared“ milli tveggja félaga? Eru bæði liðin sama liðið en samt ekki? Hversu fáránlegt er það? Með hvaða liði eiga gömlu stuðningsmennirnar að halda?

Nei, mér er bara fyrirmunað að skilja þetta.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Held fast í von og trú en...

Styttist í nýju Metallica plötuna en útgáfudagurinn er 12. september að ég held. Spenningur hjá karlinum enda gamlar hetjur á ferð. Vandamálið er vitaskuld það að eftir 5 skothelda gripi hafa komið frekar slappar 3 plötur. Síðasti góði gripurinn hvað mig varðar, svarta albúmið, kom út 1991 sem er asskoti langur tími. Svo langur tími að þegar hún kom út þá pantaði ég hana í póstkröfu og náði í hana út á pósthús í Grundarfirði í hádegishléinu í vinnunni í frystihúsinu og renndi stórum hluta hennar í gegn áður en ég þurfti að fara aftur í vinnuna. Í minningunni var ég ekkert alltof hrifinn til að byrja með en hún vann vel á og telst vel frambærileg í dag. Load og Reload plöturnar voru ekki nógu þéttar og einungis nokkur lög af þeim sem rata í spilarann hjá mér í dag. St. Anger var svipuð, þokkalegt sánd en heilt yfir ekki nógu öflug lög.

Búinn að heyra tvö lög af þessari nýju plötu (í dag hefur internetið forskot á pósthúsið) og er enn að melta þetta. Akveðið afturhvarfsfílingur virðist svífa yfir vötnum en hvort það dugar til að heilla menn verður að koma í ljós. Vona að gripurinn verði heilt yfir heillandi en hef samt mínar efasemdir, því miður. Kannski hafa síðustu plötur áhrif á þessa von mína eða öllu heldur vonleysi.

Sjáum til en það er ekki margt sem toppar 4. júlí 2004 þegar þessir drengir spiluðu hérna á klakanum. Enn fær maður gæsahúð við tilhugsunina...

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Til hamingju Ísland


Maður reif sig á fætur í morgun til að horfa á úrslitaleikinn í handboltanum á ÓL. Þetta hafðist nú ekki alveg enda Frakkarnir geysilega sterkir og við náðum ekki alveg okkar besta leik. En eins og einhver benti á þá voru við að vinna silfur en ekki tapa gulli og þennan árangur hefði hver sem er tekið fegins hendi fyrir mótið. Auðvitað fúlt að tapa úrslitaleik og allt það en glæsilegt enga síður.

Fór svo í skottúr til Þorlákshafnar en Ísak Máni átti að spila í fótbolta þar. Mígandi rigning alla leiðina og manni leist ekkert á blikuna. Enda kom það líka í ljós að aðstæðurnar voru frekar daprar. Selfyssingar og ÍR-ingar auk heimamanna í Ægir voru mættir en veðrið var slíkt að einföld umferð var látin duga, það var ekki hægt að bjóða upp á meir af þessari rigningu og roki. Það var líka alveg fínt, stemmingin að naga kex í pollagallanum var ekkert spes. Gat ekki annað en þakkað fyrir sólina á Sauðárkróki þarna um daginn, ég hefði aldrei meikað svona steypu í tjaldi.

laugardagur, ágúst 23, 2008

Magnaðir hlutir í tengslum við menningarnótt

Við létum okkur hafa það þrátt fyrir misjafnt veður og smelltum okkur á ÍR völlinn í dag til að sjá heimamenn etja kappi við Magna. Vallarþulurinn, sem oft getur verið nokkuð hnyttinn, bauð „alla þessa fjölmörgu áhorfendur“ á völlinn en í þeim töluðu orðum hjá honum voru 7 manns mættir á pallana, þar af við fjögur. Talaði um þessa tegund af stundvísisleysi um daginn. Hvað um það, þarna hékk maður og fékk eitthvað fyrir allan peninginn svo ekki sé meira sagt. 6:2 sigur okkar manna, 16. sigurleikurinn í 17 leikjum í deildinni og 1. deildarsæti að ári gulltryggt. Það sem gerði þetta enn fremur að stórmerkilegum viðburði var að framherji ÍR, Elías Ingi, setti 4 mörk en tókst að misnota þrjár vítaspyrnur! Þær voru allar varðar en honum tókst þó að ná frákastinu í því síðasta og setja síðasta markið. Maður gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar maður hélt heim á leið alveg holdvotur.

Man eftir einu svona dæmi að sami leikmaðurinn hafi klúðrað þremur vítaspyrnum í sama leiknum, Martin Palermo, í leik með argentínska landsliðinu í Copa America 1999. Sá leikur var sýndur á gömlu Sýn en þessir leikir voru seint um nætur og maður var ekki mikið að vaka eftir þeim. Hemmi Gunn og Logi Ólafsson voru víst að lýsa þessum leik og fóru alveg á kostum heyrði maður hjá þeim sem urðu vitni af.

Ætluðum bara að taka því rólega í kvöld en Ísak Máni fékk allt í einu áhuga á að fara á Menningarnótt og við drifum okkur því niður í bæ og tókum einn hring. Vorum í seinna fallinu en fengum vott af stemmingunni. Held bara að við höfum aldrei farið niður í bæ þegar þessi viðburður hefur verið en mér sýnist að sögur af unglingadrykkju séu á rökum reistar, ansi margir ungir þarna að ráfa um. Engin orka til að bíða eftir einhverri flugeldasýningu, hérna voru menn nánast sofnaðir við eldhúsborðið þegar boðið var upp á síðbúið kvöldkaffi þegar heim var komið.

Svo þurfa menn líka að vakna snemma í fyrramálið til að hvetja íslenska handboltalandsliðið...

föstudagur, ágúst 22, 2008

Úrslitaleikurinn framundan

Þjóðarstoltið í botni þessa dagana þegar handboltalandsliðið brillerar núna leik eftir leik og ljóst er að maður kemur til með taka sunnudaginn snemma þegar stóri leikurinn verður.

Þessi mynd af Dorrit okkar eftir leikinn á móti Pólverjum hlýtur nú að vinna einhver verðlaun, þvílík snilld. Forsetinn vill halda þjóðhátíð og Dorrit fór sem fyrr á kostum með sinni einlægni því þegar upp er staðið er Ísland er ekki lítið land, það er stórasta land í heimi. Ég fíla Dorrit.


Nú lifir maður bara í voninni um gullið. Varla samt að maður þori að hugsa þá hugsun til enda...

mánudagur, ágúst 18, 2008

Grýluslóðir

Smelltum okkur í Hveragerði á laugardeginum en ÍR drottningarnar voru að spila við FC Grýlur á Grýluvelli, hvað annað? Sigga lét sig sem sagt ekki vanta og setti eitt kvikindi í þægilegum sigri. Karlarnir í fjölskyldunni voru á hliðarlínunni og dunduðu sér með bolta þess á milli.Bæjarhátíð þeirra Hvergerðinga var þessa helgi, Blómstrandi dagar, en við stoppuðum nú ekkert til að kynna okkur aðra viðburði þessa helgi. Þó var svona litaþema í gangi eins og í Grundó (og er víst komið á flestar þessar bæjarhátíðir) en þarna var bænum skipt í þrennt, rautt, bleikt og blátt. Ég skal viðurkenna að ég tók ekki mikla úttekt á bænum en það sem ég sá var þetta voða rólegt og hvergi nærri geðveikt eins og í firðinum góða.

Annars missti ég mig aðeins á sunnudeginum og tók skokkhring á þetta, eitt stykki Elliðaárdalur. Úff, ekki hreyft mig í heavy langan tíma og boy-o-boy fann ég fyrir því. Skreið hérna heim alveg samanbrotin maður eftir því að hafa fengið staðfestingu á formleysinu sem ég vissi alveg af. Skreið bara upp í sófann og tók fótboltagláp á þetta, alveg uppgefinn. Harðsperrur í dag, slappt maður...

föstudagur, ágúst 15, 2008

Til hamingu Akureyri með nýjustu viðbótinaÞetta er náttúrulega stórfrétt og nú bíður maður bara spenntur eftir tilkynningu frá norðlenskum fréttamiðlum um komu þessa fólks.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

FH - Aston Villa 1:4

Fór í kvöld á Laugardalsvöllinn að sjá Aston Villa spila við FH í Evrópukeppni félagsliða, ekki annað hægt en að mæta þegar svona stór klúbbur er að spila á Íslandi. Ísak Máni kom með ásamt Jökli ofurtöffara. Gaman að sjá þessa nagla og sjá svona í action muninn á yfirmeðallagi ensku úrvalsdeildarliði og toppliðs á Íslandi.

Hvað er annars með Íslendinga og fótboltaleiki eða þessháttar uppákomur af ýmsu tagi? Menn voru að tínast inn á völlinn langt fram eftir fyrri hálfleik og margir misstu því af miklu því staðan var orðin 0:2 eftir einhverjar 7 mínútur. Ótrúlegir treflar...

Hvað um það, ég var góður og sá allan leikinn.

mánudagur, ágúst 11, 2008

Öllu tjaldað til

Ísak Máni var að keppa núna um helgina með ÍR á Sauðárkróki á svokölluðu Króksmóti eða eins og Logi Snær kallar það, Crocsmótið. Fórum síðast í útilegu árið 2002 og við fengum sama tjald lánað, djásnið hans Villa sem er líklega ´86 módelið, þ.e. tjaldið ekki Villi. Ég fékk mér smá frí og við gátum því rúllað okkur af stað bara snemma á föstudeginum, fundið okkur þægilegan stað fyrir tjaldið o.s.frv. Eftir að hafa tekið smá rúnt um bæinn tók ég Siggu loksins trúanlega og keypti það að við höfðum verið þarna áður, í síðusta tjaldævintýri þarna 2002. Fengum okkur að borða í Ólafshúsi eins og síðast.

Lítið mál að tjalda í sjálfu sér, það hékk a.m.k. uppi þessa helgi. Grundvallaratriðið var þó að það rigndi ekki, ég hefði ekki boðið í það. Það var betra að vera í tjaldi þegar sólin skein, mér skilst hinsvegar að hitinn hafi farið niður í 4 gráður þessar nætur og stemmingin var ekkert ærandi þegar maður skreið framúr þessa morgna. En þegar kakóið var farið að kicka inn og sólin braust fram þá jókst nú stemmingin.

Spilamennskan hjá Ísaki Mána var fín en þarna voru lið sem hann er alla jafna ekki að spila við eins og Þór, KA, Tindastóll, Kormákur o.s.frv. Hann var reyndar færður upp úr C-liðinu yfir í B-liðið strax eftir fyrsta leik því eitthvað voru fáir tilbúnir að standa þar á milli stanganna. Mér leist svona la-la á það því þarna var hann að spila við stráka sem eru árinu eldri en hann og talsvert öflugari en þeir D-liðsmenn sem hann hefur yfirleitt verið að spila með og við. Þetta gekk samt allt í lagi, hann var samt greinilega svolítið stressaður strákurinn enda annt um álitið gagnvart eldri strákunum. Lenti einu sinni illa í því, tók nettan Taibi á þetta en fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það martröð allra markvarða, missa boltann eftir skot fyrst milli handanna á sér, svo í gengum klofið og þaðan í netið. Rosalega var erfitt að standa upp og horfast í augu við samherjana eftir það...

En það sem drepur þig ekki styrkir þig og hann hélt nú hreinu í tveimur leikjum og þeir lentu í 6. sæti af 14 liðum sem verður að teljast alveg fínn árangur.

Er það bara ég eða var tjaldið okkar eins og krækiber í helvíti? Spurning líka hvort aðrir á tjaldsvæðinu séu að forðast okkur?

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Hártískan

Ísak Máni fékkst loksins til að fá sér almennilega sumarklippingu, eitthvað sem náðist ekki í gegn fyrir Spánaarferðina en hafðist sem sagt í gegn núna síðsumars.

Fyrir:


Eftir:Logi Snær er hins vegar ekkert á leiðinni í klippingu og er í einhverjum öðrum pælingum.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Innipúki

Ekki var farið neitt um þessa verslunarmannahelgi og eiginlega var bara ekki neitt gert sem merkilegt gæti talist. Sem er stundum bara fínt. Það er mjög fínt að chilla svona í höfðuborginni um þessa helgi, allt svo rólegt og fáir á ferli.

Fórum í nýrri sundlaugina í Mosó, nokkuð sem Ísak Máni er búinn að bíða eftir í talsverðan tíma en nú var tækifærið nýtt til fullnustu. Allt voða nýmóðins en ég bjóst eitthvað við þessu stærra í sniðum en alveg vel brúkanlegt. Þá er maður búinn að prófa þá laug.

Skelltum okkur í bíó og sáum Wall-e. Veit ekki hvað skal segja. Ekki það að fjöldi orða í kvikmyndum sé einhver mælikvarði á gæði þá held ég að þeir sem talsettu þessa ræmu hafi þurft að smella inn fjórum orðum fyrir hlé. Eitthvað fór orðaflaumurinn að aukast eftir hlé en ég var ekkert frá mér numinn. Allt í lagi en sem sagt ekkert spes en kannski er það bara ég.

Fórum svo að leika okkur á ÍR vellinum í dag, gervigrasið opið og ekki hræða í bænum þannig að það var hægt að leika sér þar óáreittur í góða stund. Að öðru leyti var þetta bara þægilegt, farið á rúntinn og fengið sér ís. Ekki slæmt.

mánudagur, júlí 28, 2008

Á góðri stund 2008

Smelltum okkur vestur í Grundarfjörðinn um helgina á hina árlegu bæjarhátíð. Sem ég er farinn að hallast að sé eitt best geymda leyndarmálið í þessum bransa. Hvergi auglýst en alltaf örugglega rúmlega 3000 manns á svæðinu og þeir sem koma í fyrsta sinn virðast ekki gera sér grein fyrir hversu viðamikið þetta er. Bara gaman að því. Sem fyrr var bongóblíða allan tímann, smá hressileg hafgola á laugardeginum en sólin yfirgaf aldrei svæðið.

Annars var þetta að mestu leyti hefðbundið. Sveinn Brynjar, vinur hans Ísaks Mána, kom með okkur eins og í fyrra og því var maður með þrjá gríslinga en það gekk nú allt saman. Tókst reyndar að láta plata mig í einhvern fótboltaleik á sunnudeginum. Svo sem ekki neinn bara einhvern fótboltaleik heldur var þetta auglýstur sem landsleikur á milli Íslands og Póllands. 7-mannabolti sem var reyndar bara 6-manna því fleiri knattspyrnuspilandi Pólverja var ekki hægt að fá í Grundarfirði. Ég hafði nú ekki komið undirbúinn undir þetta og spilað því í marki á stuttbuxum, stuttermabol og berhentur og komst að þeirri niðurstöðu að legghlífar, markmannshanskar og annar hlífðarbúnaður er stórlega ofmetinn. Ísland vann eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Þá er hægt að fara hlakka til næsta árs. Reyndar verður það tvöfaldur pakki ef maður tekur það því þá verslunarmannahelgi verður unglingalandsmót UMFÍ í Grundarfirði. Miðað við að sundlaugin var bara rétt að valda 3000 manns þá veit ég ekki hvernig þeir ætla að tækla 10.000 manns. En það verður alla vega fótboltavöllur nánast í bakgarðinum á Smiðjustíg 9 og Ísak Máni er alveg að kaupa þá hugmynd.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Gáfulegt?

Litla systir hringdi í mig í dag til þess eins að spyrja mig hvort ég væri fyrir framan tölvu. Líklega vantaði henni einhverjar upplýsingar en þar sem ég var ekki fyrir framan tölvu þá náði sú umræða ekki lengra. Málið er að tölvan hennar er dauð en hleðslutækið fyrir tölvuna er bilað og hún tímir ekki að kaupa sér nýtt! Hún er sko að spá í að kaupa sér nýja tölvu en hvenær það gerist veit ég ekki en þangað til ætlar hún sko ekki að kaupa sér nýtt hleðslutæki. Líka rosalega leiðinlegt vegna þess að hún er sko með ógisslega sniðuga bloggpistla í kollinum en út af þessu öllu komast þeir ekki þaðan út til að skemmta okkur hinum.

Gáfulegt?

Maður á kannski ekki að vera svona leiðinlegur að drulla yfir litlu systur hérna á veraldarvefnum en á meðan hún fjárfestir ekki í nýrri tölvu eða nýju hleðslutæki þá er ég rólegur.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Endalok súkkulaðiútgáfunnar

Ég er búinn að vera með ákveðinn hlut í kollinum í einhvern tíma núna. Fór allt í einu að hugsa um morgunkorn sem var til þegar ég var yngri og hét Crazy Cow. Ég verð að viðurkenna að ég mundi ekki mikið annað en nafnið, þurfti meira að segja að gúgla þetta til að fá það staðfest að þetta hefði verið til í raun og veru og ég væri ekki orðinn kreisí sjálfur. Eftir smá rannsóknarvinnu þá komst ég að því að þetta var framleitt undir merkjum General Mills, þeir hinir sömu og framleiða Cheeriosið og Cocoa Puffsið. Þetta virðist hafa verið á markaðnum í kringum 1980 og var bæði með súkkulaði og jarðaberjabragði. Mér finnst líklegt að ég hafi verið ginkeyptari fyrir súkkulaðibragðinu en sem fyrr í þessu máli verð ég að bera fyrir mig minnisleysi. Hafði þetta morgunkorn (sem var í raun kúlur) þann eiginleika að húðin leystist upp í mjólkinni og úr varð nokkurskonar kókómjólk (eða jarðaberjamjólk). Hlýtur sem sagt að hafa verið öflugara dæmi en það sem gerist með Cocoa Puffsið og Lucky Charmsið.

Af hverju þessar pælingar? Mér er lífsins ómögulegt að skilja af hverju súkkulaði Lucky Charmsið sem var hérna í sölu á landinu fyrir ca 1-2 árum gekk ekki. Ég er reyndar ekki Lucky Charms maður en maður hafði trú á þessu fyrst þetta hefðbundna selst alltaf vel.

Kannski var of ýkt að fá súkkulaði líka ofan í sykurpúðana, veit ekki.

Þetta var alla vega étið hérna á heimilinu svona á tyllidögum og síðasti skammturinn úr síðasta pakkanum sem ég var búinn að hamstra var kláraður í gær. Logi Snær fékk heiðurinn. Skipti engu þótt þetta hafi runnið út á dagsetningu fyrir rétt rúmu ári, menn létu sig hafa það. Sem er kannski frekar í tilfelli Ísaks frekar en Loga en sá yngri er nú varla kominn með mikið skynbragð hvort hluturinn sé útrunninn eður ei. Sem mér finnst nú oft stórlega ýkt dæmi, sérstaklega hvað þurrvöru hrærir.

En hvað um það, þessari sögu er lokið, í bili a.m.k og hérna sést Logi innbyrða síðasta súkkulaði Lucky Charmsinu væntanlega á Íslandi. Reyndar gerði hann sér ekki grein fyrir mikilvægi augnabliksins og gat ekki klárað...miðvikudagur, júlí 09, 2008

Yfir strikið

471...

...er sá fjöldi SMS-a sem ég sendi í maímánuði og fór all svakalega yfir strikið.

Helvítis fótboltabrölt.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Tár, bros og nýr íþróttagalli

Fengum að vita með dags fyrirvara að 6. flokkurinn hjá ÍR átti að taka þátt í móti í dag. Hálf skrítið að vera með mót frá hádegi til klukkan að verða fimm á virkum degi en það er víst allt leyfilegt yfir hásumarið. Liðið hans Ísaks beið afhroð svo ekki sé meira sagt en hann kom óskaddaður út úr því á endanum. Byrjaði fyrsta leikinn í marki en eftir að hafa þurft að hirða tuðruna níu sinnum úr netinu fór hann í aðra stöðu í hina tvo leiki sem eftir voru. Í þeim komu þrjú mörk, hann lagði upp tvö og kórónaði svo daginn með því að setja skallamark eftir hornspyrnu. Drengurinn var helsáttur við þetta og á eftir að lifa eitthvað á þessu.

Skallamark eftir hornspyrnu, það er nokkuð sem mér tókst aldrei að framkvæma á mínum útispilandi ferli og á varla eftir að gera úr þessu.

Eftir allt þetta ÍR basl allan liðlangan daginn þá var ekki annað hægt en að standa við gamalt loforð varðandi Loga Snæ en hann fékk loksins sinn eigin ÍR galla. Hann var líka helsáttur.

laugardagur, júlí 05, 2008

Costa del Sol

Flugtak var áætlað kl 6:30 þann 18. júní þannig að menn fóru snemma að sofa eftir þjóðhátíðardagsskemmtunina. Stíft ferðalag framundan því við höfðum fengið tilkynningu um að vegna versnandi gengisafstöðu krónunnar sem leiddi af sér meiri bölmóð í þjóðfélaginu sem leiddi af sér færri sólarlandapantanir þetta árið, þá var ekki annað hægt en að hliðra til eitthvað af flugferðum og í okkar tilfelli þýddi það að við þurftum að millilenda á Mallorca. Þar fór stór hluti ferðalanganna út en við þurftum að húka inn í vél og bíða eftir Íslendingum á heimleið sem þurftu að gera sér að góðu að fljúga með okkur áfram til Costa del Sol áður en þeir gátu lagt af stað heim. Til að lengja enn setuna í vélinni þá tókst öðrum af flugdólgnum sem var um borð, sem hafði greinilega farið inn á klósett og fengið sér pilluskammt ofan í allt áfengið sem hann var búinn að innbyrða, að missa meðvitund skömmu fyrir lendingu og því þurfti að kalla til spænsku lögregluna. Hún var reyndar ekkert að flýta sér að því að drösla þessum tveimur félögum út og við hin þurftum því að bíða aðeins lengur. Þetta ferðalag sem venjulega tekur víst 4 og 1/2 tíma tók 7 tíma. En út komust við.

Hótelið sem við vorum á var Timor Sol sem ég valdi eftir að hafa ráðfært mig við vinnufélaga minn sem er hokinn reynslu í þessum fræðum og búinn að prófa þetta allt. Hótelið sjálft var frekar lúið og alveg kominn tími á að poppa það upp en staðsetningin var gargandi snilld og það var í raun það sem við vorum að borga fyrir. Ströndin nánast í garðinum, stutt í smábátahöfnina með öllum veitingastöðunum og göngugata beint niður í miðbæ. Gargandi snilld.

Við höfðum tekið ákvörðun um að vera ekki að drösla börnunum í túrana til Gíbraltar og Marokkó, það er hægt að taka það síðar. Við völdum frekar styttri túrana, tókum krókódílagarðinn sem vakti mikla lukku og fórum í Selwo dýragarðinn. Síðan fórum við sjálf bæði í tívolíið og vatnsleikjagarðinn. Tívolíið var sannkölluð svaðilför, lögðum af stað fótgangandi kl 11:00 um morguninn og vorum kominn rúmlega 16:00 á leiðarenda, með skipulögðum stoppum á leiðinni. Skil reyndar ekki enn hvernig drengirnir náðu að dröslast þetta en ég verð þó að viðurkenna að síðast spölurinn var MJÖG erfiður, hitinn var alveg að gera útaf við menn. Vorum síðan í tívolíinu til rúmlega 22:00 en ákváðum að fórna einhverjum evrum í leigubíl aftur niður á hótel. Ísak Máni var reyndar smátíma að taka tívolíið í sátt en viðmiðunarhæð í mörg tækin var 1.40 metrar. Sem er svona u.þ.b. hans hæð og það fór svolítið eftir þeim sem hleyptu inn í tækin hvort hann slapp eða ekki í tækin. Verra var líka að sumsstaðar var hámarkshæð 1.40 metrar og því lendi hann í því að mega ekki fara með bróðir sínum í einhver tæki. Mjög spes. Eftir reynslu sína af tívolíinu í Kaupmannahöfn þar sem honum var hleypt í nánast hvað sem var þegar hann var rétt 5 ára þá var hann ekki alveg 100% sáttur. Ég held að hann sé búinn að setja stefnuna á að fara aftur þangað við fyrsta tækifæri og aftur í þetta tívolí þegar hann er orðinn vel yfir 1.40 metrar á hæð.

Vatnsleikjagarðurinn var líka á dagskrá hjá okkur. Mikið fjör, sérstaklega fyrir mig og Ísak Mána en Logi Snær var ekki alveg með aldur í alvöruna þótt hann hafi haft það fínt í krakkahlutanum. Við Ísak Máni gátum ekki farið án þess að fara í þessa stærstu, Kamikaze. Þegar við vorum komnir upp þá var ég: a) skíthræddur um að Ísak Máni myndi ekki þora og við þyrftum að labba niður allan stigann aftur eða b) ég myndi ekki þora og þyrfti að labba einn niður allan stigann. Veit ekki hversu vel myndin af græjunni sýnir alvarleika hennar en ég get þó sagt að þegar maður sat og leit niður þá sá maður ekki sjálfa rennibrautina því fyrstu andartökin voru nánast í frjálsu falli. Á leiðinni niður áttaði ég mig á því af hverju við áttum að vera með krosslagaðar fætur því þann hluta ferðarinnar sem ég var ekki þannig þá fóru sundbuxurnar alveg upp í heila. Við Ísak Máni tókum þrjár ferðir áður en yfir lauk og ógeðslega var það gaman.

Ekki hægt að sleppa því að tala um fótboltann en EM var vitaskuld í gangi þegar við vorum úti og Spánverjarnir fóru alla leið og kláruðu þessa keppni. Þá var sko ekki leiðinlegt að vera út á Spáni. Við fórum og horfðum á leikina meðal Spánverjanna og það var mikið fagnað á götum úti, þetta var alvöru. Ég gat líka haldið nánast óhindrað með Spánverjunum eftir að þeir slógu Ítalina mína út sem gátu svo sem ekkert í þessari keppni.

Annað sem var gert var frekar hefðbundið. Það var eitthvað farið á ströndina og svo var líka verið í sundi út í hótelgarðinum. Minigolf var stundað og almennt chill.

Niðurstaðan úr þessari sólarstandartilraun er sú að þetta var alveg að virka og ég væri til í að gera þetta aftur, ég væri meira að segja til í að fara á þennan stað aftur.

Fleiri myndir á myndasíðunni -HÉR-

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Kominn heim en nenni bara að tala um kökuna

Kominn heim frá Spáni. Nokkrar línur frá ferðinni koma hérna fljótlega og stefnan er meira að segja að dusta rykið af myndasíðunni, þ.e. ef ég man lykilorðið inn á hana enn.

Ísak Máni átti 9 ára afmæli þegar við vorum þarna úti en áður en við fórum var haldið smá fjölskylduboð og Sigga bakaði köku:


Hún lagðist misvel í gestina en bragið var allt í lagi held ég, ég sá a.m.k. ekkert slæmt við hana.

laugardagur, júní 14, 2008

Einfaldleiki karlmanna

Styttist í sólarlandaferðin. Ekki annað hægt en að yfirfara sundfatamál fjölskyldunnar. Það var farin frekar hefðbundin leið með drengina, Logi Snær fékk gamlar sundbuxur af Ísaki Mána og Ísak Máni fékk gamlar buxur af Jökli frænda. Þá var hinsvegar komið að okkur hjónaleysunum.

Sigga er búin að vera skoða þetta í einhvern tíma, hefur þrammað í hverja búðina á fætur annarri og mátaði víst ógrynni af þessháttar múnderingum í allskonar stærðum, tegundum, litasamsetningum og útfærslum. Markaðir, almennar íþróttavöruverslanir, sérverslanir með þónokkuð hátt þjónustustig og verðlagið eftir því, allt var skoðað. Endaði loksins með sett sem hún var sátt með og fimm stafa tala dregin af debetkortareikningnum.

En ég? Þrammaði inn í Intersport í dag og rakst á einhverja tilboðsslá af sundbuxum. Einn litur í boði, fann stærð L og hélt þeim upp að mér og fullvissaði mig um að þær myndu örugglega passa. Skundaði á afgreiðslukassann, 1.490 kr og málið dautt. Stundum er ósköp gott að vera einfaldur.

föstudagur, júní 06, 2008

Hef ég ekki verið hér áður?

Stundum er sagt að veröldin og það sem henni tengist fari í hringi. Þegar ég rifja upp viðskipti mín við internetþjónustufyrirtæki þá er ég á þeirri skoðun.

Ég byrjaði minn internetferil hjá Islandia þegar þeir voru með smáholustarfsemi á Grensásveginum. Það voru svo lítil viðskipti að ég gat fengið netfangið david@islandia.is án nokkurra vandkvæða. Þetta ágæta fyrirtæki varð síðan að Tal og hvítu umslögin með mánaðarlega yfirlitinu urðu appelsínugul. Næst urðu umslögin rauð og fyrirtækið var orðið Og Vodafone án þess að ég gerði nokkuð. Síðar varð Og Vodafone að Vodafone, minniháttar breyting miðað við það sem á undan gekk.

Þegar hér var komið við sögu ákvað ég að skipta sjálfur um fyrirtæki og gekk í raðir Hive. Það ágæta fyrirtæki sameinaðist einhverju öðru fyrirtæki og í kjölfarið fékk ég sms:

„Kæri viðskiptavinur. Hive hefur skipt um nafn og heitir nú Tal...“

Það er ekki öll vitleysan eins.

Bikarkeppnin

Til að hafa það á hreinu þá var ég ekki staddur í höfðustöðvum KSÍ þegar dregið var 32-liða úrslit í VISA bikarkeppninni. Við létum okkur nægja leikinn við Berserki, B-lið Víkings R. Mættum á Grundarfjarðarvöll, lentum 0:1 undir eftir 3 mínútur eða svo og það kom smá hnútur í magann á karlinum og rifjaði upp í huganum að einhver leikur fór 17:0 í sömu keppni deginum áður. Spýtum samt í og staðan í hálfleik 0:1. Gerðum hið óvænta, jöfnuðum leikinn um miðjan seinni hálfleik og maður sá Vodafonevöllinn í hillingum í næstu umferð. Okkur var þó kippt niður jafnsnöggt og við komust upp í skýin, tvö mörk í bakið á næstu mínútum og tvö í lokin þegar þolið var búið. 1:5 tap, fullstórt en maður gekk þokkalega sáttur af velli, smá svekktur samt.

Búið í ár...

...mögulega segjum við þetta bara gott.

föstudagur, maí 30, 2008

Stóri skjálftinn

Skjálftinn í gær sem hristi ærlega upp í íbúum Suðurlands fór ekkert fram hjá manni. Ég var staddur niðri í vinnu, á 3. hæð. Síminn minn hringdi, þjálfari karlaliðs Snæfells í knattspyrnu var á línunni. Þá fór jörðin að hristast.

miðvikudagur, maí 28, 2008

Síðustu dagar

Það er voðalega mikið búið að vera í gangi þessa síðustu daga. Svo mikið að maður hefur ekki náð að smella neinu hérna inn þótt það hafi í raun verið ástæður til þess. Best að súmma þessu bara upp:

Grundarfjörður mætti liði Snæfells í bikarkeppni KSÍ á laugardaginn síðasta, annað árið í röð. Eftir mikið fjör, umdeilda dóma og fjöldann allan af innáskiptingum töpuðum við 4:2. Ekki voru allir liðsmenn Grundarfjarðar sáttir við þetta allt saman sérstaklega í ljósi þess að heimamenn notuðu 5 innáskiptingar í leiknum, nokkuð sem er leyfilegt í 3ju deildinni en ólöglegt í bikarkeppninni þar sem hefðbundnir 3 innáskiptingar eru leyfðar. Eftir miklar umræður manna á milli síðustu daga, var tekin sú ákvörðun um að kæra leikinn til KSÍ, með tilheyrandi skýrslugerð. Ekki er komin niðurstaða úr því máli en ef Grundarfirði verður dæmt í hag þá er ljóst að bikarævintýrinu er ekki lokið þetta árið og næsti leikur næstkomandi þriðjudag í Grundarfirði. Það verður að koma í ljós.

Tveir skemmtilegir punktar við þennan blessaða leik annars. Í fyrsta lagi er formaður Ungmennafélags Grundarfjarðar, þeirra sem eru að kæra lið Snæfells, liðsmaður Snæfells! Þessi formaður missti reyndar af leiknum sökum þess að hann er staddur erlendis og heyrst hefur að hann sé mjög fegin því svo hann þurfi ekki að standa í þessari orrahríð. Reyndar var samdómaálit hlutaðeigenda að hann teljist vanhæfur með öllu og því annarra í stjórninni að skrifa undir kæruna. Hitt atriðið er að ef skýrsla leiksins er skoðuð, t.d. til að fá yfirsýn yfir allar skiptingarnar, sjá þeir sem til þekkja ákveðin tengsl annars þjálfarans og liðsmann í liði hans. Ég veit ekki hvort það telst viðeigandi þegar sannað þykir að þjálfari liðs og leikmaður í liðinu séu að deila rúmi. Það útskýrir kannski byrjunarliðssætið, veit ekki... Fyrir áhugasama má sjá skýrsluna HÉR

Til að toppa þennan furðulega leik þá labbaði ég nánast í flasið á Björk Guðmundsdóttir, söngkonu, við innganginn í íþróttamiðstöðina í Stykkishólmi. Hversu steikt er það?

Afmælisdagskvöldinu mínu eyddi ég s.s. í kærugerð, frábært alveg eða hitt þó heldur.

Að lokum ætla ég að leggja orð í belg um Júróvisíon keppnina um síðustu helgi. Tyrkneska lagið var langbesta lagið, klárt mál. Held að það hafi lent í 7. sæti.

föstudagur, maí 23, 2008

Rændur í sveitinni?

Borgaði mig inn á fyrsta fótboltaleik sumarsins í kvöld, Snæfell - Ýmir. Hefði eflaust misst andlitið en þar var búið að leka þessum upplýsingum í mig, þ.e. að það kostaði 500 kall inn á völlinn. Var nú búinn að taka mér sæti í stúkunni góðu í Stykkishólmi og leikurinn byrjaður þegar ofvirkur rukkari tók að ganga á „alla“ í stúkunni og rukkaði með miklum móð. Hótaði að henda kunningjum sínum út með það sama ef þeir borguðu ekki um hæl. Hann var meira að segja svo grimmur að hann hélt áfram að rukka þá sem slysuðust á völlinn langt fram í síðari hálfleik, fullt verð að sjálfsögðu.

Ef ekki hafði verið fyrir markasúpu þá hefði maður heimtað að fá endurgreitt en B-lið HK tók heimamenn nokkuð létt 1:6. Leikurinn fer þó í sögubækurnar sem upphaf 3. deildar ferils Tomma frænda en karlinn kom inná þegar mjög lítið var eftir og vitaskuld settur beint upp á topp. Náði þó ekki að setja mark sitt á leikinn enda takmörk hvað hægt er að gera á 3 mínútum.

Svo er stóri leikurinn á morgun en verst að Tommi er að fara til London og getur því ekki skorað fyrir Snæfell á móti Grundarfirði...

laugardagur, maí 17, 2008

Almenn stemming langt frá því að vera góð

Vorum sem sagt í Grundó um síðustu helgi. Á sunnudeginum þar var farinn að hellast yfir mig einhver skítur sem margfaldaðist á mánudeginum þegar farið var heim. Álpaðist í vinnuna á þriðjudeginum eins ómissandi starfsmaður og ég er en náði ekki að klára daginn. Lá heima í eymd og volæði á miðvikudag og fimmtudag en tók þá ákvörðun um að ég væri orðinn nógu hress til að skella mér í vinnuna. Var þokkalegur en fann samt að ég gekk ekki á öllum hreyflum.

Núna er árstími rollurassa hjá konunni þannig að hin heilaga karlpeningaþrenning fjölskyldunnar sá um að gæta heimilisins þessa helgina. Logi Snær var þokkalegur í morgun en fór fljótlega að dala þegar nær dró hádegi. Þegar hann lá bara fyrir ákvað ég að taka vísindalega út hitastigið á honum sem kom í ljós að var ekki gott. Ástandið batnaði ekki þegar Cocoa Puffsið frá því í morgun kom aftur sömu leið og það hafði farið inn. Það var því ljóst að sjálfur formaður húsfélagsins var að fara skrópa á hinum árlega hreinsunardegi og gefa þar með skít í sótsvartan almúgann. Ísak Máni var sendur út sem fulltrúi íbúðarinnar og stóð sig eins og hetja.

Logi Snær er núna búinn að sofa síðan klukkan 17 í dag og ég bíð „spenntur“ eftir að sjá hvort hann vaknar kl. 04:30 eða eitthvað álíka, reiðubúinn að fara á fætur. Reyndar er spurning hvort maður gerir nokkuð annað en að sofa þegar líkamshitinn er kominn upp í 39,5? Nema að hitalækkandi dótið fari að kikka inn. Vonum það besta. Og ef allt færi á allra besta veg þá er kannski spurning hvort ég fari líka að ná 100% heilsu...

sunnudagur, maí 11, 2008

Hliðarframkvæmdir á heimilinu

Ég hef ekki yfir miklu að hrósa mér yfir þessa síðustu daga og hef því ákveðið að tala um framkvæmdargleðina hjá konunni. Ekki var verið að tækla mál sem hafa verið lengi á listanum eins og að mála ganginn hjá okkur, leysa speglavandamálið í forstofunni eftir að hluti af þeim brotnuðu o.s.frv. Það er nefnilega þannig að oft þegar þau verkefni sem fyrir liggja er ekki nógu spennandi þá eru einfaldlega búin til ný verkefni sem talin eru meira spennandi.

Nú var farið í það að skreyta aðeins svefnherbergi strákanna með tilheyrandi handavinnu, nokkuð sem sumum á þessu heimili finnst ekki leiðinlegt. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá voru stafirnir á veggnum gerðir áður en Ísak Máni kom í heiminn en núna var ákveðið að poppa þetta aðeins upp.Ekki á að láta staðar numið hér heldur er búið að leggja drög að næsta verki.

Tveir góðir

föstudagur, maí 09, 2008

Á ýmsu átti maður von en...

Í gær var þvílík blíða að annað eins hefur ekki sést síðan síðasta sumar. Þess vegna var maður hálffúll yfir því að spáð var rigningu yfir þessa hvítasunnuhelgi þegar maður var á leiðinni til Grundó til að leika sér í góðu yfirlæti. Á leiðinni hingað vestur gerði maður sér grein fyrir að vandamálið var ekki í rigningarformi.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Kominn heim, ef einhver tók eftir því að ég var ekki hérna

Tók stuttan túr til London í síðustu viku í smá vinnufélagahóp. Farið var út seinnipart miðvikudags og komið heim núna á sunnudaginn. Fyrri hlutinn var vinnuferð, eyddum fimmtudeginum og föstudeginum í heimsóknum hjá birgjum okkar, annars vegar UB og hins vegar Heinz. Helv... magnað að þeir eru staðsettir við hliðina á hvor öðrum þannig að þegar við vorum búnir hjá UB þá var einfaldlega rölt yfir götuna yfir til Heinz. Svo var tekið góður rúntur í verslanir (matvöruverslanir, ekki fataverslanir), ASDA, Tesco, Sainsbury, Lidl, Iceland og hvað þetta heitir allt saman. Skemmtilegur túr og eitthvað situr vonandi eftir á harða disknum.

Seinnipart föstudags færðum við okkur yfir á Chelsea hótelið og gistum þar í tvær nætur. Fórum út að borða á geðveikan indverskan stað, það var alveg í lagi. Rifum okkur upp snemma á laugardagsmorgninum og héldum yfir til Reading en þar var stefna sett á Madjeski stadium til að sjá Reading mæta Tottenham. Flottur völlur, alls ekki stór en flottur. Svipað dæmi og á Stamford Bridge, hótel sambyggt við sjálfan völlinn. Vorum mættir tímanlega til að sjá hádegisleikinn, Man Utd - West Ham, í sjónvarpinu. Öruggur 4:1 sigur minna manna en ég gleymdi svolítið stað og stund þarna. Þéttsetinn salur af fólki á öllum aldri þarna og annar hver maður í Reading treyju. Að búningunum undanskildum þá hefði ég alveg eins geta verið á Ölveri eða öðrum sambærilegum sportbar og þegar United komst í 1:0 hoppaði ég upp úr sætinum og gargaði: „YES“. Ég áttaði mig hins vegar á stað og stund þegar ég gerði mér grein fyrir að ég var sá eini sem sýndi þessi viðbrögð. Viðbrögð annarra við þessum viðbrögðum mínum voru þó ekki harkaleg sem heitið getur en einn samferðarmaður minn hallaði sér að mér og hvíslaði: „Ég ætla bara að minna þig á að við erum staddir í Reading.“ Brynjar Björn leikmaður Reading sem var reyndar ekki í hópnum vegna meiðsla kom á svæðið með miðana okkar en hann hefur náin tengsl við sölustjórann hjá okkur. Það vakti smá athygli en samt ekki eins mikla og ég hefði kannski haldið, nánari skýringar á því hérna á eftir. Seinna tók mig tali maður á karlaklósettinu og spurði hvort ég væri ekki United aðdáandinn sem þekkti Brynar Björn þannig að maður var orðinn heimsfrægur í Reading...

Leikurinn sjálfur var nú ekkert spes en maður skemmti sér samt mjög vel og alltaf gaman að fara á völlinn í Bretlandi. Heimamenn töpuðu 0:1 og eru í bullandi fallbaráttu fyrir síðustu umferðina um næstu helgi. Eftir leikinn röltum við aðeins þarna um svæðið og það kom nú í ljós að þetta var náttúrulega hálfgerður „sveitaklúbbur.“ Leikmennirnir gengu nú frekar óáreittir þarna um, einn og einn sem bað um eiginhaldaráritun og einstaka ljósmyndir teknar en heilt yfir var þetta frekar heimilislegt. Maður var bara ekki nógu mikið lesinn yfir þessu Reading liði til að þekkja þessa leikmenn og vorum við ósparir að spyrja næsta mann hver þessi og hinn var. Alveg eins og asnar... Fyrir áhugasama má nefna leikmenn eins og Kevin Doyle, James Harper, Stephen Hunt, Michael Duberry, Shane Long sem voru að spóka sig þarna í góðum gír með bindishnútana á hreinu. Annars lítið um að vera í Reading þannig að við komum okkur aftur til London, á Piccadilly Circus og smelltum okkur á Fridays. Á meðan við biðum eftir borði fór fram minn eini „verslunarleiðangur“ í ferðinni, náði að henda mér inn í Lillywhite´s og versla sinn hvorn Roma bolinn á drengina en því miður náði ég ekki að taka almennilegan rúnt þarna. Ég elska nefnilega svona risaíþróttabúðir! Rifin á Fridays voru alveg í lagi.

Hádegisvélin heim á sunnudeginum, fínt að koma heim svona um miðjan dag frekar en að vera í einhverju tómu rugli fram eftir nóttu. Sigga og Ísak Máni komu að sækja mig en Logi Snær var hjá ömmu sinni í Mosó. Á leiðinni heim enduðum við á ÍR vellinum en ÍR var að spila við Hvöt, úrslitaleikur í einhverjum Framrúðubikar, Lengjubikar B held ég að hann heiti. Komum beint í framlenginguna og sáum ÍR komast yfir. Leikurinn var að fjara út þegar allt varð vitlaust á vellinum, spilandi þjálfari Hvatar straujaði einn ÍR-inginn út við hornfána og fékk kröftugt stjak fyrir. Hann ákvað að svara því stjaki með velútilátandi hægrihandarkrók svo glumdi í. Orðbragðið sem fylgdi í kjölfarið verða ekki höfð eftir hérna. Allt gerðist þetta tæpum 3 metrum frá okkur og Ísak Máni fékk því sýnikennslu í því hvernig fullorðnir karlmenn hegða sér þegar illa gengur.

Íþróttir = forvarnir?