þriðjudagur, júní 29, 2010

Blóðug ferðalög

Stórfjölskyldan skellti sér til Grundarfjarðar um daginn. Nokkuð gott dæmi eins og venjan er, nema það að við vorum varla komin inn um dyrnar þegar Daði Steinn tekur upp á því að skella hausnum á sér utan í borðstofustóll hjá ömmu sinni. Vænsti skurður á augabrúnina og blóð með því. Sunnudagur og því lítið annað að gera en að fylgja eðlilegu ferli og hringja í 112 og kalla út sveitalækninn. Eitthvað húðlím skellt á kappann ásamt klemmuplástri og málið dautt. Sundferð fjölskyldunnar til Stykkishólms sem búið var að ráðgerða næsta dag varð bara með 3/5 þátttöku.


Næsta ferðalag okkar var Akureyri City. Ísak Máni að keppa á N1-mótinu sem byrjar reyndar ekki fyrr en núna á morgun en við ákváðum að nota tækifærið og taka smá forskot á sæluna í höfuðstað norðursins. Jóhanna skaut yfir okkur skjólshúsi og allt klárt. Komum seinnipartinn í gær og allt í góðu. Pöntuðum pizzur á Greifanum í kvöldmat og farið að ráðgera morgundaginn. Sundferð kom sterk inn. Hvað um það, eftir að börnin eru komin upp í rúm heyrist allt í einu skaðræðisöskur frá Loga Snæ. Þegar að var gáð virtist hann hafa skellt hausnum í rúmbotninn hjá Ísaki Mána en rúmin lágu saman, eins furðulegt og þetta hljómar. Fékk hann við það myndanlega skurð á hausinn og blóð með því. Eftir úrskurð frá hjúkrunarfræðingsnemanum var lítið annað en að bruna með drenginn á viðkomandi sjúkrastofnun hér í bæ. Húðlímið ekki nóg og því voru 3 spor skellt í hausinn á piltinum. Í dag var nú samt ákveðið að láta ekki þetta „smá“ óhapp setja allt á annan endann og samkvæmt læknisráði var sundferð hjá Loga í lagi ef hann fengi sundhettu. Það var því einfaldlega versluð sundhetta og mætingin var í þetta skiptið 5/5. Fínasta sundferð í flottri sundlaug.


Sumarfríið mitt er nú að styttast í annan endann og líklega náum við ekki öðru ferðalagi í bili. Held að Ísak Máni sé manna fegnastur með það enda er hann næstur í röðinni. Það yrði eflaust alveg bannað að tala nokkuð um sundferðir í þeirri för.

föstudagur, júní 25, 2010

fimmtudagur, júní 17, 2010

17. júní

Tókum hefðbundinn þjóðhátíðardag á þetta. Flott veður og mæting niður í bæ í fyrra fallinu eins og venjan er orðin. Daði Steinn tók lúrinn sinn á þetta á meðan hinir kíktu á hoppukastalana. Almennt dundur fram eftir degi og grillað heima um kvöldið á meðan Mexíkó fíflaði steingelda Frakka á HM. Spurning hvort einhverjir vilji fá Hernandez á bakið á nýju Man Utd treyjurnar í haust.

Tókum annars HM alla leið á þetta og keyptum okkur eitt stykki vuvuzela. Frábært.

Gleymdi samt helv... myndavélinni heima. Ekki nógu gott.

þriðjudagur, júní 15, 2010

HM byrjað og ég enn hérna

5. í HM að kveldi kominn. Það viðurkennist hér með að ég hef ekki gefið mér tíma til að horfa á einn heilan leik af þeim 14 leikjum sem búnir eru, þrátt fyrir að vera í fríi. Reyndar hef ég séð glefsur úr þeim flestum og stóran hluta af einhverjum. Vandamálið er kannski að þetta fer voðalega óspennandi af stað, lítið um mörk og hugsunin að tapa ekki fyrsta leik voðalega ríkjandi. Kannski hefur þetta alltaf verið svona, veit ekki. En það hlýtur að færast fjör í þetta þegar menn verða komnir með bakið upp við vegg.

Annars skil ég ekki hvað ég er að gera hérna sitjandi heima í Breiðholtinu, hnoðandi þessa færslu. Þetta var svo skotheld hugmynd þegar ljóst var að við værum að tala um Suður-Afríku 2010 og Villi búsettur þarna í næsta nágrenni að smella sér á eitt stykki flugfar þarna niðureftir og taka nokkra leiki. Háttsetti Namibíubúinn hlyti að geta hringt einhver símtöl yfir lækinn og reddað VIP-pössum. Ég sá mig alveg vera nartandi í dýrindis snittur innan úr glerbúri á besta stað og rölta svo niður í players lounge eftir leik til að taka í spaðann á einhverjum nöfnum.

Þó ekki nema bara til þess að upplifa það að vera á vellinum á meðan annar hver maður blæs í þessa lúðra sína, spurning hvort þetta suð sé jafnóþolandi á staðnum sjálfum og í gegnum viðtækin.

Kannski einhver smásjens að Villi verði búinn að flytja sig til Suður-Ameríku fyrir Brasilíu 2014, hann á víst þá heimsálfu eftir.

"Ungfrú, kannski annan bjór með þessum snittum takk."

fimmtudagur, júní 10, 2010

Neibb, ekkert gos

Það lítur út fyrir að gosið hafi klikkað í gær og þetta fallið um sjálft sig. Kannski eins gott bara, ég held að allir séu búnir að fá nóg af þessu.

En Inga á enga síður afmæli í dag, til hamingju með það...

þriðjudagur, júní 08, 2010

Gerist eitthvað?

Það er spurningin, það er nefnilega 9. júní á morgun.

föstudagur, júní 04, 2010

Það sem á dagana drífur

Undirritaður búinn að vera tæpa viku í fríi. Samkvæmt pappírum eru tvær vikur í fæðingar-/feðraorlof og svo þrjár vikur í sumarfrí strax þar á eftir. Konan enn að vinna og ég því í því virðingarverða hlutverki að vera heimavinnandi húsmóðir.

Logi Snær er hættur í leikskólanum og er því að chilla með karlinum og litla bró en fær stundum að vera fluga á veggnum part úr degi með mömmu sinni, getum kallað það skólaaðlögun. Hann er á fljúgandi siglingu í reiðhjólafærni og fékk nýtt hjól í dag. Reyndar var það notað en með aðstoð netins var hægt að finna fína græju á viðráðanlegu verði, menn verða að bjarga sér í kreppunni. Ótrúlegt hvað drengurinn hefur eflst í þessu, hann var hálfvælandi bara núna í vor á 16" hjólinu og í mesta basli með að taka af stað. Nýja hjólið er 20" 6 gíra hjól og engar fótbremsur og gaurinn ekkert smá montinn.

Ísak Máni er kominn í sumarfrí frá skólanum frá og með deginum í dag. Ekki eins og það sé nú mikil afslöppun framundan hjá honum, fótboltinn tekur drjúgan tíma, körfuboltabúðir framundan um helgina, eitthvað námskeið í næstu viku og svo fékk hann sér reit í skólagörðunum til að rækta kartöflur og með því, í dauða tímanum sínum.

Ég hef sést á æfingum með Old-boys Fylkir og búinn að spila tvo leiki með þeim. Úrslitin ekki verið að detta með okkur en það er fín gleði í þessu og það er nú fyrir mestu. Spilaði m.a. á móti fyrrverandi landsliðsþjálfaranum Eyjólfi Sverrissyni og náði að koma í veg fyrir að hann skoraði en varð ekki jafnágengt með sjúkraþjálfara sem vinnur á stöðinni sem Ísak Máni fer alltaf til þannig að það er spurning hvort ég þurfi að finna nýja sjúkraþjálfara fyrir hann.

Þessa dagana er maður að passa sig að eiga enga peninga svo þeir étist ekki einfaldlega upp fyrir framan augu manns. Keypti mér nýja linsu (notaða, bjarga sér í kreppunni muniði) en þetta er samskonar græja og ég leigið mér hérna um daginn. Hnífskarpur andskoti og ég verð að finna mér eitthvað gott tilefni til að leika mér með gripinn.