þriðjudagur, desember 27, 2016

Endalok prinsessunnar

Eins skrítið og það er, þá fer maður að tengja jólin við að fara á nýja Star Wars mynd.  Í fyrra var það The Force Awakens og fór maður þá með alla strákana og núna í ár var það Rogue One.  Sami hópur nema að Markús vinur hans Daða kom með.  Líklega gæti þetta orðið hefð næstu árin skilst mér þar sem Disney á núna réttinn af þessu og getur dælt út sögum næstu jól.  Skemmtileg hefð á meðan myndirnar eru skemmtilegar.

Varla hægt að frétta á meiri viðeigandi hátt um andlát Carrie Fisher heldur en á ganginum á leiðinni út úr bíóinu en hin unga Leia var tölvumixuð inn í lokaatriði myndarinnar.  RIP.


sunnudagur, október 09, 2016

Með celeb á bakinu

Skellti mér á landsleik í fótbolta þar sem Ísland og Finnland voru að spila í undankeppni HM.  3:2 sigur hafðist með ævintýralegum lokamínútum þar sem Ísland skoraði hálfvafasamt mark í blálokin en við tökum því.  Ég fór með Loga og Daði + Theó, vinur hans Loga komst með þar sem Ísak gat ekki mætt.
Allavega, ég veitti nú ekki mikilli athygli parinu fyrir aftan mig sem talað ensku og var greinilega í semi-túristagír.  Áttaði mig ekki á því fyrr en ég sá Fréttablaðið að þarna var kominn enski lögregluþjónninn sem var stunginn eftir leik Íslands og Frakklands á EM og talsvert var fjallað um á miðlunum hérna heima.  Svo mikið að það var safnað fyrir hann ferð til landsins og honum m.a. reddað miðum á þennan leik ásamt einhverjum hefðbundnari túristaviðburðum.  Maður hefði kannski hent í eina mynd með kappanum og frú ef maður hefði bara vitað.

Fréttin í Fréttablaðinu

Theó, Logi og Daði náðust á mynd hjá fulltrúa KSÍ

föstudagur, ágúst 19, 2016

Norðurá - Wíum 3:0

Í þriðja skiptið hélt ég í Norðuránna til laxveiða en ég hafði farið 2011 og svo aftur 2013.  Hvað er hægt að segja, enn var lítil sem engin veiði og ekki veiddi ég neitt, þriðja skiptið í röð.  Eitthvað sá maður af fiski stökkva en lítil stemming var hjá þeim að bíta á.
Þetta er ekki alveg að heilla mann, enn hef ég ekki stokkið út í búð og græjað mig frá toppi til táar og hellt mér út í fluguhnýtingapælingar.  Mögulega er eitthvað að hafa áhrif að þessi skipti eru þau einu sem ég hef verið í því að kasta flugu, og í sannleika sagt er ég alveg guðdómlega lélegur í því.

Spurning hvort allt er þá þrennt er?

miðvikudagur, júlí 27, 2016

Á góðri stund í Grundarfirði 2016

Enn vorum við mætt í fjörðinn fagra á þennan viðburð þeirra Grundfirðinga, um nýafstaðna helgi.  Eins og í fyrra vorum við Ísaks Mána-laus, aftur var hann að vinna í Hagkaup þessa helgina.  Við mættum á föstudeginum, í tíma fyrir froðugamanið.  Mamma á nýja staðnum, nú í bláa hverfinu, en ekki mjög mikið lengri spotti í franska garðinn.  Froðan var nú eitthvað öðruvísi en áður, freyddi ekki eins mikið eins og undanfarin ár.  Annars var Logi Snær hálfónýtur, hafði fengið einhvern hálsríg og var allur stífur og skakkur.  Ingó Veðurguð með brekkusöng á kirkjutúninu svo um kvöldið.
Á laugardeginum vorum við svo á leiðinni niður á höfn til að kíkja á skemmtunina þegar Daði Steinn, sem var aðeins á undan okkur, dettur fram fyrir sig og tekst að fá þetta myndarlega sár á milli efri vararinnar og nefsins.  Fossblæðir og krakkinn fær algert kast.  Við hlaupum aftur heim með hann og ég bjallaði í Tomma sem græjaði það að starfandi hjúkka á staðnum hitti okkur niður í heilsugæslunni.  Ekki þurfti að sauma en það þetta var límt saman og drengnum tókst að æla yfir löppina á lækninum sem var þarna líka, reyndar út af öðru máli.  Hann fór bara aftur heim til ömmu sinnar með mömmu sinni en ég og Logi tókum röltið áfram niður á höfn.  Ekki fyrst skipti sem við heimsækjum heilsugæsluna á þessari hátíð, Logi flaug á hausinn hérna um árið við íþróttahúsið og þá þurfti að moka einhverjum steinum úr enninu á honum.  Við náðum þó öll að fara
í skrúðgönguna um kvöldið en núna í fyrsta sinn fórum við með þeim bláu.  Það var rosalega skrítið.
Svo dóluðum við okkur heim á sunnudeginum, létum okkur nægja að gjóa augunum á Eldborg þetta árið.

Bræðurnir í froðunni
Tekinn snúningur á þessu

Búið að líma kallinn saman

Bláir í ár - annar skakkur og hinn tjónaður

mánudagur, júní 13, 2016

Skagamótið 2016

Í fimmta sinn hélt maður upp á Akranes með barn í 7. flokki á fótboltamót.  Ísak Máni fór þrisvar sinnum, Logi Snær einu sinni og nú var Daði Steinn að fara í fyrsta sinn.  Núna heitir þetta Norðurálsmótið og hefur víst gert í einhvern tíma.  Mótið sjálft hefur breyst talsvert síðan maður mætti þarna með Ísak 5 ára, stækkað mikið og er keyrt öðruvísi í gegn.  Núna er styttra á milli leikja yfir daginn en á móti skapast stærra tómarúm yfir daginn sem þarf að brúa með einhverjum hætti.  Til að mynda vorum við feðgar mættir á föstudagsmorguninn fyrir klukkan 10:00 til að ná skrúðgöngunni kl 11:00.  Liðið hans Daða átti svo að mæta í liðsmyndatöku kl 14:30 en fyrsti leikur var ekki fyrr en 16:30.  Þannig að augljóslega var maður orðinn frekar þreyttur á hangsinu þegar loksins var flautað til leiks.  Þessi útfærsla gerir það frekar að verkum að liðið splittaðist upp í þessum löngu eyðum þannig að þetta var ekki alveg eins mikil liðssamvera eins og hérna áður.

Allavega, ég tók föstudaginn með Daða og planið var að hann myndi sofa með liðinu en ég myndi keyra heim um kvöldið.  Það gekk ótrúlega vel enda drengurinn algjör nagli.  Við Sigga ásamt Loga tókum svo laugardaginn snemma og vorum mætt upp á Skaga eldsnemma til að ná Daða nánast í bólinu sem tókst alveg innan skekkjumarka.  Leikjadagskránni hjá honum á laugardeginum var svo lokið um hádegisbilið og því hentum við okkur strákarnir með liðinu hans í sund.  Sundferðir á svona mótum eru alltaf þannig að maður verður bara að vera gíraður í svona, allir skápar fullir, biðröð í sturturnar o.s.frv. en það er ekkert annað en að láta sig hafa það.  Eftir smá hoppukastalachill fór hluti af liðinu hans Daða í fótbolta á Langasandi.  Á þessum tímapunti var tekin sú ákvörðun um að ég fari heim með Loga en Sigga tæklaði kvöldmatinn og kvöldvökuna með Daða.  Ég keyrði svo aftur upp á Skaga um kvöldið þegar Sigga var búin að koma Daði í bælið og að hann væri sofnaður.  Aftur tókum við svo daginn snemma á sunnudagsmorgninum, bara ég og Sigga þó, vorum mætt um kl 8 leytið og Daði nývaknaður.  Þeir áttu svo tvo síðustu leikina um hádegisbilið og dagskránni bara lokið eftir það enda búið að leggja af hefðbundna verðlaunaafhendingu, sem reyndar er ákveðinn kostur.

En svona af knattspyrnulegum málum þessa helgina þá gekk þetta svona la-la.  Þeir voru settir inn sem B-lið en liðið hans Daða samanstóð aðallega af yngra árs drengjum þannig að maður bjóst alltaf við að þetta yrði smá brekka.  Í það heila unnu þeir einn leik, gerðu 3 jafntefli og töpuðum 5.  En stemmingin var samt alveg fín, Daði skoraði tvö mörk, tók einn leik í marki og var heilt yfir mjög flottur. 

Annað var nokkuð gott bara, veðrið á föstudeginum var það sem ég kallaði stanslausan úða, frekar sérstakt.  Það gerði það að verkum að það var frekar blautt yfir öllu en menn voru samt ekkert holdvotir.  Laugardagurinn og sunnudagurinn voru bara fínir, smá rok á laugardeginum og svo var blautt yfir á sunnudeginum en ekkert sem maður kvartar yfir.  Hef lent í talsvert verri málum en þetta. 

Ef allt fer sem horfir þá mun sjötta og síðasta mótið hvað börnin okkar varðar næsta sumar.  Allt líður þetta áfram á ógnarhraða.þriðjudagur, júní 07, 2016

Ísland - Liechtenstein 4:0

Uppgangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur verið ótrúlegur undanfarin ár.  Töpuðum í umspili við Króatíu um sæti á HM í Brasilíu 2014 og náðu svo á tryggja sig inn á stórmót í fyrsta sinn núna á EM í Frakklandi 2016, þrátt fyrir að vera m.a. í riðli með Tékklandi, Tyrklandi og Hollandi. 

Þegar vel gengur þá fylgir stemmingin með og þá vilja allir vera með.  Og í þessu tilfelli þýddi það að ná sér í miða á heimaleiki með liðinu í undankeppninni, á 10.000 manna Laugardalsvöll, var enginn hægðarleikur.  Ég reyndi aðeins en þúsundir manna virtust bíða spenntir fyrir framan tölvurnar þegar opnað var á miðasölu og gildi þá einu hvort það var verið að spila við Holland eða Kasakstan, alltaf fékk maður bara computer-says-no.  Staðan var einfaldlega sú að t.d. hafði Daði Steinn aldrei, þegar hér var komið við sögu og orðinn 7 ára, farið á landsleik í fótbolta. 


Það var því stokkið til þegar KSÍ henti í einn æfingaleik á heimavelli, síðasti leikur fyrir EM, á móti Liechtenstein.  20.000 kall var slengt fram fyrir 5 miða fyrir alla fjölskylduna á besta stað í stúkunni til að sjá landsliðið í æfingaleik þar sem fyrirfram var vitað að ekki nokkur heilvita leikmaður myndi fórna sér í svo mikið sem eina tæklingu og að andstæðingurinn gat ekki blautan.

En veðrið var yndislegt, 4 mörk voru skoruð, Eiður Smári skoraði í mögulega sínum síðast landsleik á heimavelli og allir leikmenn komu heilir úr þessu.  Nú mátti EM fara að byrja.

mánudagur, maí 30, 2016

Úrvalsbúðir KKÍ 2016

Aftur fékk Logi Snær boð um að taka þátt í úrvalsbúðum KKÍ, þar sem efnilegum drengjum og stúlkum er boðið að mæta tvær helgar í æfingabúðir undir handleiðslu þjálfara á vegum KKÍ.
Nokkrir strákar úr ÍR sem fengu boðið og þ.a.l. Aron Orri og því þótti við hæfi að endurtaka myndatökuna frá því í fyrra sem sjá má -HÉR-.

Aron Orri og Logi Snær

Svo var nú ekki leiðinlegt að fá að hitta menn eins og Kára Jónsson og Martin Hermannsson, og náðist að henda í eina mynd með Martin.

Logi Snær og Martin Hermannsson

þriðjudagur, maí 03, 2016

Scania Cup 2016

Annað árið í röð eyddi ég páskunum í Svíþjóð.  Annað árið í röð var Ísaki Mána og félögum boðið að taka þátt í hinu óopinbera Norðurlandamóti yngri flokka í körfubolta, Scania Cup.  Ferðin í fyrra var talsvert ævintýri sem einkenndist m.a. talsverðum meiðslum og svo aðallega veikindum með ÍR-inganna, nánar má lesa um það -HÉR-.  Talsvert breytt plan þetta árið, ákveðið var að taka hótelgistingu með liðið og þeir foreldrar sem fóru með voru á sama hótelinu.  Nýr þjálfari frá því í fyrra, Herbert Arnarson var hættur með þá en Borche Ilievski, sem þjálfaði m.a. líka meistaraflokkinn var með þá núna en Sveinbjörn Claessen kom aftur með sem aðstoðarþjálfari.  Þessi ferð varð að hálfgerðri gulrót fyrir Ísak Mána, stefnan var sett á það að hann væri orðið leikfær fyrir þessa ferð þótt ljóst yrði að hann væri ekki kominn í 100% leikæfingu.  Sem varð raunin, hann var byrjaður að æfa á fullu og búinn að taka þátt í 3-4 leikjum á Íslandsmótinu fyrir þessa ferð.  Ég ákvað að taka Loga Snæ með mér og leyfa honum að sjá þetta, ásamt því að hann langaði mikið til að fara og versla sér föt og körfuboltaskó.  Sigga ákvað að taka páskana bara heima með Daða Steini.

Flogið var út á fimmtudagsmorgni til Stokkhólms.  Þaðan var tekin rúta til Södertälje og menn tékkuðu sig inn á hótelið.  Liðið átti einn leik á föstudeginum þannig að það var ákveðið að skella sér aftur inn í Stokkhólm í smá verslunarferð.  Þar náðu einhverjir að græja fyrir sig körfuboltaskó ásamt því að menn náðu að kíkja í Footlocker, H&M o.s.frv.  Maður gat nú ekki annað en brosað út í annað, ég held að það hefði ekki verið meira "vesen" ef við hefðum verið að ferðast með kvennalið, menn voru varla lentir fyrr en talið barst að skó- og fatakaupum.  Menn voru hálflúnir þegar skriðið var inn á hótel um kvöldið.Alvaran byrjaði á föstudeginum.  Einn leikur, á móti sænska liðinu Östersund Basket.  1999 árgangurinn var frekar fámennur liðalega séð en bara 7 lið tóku þátt þetta árið sem spilað var í tveimur riðlum en ÍR var í fjögra liða riðlinum.  Þessi fyrsti leikur tapaðist með 5 stigum sem voru talsverð vonbrigði.  Smá dejavú í gangi þegar Haraldur Bjarni meiddist í fyrri hálfleiknum, alveg eins og árinu áður en þá spilaði hann ekkert meira það árið.  Þetta leit ekki vel út fyrir hann núna en fór betur en á horfðist, hann hvíldi tvö leikina á föstudeginum og kom inn eftir það í mótið.  Á laugardeginum átti ÍR tvo leiki og tókst að vinna þá báða, fyrst finnskt lið sem var slakasta liðið í þessum árgangi og svo vannst sigur á danska liðinu Vaerlöse.  Þessi úrslit, ásamt öðrum í riðlinum skiluðu ÍR í efsta sæti í riðlinum og þ.a.l. beina leið í undanúrslit á mótinu.Undanúrslitin voru spiluð á sunnudeginum og þar spilaði ÍR við danska liðið EVN Basket.  Það reyndist erfiður leikur fyrir ÍR, sem voru alltaf að elta í leiknum og töpuðu á endanum 63:77.  Þetta danska lið fór því í úrslitaleikinn og vann hann með flautukörfu.  En ÍR var því komið í bronsleikinn og spiluðu við norska liðið Ullern 56´ers sem þeir töpuðu einmitt fyrir í leik um 9. sæti á þessu sama móti í fyrra.  ÍR voru talsvert beittari og unnu 10 stiga sigur og tryggðu sér því bronsmedalíuna.Ísak Máni spilaði ekki mikið á þessu móti en fékk þótt alltaf einhverjar mínútur.  Hann náði að setja einn þrist en lét það duga, var svo í allskonar hlutverkum og spilaði m.a. sem miðherji í einum leik.  Auðvitað vildi hann spila meira en í ljósi aðstæðna, að koma til baka eftir erfið meiðsli, þá var hann sáttur með ferðina enda ekki annað hægt.  Enda er svona ferð miklu meira en bara körfuboltaleikirnir.Logi Snær var líka sáttur.  Stundum svolítið hangs en hann fékk nýja körfuboltaskó, við fórum nokkrum sinnum í H&M búðina sem var þarna rétt hjá hótelinu og hann gat verslað sér einhver föt o.s.frv., nokkuð sem honum finnst ekki leiðinlegt.  Hann var líka meira og minna á bekknum í leikjunum undir verndarvæng Svenna Claessen sem honum fannst heldur ekki leiðinlegt.  Svo komst hann upp á lagið með að borða Big Mac á McDonalds, nokkuð sem ég hélt að það myndi aldrei gerast.  Svo dunduðum við okkur bara talsvert, við tveir náðum að fara á úrslitaleikinn hjá 2004 árgangnum sem var yngstu liðin en reyndar var ekkert íslenskt lið að taka þátt í þeim árgangi, Stjarnan var með 2003 og 2001 og KR og Þór Akureyri með lið í 2000 árgangnum.  Logi hélt fyrirfram að þessi 2004 lið væru sterkari og hann var harður á því að hann ætti alveg erindi í þetta.  Það verður að koma í ljós hvort það gerist í framtíðinni en það er víst ekki nóg að hann sjálfur sé nógu góður heldur þarf hann að vera í besta eða mögulega næstbesta liðinu á Íslandi í sínum árgangi, getuminni lið frá Íslandi fá ekki boð.
Heilt yfir flott ferð og gaman að þessu.  Veit ekki hvað gerist á næsta ári ef ÍR siglir Íslandsmeistaratitlinum í hús núna í vor og fær boð um þátttöku á næsta Scania Cup mót.  Kemur í ljós.

sunnudagur, febrúar 28, 2016

Afnám styrktarbitanna

Þegar tæpa viku vantaði í 7 mánaða beinbrots-afmælið hjá frumburðinum var lokahnykkurinn í endurhæfingaferlinu framkvæmdur núna á föstudaginn þegar „styrktarbitarnir“ voru hreinlega dregnir út úr beinmergnum. Svæfing og þessháttar en allt gekk þetta að óskum. Núna er formlega búið kvitta fyrir þetta brölt á Selfossi í ágústmánuði í fyrra og læknaheimsóknum lokið.

Það verður að segjast að þetta er algjörlega alvöru.