miðvikudagur, júlí 31, 2013

Ísak Máni á körfuboltamóti í Svíþjóð - Gamlar fréttir

Jæja, best að pósta þessum pistli þótt hann sé tæpum þremur mánuðum á eftir áætlun.  En ég ætlaði a.m.k. að hafa þetta til staðar svo ég hafi linkana á þessa leiki seinna ef þetta lifir áfram á Jútúb, veit að þetta hefur allt birst á Feisbúkkinu en ennþá er ég ekkert í því.

Ísak Máni fór s.s með 8. flokki ÍR í körfunni til Svíþjóðar, Gautaborgar nánar tiltekið og keppti þar í nokkuð stóru móti sem frændur okkar halda á hverju ári að mér skilst.  Þetta gerðist í byrjun maí á þessu ári svo því sé haldið til haga.  Strákarnir voru búnir að safna sér fyrir þessu, m.a. sem pokaíraðarar í Nettó fyrir síðustu jól og svo voru sumar mömmurnar sterkar í klósettpappírsölunni ásamt því að fermingarpeningar komu sér vel hjá þessum peyjum.

Til að gera langa, og alltof gamla, sögu stutta þá unnu þeir alla þrjá leikina sína í riðlinum, héldu sigurgöngunni áfram í 16, 8 og 4 liða úrslitum og komust alla leið í úrslit.  Þar töpuðu þeir reyndar fyrir sterki liði.  Fengu samt þennan rosalega bikar og einhverja umfjöllun um árangurinn hérna heima, bara gaman að því enda frábær árangur þótt þeir hafi verið hálfsvekktir með að tapa úrslitaleiknum.  Mikið ævintýri sem verður að teljast líklegt að sitji vel og lengi í minningunni hjá þessum öflugu strákum.

Fyrsti leikurinn í riðlinum:  ÍR - Skjetten
Annar leikurinn í riðlinum:  ÍR - Eskilstuna Basket
Þriðji leikurinn í riðlinum:  ÍR - Blackeberg Vit

16 liða úrslitin:   ÍR - KFUM Örebro Basket
8 liða úrslitin:  ÍR - IK Eos
4 liða úrslitin:  ÍR - Nörrköping Dolphins
Úrslitaleikurinn:  ÍR - Mölndal Basket

Smá brot af daglegu lífi íslensks körfuboltaliðs í Gautaborg.


Umfjöllunin sem kom m.a. á ÍR.is:
Drengirnir í 8.flokki í körfu fóru góða ferð til Gautaborgar dagana 8. til 12. maí síðastliðinn og lentu í 2. sæti í Gautaborgarmótinu í körfubolta. Mótið er stærsta ungmennamót í körfubolta í Evrópu. Alls voru 38 lið skráð til leiks í 8.flokki karla, frá Skandinavíu og víðar.
Spilað var í 9 riðlum og sigraði ÍR sinn riðil með yfirburðum. Þá tók við 16 liða útsláttarkeppni og vann ÍR þar öruggan sigur. Næstu leikur voru gegn sterkum liðum og mætti ÍR IK EOS í 8-liða úrslitum. ÍR hafði 10 stiga sigur að lokum, 40-30, eftir að hafa leitt nær allan leikinn.
Daginn eftir, á sunnudag, lék ÍR í undanúrslitunum gegn Norrköping Dolphins. Eftir að hafa verið einu stigi undir í hálfleik hafðist 12 stiga sigur að lokum, 38-26 fyrir ÍR. Sigurinn virtist koma leikmönnum sænska liðsins nokkuð á óvart, sem sýndu það með óíþróttamannslegri háttsemi á síðustu andartökum leiksins.
Í úrslitunum mættust ÍR og Mölndal Basket. Sænska liðið var firnasterkt og hafði meðal annars einn turn innanborðs sem lokaði flestum leiðum undir körfunni. Mölndal var 7 stigum yfir í hálfleik, 19-12, og vann að lokum með 36 stigum gegn 19.
Þrátt fyrir tap í úrslitaleik stóðu drengirnir í ÍR sig afburðavel og gátu ekki spilað fleiri leiki á mótinu, eða 3 í riðli og 4 í úrslitakeppninni. Háttsemi ÍR-inga var til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan og er bikarinn sem fékkst fyrir 2. sæti mótsins til marks um góðan endi á flottu tímabili 8. flokks ÍR.

Liðið eftir úrslitaleikinn
Forsíðan á Karfan.is 15. maí 2013
Hluti hópsins eftir NBA derhúfu kaup


Hópurinn ásamt Halla þjálfara
Ísak Máni með silfurbikarinn