laugardagur, apríl 21, 2012

Weber 200

Það var ekki annað hægt en að bæta úr grillleysi sumarsins 2011.  Hef svipaða sögu að segja og hvað reiðhjólamálin hérna um daginn, það kostar allt handlegg og því alveg eins gott að henda sér á eitthvað sem manni langaði í meira en "ódýrasta" dótið.  Maður er hvort sem alltaf í skítnum.

En þetta er að svínvirka, a.m.k. var svínið í kvöld déskoti fínt.

þriðjudagur, apríl 17, 2012

Blóðgjöf #25

1/4 leiðarinnar kominn á rétt tæpum 11 árum.

Þá er bara að halda áfram.

þriðjudagur, apríl 10, 2012

Suðureyri páskar 2012 - Maður gerir ekki rassgat einn

Fyrir nokkru ljóst að við myndum eyða páskunum á Suðureyri vegna fermingar hjá Daníel Viðar, þannig að við ákváðum að gera smá frí úr þessu:

Miðvikudagur:  Ferðadagurinn.  Lögðum af stað um kl 10:30 og vorum komin á leiðarendara u.þ.b. 5 tímum seinna.  Stoppuðum í smá stund í Búðardal og fengum okkur hressingu en að öðru leyti var það bara bíllinn.  Ekki mikið stopp í boði þegar fram hjá Hólmavík var komið, endalausir firðir og ekki skitin bensínstöð til að bjarga lífinu ef með þyrfti.  Fengum flott herbergi, eða meira svona íbúð, a-la Jóhanna enda verða menn að gera vel fyrir þá sem koma fyrstir.  Svo voru menn svona meira að hrista ferðalagið úr sér seinni hluta dagsins.

Fimmtudagur:  Rólegheit frameftir degi.  Sigga fór í ræktina á Suðureyri, toppiði það, og svo var tekin bíltúr út á Ísafjörð.  Sögukvöld á hótelinu þar sem menn koma og þeir sem hafa sögur að segja leyfa hinum að njóta.  3ja skiptið sem þetta er haldið á skírdag, núna var þemað sjómannasögur.  Jói Varða var m.a. á svæðinu og fór með nokkrar.  Gaman að þessu.

Föstudagur:  Eftir morgunmat á hótelinu var farið í smá ævintýrarölt á Suðureyri.  Leikskólinn var tekinn út og sparkvöllurinn reyndur.  Jóhanna fór á kostum í tuðrusparki, heimurinn getur grátið það að hún hafi ekki lagt þetta fyrir sig.  Við Logi Snær tókum sprett í sundlaug staðarins og hann fékk að prófa þetta sér sveitlenska fyrirbrigði að borða ispinna í heita pottinum.  Furðulegt fyrirbæri.  Kvöldmatur á hótelinu, ljúffeng en rótsterk fiskisúpa og eftir matinn bauð Kolla hans Jóa upp á köku enda átti hún afmæli þann daginn.  Ekki var hægt að sleppa því að kíkja á menningarviðburðinn Aldrei fór ég suður fyrst maður var í nágrenninu.  Við Ísak Máni rúlluðum á Ísafjörð og kíktum á þetta. Komum á fínum tíma, Páll Óskar að stíga á svið.  Tónlistin hans kannski ekki alveg minn tebolli en það er ekki annað hægt en að hrífast með, drengurinn gerir þetta af svo miklu lífi og sál.  Frekar breitt aldursbil á þessum tímapunkti og þægileg stemming.  Ég tróð Ísaki upp á einhvern vörubrettastafla þar sem hann gt bara setið og fylgst með.  Svo komu einhver tvö bönd, Gang Related og Vintage Caravan, sem voru svona la-la en ekkert sem ég þekkti.  Jón Jónsson steig svo á svið og hann var flottur, ég er alveg að kaupa hann þegar þannig liggur á mér.  Við vorum komnir of nálægt Skálmöld til að fara heim á þessum tímapunkti.  Næst var hljómsveitin Legend með Krumma úr Mínus, ég kannaðist við þarna eitt lag og þeir voru bara fínir.  Okkur til mikillar gleði hafi næsti maður á svið forfallast þannig að Skálmöld voru næstir.  Þarna var Ísak Máni orðinn með yngstu mönnum á svæðinu og bilið á milli manna fór að minnka.  En boy-o-boy var þetta þess virði.  Þvílíkir snillingar.  Ég verð að fara að millifæra reglulega á Húsavíkurkaupstað fyrir að hafa framleitt þessa drengi.  Ísak var að kaupa þetta og það var gaman að því.  Við létum okkur hverfa eftir að þeir höfðu lokið sér af, hinkruðum ekki eftir síðasta bandinu, Sykur, enda Ísak búinn að fá nóg sýnishorn af unglingadrykkju og sem betur fer held ég að hann hafi nú ekki alveg verið að kaupa það, hvað svo sem síðar verður.  Við skriðum hérna heim á Suðureyri um kl 01:00, með suð í eyrunum eins og á að vera eftir svona.

Laugardagur: Chillað framan af degi, mamma og Sjöbba mættu með flugi um morguninn.  Menn tóku ákvörðun um að taka forskot á páskaeggin og stúta þeim degi áður en lög og venjur kveða á um.
 Við stórfjölskyldan kíktu yfir á Ísafjörð til að sjá upphafi á tónleikum dagsins, Pollapönk var möst.  Þeir voru hressir og 113 Vælubíllinn gerði lukku.  Endaði daginn bara í slökun yfir tölvunni.  Horfið m.a. á Aldrei fór ég suður í beinni á netinu, var aðallega Ham sem ég vildi sjá þá um kvöldið en nennti ekki að keyra einn yfir á Ísafjörð.

Sunnudagur:  Stóri dagurinn hans Daníels.  Viðruðum liðið aðeins eftir morgunmat en kl 14:00 var kirkjan.  Ég tók kirkjuna ásamt Ísaki og Loga en Sigga og Daði tóku slökun á þetta fyrir veisluna.  Veislan var svo út á hóteli kl 16:00 og rúllaði hún bara þægilega í gegn.  Drengurinn fékk eitthvað af gjöfum en umslögin voru í miklum meirihluta.


Mánudagur:  Heimferðardagur.  Fékk sjokk þegar ég kíkti út um gluggann og sá að það var allt orðið hvítt.  Vel hvítt.
 Það var því ekkert að gera en að drífa sig af stað.  Það var ljóst í upphafi að keppikeflið var að koma sér yfir helstu fjallvegi hið snarasta og í Búðardal.  Fjórum tímum síðar var því takmarki náð og beikonborgari í hönd.  Það verður að segjast að Steingrímsfjarðarheiðin var ekkert grín.  Lúsast á nokkra kílómetra hraða í snjóhvítri blindu og ef náðist að sjá næstu stiku þá var takmarkinu náð.  Þetta hafðist og drengirnir stóðu sig rosalega vel eftir 4 tíma stanslausa bílsetu.  Og enn höfum við ekki farið út í DVD spilarann, menn verða bara að lesa og dunda sér.  Þegar við rúlluðum okkur úr Búðardal var sól í heiði og iðagræn tún, maður hélt í smástund að við værum komin til annars lands.  Það voru þreyttir ferðalangar sem skriðu heim til sín eftir 7 tíma ferðalag og 1.100 km að baki yfir páskana.

þriðjudagur, apríl 03, 2012

Síðasta helgi

Síðasta helgi var nokkuð þétt.  Haldið var upp á 3ja ára afmæli Daða og Heklu upp í Mosó hjá Ingu og Gunna á laugardeginum.  Hefðbundið, innbirt of mikið af kökum og með því, og allir hoppandi og skoppandi í sykursjokki.  Páskaeggið í lokin var kannski aðeins of mikið af því góða en bara gaman af því.

Sigga fór svo með Loga Snæ í Borgarleikhúsið að sjá Galdrakarlinn í Oz á sunnudeginum og var það að þeirra sögn bara nokkuð fínt.  Við hinir chilluðum bara á meðan, fengum okkur ís og svoleiðis.

Svo var Ísak Máni að spila í körfunni með ÍR, lokatúrneringin á þessum vetri.  Hún var reyndar dýrari gerðin en þeir náðu að koma sér upp í A-riðilinn fyrir þetta lokamót en það er alltaf keppikeflið.  Þarna réðust úrslitin um það hverjir yrðu meistarar í 7. flokki þetta árið.  Án þess að þræða öll helstu úrslitin þá fór það þannig að ÍR-ingar töpuðu öllum sínum leikjum.  Einhvern liðsheildarneista sem vantar til að standast þeim allra bestu í þessum aldursflokki snúning.  Og líka smá meiri breidd.
Verð að hrósa Knattspyrnufélagi Reykjavíkur eftir þessa helgi.  Þeir eru venjulega ekki minn tebolli en menn eiga að fá klapp á bakið ef þeir eiga það skilið, óháð hver á í hlut.  Túrneringin var haldin í DHL-höll þeirra svarthvítu og umgjörðin var öll til fyrirmyndar.  Flottir dómarar, í tilheyrandi klæðnaði enda var allt tuð og væl í lágmarki.  Spilað á aðalvellinum og allir leikmennirnir fengu nöfnin sín upp á stigatöfluna og allir leikmenn og áhorfendur gátu því fylgst með stigaskori og villum einstakra leikmanna.  Sem þótti nokkuð flott.  Tilheyrandi tónlist í húsinu, hefðbundin AC/DC og Queen taktföst pepptónlist og andartökunum fyrir upphaf hvers leiks hljómaði Star Wars þemað.  Mjög flott.  Þetta virtist a.m.k. kveikja í mínum manni sem átti heilt yfir fína leiki þrátt fyrir að heildarlega hafi þetta ekki verið að virka hjá Reykjavíkurstórveldinu úr Breiðholtinu.  Setti niður 9 stig í fyrsta leik og var stigahæstur með félaga sínum, man ekki eftir að það hafi gerst áður.