sunnudagur, janúar 31, 2010

Go Eiður

Auðvitað styð ég þennan færasta knattspyrnumann þjóðarinnar. Hann má samt alveg vera rólegur á móti Man U.

laugardagur, janúar 30, 2010

Fréttablaðið í dag

Ég gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar ég sá nafnið hans Varða á forsíðu Fréttablaðsins í morgun í tengslum við EM í handbolta. Hann hefði fílað það.
Bara verst að við gátum ekki tekið þennan undanúrslitaleik á móti Frökkunum.

laugardagur, janúar 23, 2010

Atburðir næturinnar

Nokkrum andartökum áður en klukkan sló miðnætti heyrðist dynkur úr herbergi Loga Snæs og í kjölfarið skaðræðisöskur. Foreldrar hans orðnir háaldraðir og komnir inn í draumaheima þrátt fyrir að um sé að ræða föstudagskvöld.
Við stöðuathugun kom í ljós blóðugur krakki í hálfgerðu sjokki og heilmiklum kvölum. Atburðarrásin hafði verið sú að hann hefur velt sér úr rúminu sínu og stungið sér með hausinn á lampagrey sem var á gólfinu fyrir neðan, með eyrað á undan sér nánar tiltekið.
Kallað var á Guðrúnu frænku sem tók að sér að vera fylginautur niður á Slysó ásamt mömmu hans. Allt gekk vel, engir sauðdrukknir skemmtanafíklar mættir á svæðið og hægt að taka strax við Loga Snæ. Rétt rúmlega eitt var hann kominn heim aftur undir sæng.
Núna er hann markaður eins og rollurnar hjá vini hans Friðgeiri á Knörr, heilrifa á hægra eyra. Verst með lampagreyið.



sunnudagur, janúar 10, 2010

„DÓMARI!“

Sá framundan flott tækifæri til að prufa nýju myndavélina. Ísak Máni var að keppa æfingaleik í gær í fótbolta og maður horfði til þess. Þegar dró nær helginni var þó greinilegt í hvað stefndi, rigning og rok. Ekkert rosalega spennandi.

Kom líka á daginn að það sem þetta var heimaleikur þá var undir okkur ÍR-ingum komið að redda dómurum, sem eru víst oftast einhver foreldragrey. Þegar þriðji hóptölvupósturinn kom frá yfirmanni dómaramála um neyðarkall þá fannst mér ég ekki getað skotið mér undan ábyrgðinni og bauð mig fram í verkið. Enda ekkert veður til að vera þvælast með nýju myndavélina.

2 x 20 mínútur á hálfum velli, 14 stykki af 10 ára strákum, dass af foreldrum á hliðarlínunni og einn dómari að stíga sín fyrstu skref í bransanum en ekki með neina pappíra um að hann væri hæfur til verksins. Yfirburðarsigur hjá gestunum í Þrótti og ekki hægt annað en að hughreysta frumburðinn með því að í þetta skiptið væri í lagi að kenna dómaranum um allt saman.

Glórulausir innkastdómar í gangi þarna og þessar fjórar aukaspyrnur allar útúr korti.

mánudagur, janúar 04, 2010

Byrjaður að vinna niður aðgerðarlistann

Fann mér notaða græju í Hlíðunum. Helsáttur og mig grunar að konan hafi lúmskt gaman af þessu líka. Nú er bara að fara að fikta, ég held að Tommi frændi sé að koma í mat um helgina.
Skekkir aðeins fjárhaginn, mætti halda að það væri enn 2007 á þessu heimili. Spurning hvort það þurfi að fresta giftingunni...

sunnudagur, janúar 03, 2010

Leeds United og Ísland

FA-bikar helgi að líða undir lok. Manchester United spilaði í dag við Leeds en maður man eftir baráttu þessara liða í ensku deildinni í kringum 1990 og síðar. Þeir hrifsuðu af okkur deildartitilinn 91-92, síðasta árið sem efsta deildin var kölluð sú fyrsta en árið á eftir fengum við Eric Cantona nánast gefins frá Leedsurum, fyrsta deildardollan í áratugi kom í hús og við Manchester menn höfum ekki horft til baka eftir það. Leeds greyin hins vegar hafa verið í tómu rugli og eru í dag staddir í C-deildinni á Englandi, á toppnum reyndar.

Hvað um það, Leeds vann leikinn í dag. Á Old Trafford, 0:1. Finnst það ógeðslega fúlt.

Þegar svona gerist reynir maður alltaf að sjá ljósu hliðarnar á þessu öllu, svona svo maður missi ekki alveg vitið. Ég fór óhjákvæmilega að tengja þennan Leeds klúbb við Ísland og fann smátengingu í ástandið í dag.
Hvernig fór fyrir Leeds? Stóðu sig bara nokkuð vel og töldust vera alvöru klúbbur. Komust í undanúrslit meistaradeildarinnar 2001 en einhversstaðar á leiðinni misstu þeir fókusinn á stöðu mála. Ofmetnuðust, fjárfestu eins og þeir ættu heiminn og allt sprakk í andlitið á þeim. Eru eins og fyrr segir staddir í C-deildinni og eru í huga margra sem óttarleg grey sem grófu sína eigin gröf í græðgi og vitleysu.

Saga Íslands í hnotskurn eins og staðan er? Kannski. Leeds er alla vega á leiðinni úr C-deildinni upp í B-deildina og komst áfram í FA-bikarnum, og eru að vinna sig upp úr skítnum. Ísland er líklega komið niður í utandeildina í þessari samlíkingu en maður verður að vona að við líka náum að hrista af okkur skítinn.

laugardagur, janúar 02, 2010

Á aðgerðaráætlun 2010

Sá hérna í pistli frá lok ársins í fyrra, eða árinu þaráður öllu heldur að ekki var mikið um áramótaheit fyrir árið 2009. Nema það að minnka að segja: SÆÆDDDLLL...

Það áramótaheit hefur ekki gengið nógu vel ef satt skal segja og sú reynsla ætti því að kenna manni að vera ekkert að setja sér nein áramótaheit.

Áramótaheit eða ekki áramótaheit, spurning hvaða hluti maður ætlar að framkvæma á þessu ári sem er að skríða af stað, bara til að nefna eitthvað:
  • Kaupa mér alvöru myndavél, helst sem fyrst áður en sjónvarpið gefur upp öndina og ég þarf að punga út fyrir flatskjá. Hef reyndar aldrei skilið þetta diss út í flatskjái og tengingu þeirra við 2007 gengið, útrásarvíkinga og myntkörfulánaliðið, eru gömlu túbusjónvörpin ekki einfaldlega horfin af markaðnum?
  • Fara til tannlæknis. Eftir að gamli tannsinn hætti störfum eða lét sig alla vega hverfa þá var farið í það að finna nýja tannsa fyrir fjölskylduna. Ég sat af einhverjum ástæðum eftir þegar pantaður var hóptími hjá þeim nýja og hef ekki enn drattast á svæðið. Kannski best samt að kaupa sér fyrst myndavélina.
  • Poppa upp stofuna með tilheyrandi málingagræjum og almennri endurröðun hluta þar inni.
  • Hafa það helv... gott næsta sumar, skella sér norður og eitthvað í þeim dúr.
  • Það sem gekk svo illa að hætta að nota orðatiltækið SÆÆDDDLLL þá er best bara að halda áfram að nota það.
  • Og svo auðvitað koma sér í form og allt það...
  • Gifta sig? Veit ekki.

föstudagur, janúar 01, 2010

2009 verður 2010

2010 mætt. Mér heyrist að stemming sé almennt sú að menn sjái ekki á eftir 2009. Ég hafði það nú þokkalegt og með tilkomu nýs gríslings þá hlýtur 2009 að teljast nokkuð gott í minningunni.
Ég verð samt að viðurkenna að ég hef sjaldan verði eins óspenntur fyrir fréttaannálnum á gamlársdag eins og í gær. Enda sá ég ekki nema smáglefsu og ranghvolfdi augunum þegar icesave, búsáhaldabyltingin og mæðrastyrksnefnd komu við sögu. Eins og gefur að skilja var mér fljótlega orðið illt í augunum.


Vorum í Æsufellinu eins og hin síðari ár, reyndar með smá undantekningu. Daði Steinn var hálflasinn, með í eyrunum og tilheyrandi og því tók húsfreyjan á heimilinu það að sér að skella sér heim með kappann um tíuleytið til að koma honum í bólið. Við hinir kvöddum 2009 í Fellinu. Staðreynd að eftir 10 ára búsetu í Eyjabakkanum þá var þetta í fyrsta sinn sem það er fulltrúi á svæðinu frá okkar íbúð á áramótunum.
Nýársdagur krumpaður eins og venjulega. Logi Snær stóð sig best í svefni af mannskapnum, skreið framúr rétt fyrir kl 12:00, henti í sig smá morgunmat og tók svo Cartoon Network á þetta. Með miklum tilþrifum.