sunnudagur, október 21, 2007

Upp um flokk á pizzalausu Akranesi

Alltaf líður tíminn. Ísak Máni tók þátt í sínu fyrsta 6. flokksmóti í fótbolta í dag. Strákarnir sem taka þátt í svona mótum verða alltaf stærri, sterkari, hlaupa hraðar og sparka fastar með hverju árinu, staðreynd sem verður augljósari þegar minns fer upp upp um flokk og í staðinn fyrir að vera 7 ára spilandi við 7 ára stráka er hann 8 ára spilandi við 8 og 9 ára stráka.

Fórum upp á Skaga, spilað í knattspyrnuhöllinni þar en í dag var einmitt eitt ár síðan sú höll var vígð. Engin kynding í kofanum og Sigga ákvað því að vera heima með Loga Snær. Við Ísak Máni tókum því daginn snemma enda mæting í ÍR heimilið 8:50. Kappinn í C-liði og fjórir leikir í boði. Sami kappi stóð í marki í þrjá leiki og batt saman vörnina í einum. Úrslitin voru nú ekki alveg upp á marga fiska, eitt jafntefli og þrjú töp en Ísak Máni stóð sig vel og var heilt yfir sáttur með sig, meira bið ég ekki um. Það hefur kannski hjálpað að A- og B-liðin töpuðu öllum sínum leikjum og A-liðið skoraði ekki eitt einasta mark svo hann fór heim sem meðlimur úr „sigursælasta“ ÍR liði dagsins.

Verð aðeins að enda þetta með að drulla yfir skagamennina (ekki illa meint samt). Einn af tilgangi með svona móti er að safna peningum fyrir flokkinn sem heldur svona mót. Þarna voru þeir með fullan kofa af foreldrum sem voru með veski og svöngum og þyrstum strákum þeirra. Úrvalið í sjoppunni var ömurlegt: Kaffi, svali, grillaðar samlokur og prins póló. Úrvalið var samt ekki það sorglega heldur sú staðreynd að í þessari sjoppubúllu var hvorki til posi fyrir kort eða nein skiptimynt sem heitið gat. Sorglegt. Ekki nóg með það heldur gáfumst við Ísak Máni upp á að bíða eftir „verðlaununum“ sem við vorum búnir að borga fyrir með mótsgjaldinu, pizzunni, þegar við vorum búnir að bíða í góðar 20 mínútur. Svitaperlurnar á enninu á gæjanum sem átti að redda þessu voru farnar að fjölga sér óeðlilega mikið þannig að við létum okkur hverfa, eins og ansi margir þarna.

Subway á Akranesi grætur þó varla klúður Dominos.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sá siður að taka með sér nesti á svona mót hefur tíðkast hjá skagamönnum frá upphafi. Enda var það alltaf þannig að sjoppudrengirnir úr rvk voru frekar slappir. Annað en við skagamennirnir, pakksaddir af samlokum og kruðeríi frá mömmu :D

Nafnlaus sagði...

Já, þarna meiga þeir sem halda mótið greinilega bæta sig og ég gæti nú kennt þeim eitthvað í þessu.
Gott að heyra að Ísak Máni var sáttu þótt að útkoman hafi ekki verið sú besta fyrir liðið.
kv. Inga