þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Viðey

Maður hefur þessa eyju sem næsta útsýni út um gluggann í vinnunni en ég held ég hafi aldrei komið út í Viðey fyrr en í gær. Gæti reyndar verið að fara með rangt mál en það verður þá bara leiðrétt síðar. Í gærkvöldi var sem sagt skipulögð bekkjarferð hjá bekknum hans Ísaks Mána út í Viðey og ég fór með honum sem fullorðinn fulltrúi.
Það var frekar kalt, það verður að segjast en maður var nú þokkalega útbúinn. Kíkt á þessa friðarsúlu hennar Yokoar og var farið yfir með okkur yfir helstu staðreyndir þessa listaverks. 12 km uppí loftið sem ljósið nær, það verður að teljast magnað. Heilt yfir mjög flott, annað verður ekki sagt. Stutt stopp í kirkjunni ásamt helstu staðreyndum þar áður en lokastoppið var tekið í Viðeyjarstofu. Þar fengum við kakó og möffins á túristataxta, þ.e. fyrir allan peninginn. Aðeins farið að hvessa með dallinum á leiðinni í land aftur en það var bara hressandi, það örlaði fyrir smá sjómennskufíling frá því í gamla daga en það var nú reyndar djúpt á því.

Það virðist oftar en ekki þurfa eitthvað svona hópskipulag til að maður framkvæmi eitthvað sem er venjulega fyrir framan nefið á manni.

1 ummæli:

Villi sagði...

Nýja Jórvík, Dyflin og Lundúnir, ekkert tiltölumál, en Flúðir og Viðey svolítið erfiðara...