laugardagur, maí 11, 2013

Sir Alex stígur niður

Jæja, þá kom að því.  Stundin sem maður vissi að kæmi en var samt að vonast að kæmi ekki.


Síðan í nóvember 1986 hefur karlinn staðið í brúnni og ég man ekki eftir því öðruvísi.  Get reyndar ekki sagt að ég muni mikið eftir fyrstu árunum eftir að hann tók við, enda kannski ekki mikið minnistætt í gangi en ég man vel eftir bikarmeistaratitlinum 1990 þegar þeir unnu Crystal Palace og er margoft rætt um titilinn sem gerði það að verkum að karlinn var hreinlega ekki rekinn.  Leikurinn fór 3:3 eftir framlengingu og þá voru reglurnar þannig að það var settur á nýr leikur fimm dögum seinna.  Seinni leikurinn fór fram á fimmtudegi og var þá ekki sýndur í sjónvarpinu, já hlutirnir eru víst aðeins búnir að breytast hvað þetta varðar.  Man líka hvað það var sárt að klúðra deildartitlinum í hendurnar á Leeds tímabilið 1991-1992 en árið eftir kom þetta loksins í hús eftir.  Man það ótrúlega vel, við Matti Imsland herbergisfélagi minn vorum staddir inn í herberginu okkar á heimavistinni í Menntaskólanum að Laugarvatni að hlusta á útvarpsfréttirnar, þegar það var tilkynnt að Aston Villa hafði tapað 1:0 fyrir Oldham og með því væri Manchester United deildarmeistari í fyrsta sinn í 26 ár.  Menn þekkja þessa ótrúlegu sigursögu eftir það.

Það var vitað að þegar að þessu kæmi þá yrðu þetta helvíti stórir skór að fylla en úr því sem komið er þá held ég (og vona það ofurheitt) að David Moyes sé rétti maðurinn í þetta starf.  Tíminn verður víst að leiða það í ljós en ljóst er að maður verður með óvenjustóran hnút í maganum í upphafi næsta tímabils.  Engin pressa.

Engin ummæli: