þriðjudagur, ágúst 28, 2007

2OLEGEND

Mikill snillingur lagði skóna á hilluna í dag en ekkert hægt að segja við því í sjálfu sér, erfið meiðslasaga og lítið annað fyrir hinn 34 gamla framherja en að láta gott heita. Er núna óendanlega þakklátur fyrir að hafa séð kappann setja tvö mörk í leik á móti Newcastle í október í fyrra. Man líka eftir því þegar ég fór á Man Utd - Portsmouth í febrúar 2005 þá kom kappinn, sem þá var meiddur, út á völlinn í hálfleik til að draga í einhverju happdrætti og ég vissi ekki hvert mannskapurinn ætlaði. Hefði verið þak á kofanum þá hefði það rifnað af. En vitaskuld verður hans alltaf minnst fyrir sigurmarkið í meistaradeildinni 1999, þetta framkallar gæsahúð í hvert einasta skipti.

„...and Solskjaer has won it!"


laugardagur, ágúst 25, 2007

Draumurinn sem brást...í bili

Þrátt fyrir meiðslavælið hérna um daginn þá fjárfesti ég nýverið í nýjum gervigrasskóm. Var alveg staðráðinn í að versla mér Adidas Mundial, draumaskórnir en kosta fúlgur fjár. Mér var alveg sama, ég var staðráðinn í að eignast svona skó einhvern tímann á ferlinum og ferillinn styttist með hverju árinu. Skellti mér í Jóa Útherja með opinn huga og opið veski. Mér til mikillar hrellingar þá fengust ekki svona skór hjá þeim, þ.e. gervigrasskóútfærslan. Ástæðan fyrir því var sú að Nike er kominn með svipaða útfærslu sem hefur tvennt framyfir Mundial, kostar talsvert minna og er með loftpúða í hælnum. Lítið í stöðunni fyrir mig annað en að máta Nikearana sem reyndust vera alveg ljómandi fínir og tók ég þá ákvörðun um að versla þá.

Fínir skór þessir Nike skór en af einhverjum ástæðum get ég ekki hætt að hugsa um Adidasarana sem ég var búinn að ákveða að kaupa mér. Ég er því búinn að taka þá ákvörðun að versla svona Adidas skó við fyrsta tækifæri (líklega þegar ég fer næst til útlanda) sama hvað tautar og raular. Ég verð að eignast svona skó a.m.k. einu sinni.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Það sem hefur verið að gerast

Úff, held að þessi bloggframmistaða í ágúst sé með þeim daprari eftir að skriftir hófust. Af einhverjum ástæðum hefur andleysið verið algjört enda nóg annað um að hugsa, úff.

Ísak Máni er búinn að taka þátt í tveimur fótboltamótum sl helgar, fyrst fórum við til Fjölnis og tókum þátt í einhverju verst skipulagða móti sem maður hefur lent á. Til að mynda lenti Ísak Máni og félagar í því að þurfa að spila á stór mörk, eitthvað sem þeir hafa aldrei gert áður og m.a. var Ísak Máni í marki í einum leik á þvílík mörk. Fékk vitaskuld eitthvað af mörkum á sig og var ekki sáttur en ekkert sem ekki var hægt að lækna, „það voru bara svona stór mörk þegar pabbi þinn var lítill“.

Ísak Máni í markinu stóra

Logi var vitaskuld á svæðinu en fannst mikið til lukkudýrs þeirra Fjölnismanna og elti hann á röndum og fékk svo langþráð knús.

Logi Snær, þessi vinstra megin

Svo var haldið á heimavöllinn næstu helgina á eftir, þ.e. síðustu helgi, þegar við héldum okkar vinamót með þátttöku HK, Vals, Aftureldingar og ÍR vitaskuld. Það mót var hins vegar alveg tilfyrirmyndar og skipulagning eins og best verður á kosið, hlutlaust mat. Nú styttist í að eldri drengurinn færist upp í 6. flokk, stundum líður þetta fullhratt allt saman.

Svo hefur maður verið á fullu í „hinni vinnunni“, á vegum húsfélagsins, þetta er ekkert svakalega skemmtilegt þegar stefnir í framkvæmdir og manni verður fljótlega ljóst að þú gerir aldrei alla íbúa 48 íbúða sátta. Svo þegar maður ætti að vera leggja nokkra þúsund kalla til hliðar til að eiga þegar framkvæmdarkostnaður kemur í hausinn á manni þá er maður bara í húsgagnakaupum eins og maður skíti seðlum. Horfi á í þessum pikkuðu orðum á gömul húsgögn sem búið er að tæta niður í öreindir hérna inni á stofugólfinu og bíða þess að enda sitt líf á Sorpu. Sem er eitt verkefni helgarinnar, gott að það er komin helgi.

Að lokum þurfti maður að eyða klukkutíma í dag að skrifa undir allskonar pappíra fyrir íbúðakaup hjá Villa og Gullu. Það er búin að vera ein allsherjar sápan, loksins að menn drulluðust til að ganga frá þessum pappírum enda bara vika í að þau eigi að fá íbúðina afhenta. Skrifaði nafnið mitt örugglega 17 sinnum og var orðinn alveg ónæmur fyrir millifærslu á 4 milljónum sem fór yfir á þennan reikning, 5 millur sem fóru eitthvað annað, 6 millur í næstu viku, stimpilgjald, þjónustu- og umsýslugjald...

Já, meðan ég man Villi, þú ert orðinn stoltur eigandi 15 ára gamallar uppþvottavélar með biluðu sápuloki sem virkar að öðru leyti nokkuð vel. Þetta hefur þú upp úr því að senda alvöru menn að samningaborði fyrir þig.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Samverustund feðganna

Rosalega er ég slakur í tölvuleikjum. Reyndar tel ég mig vera nokkuð öflugan í Tetris en það telst varla með. Þessi staðreynd um vanhæfi mína í þessum málum er eitthvað sem ég vissi svo sem en fékk enn eina staðfestinguna á þessu núna um daginn. Ísak Máni spilar helst fótboltaleikinn FIFA07 í Playstation2 og platar mig stundum til að fara í leik. Ég tapa nánast alltaf, skíttapa. Nú er svo komið að til að jafna leikinn þá þarf ég að velja topplið en hann velur eitthvað lélegt. T.a.m. þá vann ég hann um daginn með naumindum í æsispennandi leik 5:4, ég var Barcelona en hann hið geysiskemmtilega lið Accrington Stanley sem spilar í D-deildinni í Englandi, segir allt sem segja þarf.

Svo náði þetta algjörum botni þegar við tókum annan leik daginn eftir og eitthvað byrjaði ég illa, missti mann útaf, lenti undir og fór að verða pirraður. Þegar ég verð pirraður þá renna allir takkarnir í eitt, man ekki hvað x-ið gerir og man ekki hvar o-ið er og vill bara helst tækla mann og annan sem er ekki vænlegt til árangurs. Reyndi samt að halda haus, maður er jú uppalandi. Gekk illa að halda haus og sonurinn skynjaði að leikurinn var ekki að taka góða stefnu, eflaust enn í fersku minni þegar hann flengdi karlinn 4:0 og karlinn varð sár. Hann fór að verða grunsamlega kærulaus með öftustu vörnina, m.a. gaf markvörðurinn hans boltann „óvart“ beint á sóknarmenn mína og smátt og smátt náði karl faðir hans að jafna og tryggði sér að lokum sigur. Hann var grunsamlega sáttur við að tapa en sigurinn var beiskur fyrir karlinn. Enda stóðu menn upp frá tölvunni og ræddu þetta ekki frekar.

Spurning um að fara bara í SingStar eða eitthvað.

Nýjasti frændinnDrengur Elíasson f:07.08.2007
Foreldrar: Jóhanna Þorvarðardóttir og Elías Guðmundsson, Suðureyri
nr: 28
Þyngd: 3540 gr
Lengd: 48 cm
Ljósmóðir: Ásthildur Gestsdóttir

mánudagur, ágúst 06, 2007

Af því að sumir elska „before and after“ myndir

Sumir fara í útileigu þessa helgina, við keyptum nýjan sófa.

Before:


After:

föstudagur, ágúst 03, 2007

Formaðurinn í feluleik

Karlinn er búinn að vera á fullu þessa vikuna á nokkrum vígstöðum. Hef farið mikinn í hlutverki formanns húsfélagsins enda framkvæmdir á næsta leyti. Ljóst er að grafa þarf garðinn í spað og mun það hafa í för með sér óþægindi fyrir íbúa blokkarinnar á meðan því stendur, að ekki sé minnst á pallanna sem hafa risið upp við margar íbúðir jarðhæðarinnar og eru á mjög gráu svæði hvað öll leyfi og reglugerðir áhræri. Menn eru oft snöggir upp á afturlappirnar þegar farið verður að ræða um kostnað. Þetta kemur til með þýða talsvert af fundarhöldum hjá undirrituðum á næstu vikum og mánuðum.

Svo hefur maður verið í því að skoða íbúðir fyrir Namibíugengið. Hálffurðulegt að vera að skoða fjarfestingar upp á tæpar 30 millur fyrir annað fólk og skila svo skýrslum um hvern kofann á fætur öðrum. Eftir brölt um borgina þvera og endilanga þá fékk „betri“ helmingurinn hjá íbúðakaupendunum sínu framgengt og Breiðholtið er næsti viðkomustaður heimshornaflakkarana. Eins og það var furðulegt að skoða íbúðir fyrir annað fólk þá var það líka ákveðin forvitnissvölun og svo fer þetta allt í reynslubankann. Ein íbúðin sem ég kíkti á var vestur í bæ og sú reynsla styrkti grun minn í því sem ég talaði einhvern tímann um ekki alls fyrir löngu. Ég mun ALDREI geta búið í KR-hverfinu. Aldrei aftur þ.e.a.s. Hjólandi börn í KR-göllum og KR-peysur hangandi í forstofunni, þetta var of mikið fyrir mig. Í nánast yfirliði og ofandandi eins og kona með 10 í útvíkkun reyndi ég að staulast í gegnum þessa skoðun með opnum hug. Sem betur fer hentaði þessi íbúð ekki Hr. og frú Namibíu. Í alvöru.

Annars reyndi maður að vera ekkert að flagga öllum þessum söluyfirlitum sem maður hefur haft í rassvasanum síðstliðnu viku. Veit ekki hvernig það liti út að formaður húsfélagsins sem væri að boða bullandi framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði væri svo að spóka sig í hverfinu skoðandi íbúðir. Lítur ekki nógu vel út. Gat samt ekki setið á mér og tilkynnti öðrum meðlimi í stjórninni, ofan í umræður um lögfræðiálit varðandi pallaeignir, að ég væri að skoða íbúðir. Sá meðlimur hefði líklega hjólað í mig ef þetta samtal hefði ekki átt sér stað í gegnum síma, ég var nú reyndar fljótur að leiðrétta misskilninginn.

Ógeðslega fyndinn gaur!