Þá er maður kominn heim eftir breska fótboltaferð, get víst ekki kallað þetta vinnuferð en við erum sex saman úr vinnunni sem skruppum út. Höfum gert þetta nokkrum sinnum áður, ekki alltaf á sömu vellina, en núna var ferðinni heitið til Manchester. Tókum pakka í gegnum íslenska klúbbinn og nutum fararstjórnar Sigga Hlö. Flogið var út á föstudeginum og fór sá dagur í almennt chill, einhverjir skutust í búðir á meðan aðrir fóru á knæpurölt í æðislegu veðri.
Á laugardeginum var farið á leik, Manchester United tók á móti West Ham. Fjórða skiptið sem ég fer á Old Trafford og alltof langt síðan síðast. Við skelltum okkur á Bishops Blaize fyrir leik, og það verður að segjast að það er stór partur af þessu, a.m.k. hvað mig varðar. Á þessu brölti þessa hóps þá höfum við alltaf reynt að finna "bullubarinn" þar sem sungið er. Kannski er ég svona ofureinfaldur en hvernig er ekki hægt að hrífast með?:
Rugl flott sæti, sátum í fjórðu röð frá grasinu, þvílík steypa. Manchester vann 2:1, Rooney með rautt og ansi stíf pressa í lokin. Manni leið ekkert rosalega vel þegar West Ham héldu að þeir væru búnir að jafna en sem betur fer var rangstæða dæmd. Fyrsti leikur Paddy McNair í vörninni, hendi þessari staðreynd hérna inn svona ef þetta reynist verða einhver hetja með tímanum. Held samt frekar að ef einhver nennir að lesa þetta eftir einhver ár þá muni sá hinn sami spyrja sig: Who?
Stoppuðum á einum pöbb á næsta horni áður en við tókum lítið rölt í gegnum Megastore-ið, ég sat hjá að strauja kortið í þetta skiptið enda nokkuð sáttur með asísku búningasendinguna sem ég hafði pantað fyrr í haust.
Við upphaf leiksins
Van Persie og Rafael
Karlinn fyrir utan
Á sunnudeginum var ekki slegið slöku við. Nánast engir leikir í boði en við höfðum tryggt okkur miða á þann sem var í boði, W.B.A. vs Burnley. OK, viðurkenni að þetta hljómar ekki uppfullt af kynþokka en við reyndum að gera sem best út úr þessu. Kostaði okkur lestarferð til Birmingham og svo vorum við búnir að tryggja okkur VIP miða á The Hawthorns, heimavöll W.B.A. Þar var eldað ofaní okkur 3ja rétta matseðill sem slapp fyrir horn, ekkert mikið meira en það. Við veltum talsvert fyrir okkur hverjir væru á borðunum í hringum okkur og síðar kom í ljós að megnið að því voru einhverjir styrktaraðilar. Daninn á næsta borði virtist reyndar vera talsvert vinsæll og það kom svo í ljós að þar var á ferðinni markvörðurinn Brian "The Beast" Jensen sem gerði garðinn frægan með báðum þessum liðum. Hóf ferilinn á Englandi með W.B.A. áður en hann fór yfir til Burnley þar sem hann spilaði í einhver 10 ár eða svo. Er svo að spila með Crawley Town um þessar mundir. Rámar aðeins í kauða en kom honum ekki fyrir mér þarna á staðnum. VIP miðarnir tryggju okkur líka bólstruð sæti á fínum stað en mikið ósköp var ég hrifinn af þessum ca 26.000 manna velli. Eitt svona stykki er nákvæmlega það sem Ísland þarf. Heimamenn unnu 4:0 og tóm gleði í gangi. Eftir leik voru eitthvað af þessu styrktaraðilaliði leyst út með gjöfum og einn leikmaður liðsins, Youssouf Mulumbu, mætti á svæðið og hélt smá tölu eftir leikinn. Sá hafði reyndar ekki verið með sökum meiðsla held ég, annars þekkti ég ekki haus né sporð á þessum ágæta manni. Þá var lítið annað að gera en að koma sér út á lestarstöð og koma sér aftur til Manchester.
Digital er ofmetið
Ótrúlega skemmtilegur völlur
Hinn ágæti Mulumbu
Heimferðardagur á mánudeginum, mikið ósköp var þetta gaman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli