mánudagur, desember 26, 2011

Hefðbundin jól

Annar í jólum að morgni til. Frumburðurinn að skófla í sig samblandi af Cheerios og Cocoa Puffs á meðan hinir tveir skipta liði, annar er inn í stofu að horfa á barnatímann en hinn er inn í herbergi að horfa á Grísina þrjá á DVD. Konan í ræktinni. Ég í náttbuxunum, með ómuldar stýrur í augunum.

Síðustu daga búnir að vera frekar hefðbundnir. Ég var að vinna á Þorláksmessu en eftir útstimplun rúllaði ég mér heim og við kíktum svo með barnaskarann niður í bæ. Vorum reyndar í fyrra fallinu þar, engir kórar farnir að syngja og þessháttar en það var samt fínt að taka röltið þarna upp og niður Laugaveginn.

Aðfangadagurinn gekk vel fyrir sig. Skítaveður reyndar þannig að ekki var hægt að bjóða upp á tímastyttingarferðir utanhúss, innanhússaðgerðir í þeim efnum þurftu að duga. Allir fengu einhverja pakka og heilt yfir var ekki hægt að merkja annað en mannskapurinn gengi sáttur frá borði. Hamborgarhryggurinn úr FK var déskoti fínn og eitthvað var maulað af konfekti í kjölfarið.

Jóladagur var hádegismatur í Mosó, hangikjöt og með því. Mannskapurinn nokkuð slakur bara, einhverjir tók spil á meðan aðrir glugguðu í bók. Maður var að velta því fyrir sér í þriðju ferð í eftirréttinn hvað í ósköpunum maður væri að leggja á líkamann. Heim aftur um miðjan dag, beint í náttfötin. Aftur velti maður fyrir sér áhrifunum á líkamann þegar maður gúffaði í sig afgöngum af aðfangadagsmatnum síðar um kvöldið, kaldur hryggur með heitri sósu. Ég held að það eigi að gera lokatilraun til að klára þetta í kvöld, líklega í tartalettuformi. Fyrsti í NBA eftir verkfall og við Ísak Máni skriðum í bælið um kl 01:00 eftir að hafa horft á magnaðar lokamínútur hjá sigri Bulls á Lakers. Það verður eitthvað að rífa sig upp í vinnuna á morgun.

Hefðbundið bara.



1 ummæli:

Tommi sagði...

Hvurslags líferni er þetta á þér svona yfir hátíðarnar???