miðvikudagur, september 29, 2010

Kreppa?

Mér brá bara þegar ég opnaði ísskápinn í kvöld til að leita að einhverju ætilegu. Ástandið inn í þessu raftæki hefur alveg farið fram hjá mér í öllu daglega amstrinu en það verður að segjast að þetta lítur frekar illa út svona rétt fyrir mánaðarmót.

Maður á samt ekki að kvarta, ég hef tök á því að bæta úr þessu á morgun þótt það sé ekki enn komið mánaðarmót. Það er víst betra en margur annar á Íslandi í dag.

fimmtudagur, september 23, 2010

Óvenjuleg vika

Þessi vika er búin að vera hálffurðuleg á þessu heimilinu. Ísak Máni fór á mánudaginn í skólaferðaleg að Reykjum í Hrútafirði, svokallaðar skólabúðir, og er væntanlegur aftur á morgun. Þetta er venja hjá 6. bekkjunum í Breiðholtsskóla á hverju ári. Hálfskrítið að hafa kappann ekki á svæðinu en þetta minnir mann á að þessi grey verða á endanum fullorðin og komast líklega alveg þokkalega af án manns.

Hin árlega réttarhelgi hjá Siggu er núna um þessa helgi en hún ákvað að taka þetta alla leið og fór vestur í gær, væntanleg aftur á sunnudaginn. Spáir hálfblautu á svæðinu um helgina þannig að þetta hljómar ekkert rosalega spennandi fyrir okkur sem höfum farið þangað um þessi tímamót og hangið á kantinum þannig að við sitjum hjá þetta árið.

Við strákarnir verður að finna okkur eitthvað til dundurs í höfuðborginni um helgina í staðinn.

mánudagur, september 20, 2010

Fín helgi bara

Helgin var nokkuð góð bara.

Á laugardeginum var uppskeruhátíð knattspyrnudeildar ÍR. Aðallega verið að veita viðurkenningar í yngri flokkum félagsins og endað svo með grilli. Við áttum núna tvo fulltrúa á svæðinu. Logi Snær fékk svokallaða þátttökuviðurkenningu eins og allir krakkarnir í 8. flokk, og reyndar 7. flokkur líka ef út í það er farið. Skemmtilegt að sá sem afhenti honum verðlaunin er varnarnagli úr meistaraflokknum og sömuleiðis sonur kennarans hans Loga. Svona er heimurinn lítill í Breiðholtinu.


Ísak Máni var svo lánsamur að koma líka út með verðlaun, aðeins erfiðara þar sem ekki er verið að dæla út þátttökuviðurkenningum á alla þegar menn eru komnir upp í 5. flokk. Hann fékk háttvísisverðlaun 5. flokks og fékk þennan forláta bikar upp á það.


Svo var nú bara chillað, við Ísak Máni kíktum á restina af síðasta leik sumarsins hjá ÍR, útileikur á móti Þrótti. Þar voru menn líka að fylgjast með úrslitum úr öðrum leikjum og á einhvern ótrúlegan hátt klúðruðu frændur okkar úr efra, Leiknir, því að koma sér upp í úrvalsdeildina. Get ekki sagt að ég hafi grátið það neitt sérstaklega, að „stolt Breiðholtsins“ hafi gert upp á bak. Lét samt fá orð flakka yfir þeirri staðreynd, við erum jú sko svo háttvís á þessu heimili.

Ég tala nú ekki um 3:2 sigur Manchester United á Liverpool og þrennuna hans Berbatovs.
Fyrsta þrenna leikmanns rauðu djöflanna á móti Liverpool síðan Stan Pearson gerði það 1946. Hver man ekki eftir því?

laugardagur, september 04, 2010

Dollan var í seilingarfjarlægð en...

10 leikir, 8 sigrar, 1 jafntefli og 1 tap, sumarið hjá C-liði ÍR í 5. flokk. Það gaf sigur í riðlinum og sæti í úrslitunum. Sem var í dag. Þriggja liða úrslitariðill, tveir leikir og sigur í þeim riðli myndi þýða úrslitaleikinn sjálfan við sigurvegara úr hinum úrslitariðlinum.

Spilað á heimavelli, KR voru fyrri andstæðingar dagsins. 1:1 og grátlegt að ná ekki að kreista fram sigur. En fyrst Þór tókst að sigra KR þá var málið í okkar höndum, sigur á Þór og úrslitaleikurinn yrði okkar. 1:2 tap í jöfnum leik þýddi hinsvegar að draumurinn um dolluna var lokið, a.m.k. þetta árið.

Uppskeruhátíð klúbbsins 18. september, tvær vikur í frí frá fótbolta eftir það og svo hefst alvaran aftur. Þetta er víst ekkert svona walk-in-the-park neitt. Ekkert frekar en lífið sjálft.