mánudagur, mars 29, 2010

Busy weekend

Helgin var nokkuð þétt, það verður bara að segjast. Brunaði heim eftir vinnu á föstudeginum enda von á fólki í mat til að fagna eins árs afmæli Daða Steins. Konan reyndar búin að gera megnið og græja. Slafrað í sig þessari dýrindis gúllassúpu en franska súkkulaðikakan þurfti að bíða því ég var búinn að lofa mér í æfingaleik með Grundó FC síðar um kvöldið. Maður var því fyrsti aðilinn sem fór úr afmælinu, jebbs, eins árs afmælið hjá manns eigin afkvæmi. Ísak Máni vildi reyndar koma með þannig að við létum okkur hverfa tveir en reyndar var partýið að leysast upp þegar við fórum, hvort við höfðum þau áhrif var ekki gott að segja. Eitthvað kom af dýrindisgjöfum, gjöfin frá Guðrúnu smellpassaði.

Sem sagt, leikur um kvöldið gegn utandeildarstórveldinu FC Hjörleif. Gekk nú ekki nógu vel, 6:3 tap og ekkert sérstök stemming. Karlinn gerði nú enga skandala af sér í leiknum en ef þú færð á þig 6 mörk þá hlýtur að vera einhversstaðar hægt að gera örlítið betur. Svona ef ég nota orðin hans Ísaks eftir leikinn: „Pabbi, þú áttir nú ekkert þinn besta leik í kvöld“. Tveir æfingaleikir komnir í hús hjá undirrituðum og 11 blöðrur í netinu. Ég held að saumakonan í Grundarfirði sé ekki byrjuð að bródera WÍUM á treyju nr. 1, það mál var aðeins sett á hold.

Laugardagurinn byrjaði nú bara á nettu chilli en Sigga fór með litla grís nr. 1 og 2 á Latabæjarhátíðina í Laugardalshöllina. Ég og litli grís nr. 3 héldum áfram að chilla. Þegar þau komu aftur hófst almennur undirbúningur á kvöldinu en árshátíð hjá N&O á dagskránni. Það var déskoti fín skemmtun en hjúin komin frekar snemma heim...

...enda kleinubakstur framundan á sunnudagsmorgninum. Sá elsti í fimm manna fjölskyldunni taldi öllum trú um að selja kleinur væri sniðugt fjáröflun fyrir tuðrusparksútgjöldum sumarsins hjá þeim þriðja elsta. Fimm manna fjölskyldan var því mætt snemma á sunnudeginum upp í Mosó í þeim erindagjörðum. Baksturinn gekk vel og upp úr hádegisbili var haldið í söluferð í Breiðholtið. Ísak Máni tók nokkrar götur í Breiðholtinu með Loga Snæ valhoppandi á eftir sér í skítakulda og karlinn fylgdi á eftir á bílnum með lagerinn. Salan gekk svona upp og ofan en það hafðist fyrir rest að selja alla pokana, nema þann síðasta en söluteymið féllst einróma á það að halda eftir síðasta pokanum enda kominn kaffitími. Þar sem söluteymið voru einnig stjórnarmenn og aðaleigendur þessarar útgerðar þá þurfti það mál ekki að fara neitt lengra.

Þegar síðustu kleinurnar voru að renna niður þá var kominn tími til að skunda upp í Seljaskóla til að sjá rimmu nr. 2 í úrslitakeppninni í körfu hjá ÍR og KR. Engin bullandi stemming, greinilegt var hvort liðið hafði lent í 1. sæti í deildinni og hvort í því 8. En það er alltaf næsta ár.

Ég er því ekki frá því að hafa verið smá lúinn þegar ég lagðist á koddann í gærkvöldi. En þessi vinnuvika er víst í styttra lagi út af páskunum þannig að maður á alveg að lifa það af. Reyndar var ég að fatta það að næsta fulla 5 daga vinnuvika hjá mér hefst mánudaginn 5. júlí. Jebb, karlinn er að fara með annan fótinn í frí næstu vikurnar, toppiði það.

1 ummæli:

Villi sagði...

Ja, manni sýnist nú líklega vera meiri afslöppun í vinnunni heldur en heima