föstudagur, janúar 02, 2015

Áramótin - með tvisti

Veit ekki hvort skal kalla þessi áramót hefðbundin eða óhefðbundin, þau voru alla vega hefðbundin með óhefðbundu tvisti.

Það hefðbundna við þau er að áramótin voru tekin í Æsufellinu, Villi og Gulla á svæðinu og núna voru að auki Doddi og frú ásamt tvíburunum tveimur.  Mæja með sína tvo unglingsdrengi var sömuleiðis í mat en þau skiptu yfir annað partý snemma kvölds.  Kalkúnn ásamt saltkjöt og baunum en þá held ég svona að hefðbundna kaflanum sé búið að gera helstu skil.

Óhefðbundna tvistið var eitt og annað.  Fyrir það fyrsta var mútta ekki á svæðinu, hún hafði verið hjá okkur um jólin og var komin með nóg af borginni svo hún kom sér heim fyrir gamlársdaginn.  Þessi áramót voru líka Ísaks Mána-laus, eða svona aðeins.  Hann var reyndar í mat með okkur en fór svo til félaga síns til að skaupast og skjóta.  Aðalatriðið sem gerði þetta meira að óhefðbundnum áramótum en hitt var sú staðreynda að líkamlegur ferskleiki á fjölskyldinni var ekkert sérstakur.  Eiginlega bara ömurlegur.  Forsagan var að Ísak Máni hafði fengið flensu í byrjun desember sem endað svo í lungabólgu.  Hann fór ekkert í skólann síðustu tvær vikur fyrir jólafrí.  Það voru allir þokkalegir hérna um jólin og aðfangadagskvöld alveg í flottum gír.  En svo fór undan að halla.  Ég sjálfur var orðinn drulluslappur þann 28. og Logi einhverjum degi fyrr.  Daði og Sigga voru svona la-la, ekkert mikið meira en það, Ísak var fínn enda búinn að ná sér.  Mútta virtist sleppa við þetta þrátt fyrir að hafast fyrir í þessu pestabæli.  En það var ekkert annað en að láta sig hafa það og fjölskyldan skottaðist upp í Æsufellið.  Eftir ljómandi mat, undir meðallagi skaup var farið út að skjóta.  Það tók snöggan enda þegar Logi Snær ákvað að skila smávægulegu sem hann hafði innbyrt, aftur sömu leið upp.  Kannski ekkert óvænt, krakkinn jú með bullandi hita og allt í rugli.  Þá ákváðum við bara að segja þetta gott, hirtum okkar hafurtask, þökkuðum fyrir okkur og héldum heim aftur.

Þetta var eftirminnilegt, annað er ekki hægt að segja.