þriðjudagur, apríl 03, 2012

Síðasta helgi

Síðasta helgi var nokkuð þétt.  Haldið var upp á 3ja ára afmæli Daða og Heklu upp í Mosó hjá Ingu og Gunna á laugardeginum.  Hefðbundið, innbirt of mikið af kökum og með því, og allir hoppandi og skoppandi í sykursjokki.  Páskaeggið í lokin var kannski aðeins of mikið af því góða en bara gaman af því.

Sigga fór svo með Loga Snæ í Borgarleikhúsið að sjá Galdrakarlinn í Oz á sunnudeginum og var það að þeirra sögn bara nokkuð fínt.  Við hinir chilluðum bara á meðan, fengum okkur ís og svoleiðis.

Svo var Ísak Máni að spila í körfunni með ÍR, lokatúrneringin á þessum vetri.  Hún var reyndar dýrari gerðin en þeir náðu að koma sér upp í A-riðilinn fyrir þetta lokamót en það er alltaf keppikeflið.  Þarna réðust úrslitin um það hverjir yrðu meistarar í 7. flokki þetta árið.  Án þess að þræða öll helstu úrslitin þá fór það þannig að ÍR-ingar töpuðu öllum sínum leikjum.  Einhvern liðsheildarneista sem vantar til að standast þeim allra bestu í þessum aldursflokki snúning.  Og líka smá meiri breidd.
Verð að hrósa Knattspyrnufélagi Reykjavíkur eftir þessa helgi.  Þeir eru venjulega ekki minn tebolli en menn eiga að fá klapp á bakið ef þeir eiga það skilið, óháð hver á í hlut.  Túrneringin var haldin í DHL-höll þeirra svarthvítu og umgjörðin var öll til fyrirmyndar.  Flottir dómarar, í tilheyrandi klæðnaði enda var allt tuð og væl í lágmarki.  Spilað á aðalvellinum og allir leikmennirnir fengu nöfnin sín upp á stigatöfluna og allir leikmenn og áhorfendur gátu því fylgst með stigaskori og villum einstakra leikmanna.  Sem þótti nokkuð flott.  Tilheyrandi tónlist í húsinu, hefðbundin AC/DC og Queen taktföst pepptónlist og andartökunum fyrir upphaf hvers leiks hljómaði Star Wars þemað.  Mjög flott.  Þetta virtist a.m.k. kveikja í mínum manni sem átti heilt yfir fína leiki þrátt fyrir að heildarlega hafi þetta ekki verið að virka hjá Reykjavíkurstórveldinu úr Breiðholtinu.  Setti niður 9 stig í fyrsta leik og var stigahæstur með félaga sínum, man ekki eftir að það hafi gerst áður.
  

Engin ummæli: