Við rúlluðum okkur niður í bæ í góðum gír feðgarnir og allt var í toppstandi. Fundum álitlegt bílastæði og þá var lítið annað að gera en að líta ofan í pokann góða. Úði þar og grúði af allskonar bakkelsi, brauði, kringlum, rúnstykkjum og það sem verra var, snúðum með glassúr. Sem betur fer voru nokkur álitleg brauð efst í pokanum sem ég gat veitt upp úr og hélt af stað með þau niður að tjörn. Alveg var þetta glötuð stemming að mér fannst því mávarnir voru gríðarlega fyrirferðamiklir. Það var alveg sama hvert við færðum okkur alltaf komu þeir aftur. Drengjunum fannst þetta svo sem ekkert verra, rosafjör að sjá hvernig þeir gripu hvern fljúgandi bitann á fætur öðrum en mér fannst rómantíkin eitthvað hverfa við þetta, í minningunni var þetta ekki svona slæmt. Ég lýsi alla vega yfir stuðningi mínum við bæjaryfirvöld að stemma stigum við þetta með öllum tiltækum ráðum, veit reyndar þó ekki alveg með leyniskytturnar en flest annað er ég til í að skoða. Þetta var hálf vonlaust dæmi.
Snérum heim eftir stutt stopp í Kolaportinu og hádegismat í 10-11 Austurstræti enda aðeins farið að kólna. Þá var tekin sú ákvörðun að fara ekki á fyrsta heimaleik ÍR í sumar en þeir tóku á móti Sindra. Sú ákvörðun reyndist rétt að því leytinu til að úrhellisrigning var á meðan leiknum stóð en röng að því leytinu til að heimamenn unnu 7:0.
Við keyrðum heim í bílnum sem angaði eins og sendibíll hjá Breiðholtsbakaríi en ég fór með restina af pokanum beint í tunnuna þegar við komum heim.
1 ummæli:
Ég hefði viljað sjá þig dröslast með stóran svartan ruslapoka fullan af brauðmeti við tjörnina hehe
Skrifa ummæli