sunnudagur, nóvember 22, 2009

Skutlast norður og heim aftur

Skelltum okkur norður til Akureyrar um helgina. Jú, jú, Ísak Máni var að keppa, hvað annað fær okkur til að rífa okkur upp úr sófanum og þeysast um landið, körfubolti var það núna. Í þetta skiptið var einn-fyrir-alla-allir-fyrir-einn þema, þ.e. allir fjölskyldumeðlimir voru tjóðraðir niður í bílinn með aukaföt í tösku, hvort sem þeim líkaði það betur eða verr. Pöntuðum svefnpokapláss í tvær nætur fyrir fimm manna fjölskyldu hjá Hótel Jóhönnu og fengum rúmlega það. Fengum alla fjórðu hæðina útaf fyrir okkur og matur innifalinn. Greiddum fyrir það með einum Cocoa Puffs 690 gr pakka, sem við átum að mestu leyti sjálf, ekki slæmur díll það.

Körfuboltinn gekk svona upp og niður, fer svona eftir hvernig menn líta á það. Allir leikirnir þrír töpuðust en mínum manni gekk nokkuð vel. Ekki stór hópur sem fór norður og einhverja „lykilmenn“ vantaði svo aðrir í liðunu þurftu að stíga upp og skila af sér meiri ábyrgð. Menn læra bara af því.


Full mikill tími sem fer í það að keyra norður en var samt nokkuð auðvelt, hversu þversagnakennt sem það kann að hljóma. Drengirnir þrír stóðu sig allir vel í bílnum þrátt fyrir að enginn ferða-DVD spilari sé með í för. Menn verða bara að lesa og dunda sér og svo er iPodinn notaður til að slá upp partýi þegar þurfa þykir. Og allir komu heilir heim.

sunnudagur, nóvember 08, 2009

Að gera næstum í buxurnar

Kíktum í stutta heimsókn í Grundarfjörð um helgina, ákváðum að nýta okkur sæmilega hagstaða veðurspá sem og þá staðreynd að Ísak Máni er að fara keppa tvær næstu helgar ásamt því að undirritaður er staddur undir lokin á vikufríi í skólanum.
Bara almenn rólegheit að mestu leyti í firðinum en helst var það að frétta að Daði Steinn tók eitt „skref“ í sinni eigin framþróun um helgina má segja. Hann var búinn að komast upp á lagið með að draga sig áfram og var aðeins farinn að fikta við næsta stig, það að skríða á fjórum fótum. Veit ekki hvort sveitaloftið gerði honum svona gott eða hvað en allavega sýndi hann miklar framfarir í skriðinu. Svo miklar að mamman var klár með myndavélina en pabbinn var ekki alltaf að kveikja.
Meðfylgjandi myndbrot náðist um helgina. Til að útskýra aðstæður þá var eitt stykki fartölva við hinn enda borðsins, ofan á dúknum sem kemur við sögu. Fyrir framan tölvuna sat pabbinn frekar niðursokkinn og áttaði sig hvorki á því að Daði Steinn væri á ferðinni né að verið væri að mynda herlegheitin.

laugardagur, nóvember 07, 2009

Smá áhyggjur

Ég get ekki neitað því að hafa smá áhyggjur af færasta knattspyrnumanni þjóðarinnar. Hafði smá blendnar tilfinningar þegar ég heyrði að hann hefði samið við Monaco en eftir einhverja umhugsun var alveg hægt að réttlæta þetta. Karlinn kominn af léttasta skeiði kannski, búinn að taka flott skref í gegnum ferilinn eftir meiðslin hérna í den, Bolton - Chelsea - Barcelona. Var ekki bara flott að taka smá furstadæmi á þetta? Taka á því þar í tvö ár með hagstæða skattastefnu og allir sáttir?


Eyddi hérna góðum tíma í kvöld að horfa á Monaco - Grenoble í franska boltanum. Eiður Smári hoppaði beint inn í byrjunarliðið eftir að hafa misst af þremur leikjum vegna meiðsla og fyrir fram átti þetta að vera kjörinn leikur. Grenoble búnir að tapa fyrstu 11 leikjunum sínum í deildinni og voru einum tapleik frá því að jafna eitthvað franskt met í getuleysi. Rakið dæmi til að setja sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn og komast almennilega í gang í Frakklandi. Hvað getur maður sagt, varla hræða á pöllunum og 0:0 niðurstaða í almennum leiðindum. Reyndar stóð ég upp á 60. mínútu þegar Smárinn var tekinn af velli og ákvað með semingi að skipta frekar bara um stöð en ekki grýta fjarstýringunni í tækið. Ákvað samt að skipta ekki yfir á Barcelona - Mallorca sem fór víst 4:2 á kjaftfullum Nou Camp.

Djö... ætla ég að vona að þetta fari að detta fyrir karlinn, það eru tóm leiðindi að hafa þetta svona.

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Af mér og mínum

Maður er á lífi á þessum síðustu og verstu en hef það bara nokkuð gott. Merkilegt nokk. Síðustu vikur hafa verið nokkuð stífar, alltaf eitthvað verið að dunda sér í HR og var einmitt í prófi núna á mánudaginn. Það gekk bara fínt og núna er bara einn kúrs eftir og sá pakki klárast með prófi 9. desember. Þá er ég góður í bili, læt það duga enda verð ég að viðurkenna að maður er kominn með svolítið upp í háls. Þetta er náttúrulega algjört rugl að vera eyða helgunum upp á Þjóðarbókhlöðu eins og trefill. En þetta er verkefni sem maður ákvað að ráðast í og maður klára það bara.
Svo þykist maður vera í stjórn húsfélagsins sem stendur í þvílíkum framkvæmdum að það hálfa væri nóg með tilheyrandi fundarhöldum og almennu stappi. Í miðri kreppu!
Karlinn var líka með hálfgerðan hnút í maganum þegar hann kom heim eftir fund vegna fótboltans hjá Ísaki Mána núna í kvöld og þurfti að tilkynna konunni að hann væri kominn í foreldraráð í fótboltanum...

Annars er allt þokkalegt. Ísak Máni æfir eins geðsjúklingur, bæði í fótbolta og körfuboltanum og maður sér fram á næstu helgar undirlagðar mótum út um allt land þess vegna. Logi Snær er ekki alveg eins íþróttalega sinnaður en er þó í íþróttaskólanum einu sinni í viku. Daði Steinn er að verða efnilegur, nánast vonlaust að líta af honum enda farinn að reyna ýmsar kúnstir án þess að ráða nokkuð við það og getur því endað með skell ef aðrir eru ekki á tánum.