laugardagur, júní 14, 2008

Einfaldleiki karlmanna

Styttist í sólarlandaferðin. Ekki annað hægt en að yfirfara sundfatamál fjölskyldunnar. Það var farin frekar hefðbundin leið með drengina, Logi Snær fékk gamlar sundbuxur af Ísaki Mána og Ísak Máni fékk gamlar buxur af Jökli frænda. Þá var hinsvegar komið að okkur hjónaleysunum.

Sigga er búin að vera skoða þetta í einhvern tíma, hefur þrammað í hverja búðina á fætur annarri og mátaði víst ógrynni af þessháttar múnderingum í allskonar stærðum, tegundum, litasamsetningum og útfærslum. Markaðir, almennar íþróttavöruverslanir, sérverslanir með þónokkuð hátt þjónustustig og verðlagið eftir því, allt var skoðað. Endaði loksins með sett sem hún var sátt með og fimm stafa tala dregin af debetkortareikningnum.

En ég? Þrammaði inn í Intersport í dag og rakst á einhverja tilboðsslá af sundbuxum. Einn litur í boði, fann stærð L og hélt þeim upp að mér og fullvissaði mig um að þær myndu örugglega passa. Skundaði á afgreiðslukassann, 1.490 kr og málið dautt. Stundum er ósköp gott að vera einfaldur.

föstudagur, júní 06, 2008

Hef ég ekki verið hér áður?

Stundum er sagt að veröldin og það sem henni tengist fari í hringi. Þegar ég rifja upp viðskipti mín við internetþjónustufyrirtæki þá er ég á þeirri skoðun.

Ég byrjaði minn internetferil hjá Islandia þegar þeir voru með smáholustarfsemi á Grensásveginum. Það voru svo lítil viðskipti að ég gat fengið netfangið david@islandia.is án nokkurra vandkvæða. Þetta ágæta fyrirtæki varð síðan að Tal og hvítu umslögin með mánaðarlega yfirlitinu urðu appelsínugul. Næst urðu umslögin rauð og fyrirtækið var orðið Og Vodafone án þess að ég gerði nokkuð. Síðar varð Og Vodafone að Vodafone, minniháttar breyting miðað við það sem á undan gekk.

Þegar hér var komið við sögu ákvað ég að skipta sjálfur um fyrirtæki og gekk í raðir Hive. Það ágæta fyrirtæki sameinaðist einhverju öðru fyrirtæki og í kjölfarið fékk ég sms:

„Kæri viðskiptavinur. Hive hefur skipt um nafn og heitir nú Tal...“

Það er ekki öll vitleysan eins.

Bikarkeppnin

Til að hafa það á hreinu þá var ég ekki staddur í höfðustöðvum KSÍ þegar dregið var 32-liða úrslit í VISA bikarkeppninni. Við létum okkur nægja leikinn við Berserki, B-lið Víkings R. Mættum á Grundarfjarðarvöll, lentum 0:1 undir eftir 3 mínútur eða svo og það kom smá hnútur í magann á karlinum og rifjaði upp í huganum að einhver leikur fór 17:0 í sömu keppni deginum áður. Spýtum samt í og staðan í hálfleik 0:1. Gerðum hið óvænta, jöfnuðum leikinn um miðjan seinni hálfleik og maður sá Vodafonevöllinn í hillingum í næstu umferð. Okkur var þó kippt niður jafnsnöggt og við komust upp í skýin, tvö mörk í bakið á næstu mínútum og tvö í lokin þegar þolið var búið. 1:5 tap, fullstórt en maður gekk þokkalega sáttur af velli, smá svekktur samt.

Búið í ár...

...mögulega segjum við þetta bara gott.