föstudagur, júlí 31, 2009

Merk tímamót


Rúmlega 4ra mánaða gamall og fyrst núna að klæðast hinu heilaga merki. Man ekki á hvaða tímapunkti í lífi hinna tveggja þessi viðburður gerðist, hvort ég er að standa mig betur eða verr í þessu tilfelli. Ég þyrfti líklegast að fletta upp í gömlum myndaalbúmum enda erum við að tala um atburði fyrir tíma digital myndavélarinnar, hallast þó að því að ég sé að standa mig verr. Ég vona þó að það komi ekki að sök.

sunnudagur, júlí 26, 2009

Á góðri stund 2009

Þá er fjölskyldan komin heim eftir hina árlegu góðu stund í Grundarfirði. Hátíðin frekar hefðbundið eins og síðustu ár, bara fínasta mál. Ísak Máni var mjög svo ánægður þegar hann frétti að félagi hans hérna úr næstu blokk ætlaði að mæta á tjaldsvæðið ásamt fjölskyldu sinni. Það fór svo líka þannig að þeir félagarnir hoppuðu og skoppuðu um allt pláss og stundum fékk Logi Snær að skottast með. Stundum ekki og það var stundum erfitt, svona þegar maður er bara 5 ára. Spurning hvernig þetta verður eftir svona 2-3 ár. Vill þá sá elsti ekki skottast eins og honum sýnist, sá næsti elta hann og sá þriðji elta nr. 2?

Þessi 5 ára stóð sig nú samt vel þegar hann tók í fyrsta sinn þátt í víðavangshlaupinu sem mamma hans og Ísak Máni hafa stundað síðustu ár. Þótt hann ræki lestina með mömmu þá skipti það ekki öllu máli, sérstaklega þegar menn voru kallaðir upp og fengu viðurkenningaskjal fyrir það að vera yngsti þátttakandinn þetta árið.

Þokkalegt veður, reyndar rigning á köflum á föstudagskvöldið og svo var kalt þegar sólin lét sig hverfa á kvöldin en það skipti litlu fyrir okkur, voru ekki í tjaldi.

Ég veitti því athygli að ég tók heilar 6 myndir þessa helgina, af sem áður var. En það hefur líka sitt að segja að ég man þegar ég var með myndasíðuna, blessi minningu hennar, þá fannst mér ég alltaf vera að setja inn sömu myndirnar á hverju ári. Skrúðgöngurnar alltaf svipaðar frá ári til árs með einhverjum áherslubreytingum, skreytingarnar sömuleiðis o.s.frv. Maður gæti bara smellt inn einhverjum myndum hérna frá síðustu árum og fáir tækju eftir því. En ætli maður birti ekki svona eins og 50% af afrakstrinum þetta árið:

Daníel Dagur og Ísak Máni í hlaupinu


Sigga og Logi Snær koma í mark


Logi Snær með viðurkenningaskjalið

föstudagur, júlí 17, 2009

Dagur í lífi einbúa

Sigga og strákarnir búin að vera í Baulumýri alla vikuna í sól og bongó blíðu meðan minns er að reyna afla björg í bú á þessum síðustu og verstu. Enginn biturleiki samt. Í alvöru.

Tökum dæmi um einn dag bara svona upp á grínið, enda vikan ekki búin að vera alveg hefðbundin hjá 3ja barna fjölskylduföðurnum í Breiðholtinu.

T.d. dagurinn í gær bara svona til að taka eitthvað:

Vaknaði pínu þreyttur enda ekki alltaf að fara nógu snemma að sofa þegar maður er bara svona að dúlla sér á kvöldin. Svindlaði svolítið og skellti í mig hunangsseríósi, sem er samkvæmt lögum heimilisins föstudagsnammi, en það var víst engin til að slá á puttann á kallinum. Henti mér í vinnuna og tók þann pakka fram eftir degi. Á leiðinni heim verslaði maður inn fyrir heimilið, hálfan líter af 7-up, eina Powerade, 1944 (kjötbollur í brúnni) og hálft brauð. Var að fara spila fótbolta um kvöldið og ákvað því að nota tækifærið fyrst maður var einn í kotinu og fá mér kríu þegar ég kom heim, svona eins og atvinnumennirnir gera. Það gekk nú ekkert svakalega vel að sofa, tengdist kannski því að úti var tæp 20 stig og öll börn úti að leika sér. Drattaðist á fætur, skellti mér í sófann og hendi í mig kjötbollunum yfir fréttunum, enn ein reglan sem maður er að brjóta. Kjötbollurnar voru fínar, en fyrr í vikunni hafði verið reynt við hangikjöt með tilheyrandi og kjúklingur með einhverri austurlenskri sósu. Skannaði yfir stofugólfið á meðan japlað var á bollunum og tók þá ákvörun að það þyldi alveg einn enn ryksugulausan dag. Hafði svo áhyggjur af því hversu illa gekk að fylla uppþvottavélina það mikið að hægt væri að réttlæta að setja hana af stað. Græjaði mig fyrir boltann, en þurfti að hirða blöðruna fimm sinnum úr netinu í leiknum og hugsaði til þess hvað hefði gerst ef krían hefði gengið betur. Kom heim og fór alltof seint að sofa.

Já, það er margt að hugsa um þessa dagana...

mánudagur, júlí 13, 2009

Alvaran byrjuð aftur

Síðasti sumarfrísdagurinn, í bili a.m.k., var í gær. Það var við hæfi að enda fríið með stæl.


Það er víst ekki alveg marktækt að mæla hitann eftir að hafa látið bílinn standa í sólinni og formlegur hiti var víst ekki „nema“ 21 gráða en það dugði alveg.

Er búinn að hafa það gott þótt ekki hafi verið mikið um skipulagðar lengri ferðir, enda ekki alltaf nauðsyn á því. Spánn 2008 vs. Langisandur 2009, í raun ekki mikill munur:laugardagur, júlí 04, 2009

Tímamót

Merkilegur dagur í dag. Samkvæmt teljaranum á blogginu hjá Siggu er Daði Steinn orðinn 100 daga gamall í dag, ekki slæmt það. Annars eyddi hann deginum að mestu leyti í pössun, með hléum reyndar enda er mamma enn forðabúrið, vegna þess að við vorum í giftingarveislu hjá Tomma og Rúnu. Stutt og hnitmiðuð athöfn í kirkjunni og svo veisla eftir smáhlé niður í fjölbrautarskólanum.


Gaman að þessu en ég held að þið þarna úti þurfi ekkert að hafa áhyggjur af því að fá boðskort í giftinguna mína...

Að lokum eru fimm ár í dag síðan maður var staddur í Egilshöllinni, klístraður af svita frá toppi til táar á einhverjum þeim geðveikustu tónleikum sem ég hef farið á. Hélt í alvöru að það væru svona ca. 3 ár síðan en þau eru víst 5. Er það við hæfi að enda þennan pistil á smá stemmingu í takt við það, veit líka að Tommi er að fíla þetta.